Sunnudagur 12.12.2010 - 16:10 - FB ummæli ()

Ævintýri gerast

Oft er erfiðara að fjalla um persónulega reynslu en þjóðmálin, þótt hvortveggja litist af hvoru öðru. Hversdagsleikinn og neikvæðnin heur átt allt of stóran hluta í hugsunum okkar síðastliðið ár, enda geisað mikið gjörningaveður í þjóðfélaginu og sem reynt hefur mikið á okkur öll. Árin líða hins vegar hraðar og hraðar eftir sem við eldumst og sem betur fer fjölgar líka minnisvörðunum á lífsleiðinni sem auðvelt er að rata eftir til baka þegar úti er blinda og hríð. Hvergi reynir meira á ratvísina en í hjónabandinu þar sem stikurnar eru skýrar sem því miður verður ekki sagt um samfélagið í dag. Og oft toppum við þjóðfélagsumræðuna í rússíbanareiðinni okkar og lífið verður þá eins og besta skemmtun í kóngsins tívólí.

Einn slíkur dagur var um síðustu helgi þegar dóttir mín, Jóhanna gifti sig. Í sjálfu sér væri það ekki tilefni til að blogga um nema fyrir þær sakir að sagan og sem ég vil nú segja ykkur hér var eins og ævintýri. Ævintýrið af prinsessu og prinsinum, börnum þeirra og búi á íslenskri hvítri vetranóttu rétt fyrir jól á sama tíma og þjóðfélagið er nú í djúpum og dimmum dal og í raun kolvillt. Lítil saga sem er uppfull af svo mörgum persónulegum smáatriðum en sem eru stór í huganum og sem gætu verið efni og tilefni í heila bók og gefið vísbendingar um hvernig okkur getur liðið almennt betur saman flesta daga. Mikilvægi endurminninganna og mynda sem aldrei er þó hægt að festa á filmu. Stundum er lífið enda eins og sagan endalausa og hver kafli eins og saga í þúsund og einni öld og við getum sagt börnum og barnabörnunum þegar þau eldast.

Dóttir mín, Jóhanna og Hörður Birgisson voru í sjálfu sér voru löngu búin að innsigla sitt samband með þremur gullfallegum börnunum. Þau voru líka búin að byggja sér sína höll. En til að toppa tilveruna ákváðu þau að gifta sig nú á  aðventunni að helgum sið og gefa yngsta barni sínu nafn í leiðinni. Kirkjan okkar að Lágafelli varð auðvitað fyrir valinu og presturinn okkar í Fríkirkjunni var auðfenginn til að koma í heimsókn í sveitina okkar. Sögusviði var því ekki af verri endanum, Lágafellskirkja. Sögusviði raunverulegra atburða sem sagt er meðal annars frá í Innansveitarkroniku, skáldsögu þjóðskálds okkar Halldórs Laxness. Eign okkar allra sem landið búa og elska.

Á slaginu hálf fimm 4. desember sl. var allt tilbúið fyrir athöfnina. Fagra brúðurin komin í hvíta brúðarkjólinn og allir kátir og fínir. Pabbinn ég, fékk auðvitað að fylgja dóttur sinni alla leið og aka með hana til kirkju og leiða síðan inn kirkjugólfið með rauða rós í boðunginum. Veðurguðirnir sáu um útiskreytinguna, klæddu bílinn snjóhvítri slæðu og sáu til þess að glitrandi hrímið hélst á jörðu um leið og jólasólin lýsti upp með síðustu dimmrauðu geilslunum sínum vesturhimininn og gaf þannig fyrirheit um það sem koma skal. Í kyrrðinni mitt á milli sveitar og bæjar.

Brúðarmeyjan Emilía 5 ára gekk prúð og falleg á eftir mömmu sinni stóru prinsessunni. Ekki var síður gaman að sjá hina prinsessuna, Ástu mína og Brynjar, Ásgeir minn Snæ og Eyrúnu og barnabörnin, Stein Andra, Hjördísi Maríu, Ingibjörgu Svönu og Veru Dögg og alla hina ættingjana og vinina sem standa okkur Ingibjörgu minni næst og vildu samgleðjast með brúðhjónunum og litla barninnu á þessari stundu. Að sjá börn brúðhjónanna upp við altarið svo kát og hress og öll hin börnin fylgjast náið með hverri hreyfingu og öllu sem sagt var. Stóri bróðir, Vilhjálmur Þór 3 ára var í fínu svörtu jakkafötunum sínum með hvítu skirtuna upp úr buxnastrengnum og heiðblá bílinn sinn í hönd. Væntanlega fyrir tilvilljun sem var ekki aðeins samlitur skónum hans bláu, heldur einnig augunum og himinhvolfinu í kirkjuskipinu. Eitt af þessum augnablikum sem ekki er hægt að festa á mynd. Hlýju orð prestsins minntu síðan á sjálfstæðið okkar og mikilvægi þess að við fáum að vaxa og dafna í skjóli hvors annars, í blíðu og stríðu.

Í lokin fékk síðan litli drengurinn nafnið sitt, Alexander Máni, rétt áður en gengið var út meðal allra systra hans, stjarnanna. Á móti okkur blöstu síðan við allir ljósakrossarnir í kirkjugarðinum, gulir, rauðir og bláir og glitrandi gullteppið sem lá í fjarska yfir höfuðborginni í bakgrunninum. Allt sem minnti á alla hina einstaklingana í kringum okkur, lífs og liðna.

Eitt augnablik hugsaði ég þá líka um þjóðina sem við erum öll skuldbundin eins og hún okkur og þegar allt kemur til alls erum við  eins og ein stór fjölskylda og þurfum öll að passa hvort upp á annað. Pólitískt þras er stundum eins og karp á milli hjóna þar sem reynir á samningslipurðina, í stíðu og blíðu. Sífeldar málamiðlanir og seigla, en aðalatriði að standa saman. Íslenskt þjóðfélag hefur verið helsjúkt en er nú sem betur fer á hægum batavegi. Þökk sé okkur öllum sem er ekki sama. Mörg vandamál eru hins vegar ekki til lykta leidd og misrétti og ójöfnuður viðgengst víða. Sótt er að okkur úr ólíklegustu áttum, jafnvel af þeim sem síst skyldi. Við verðum því stöðugt að vera á verði og reyna að rækta samböndin okkar betur.

En ekkert var síðan gefið eftir til að skapa hátíðarstemningu í hallargarðinum heima hjá brúðhjónunum síðar þessa fögru vetrarnótt undir risastóru heimatilbúnu samkomutjaldi á miðjum vetri. Rauðum bjarma slóg á umhverfið frá tjaldinu. Glóðir enda í hverju horni og logar sem héldu á fólki hita við langborðin eins og til forna, langt fram undir morgun í snjókomunni.

Í norður horfi ég á hverjum degi upp á Lágafellshlíðina góðu og kirkjuna fallegu sem  minnir á ævintýrið. Sennilega verður sú mynd eftirminnilegri en myndir á flestum öðrum jólakortum um ókomna framtíð.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Vinir og fjölskylda

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn