Sunnudagur 27.03.2011 - 22:30 - FB ummæli ()

Víti til varnaðar

Flestir kannast við frásögnina af plágunum sjö sem sagt var frá í Gamla testamentinu sem var vegna reiði Guðs. Á Íslandi höfum við sem betur fer verið að mestu laus við alvarlegar plágur síðan í upphafi 15 aldar þegar svarti dauði gekk yfir. Orðið pest í seinni tíð er einmitt dregin af þessari plágu en sem jafnframt hefur fengið miklu saklausari merkingu, samanber kvefpestir. Plágur koma líka yfir okkur í vægari birtingaformum í dag og sama má segja um kreppurnar sem eru nú af okkar eigin völdum. Í Fréttablaðinu sl. fimmtudag var haldið áfram að skrifa um atvinnuleysið á Íslandi og félagslegar afleiðingar í kjölfar kreppunnar okkar undir fyrirsögninni „Þolinmóður óvinur“ og hvað væri hægt að gera til varnar. Kreppa sem í vissu tilliti er líka eins og plága sem flestir hræðast og forðast með öllum ráðum.

Í kreppunni hjá Finnum í lok áttunda áratug síðustu aldar voru gerð afdrífarík mistök í stjórn velferðarmála sem menn sjá ekki framúr ennþá daginn í dag. Skólakerfið var svelt, sérstaklega framhaldsskólakerfið. Fáir fengu þannig að klára það nám sem hugur þeirra stefndi til.  Hjúkrunarfræðimenntun og ýmsar starfsstéttir aðrar sem tengdust umönnun hverskonar voru sveltar. Öll áhersla var lögð á stóriðnað og að mennta afburðarnemendur sem síðan voru m.a. undirstaðan fyrir NOKIA undrið. Hagsmunir almennings gleymdust hins vegar, atvinnuleysið varð mikið og atvinnulífið einlitt. Afleiðingarnar í dag er m.a. mikil vöntun á hjúkrunarþjónustu og viðeigandi dvalarrýmum fyrir aldraða. Eftir á að hyggja hefði verið betra að láta „finnska efnahagsundrið“ hafa hægari framgang og leggja meiri áherslu á að styrkja mennta- og heilbrigðiskerfið. Ekki síst með unga fólkið í huga sem erfa áttu landið og takast á við langtímavandamálin. Þess óska Finnar í dag, að hafa gert hlutina öðruvísi en þeir gerðu.

Hamingjuleysi foreldra, sundrung og kvíði voru þeir áhrifaþættir sem stóðu upp úr og virkuðu hvað allra verst á tilfinningaþroska ungra barna sem síðar leiddi til mikilla félagslegra og geðrænna vandamála. Vöntun var á félagslegum úrræðum og niðurskurður í skólunum var síðan áberandi í þjóðlífinu. Kvíði og þunglyndi barna og unglinga, áfengis og vímuefnavandi og síðan ofbeldishneigð unga fólksins afleiðingarnar sem endurspeglar öll þessi fyrri vandamál kreppunnar þeirra í dag.

Vandamálin sem koma til okkar kasta í dag eru lítil miðað við það sem Finnar glímdu við en samt oft orðin illleysanleg á heimavígstöðvunum, í skólunum og í heilsugæslunni þar sem úrræðin og sérfræðiþekkinguna sárlega vantar. Mikilvægast er því fyrir okkur að gleyma ekki að styðja betur við þær stofnanir sem koma að uppeldi og menntun barnanna okkar, jafnvel þótt fátækt ríki heima fyrir. Annars er að litlu að stefna í framtíðinni. Efla verður að sama skapi heilsugæsluna og möguleika á stuðningsviðtölum við sérfræðingana, lækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa ásamt hjúkrunarfræðingum.

Heilsugæslan hefur orðið að mæta vandamálum fullorðinna tengt atvinnumissi og tímabundinni örorku í vaxandi mæli með ráðgjöf hverskonar og læknisfræðilegu mati á starfshæfni. Grunninntak hugmyndafræði heimilislækninga er heildarsýn á vanda skjólstæðingsins og því væri æskilegt að heimilislæknar tækju virkan þátt í starfsendurhæfingu. En í dag er heilsugæslan verulega undirmönnuð á höfuðborgarsvæðinu og sífellt versnar ástandið með atgerfisflótta úr stéttinni. Um 50 heimilislæna vantar miðað við sambærilega staðla á Norðurlöndunum og hátt í tug heimilislækna þarf að bætast til starfa bara á höfuðborgarsvæðið á ári til að halda í horfinu, þar sem margir hætta störfum fyrir aldurs sakir á næstu árum. Heilsugæslunni er því verulegur vandi búinn að mæta þessum aukna þrýstingi sem nú er og eins og greint er frá í greininni í Fréttablaðinu. Starfsgreinasamböndin og verkalýðsfélög verða því að koma fólkinu betur beint til hjálpar, m.a. með möguleikum á starfsendurhæfingu, milliliðalaust.

Mestu máli skiptir að vel verði búið að yngstu kynslóðinni og menntakerfinu í landinu. Að máttarstólpar velferðasamfélagsins verði ekki brotnir niður því þá verður afraksturinn enginn. Látum reynslu Finna af kreppunni þeirra vera okkur sem víti til varnaðar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn