Sunnudagur 17.10.2010 - 11:05 - FB ummæli ()

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

hospital-helipadÞað er vægt til orða tekið þegar maður segir að það séu blikur á lofti með sama aðgang að heilbrigðisþjónustu hér á landi í náinni framtíð eins og við þekkjum hana í dag. Ógnvænlegur niðurskurður er þegar orðinn og afleiðingarnar er að mörgu leiti duldar. Það sem almenningur sér eða fær að vita er aðeins toppurinn á ísjakanum. Meiri niðurskurður er síðan framundan bæði hvað varðar spítalaþjónustu og þjónustu heilsugæslunnar á landinu öllu. Sérstaklega hefur niðurskurðurinn hingað til bitnað á höfuðborgarsvæðinu, Landspítalanum og heilsugæslunni, en mikið minna úti á landi.

Núna fyrst er talað um niðurskurð á minni sjúkrahúsum úti á landi sem margar hverjar eru mjög dýrar einingar og fá sjúkrarúm á hverjum stað. Ekki er óalgengt að kostnaðurinn geti verið hátt í eina milljón króna á ári á hvern íbúa í fámennustu sveitafélögunum. Allir sjá að slík þjónusta er dýru verði keypt á tímum sem við lifum nú á og á sama tíma og hátæknisjúkrahúsinu í höfuðborginni fyrir landið allt blæðir, sjúkrahúsi sem allir treysta á þegar mest á reynir. Fyrr í vikunni fjallaði ég sem oftar um áhrif niðurskurðar í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins umfram aðrar sambærilegar stofnanir í nágranasveitafélögunum og hættunni á að slík þjónusta verði lögð í rúst með óskynsamlegum og ómarkvissum ráðagerðum stjórnvalda eins og dæmin sanna.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur segir máltækið. Íslendingar voru farnir að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu eins og best gerist í heiminum, ekki síst sérfræðiþjónustu og spítalaþjónustu í lok góðærisins svokallaðs þótt heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sæti á margan hátt eftir enda var seint og illa brugðist við nauðsynlegri uppbyggingu hennar í Reykjavík og sérgreinin er auk þess tiltölulega ung hér á landi. Slysa- og bráðadeild LSH hefur fyrst og fremt haldið upp þjónustu við bráðveika og slasaða og gert það vel. Landspítalinn býður auk þess upp á úrvals þjónustu í flestum sérgreinum læknavísindanna og biðtími fyrir meðferð og aðgerðir sem verður að framkvæma á spítala alltaf að styttast. Ýmislegt hefði þó mátt byggja mikið betur upp eins og göngudeildarþjónustuna. Læknaráð Landspítala taldi enda í vikunni skynsamlega framtíðarstefnu, sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu nú, að draga úr sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, en efla þess í stað starfsemi Landspítalans, heilsugæslu, aðra grunnþjónustu.

Nú er skarð fyrir skildi og ljóst að ekki verður hægt að halda upp óbreyttu þjónustustigi. Laun starfsfólks ekki síst lækna standast ekki lengur neinn samanburð við hinn alþjóðlega atvinnumarkað sem í boði er. Allt að þrefalt lægri laun, hækkandi skattar og vaxandi vinnuálag hefur orðið til þess að margir eru flúnir land eða eru að undirbúa flutning erlendis. Ekki það að flestir vildu og hafa lagt fram sinn ýtrasta vilja til að vinna hér áfram. Dæmið gengur einfaldlega ekki upp og margir vinna ekki lengur fyrir skuldunum sínum. Auk venjulegra lána að þá eru margir læknar með námslán sem samsvarar íbúðaláni á bakinu auk þess að hafa komist seint inn á vinnumarkaðinn. Það sér það hver maður að slíkt getur ekki gegnið upp til lengdar og hlýtur að enda með skynsamlegri ákvörðun að flytjast frekar úr landi til að afla tekna en lenda í gjaldþroti hér heima eins og margir aðrir t.d. iðnverkamenn hafa orðið að gera.

Það alvarlegasta er að vandinn er dulinn eins og áður segir og of seint verður að bregðast við þegar fólki og heilbrigðisyfirvöldum verða staðreyndirnar ljósar og skaðinn skeður. Tölurnar tala þó sínu máli, ekki síst um nýliðunina og margir hafa hætt við að koma heim úr sérnámi erlendis frá. Fram kom á fundi í fyrradag á Landspítala og í viðtali við forstjórann, Björn Zoeca að sú hætta sé raunveruleg að enn meiri atgerfisflótti skelli á í náinni framtíð og lami þá spítalaþjónustuna enn frekar. Jafnvel þjónustu sem við teljum lífsnauðsynlega og sem mikið hefur verið lagt í að byggja upp sl. áratugi. Hjarta- og lungnaskurðlækningar eru dæmi um slíka þjónustu sem ekki má mikið út af bregða að leggist niður í dag. Þjónustu og lækningar verður þá að leita til útlanda eins og var hér áður. Kransæðaaðgerðir og aðrar hjartaaðgerðir voru t.d. framkvæmdar í Englandi fyrir um 3 áratugum síðan og við unglæknarnir fórum tíðar ferðir með fárveika sjúklinga, aldna sem unga í sjúkraflugi erlendis til að leita læknishjálpar. Svipað má segja um mörg önnur svið læknisþjónustunnar. Allir sjá hvað slík þjónusta myndi kosta í dag fyrri utan tíð sjúkraflug. Er þetta það sem við viljum, vitandi að það tekur áratugi að þróa þjónustuna á sama stig og hún var orðin?

Og væri ekki skynsamlegra að reyna að að halda í mannauðinn og verja þjónustuna sem þegar er fyrir hendi heldur en t.d. halda áfram með tugmilljarða króna byggingaráform nýs Landspítala sem lífeyrissjóðirnir eru búnir að lofa að fjármagna á næstu árum, hátæknispítala sem stæði þá tómur um ókomin ár. Samgöngukerfið byggjum við upp til framtíðar með miklum kostnaði og borum jafnvel jarðgöng gegnum fjöll fyrir fáfarna vegaslóða úti á landi, landsbyggðarfólki til heilla. Heilbrigðisþjónustuna hefur tekið langan tíma að byggja upp, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu með sjálfan Landspítlann Háskólasjúkrahús í fararbroddi þangað sem samt allar leiðir liggja. Fátt er okkur mikilvægara í mestri neyð lífsins.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn