Föstudagur 24.12.2010 - 14:30 - FB ummæli ()

Hvíti stígurinn minn

mynd, Sandra DöggÁ jólunum er við hæfi að koma með smá hugvekju enda fæðist þá jólabarnið í manni og maður lítur öðrum augum á umhverfið. Boðskapur jólanna er svo sem alltaf skýr enda hugsum við þá meira hvert um annað. Lífið er þó ekki alltaf gefið og hver og einn er sinn gæfu smiður að vissu marki. Við getum líka öll lagt ýmislegt að mörkum til að svo geti orðið. Stundum kostar það svita og tár. En eftir situr reynsla og þroski í öllum regnbogans litum, litir óskanna. Nú eru það hins vegar litabrigði jólaljósanna sem slá taktinn í hjartanu og sem maður verður næmari fyrir með hverju árinu sem líður.

„Níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna“ var sagt í jólakvæðinu og sem minnir á söguna okkar á Íslandi gegnum aldirnar og að ekki hafi alltaf verið alsnægtir á borðum. Börnin máttu að minsta kosti trúa á jólasveinanna, hvern og einn með sína kosti og galla eins og gengur, en sem allir vildu gleðja börnin. Móðir þeirra hafði reyndar aðra skoðun en sá í gegnum fingur sér með allt þetta flakk á strákunum til byggða í mesta skammdeginu og faðir þeirra hafði svo sem ekkert til málanna að leggja. Einhvernvegin er þessi lýsing ennþá svo sönn um íslenskt þjóðfélag, þótt vel sé hægt að hugsa sér jólaboðskapinn fallegri.

Í vikunni fór ég í göngu sem oftar eftir stígnum mínum á Lágafellstúninu, nú í síðdegisljósaskiptunum og kaldri froststillu. Með mér voru þeir sem eru það alltaf, eins og tveir skuggar af mér sjálfum, hundarnir mínir. Það var heldur ekkert nýtt að óstöðvandi hugsanir leituðu á mig þótt stemningin væri ólík en til dæmis á björtum sumardegi. Seint á jólaaðventu í sveitinni minni í allri kyrrðinni en samt svo nálægt borginni og skarkalanum. Með upplýstu kirkjuna mína upp í brekkunni á aðra hönd í rökkrinu en litla þorpið mitt með öllum fallegu jólaljósunum á hina, í kvosinni í stóra kvöldskugganum af Hamrahlíðarbjörgunum þar sem öll ljós eru nú jólaljós. Og yfir túnið var smá snjófok, nóg til að marka slóðann minn sem var eins og hvítur tepparenningur fyrir mig einan að ganga þessi jól.

Sami stígur og ég geng daglega allt árið um kring, á vorin þegar hann er eins og grænn flauelsrenningur, ýmist þakin villiblómum og jafnvel ánamöðkum eða á síðsumars þegar hann er á kafi í ofvöxnu grasi, sóleyjum og lokasjóðum. Hvortveggja sem minnir á hækkandi sól á nýju ári. Stígur sem á sér alltaf upphaf og endi en sem maður veit aldrei hvert leiðir mann. Og þennan dag endaði hvíti stígurinn minn í roðanum á vesturhimninum yfir gullglitrandi höfuðborginni í annan endann, en til stjarnanna og tunglsins á austurhimninum í hinn. Og maður hugsar að senn styttist í nýárstunglið og enn eitt uppgjörið. Vonandi boðaði rauða jólatunglið bara eitthvað gott, til dæmis að við megum aldrei skyggja of lengi hvot á annað.

Fyrir suma eru jólin tími sálarróts og eitt er víst að æskujólin sem við söknum koma aldrei aftur. Flestir reyna því að upplifa stemmninguna gegnum börnin sín. Því tökum út tvíbendna sorgina um leið og við gleðjumst með lífinu. Á svipaðan hátt og við segjum að sorgin er hin hliðin á ástinni og að ekkert er fallegra en sárasta sorgin. Sennilega er þetta boðskapurinn í jólaguðspjallinu og sögunni um fæðingu Jesús í Betlehem. Við endurfæðumst og finnum ástina á lífinu í hjartanu, þótt ekki sé nema í brotabrotum í stutta stund. Og þá fyrst er gaman að opna alla jólapakkana.

Þótt sagan af íslensku jólasveinunum sé eins og kuldaleg endurspeglun af raunveruleikanum og að öll séum við í vissum skilningi kreppubörnin hennar Grýlu, að þá gleðjumst við samt um jólin. Við njótum allra ljósanna og fá að vera saman. Sennilega eru fá jólalög fallegri og meira í stíl við þann tíðaranda en Klukknahreimur (SPILA) sem Haukur Morthens söng svo fallega en ljóðið er eftir Loft Guðmundsson. Hughrif ljóðs og söngs sem er vel við hæfi að hlusta á um leið og við njótum samveru með barninu í okkur sjálfum ásamt börnunum okkar.

Klukknahreim, klukknahreim
hljóma’ um fjöll og fell,
klukknahreim, klukknahreim
ber á bláskinssvell.
Stjarnan mín, stjarnan þín
stafar geislum hjarn.
Gaman er að geta’ um jól
glaðst sem lítið barn.

Gleðileg jól.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist · Vinir og fjölskylda

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn