Þriðjudagur 11.01.2011 - 12:50 - FB ummæli ()

Drómasýki og svefnhöfgi unglinga

Umræða hefur verið um drómasýki (narcolepsiu) sl. daga vegna gruns um aukna tíðni hér á landi í kjölfar bólusetningar gegn svínaflensu sem byrjað var á að framkvæma fyrir rúmlega ári síðan.

Eins og greint var frá í fréttum á RÚV í gærkveldi hafa fimm börn og unglingar frá níu til sextán ára aldri greinst með drómasýki undanfarið hálft ár. Yfirlæknir á sóttvarnarsviði hjá Landlæknisembættinu, taldi ólíklegt að svínaflensubólusetningin geti leitt til sjúkdómsins. Full ástæða sé þó til að kanna málið þar sem orsökin fyrir fleiri tilfellum af drómasýki en vant er, sé mjög á huldu. Til standi að taka þátt í fjölþjóðlegri rannsókn á hugsanlegum orsökum og þá sérstaklega tengslum við svínaflensubólusetninguna. 

Í dag er þannig ekkert sem staðfestir að um tengsl sé að ræða við bólusetningarnar. Um að ræða stutt tímabil og þegar um frekar sjaldgæfa sjúkdóma er að ræða geta þeir hæglega komið fram í smá tölfræðilegum kippum. Oftast er talið að sjúkdómurinn sem á rætur í truflun á djúpsvefni sé arfgengur hjá einn af hverjum 2000 fæddum. Aðrar orsakir geta síðan verið fyrir oft mildari sjúkdómsmyndum, en sem í dag eru oft illa þekktar svo sem hugsanlegar afleiðingar af veirusjúkdómum, eins og t.d.  inflúensunni sjálfri.

Mikil umræða hefur hins vegar verið frá því í haust um svefn og svefnvenjur sem tengist því hvort ekki sé rétt að seinka klukkunni okkar um eina klukkustund. Það gæti skipt okkur öll máli, ekki síst unglingana sem nú í mesta skammdeginu þjást oft af krónísku svefnleysi og svefnhöfga á morgnana. Vitlausri klukku hefur að hluta verið um að kenna og mikilvægt talið að dagsbirtan fái að haldast í takt við líkamsklukkuna. Ef klukkunni yrði seinkað um klukkustund væri hún rétt miðað við sólargang sem á að vera á hástöðu  klukkan 12. Þá yrði líka bjartara á morgnana sem nemur þessarri klukkustund. Sumir hafa einnig bent á að svefnklukka unglinga sé þegar 2 klst. of fljót (seinkuð líffræðileg dægursveifla) miðað við svefnklukku okkar fullorðnu og þegar sú skekkja bætist við skekkju á klukkunni sjálfri að þá nálgast svefnklukka unglinga hér á landi að vera nær 3-4 tímum of fljót miðað við sólargang. Skekkjan samsvarar að við fullorðnu þyrftum alltaf að vakna um klukkan fjögur á nóttunni. Þetta getur skipt börn og unglinga miklu máli á tíma þegar árveknin á að vera sem mest við nám í skóla. Vara ber hins vegar að draga rangar ályktanir að um hugsanlega drómasýki geti verið að ræða, nú þegar umræða um þessi mál eru í hámarki og leitað er ástæðna fyrir svefnhöfga barna og unglinga. En hvað er drómasýki (narcoplesia)? Bent er hér á góða grein á Vísindavef HÍ um helstu ástæður og einkenni sjúkdómsins. Þar kemur fram að helstu einkenni séu svefnflog, slekjuköst, svefnrofalömun og svefnhöfgaofskynjanir.

Mikilvægast af öllu er að almenningur telji sig ekki öruggari með heilsu sína með því að sleppa bólusetningum sem heilbrigðisyfirvöld bjóða upp á. Afleiðingar þeirra sjúkdóma sem verið er að berjast gegn svo og ýmsa fylgikvilla í kjölfarið eru miklu alvarlegri fyrir þjóðfélagið en hugsanlegar einstaka saklausar aukaverkanir af bólusetningum. Hjarðónæmi  skapast aðeins ef almenn þátttaka í bólusetningum er góð og sem ver þá óbeint þá óbólusettu um leið, ef þeir eru ekki of margir. Þannig má segja að þeir sem taka þátt eru að verja hina sem af einhverjum ástæðum fá ekki bólusetningu. Þetta getur átt við nú þegar enn vantar aðeins upp á að þjóðin sé nægjanlega vel bólusett gegn svínaflensu, þótt tæplega geti verið hætta á alvarlegum faraldri úr því sem komið er og meira en helmingur þjóðarinnar bólusettur. Hver og einn verður engu að síður að meta sína áhættu sérstaklega. Rétt er einnig að minna á fyrri umræðu hér á blogginu um mikilvægi bólusetningar á almennt heilbrigði í heiminum og ráðleggingar heilbrigðiyfirvalda um mikilvægar bólusetningar almennt, ekki síst í ungbarnaheilsuverndinni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn