Miðvikudagur 24.08.2011 - 08:37 - FB ummæli ()

Bensínafgreiðslustöðvar og apótekin

Það er tvennt sem ég lít á sem mikla afturför í verslun- og þjónustu í dag miðað við „í gamla daga“. Þróun sem sumir telja þó framför í viðskiptaháttum og staðir sem í fljótu bragði fátt eiga skylt, eða hvað? Þarna á ég við benzínstöðvarnar sem hafa þróast í að verða meira sjoppur og skyndibitastaðir í stað þjónustustaða til að afgreiða á öruggari og betri hátt viðkvæmt eldsneyti og apótekin sem hafa þróast meir og meir út í verslun á horninu með snyrtivörur og smávöru í stað megináherslunnar á betri og öruggari lyfsölu. Hvortveggja þróun sem er réttlætt með kröfu eigendanna um meiri arðsemi af verslun sem selur allt milli himins og jarðar í stað gæðaafgreiðslu á viðkvæmum nauðsynjavörum. Enda hafa bensínstöðvar og apótek sprottið út um víðan völl í seinni tíð, eins og gorkúlur í haga.

Ég hef áður skrifað um hvað „handarbandið“ má kosta, ekki síst þegar maður heldur sjálfur í bensíndæluna og þarf að afgreiða sig sjálfur. Um leið og maður lætur blekkjast að það sé gert í boði olíufélganna til að þú sparir. Hið rétt er auðvitað að þetta er gert til að eigendurnir sjálfir græði meira innan dyra. Afgreiðsla á rándýru eldfimu eldsneyti, jafnvel upp á tugþúsundir króna í hvert skipti, getur aldrei talist ódýr verslunarvara sem ekki verðskuldar góða þjónustu. Þegar þú ætlast til að þjónustan sé til fyrir þig, en ekki öfugt.

Apótekin í „gamla daga“ voru virðulegar stofnanir þar sem virðing var borin fyrir starfsfólki eins og á öðrum heilbrigðisstofnunum, ekki síst lyfjafræðingnum sem maður vissi að var alltaf bak við þilið. Þegar apótekin voru til að afgreiða af nákvæmni lyf sem var manni fyrir bestu, hvort heldur læknir hafði skrifað upp á lyfseðil eða þau voru seld sem lausasölulyf við minniháttar kvillum. Þegar lyfjafræðingurinn var síðan ávalt tilbúinn að ráðleggja hvað passaði með hverju. Þetta var áður en „rafræna gáttin“ opnaðist upp á gátt. Áður, þegar apótekin á höfuðborgarsvæðinu var líka skylt að hafa næturvaktir fyrir sjúklinga sem bráðvantaði lyf að nóttu, sem á degi. Nú er öldin sem sagt önnur og oft ekki einu sinni ráðnir lyfjatæknar til að sinna afgreiðslunni á lyfjunum þínum á daginn, heldur ófaglært fólk á lægstu laununum og snyrtifræðingar. Þegar þú ætlast til að þjónustan sé til fyrir þig til að afgreiða lyfin þín, en ekki öfugt.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn