Fimmtudagur 18.11.2010 - 23:26 - FB ummæli ()

Félagslegar aðstæður, sállíkamleg einkenni og bætur

Sennilega endurspeglast sjaldan jafn vel tengsl sálarinnar við líkamann og þessa daganna. Sállíkamlegir sjúkdómar er stór hluti þeirra kvilla sem við heimilislæknar fáumst við dags daglega. Spenna, kvíði og þunglyndi sem birtist í álagseinkennum hverskonar og myndgervingu líkamlegra kvilla frá vöðvabólgu til gerviþungunar. Það sem er sérstakt við stöðuna í dag er að sífellt fleiri leita ásjár heilsugæslunnar með mat á óvinnufærni í huga og ósk um mat til hugsanlegra bóta.

Venjulega var sótt um tímabundið örorkumat hér áður sem gaf þá rétt til endurhæfingarlífeyris eða ef varanleg örorka, til örorkubóta. Mjög mikilvægt er að halda uppi velferðargildum þjóðfélagsins á tímum sem við nú lifum. Góð og réttlát nýting á opinberu fé er aldrei mikilvægari. Því er afleitt að staðan skuli vera þannig í dag að við félagslegu úrræðaleysi og atvinnumissi launþega í stórum stíl skuli vera reynt að sjúkdómsgera ástandið með öllum ráðum. Oft vegna kvilla sem margir gætu unnið með undir venjulegum kringumstæðum.

Starfsendurhæfing eins og hún er skilgreind í dag er nýyrði í heilsugæslunni og byggist á fjölþáttaendurhæfingu þar sem margir sérfræðingar koma að mati og þjálfun með það megin markmið að gripa fljótt inn í þegar fólk er við það að detta út af vinnumarkaðinum vegna heilsubrests og reyna að koma fólki aftur til vinnu eða náms. Áður hef ég rætt um aðkomu heilsugæslunnar í starfsendurhæfingu og eins þeim vafasama litla mun sem getur verið á þeim bótum eða örorku og lægstu launum þar sem hvatinn til vinnu er oft lítill sem enginn.

Síðastliðin tvö ár hafa samtök vinnumarkaðarins staðið að starfsendurhæfingu fyrir félgasmenn innan sinna vébanda. Stefnt er að þverfaglegu samstarfi við heimilislækna og annarra sem að starfsendurhæfingunni geta komið, félagsráðgjafa, sjúkra- og iðjuþjálfa auk sálfræðinga. VIRK starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignastofnun sem var stofnaður af Alþýðusambandi Íslands og samtökum atvinnulífsins 2008 þar sem 0.13% af greiddum launum á vinnumarkaði renna beint til sjóðsins. Samningur um sjóðsgreiðslurnar voru taldar einn mikilvægasti árangurinn í kjarasamningum sem þá var gerður milli aðila vinnumarkaðarins. Sjóðurinn hefur nú þegar úr umtalsverðu fjármagni að ráða til að takast á við þau verkefni sem hann var stofnaður til að takast á við og sem eru góðar fréttir á niðurskurðartímum.

Heilsugæslan hefur orðið að mæta vandamálum tengt atvinnumissi og tímabundinni örorku í vaxandi mæli með ráðgjöf hverskonar og læknisfræðilegu mati á starfshæfni. Á sama tíma er heilsugæslan verulega undirmönnuð og sífellt versnar ástandið með atgefisflótta úr stéttinni. Í fæstum tilvikum eru félagsráðgjafar í vinnu á stöðvunum og sálfræðihjálp fyrir fullorðna er ekki að fá. Heilsugæslunni er því verulegur vandi búinn að mæta þessum aukna þrýstingi eins og staðan er í dag. Grunninntak hugmyndafræði heimilislækninga og endurhæfingar er eingu að síður heildarsýn á vanda skjólstæðingsins og því væri æskilegt að heimililæknar tækju virkan þátt í því samstarfi ef aðstæður væru eðlilegar. Fjölþáttaendurhæfing utan sjúkrahúsa á Íslandi hefur verið mjög umfangslítil hingað til á sama tíma og öryrkjum hefur fjölgað mikið. Því er eins og að bera í bakkafullann lækinn að bæta þessum verkefnum við störf heimilislækna sem reyna eftir fremsta megni að hjálpa sjúkum enda verkefnin umfangsmikil og afar tímafrek. Í mörgum tilvikum kæmi þó í hlut heimilislæknanna að sækja um varanlega örorku til Sjúkratrygginga Íslands ef starfsendurhæfing heppnast ekki eða ef hún er ekki við hæfi frá byrjun.

Þrátt fyrir stuttan tíma er árangur þegar orðin nokkuð augljós í starfsendurhæfingunni hjá VIRK en töluvert vantar upp á að menn og konur sæki eftir þessu úrræði eins og kom fram í viðtali við Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Starfsendurhæfingarsjóðs á Stöð 2 í fyrrakvöld. Hluti af skýringunni gæti verið að undirbúningsferlið er þungt í vöfum og heimilislæknir þarf að sækja t.d. um aðild með ítarlegu vottorði. Sérstakt áhyggjuefni er að hátt í þúsund manns eru við það að detta af atvinnuleysisbótum ef tímamörk sem gefur rétt til bóta verða ekki lengd eins og núverandi félagsmálaráðherra hefur komið með tillögur um. Hætt er við að þessi verkefni verði heilsusgæslunni ofviða eins og málum er nú háttað. Ef síðan kemur í ljós, eins og nú virðist vera, að endurhæfingarlífeyrir og örorka gefur hærri bætur en lægstu laun og atvinnuleysisbætur að þá gefur auga leið að margir knýja á með starfsendurhæfingu og eða örorkumat sem fyrst.

Læknar skilgreina vanda sjúklings ekkert síður út frá frá líðan og getu en ákveðnum sjúkdómsgreiningum. Sjúkdómsgreiningarnar geta svo í mörgum tilvikum tengst sállíkamlegum einkennum eða geðsjúkdómum. Allir sjá að fólk sem atvinnan er kippt undan, ekki síst fólk sem hefur unnið langa starfsævi hjá sama fyrirtækinu, á ekki marga kosti í stöðunni, sér í lagi ef heilsan er ekki upp á það besta eins og gengur. Skynsamlegast er að verkalýðsfélögin og starfsmannasambönd komi þessu fólki strax til hjálpar með boði um starfsendurhæfingu og mati sem byggist fyrst og fremst á eigin ósk um fjölþáttaendurhæfingu, sálfræðihjálp, félagsráðgjöf og jafnvel sjúkraþjálfun, frekar en að lenda í tómri bið eftir vinnu og aðgerðarleysi á atvinnuleysisbótunum einum saman. Starfsemi atvinnumiðlunar og atvinnuleysissjóðs ætti þannig heima hjá stéttafélögunum sjálfum og sem eru í betri aðstöðu til að meta beint þörfina á úrræðum sem í boði eru heldur en ríkisstofnun sem einungis deilir út atvinnuleysisbótum, eins og reyndar Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður hefur stungið upp á í sínum skrifum. En hvatinn til vinnu verður alltaf að vera til staðar og því verður að hækka lægstu laun umtalsvert sem fyrst.

Megin takmark læknisaðstoðar er lækningin sjálf og stuðningur en ekki endalaus vottorðaskrif fyrir þriðja aðila. Alls ekki má ekki sjúkdómsvæða félagsleg úræði og blanda þannig saman eplum og appelsínum þótt málaflokkurinn í heild heyri nú undir sameinað ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála. Heilsugæslan hefur mikið meira en nóg með sitt og þarf að styrkja mikið ef hún á að geta tekið við auknum verkefnum. Fjölga þarf starx félagsráðgjöfum og sálfræðingum á heilsugæslustöðvunum. Í sumum tilvikum verður að vera hægt að leita strax lögbundins réttar sjúklings á bótum  sem alls ekki getur unnið. Það telst til mannréttinda að slíkur ferill gangi sem fljótast fyrir sig og sé ekki auðmýkjandi fyrir sjúklinginn.

Ætlum við að berja höfðinu við steininn í aðsteðjandi kreppu hvað varðar félagsleg úrræði annars vegar og heilbrigðisvandamál hins vegar eða ætlum við nýta okkur skynsemina sem forskot áður en við göngum inn um framtíðarinnar dyr?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn