Miðvikudagur 12.01.2011 - 13:44 - FB ummæli ()

Mengun og raunveruleg heilsuógn barna

Það er ekki laust við, að sótt hafi að mér töluverður hrollur sl. daga og sem ég hef aðskilið frá kuldahrollinum vegna veðráttunar þar sem hann sækir mest að mér inni, við lestur frétta og að fylgjast með umræðu um mengun vegna sorpbrennslu víða um land.

Með ólíkindum hefur manni fundist hvað stjórnsýslan hefur verið sofandi og horft fram hjá  mengun í náttúrunni sl. ár, þrátt fyrir ákveðna vitneskju um ástandið en afsökunum að skýrslur um málið hafi ekki verið lesnar af þeim sem bera stjórnsýslulegu ábyrgðina. Auðvitað eiga allir að vera á tánum þegar hætta er á heilsutjóni af okkar eigin völdum. Hátt magn díoxin í lofti, langt yfir leyfilegum mörkum miðað við erlenda staðal í lokuðum fjörðum er augljóslega ekki í lagi. Sjálfsagt er einnig að vera á varðbergi um áramót og á froststilludögum þegar svifryksmengun getur farið upp fyrir leyfileg mörk. Slíkt getur valið óþægindum í öndunarvegi viðkvæmra. Sem betur fer erum við Íslendingar annars almennt hraustir og lausir við almenna mengun í okkar nærumhverfi, sérstaklega í loftinu okkar enda er hreint land og fagurt okkar aðal eðalmerki gagnvart umheiminum. Hvergi á vatnið að vera tærara og á fáum stöðum er dreifbýlið og öræfin meiri sem þar að auki er oft umlukið ómenguðum sjónum eða jöklum. Við erum rík þjóð nema þegar við lendum í hremmingum eins og eldgosum, kreppum og farsóttum. Þannig hefur það alltaf verið þar til nú.

Í morgun hlustaði ég á gott viðtal við Benedikt Erlingsson leikara á rás 2 hjá RÚV sem rakti skilmerkilega þau afglöp sem stjórnsýslan hefur sýnt varðandi málefni dagsins um díoxinmengunina og jafnvel svifryksmengunina í Reykjavík. Okkur verður auðvitað fyrst hugsað til barnanna okkar sem erfa eiga landið þegar við heyrum þessar fréttir um óhollustuna og þann skaða sem börnin geta þurft að búa við. Af loftinu sem þau anda að sér og mjólkina sem þau drekka. Heilbrigðisyfirvöld í samvinnu við Landlæknisembættið vinna nú nánar að þessum málum og sem betur fer telja þau engan skaða hafa orðið varðandi varðandi líkamlegt heilbrigði íbúa svæðanna sem eiga í hlut enda þoli maðurinn meiri mengun en ýmsar aðrar viðkvæmari lífverur. Vonandi verður líka öll umræðan um þessi mál til þess að heilbrigt nærumhverfi verði sett í meiri forgang og að við öll lærum af mistökunum, ekki síst stjórnsýslan sjálf. En eru málin þá í lagi í dag eða getur verið að önnur mál sem snerta okkar nærumhverfi, heilsu og flóru landsins séu í miklu verri málum en við höfum viljað sjá og heyra af og sem er miklu alvarlegri en málefni dagsins í dag. 

En hrollurinn sem var kjánahrollur var ekki af þessu einu eða af skömm hvernig fyrir okkur er komið í mengunarvörnum. Kjánahrollurinn kom fyrst og fremst vegna annarra mála sem mér er miklu skildari. Raunverulegri mengun ef svo má segja þar sem við höfum þegar raskað ákveðnu jafnvægi í náttúrunni og alið upp ónæma sýklalyfjastofna sem nú herja á börnin okkar. Raunverulega ógn sem þegar kemur alvarlega niður á heilsu barna hér á landi. Í hverri viku þurfa börn að leita sérhæfðar aðstoðar á sjúkrahús til að fá sterkustu lyf sem völ er á vegna þess eins hvernig við höfum farið illa með sýklalyfin á undanförnum áratugum. Meiri notkun en þekkist á öðrum Norðurlöndum, allt að 40% meir en þekkist til dæmis í Svíþjóð. Að sama skapi hefur íslenska flóran breyst miklu meira en hjá nágranaþjóðunum. Þar er aðallega um að ræða sýklalyfjaónæmi pneumókokka sem er okkar mannanna helsti meinvaldur og sem er orðinn ónæmur fyri penicillíni og helstu varalyfjum í nánast helmingi tilfella. Pneumókokkur sem flest okkar bera í nefkokinu. Vandamál sem hefur orðið til þess að við erum hætt að geta treyst á sýklalyfin þegar mikið liggur við. Vandamál sem vitað hefur verið um í ártugi hér á landi og marg oft bent á en versnar stöðugt og allt of lítið gert af hálfu stjórnvalda að sporna gegn. Vandamál sem tilheyra okkar nánasta umhverfi og er okkur sjálfum að kenna og hefur þegar breytt landslaginu hvað góða heilsu barna varðar. Vandamál sem fjölmiðlar hafa verið feimnir að fjalla um, einhverja hluta vegna, en sem er orðið að einni mesti heilbrigðisógn landsins.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn