Miðvikudagur 22.09.2010 - 00:01 - FB ummæli ()

Hvar í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar stendur heilbrigðisþjónusta við börn?

Nú heyrir maður kröfu um enn meiri niðurskurð á heilsugæslunni ofan á allan annan niðurskurð sl. 2 ár eins og greint var frá í bloggi mínu nýlega um sameiningu heilsugæslustöðva og að fjárvana bæjarfélög taki aftur ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni. Sameining heilsugæslutöðva er reyndar fáránleg ráðstöfun sem ræðst gegn aðgengilegri þjónustu og skilar engu nema litlum stjórnunarlegum sparnaði en heilsugæslunni er nú  þegar að mestu leiti stjórnað af stjórnsýslu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Vinnan og þjónusta við skjólstæðinga heilsugæslunnar fer hins vegar fram á stöðvunum sjálfum, vöktum og yfirfullum sjúkrahúsum.

Mikil vöntun er á heimilislæknaþjónustu. Ekki er óalgengt að hver heimilislæknar þurfi að sinna 4-5000 manns og tugþúsundir vantar sinn eigin heimilislækni. Tímaframboð er af skornum skammti á höfuðborgarsvæðinu og flestum bráðum erindum er sinnt á vöktum. Vöktum fylgir mikill kostnaður, ekki síst í ótímabærum úrræðum og ónauðsynlegum innlögnum á yfirfullar bráðmóttökur sjúkrahúsanna. Nú er svo komið að heimilislæknar geta ekki einu sinni farið eftir nútíma klínískum leiðbeiningum þar sem ætlast er til að fyrsti viðkomustaður sé hjá heimilislækni sem fylgir vandamálunum eftir en leita alltaf bráðalausnar eins og t.d. með lyfjum. Þannig má einmitt oft komast hjá oft óþarfa lyfjagjöfum og rannsóknakostnaði. Alvarlegast er svo þegar lyf eru ofnotuð í þeim mæli að þau hætta að virka þegar mest á reynir og kostnaður þjóðfélagsins vegna lyfja og rannsókna er orðinn óheyrilegur.

Um 25% af öllum erindum til heilsugæslulækna er vegna loftvegasýkinga og eyrnabólgu barna. Yfir helmingur af öllum komum barna til lækna vegna veikinda er vegna miðeyrnabólgu. Flest þessara erinda eru nú afgreidd á skyndivöktum, að mestum hluta þar sem heilsugæslan nær ekki að anna þessum erindum á daginn. Nær helmingi meiri sýklalyfjanotkun í Reykjavík samanborið við Akureyri sýnir þennan mun vel og eins miklu meira sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda barna. Nota þarf orðið hæstu skammta af sýklalyfjum þegar meðhöndla þarf alvarlegar sýkingar barna á höfuðborgarsvæðinu og nægir ekki einu sinni alltaf. Um algjört einsdæmi er að ræða ef litið er til Norðurlandanna í heild og jafnvel allrar í norður-Evrópu.

Börn fá ekki sömu þjónustu og fullorðnir fá með sín vandamál. Börn fá ekki heilsugæsluþjónustu fyrir sín veikindi. Í algjört óefni er komið og ráðamenn hafa forðast að horfa í augu vandans þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar. Börnin eiga sér engan ákveðinn málsvara og foreldrar ungbarna eru oft í erfiðri stöðu og eiga í raun fullt í fangi með að láta bara enda ná saman. Þjónusta á kvöldin á skyndimóttökum er því oft kærkomið tækifæri til að þjónusta börnin. Er þetta fyrirkomulag á heilbrigðisþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu, sem mikið frekar hefði þurft að byggja upp til að ná þjóðhagslegum ávinningi, stefna heilbrigðisyfirvalda í dag? Nýjustu áformin um frekari niðurskurð á heilsugæsluþjónustunni benda að minnsta kosti til að börnin verði látin mæta afgangi enn einu sinni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn