Mánudagur 18.10.2010 - 01:29 - FB ummæli ()

Fljúgum hærra

Nýlega var ég á ferðalagi í Bandaríkjunum. Á langri flugferð með ókunnugu fólki verður maður oft hugsi um nútíðina og hvað augnablikið getur verið afstætt. Til dæmis að líf manns skuli geta verið komið undir góðum flugstjóra og góðri flugvél. Maður verður samt að vera svolítið kærulaus og ef eitthvað gerist að þá tekur þetta allt fljótt af. Vandamál dagsins virðist þannig ómerkilegilegri í fluginu. Við erum þarna algjörlega varnarlaus og öll á sama báti, í vélinni.

Á heimleiðinni með United Airlines á leið til Boston bilaði flugvélin þegar hún var að fara að hefja sig til flugs á brautarenda og varða að snúa við, heim í hlið. Ég hafði sérstaklega tekið eftir viðbrögðum farþeganna þegar þeir voru að koma sér fyrir í vélinni flestir Bandaríkjamenn á mismunandi aldri og í öllum þyngdarflokkum. Offituvandamál Íslendinga fékk líka á sig hjákátlega mynd. Allt samt ósköp venjulegt fólk, bara misjafnlega vel á sig komið eins og gengur og mis þreytt og stressað. Bara að koma farangrinum sínum fyrir í hillurnar fyrir ofan sætin var mikið álag fyrir marga. Maður veltir fyrir sér tilgangi ferðarinnar hjá öðrum og fjölskyldunum sem standa þeim að baki. Það er mikið á sig lagt. Fólk sem sat hjá hvort öðru heilsaðist varfærnislega, sumir glaðir í bragði, öðrum virtist líða eitthvað illa. Sætin voru heldur ekkert of stór fyrir suma svo allir urðu að koma sér hvað best fyrir eins og þeir gátu og gera gott úr aðstæðunum. Þegar allt umstangið var yfirstaðið og komið að flugtaki var skyndilega hætt við á miðri braut. Flugvélin snarbremsaði og það var snúið við heim að flugstöðvarbyggingunni. Allt til einskins. Flugstjórinn tilkynnti að viðvörunarljós hefðu blikkað í stjórnklefanum sem gaf til kynna um einhverja bilun.

Í sjálfu sér var sérstakt hvað allir virtust fljótir að kveikja á perunni í eigin höfði og að þeir væru ekkert að fara meira með þessari flugvél. Áætlun margra farþega rann þegar út í sandinn og semja varð nýja ferðaáætlun upp á nýtt í huganum. Allt gekk á hraða snigilsins þar til flugstjórinn tilkynnti að við mættum ganga frá borði og beðist var velvirðingar á biluninni. Jafnframt var tilkynnt að farþegar ættu að bíða við hliðið meðan kannaðir voru möguleikar á nýju flugi síðar um daginn. Margir voru reiðir og kröfðust þess að flugfélagið gerði strax viðeigandi ráðstafanir sem hentaði þeim best, úr því sem komið var.

En viti menn. Strax eftir að búið var að tæma vélina og allir komnir frá borði var tilkynnt að við hliðið beint á móti stæði önnur flugvél tilbúin til flugtaks klukkustund síðar. Um var að ræða nákvæmlega eins vél svo sætaröðin hélt sér algjörlega óbreytt. Nú var bara að byrja upp á nýtt og þegar vélin var tilbúin gengu farþegarnir aftur um borð. En eitt var frábrugðið. Nú þekktust allir og fólk kinkaði kankvíslega kolli til hvors annars með bros á vör. Allir voru helmingi ánægðari en í fyrri ferðinni og gömlu vonbrigðin löngu gleymd og grafin. Nú var heldur ekkert stress, allir gátu gengið að því vísu að koma dótinu sínu fyrir eins og því hafði verið komið fyrir áður í hillunum og allir þekktu sinn sætisfélaga og gerðu sér engar grillur um sambandið. Nú tekst það og vélin hóf sig til lofts. Andrúmsloftið var óvenju þægilegt alla leiðina og allir reynslunni ríkari og sérstaklega þakklátir að hægt hafði verið að snúa fyrri vélinn við áður en hún fór í loftið. Á leiðinni tilkynnti flugstjórinn jafnframt að flogið yrði hærra en áður var áætlað til að spara tíma auk þess sem meðvindurinn var meiri en áætlað hafði verið svo helmingur af töfinni vannst upp aftur.

Ef við bara færum eftir viðvörunarljósunum, þá væri okkur örugglega betur borgið á Íslandi en raun ber vitni. Og rauðu ljósin blikka víða. Stjórnsýslan hefur víða brugðist og ekki er farið eftir bestu þekkingu í mörgum málaflokkum. Flugið sjálft yfir Atlantshafið gekk samt tíðindalaust fyrir sig, enda íslensku flugstjóranrnir góðir og fylgdust greinilega vel með öllum sínum viðvörunarljósum. Auðvitað. Getum við því ekki tekið öll nýtt flug saman, reynslunni ríkari?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn