Föstudagur 08.04.2011 - 17:11 - FB ummæli ()

Slökkvum ekki á perunni

Framundan eru mikilvægar kosningar sem því miður sumir hafa notfært sér til að koma höggi á þá ríkisstjórn sem tók við brunarústum eftir hrunið. Ríkisstjórn sem hefur reynt að gera sitt besta og verið trúverðug, þótt hægt hafi gengið á mörgum sviðum enda ekki við öðru að búast, slíkur var vandinn. Og auðvitað hefur hún gert mistök eins og hvernig staðið var að fyrstu samningum um IceSave. Um það eru allir sammála, ekki síst þegar sést hvað seinni samningurinn er miklu hagstæðari. Færustu sérfræðingar landsins hafa legið yfir vandamálinu með þjóðinni í meira en ár og fram undir það síðasta, flestir verið sammála að mikilvægst væri að klára deilurnar við vinþjóðir okkar og jafnvel Evrópu alla þannig að báðir aðilar geti sáttir unað. Deilur sem risu vegna græðgi og vanþekkingar. Ef til vill líka vegna framsækni okkar og ofurtrú á eigið ágæti. Að hafa farið fram úr okkur, er þó nokkuð sem aðrar þjóðir eru tilbúnar að fyrirgefa, ef við sýnum í verki að við höfum þroskast og lært af reynslunni. Og gleymum því ekki að óreiðumennirnir svokölluðu voru á okkar ábyrgð og eru nú okkar að fást við. Að við séum öll tilbún að taka þátt í leiknum að nýju og fara eftir reglunum.

Þjóðfélagið endurspeglar alltaf þá einstaklinga sem það byggir. Þroskinn er mikilvægastur í fari hvers manns og skapar þá eiginleika að gera einstaklinginn að góðum félaga í samfélaginu. Sama er að segja um þjóð meðal þjóða. Að mörgu leiti höfum við Íslendingar gert hlutina öðruvísi en aðrar þjóðir, kannski eins og þroski okkar bauð upp á. Styrkleiki okkar en um leið mikill veikleiki sem mjög ung þjóð. En samskipti þjóða er ekki leikur, heldur fúlasta alvara. Leikur sem getur orðið mjög harður, kannski allt of harður og bara fyrir fullorðna.

Sem betur fer er vel búið að okkur sem þjóð og sem margar aðrar þjóðir lítu upp til með öfund og eftirvæntingu í huga. En okkur varð á í messunni. Nú er kominn sá tími að við verðum að endurskoða uppeldisreglurnar okkar svo unglingurinn í okkur fái að blómstra og hann geti sýni hvað í honum raunverulega býr, enda bráðum fullorðinn. Og þótt sumir kappkosti nú við að etja okkur saman til þess að fella ríkisstjórnina, að þá hlaupum við vonandi ekki út undan okkur eins og kálfar að vori.

Vert er að veita því athygli að um 90% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokk og Framsóknaflokk segjast ætla að kjósa „nei“ á morgun en svipað hlutfall þeirra sem styðja Samfylkingu og Vinstri græna ætla kjósa „Já“ samkvæmt skoðanakönnunum. Niðurstöður sem vekja upp spurningar um tilgang neikvæðninnar og höfnun á samningi um öruggari framtíð landsins. Hvað menn geta lagst lágt til að koma höggi á ríkisstjórnina til þess eins að komast sjálfir að völdum síðar. Það var ekki að ástæðulausu að hægri frjálshyggjuöflin voru sett til hliðar fyrir aðeins 2 árum og þá auðvitað Framsókn með. Tvö ár eru stuttur tími í endurreisn fjármálkerfis heils þjóðfélags eftir nánast algjört hrun og sem sagan segir að geti tekið áratugi að byggja upp. Uppbygging sem í dag virðist ætla að taka miklu skemmri tíma ef rétt er að málum staðið.

Biturleiki unga fólksins er mjög skiljanlegur og mörgum finnst endurreisnin ganga hægt. Kjör þeirra er auðvitað bág í dag, en kjör framtíðarinnar skiptir mestu máli. Kjör sem við verðum að tryggja að nái fram að ganga eins og hægt er í samstarfi með öðrum þjóðum í stað einangrunar. Því vil ég að minnsta kosti trúa miðað við afl okkar, getu og auðlindir landsins. Auðlinda sem aldrei er mikilvægara að passa vel upp á að aðrir eignist ekki. Skuldastaðan í IceSave dæminu, þegar upp verður staðið, er auðvitað umdeilanleg. Útlitið í dag er þó þannig að hún geti jafnvel þurrkast út. Verði í versta falli ekki of íþyngjandi miðað við allt annað sem á undan er gengið.

Það er einfaldlega komið nóg. Slökkvum því ekki á perunni nú í mesta myrkrinu og hindrum með því framtíðarsýnina og uppbyggilega framþróun. Framlengjum ekki óþarfa stöðnun í íslensku þjóðfélagi og áframhaldandi slagsmál við aðrar þjóðir. Fyrir málstað sem við skömmumst okkur fyrir, jafnvel þótt seinni dómar kunni að falla okkur í vil. Löglegt þá en siðlaust, orð sem við könnumst svo mætavel við. Kvekjum á sem flestum perum á morgun og segjum „já“.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn