Mánudagur 21.02.2011 - 12:51 - FB ummæli ()

Vara ber við ofskömmtun á sínki

Nú er flensutími og mikið um kvefpestir og jafnvel inflúensur. Margir leita allra ráða til að láta sér batna fyrr og sumir naga sig nú í handarbökin að hafa ekki látið bólusetja sig við svínaflensunni. Undanfarin ár hefur í vaxandi mæli verið leitað lausna á ýmsum líkamlegum kvillum svo sem pestum ýmisskonar með hráefnum sem koma beint frá móður jörð. Steinefni og málmar eru þar ofarlega á blaði þótt menn hafa hingað til helst hræðst eiturverkanir  sem þessi efni geta valdið. Sink (zinc) er eitt þeirra efna sem sumir mæla með í lækningaskyni. Kynni mín af sinki er þó helst vegna eiturverkana sem það getur valdið, ekki síst tengt sínkmengun vegna rafsuðu og sem getur valdið alvarlegum skemmdum á lungum.

Í vikunni birtist þó grein í mjög virtu læknavísindatímariti, Cochrane Database of Systematic Reviews sem sýnir að sínkinntaka getur dregið úr einkennum kvefs og flensu, aðallega einkennum sem tengjast slímmyndun í öndunarveginum, ef byrjað er að taka efnið inn 24 klst. frá því að fyrstu einkenni gera vart við sig. Kvef- og flensueinkennin verði þannig mildari tímabudnið og ganga jafnvel fyrr yfir. Um marktækan mun virðist vera um að ræða en samt segja höfundarnir að ekki sé hægt að mæla með inntöku á sínki þar sem ráðlagðir skammtar til að ná árangri eru óljósir og aukaverkanir eru algengar, svo sem ógleði og vont bragð í munni. Mælst er til að þetta verði skoðað betur áður en mælt verður með sinkinntökunni. Ameríska lyfjastofnunin (FDA), hefur einnig varað við meðferðinni þar sem margar kvartanir hafa borist um varanlegt tap á lyktarskyni í kjölfar notkunar á sinki, ekki síst ef það er notað í nefsprey sem hafa verið vinsæl þar í landi. Hér á landi er ófullkomið eftirlit með fæðubótarefnum sem flokkast ekki sem lyf og því full ástæða að vera á varðbergi.

Lyktarskynið er okkur afar mikilvægt því með því forðumst við meðal annars skemmdan mat og án lyktarskyns missa margir löngun til að borða. Lítið magn sinks og ýmissa annarra þungmálma er okkur þó nauðsynlegt í hófi eins og t.d. kopars en þá sem snefilefnis í fæðunni og með vítamínum í reiknuðum æskilegum dagskömmtum. Þannig hjálpar sink ónæmiskerfinu að halda sýkingum í skefjum auk þess að vera nauðsynlegt mörg ensímkerfum líkamans. Aukin neysla ætti því að vera óþörf og hún getur jafnvel verið skaðleg eins og áður segir. Hver vill til dæmis eiga á hættu að missa lyktarskynið auk ýmissa annarra eiturverkana sem e.t.v. eru ekki að fullu ljósar í dag, í stað þess að taka glímunni við kvefpestirnar eins og mönnum sæmir.

Ekki má gleyma því sem mestu máli skiptir í baráttunni við pestirnar og því sem hægt er að gera til að forðast þær. Í fyrsta lagi að fara vel með sig og nærast eðlilega. Þannig styrkjum við ónæmiskerfið best og sem er sérhannað til að vinna á veirum og bakteríum sem á okkur herja. Ekki síst að láta okkur eða börnunum ekki verða kalt, því þá er oft eins og eitthvað bresti og pestirnar eiga greiðari aðgang að okkur. Gott og holt fæði eins og fiskafurðir og omega 3 fitusýrur eru síðan dæmi um bætiefni sem koma okkur vel að gagni og hafa margsýnt sig getað styrkt slímhúðir líkamans og heilsuna almennt. Lengi hefur verið vitað um mátt trönuberjasafa til að koma í veg fyrir endurteknar þvagfærasýkingar hjá konum og rífleg inntaka á C-vítamíni sýrir slímhúðirnar og þvagið það mikið að ákveðnar bakteríur þrífast þá illa.

Stórir skammtar af sinki geta hins vegar valdið eituráhrifum og skemmdum á taugaendum. Í dag vitum við ekki hverjir eru öryggir skammtar af sinki og því mælast heilbrigðisyfirvöld að þessi lyf séu ekki notuð og hafa sum lyf jafnvel verið tekin af markaði erlendis vegna þessarar ástæðu eins og ákveðnir nefdropar sem innihalda mikið af sinki. Allt er gott í hófi og ef til vill koma frekari rannsóknir til með að sýna að aukin sinkneysla geti verið gagnleg tímabundið en meðan við vitum ekki meira er betra að treysta á skynsemina og þó ekki væri nema til að fá að halda lyktarskyninu.

Ekkert frekar eigum við að grípa til annarra skyndilausna svo sem að taka sýklalyf við kvefi og flensum þar sem þau lyf virka einfaldlega ekkert á veirur en afleiðingar, ekki síst fyrir samfélagið allt, er alvarlegt sýklalyfjaónæmi. Þótt sýklalyfin eyðileggi ekki slímhúðina sjálfa að þá skemma þau flóruna sem á henni er, í okkur og á, og skapa aðstæður fyrir nýjar og sýklalyfjaónæmar bakteríur að koma í staðinn. Nóg er komið af allri vitleysunni og tími til kominn að við Íslendingar látum af trúgirni okkar og öllum æðibunuganginum. Við eigum auðvitað ekkert síður að gera kröfu um lágmarks þekkingu og eftirliti á öllum næringarefnum sem standa okkur til boða að láta ofan í okkur og á og kröfum sem við gerum gagnvart lágmarks læknisþjónustu og skynsamlegri notkun lyfja.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn