Sunnudagur 31.07.2011 - 10:33 - FB ummæli ()

Gamla heilsuverndarstöðin, nýtt hlutverk

Nú eftir langa og rigningasama fríhelgi flestra landsmanna, flyst starfsemi Landlæknis og Lýðheilsustöðvar í gömlu Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg og starfsemin um leið sameinuð undir einum hatti Landlæknisembættisins. Það verður ánægjulegt að sjá nýjar rætur heilbrigðisvísinda skjóta föstum rótum með þeim gömlu í þessu húsi. Í húsi sem var vagga heilsugæslunnar í landinu og hýsti miðstöð sóttvarna, heilsuverndar ungbarna og verðandi mæðra fyrir allt landið hálfa síðustu öld. Starfsemi sem er okkur öllum sérstaklega mikilvæg og kær en sem var engu að síður flutt í ófullkomið iðnaðar- og verslunarhúsnæði í Mjóddinni, þáverandi stjórnvöldum til lítils sóma. Rétt er að benda á umræðu um þessi mál hér á Eyjunni fyrir rúmlega ári síðan og því meiri er ástæða að fagna þessum tímamótunum, sem segja má að sé líka síðbúin afmælisgjöf heilbrigðisyfirvalda á 25o afmælisári Landlæknisembættisins.

Í gamla daga horfði ég oft með stolti á turninn góða og rauðbrúna litinn á húsinu sem gaf frá sér svo góð hughrif og mikla hlýju. Þangað var líka leitað með mig 4 ára gamlan þegar ég datt á hjólinu mínu og slasaðist á öxlinni. Þar fékk ég bólusetninguna mína með kúabóluefni gegn stórubólu sem nú er útdauð drepsótt en lagði tugþúsundir Íslendinga að velli gegnum aldirnar, áður en þeim var komið til hjálpar. Þökk sé bólusetningunum, mikilvægum hornsteinum nútímalegrar heilsuverndar á stað þar sem elstu börnin mín fengu líka sínar bólusetningar. Jafnvel sótthreinsunarlyktin í húsinu er ennþá sterk og sennilega föst í stífbónuðum linoleum gólfdúkunum. Þangað sem ég var einnig sendur í ljósaböð forðum, þegar íslensk börn voru flest talin vera með hörgulsjúkdóma og D-vítamín skort. Á landi sem vantaði bara meiri sól.

Í dag minnir rauði liturinn og turninn einkennilegi á framandi slóðir. Á framandi staði þar sem sólin er hins vegar of sterk og jörðin rauðbökuð af þurrkum. Í löndum þar sem ríkir hungursneyð og börnin kinnfiskasogin og með þanin kvið af vannæringu. Þar sem býr fólk sem þarf á lífsnausynlegri hjálp okkar að halda sem allra fyrst, meðal annars í Sómalíu. Þar sem tug þúsundir streyma dag hvern yfir eyðimerkurnar til hjálparbúða hverskonar og milljónir geta dáið ef hjálp berst ekki tímanlega. Þar sem þúsundir barna njóta umönnunar í tugum næringarmiðstöðva Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Þar sem Rauði krossinn rekur líka heilsugæslustöðvar víðsvegar um allt landið og vinnur að vatnsveituverkefnum á verstu þurrkasvæðunum. Heimur eins og margir aðrir heimar sem við horfum á í sjónvarpinu og við viljum ekki eiga heima í.

Starfsfólk heilsugæslunnar grét sölu Heilsuverndarstöðvarinnar á sínum tíma, íslenskum tárum. Stjórnsýslan skildi þá ekki hlutverk hennar til fulls eða rætur. Tapið hefði geta orðið mikið fyrir komandi kynslóðir, en um leið sárt fyrir okkur hin sem þekkjum sögu húsins og fundum fyrir sálinni sem húsið geymir. Rauða húsið sem tekur á móti okkur nú aftur opnum örmum og er með stóra landganga eins og skip sem siglt getur til fjarlægra landa, þangað sem neyðin er mest. Með anddyri sem býður mann hjartanlega velkominn og er með stórum breiðum bogadregnum stiga til efstu hæða. Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg, stolt heilbrigðsiþjónustunnar í landinu og flaggskip, sem sannarlega er sómi af og fær nú nýtt hlutverk. Endurnýjaðir lífdagar Heilsuverdarstöðvarinnar er mikið fagnaðarefni. Tileinkum þeim tímamótum nú söfnun til þeirra sem eru í mestri neyðinni, í landinu sólrauða, um leið og við samgleðjumst okkar eigin áfanga.

Söfnunarsími Rauðakross Íslands fyrir Sómalíu er 8041500 (þá færast 1500 kr á næsta símareikning).

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn