Miðvikudagur 12.10.2011 - 18:23 - FB ummæli ()

Til að geta fyrirgefið kirkjunni

Margir velta nú fyrir sér merkingu fyrirgefningarinnar. Ekki síst þegar sá kallar eftir henni sem oftast telur sig veita hana. Þjóðkirkjan sjálf meðal þjóðarinnar. Kirkja sem hefur ekki aðeins brotið niður traust fórnarlamba kynferðisofbeldis innan veggja hennar um árabil heldur nú líka gagnvart flestum sóknarbörnum sínum. Öllum þeim sem fylgst hafa með atburðarrásinni síðastliðin ár í sinni góðu og barnslegu trú og neitað að trúa sannleikanum. Sem sér nú loks hvernig sannleikanum var haldið undan og hann jafnvel þaggaður niður af yfirstjórn kirkjunnar. Líka á mjög slæmum tíma í sögu þjóðarinnar þegar þörf á sáluhjálp er mikil. Afleiðing þess tíma þegar mikil spilling ríkti í annarri stjórnsýslu og fjármálaheiminum. Þegar maður síðan skynjar forsendubrestina til að geta fyrirgefið og skilninginn hins aðilans vantar. Alveg eins og í öllum öðrum samskiptum okkar á milli.

Ef við viljum biðja þann sem við höfum brotið trúnað á afsökunar, er auðvitað frumskilyrði að við skiljum í hverju brotið liggur. Eins og oft gerist innan fjölskyldna og jafnvel gagnvart manns eigin börnum. Aðrar afsökunarbeðnir skipta litlu máli, eru oft hjáróma og jafnvel falskar þrátt fyrir góða viðleitni og hástemmd orð. Skilningur á mistökunum er þannig frumskilyrði til að okkur verði fyrirgefið og til að við getum endurheimt trúnaðinn. Að við síðan getum bætt fyrir skaðann.

Núverandi biskup og jafnvel kirkjuráðið áttar sig þó ekki á öðru en því að nú loks sé  ljóst að skaði hafi orðið og sem ekki má endurtaka sig. Vissulega gott gagnvart þeim sem veita þarf stuðning í framtíðinni og sem brotið var á og óskuðu þess eins að vera trúað á sínum tíma. Ekki gagnvart þeim sem nú eru örvinglaðir og horfa upp á gömlu ímyndina sína á kirkjunni hrynja. Hjartfólgnar minningar þúsunda sem sjá þær nú í miklu dekkra ljósi en áður. Nokkuð sem sjálfur biskupinn hefur samt nefnt að séu engu að síður „góðu minningarnar“. Af embættisverkum prests og biskups sem gekk erinda tveggja afla svo ekki mátti á milli sjá hvoru aflinu hann þjónaði meira. Jafnvel versta aflinu í okkur öllum sem við viljum hvorki rækta eða ræða og heyrir undir geðsjúkdómana. En slíkur var áhrifamáttur hans og útgeislun í lifandi lífi að sumir geta jafnvel ekki enn annað en efast. Því meiri er þörfin á að þeir geti fyrirgefið kirkjunni sinni.

Ekkert nema skilyrðislaus viðurkenning á öllum grundvallarmistökum stjórnsýslu kirkjunnar nægir til að þjóðin geti fyrirgefið. Ekki bara gagnvart trúnaðarbresti kirkjunnar í samskiptum fórnarlamba kynferðisofbeldis innan hennar veggja, heldur öllum sóknarbörnunum sem greinilega var líka brotið á þegar þeir lifðu í góðri trú. Áfallahjálp er það kallað þegar heimsmyndin hrynur og þörfin á hjálp er hvað mest. Ekki síst fyrir trúaða sem leggja allt sitt undir. Þöggun og yfirhylming var hins vegar sú hjálp sem yfirstjórn kirkjunnar nýtti sér þegar mest á reyndi. Biskup og aðrir sem staðið hafa í vegi hjálparinnar sem við samt öll kölluðum eftir eiga því nú að víkja. Þeir vonandi skilja að sannleikurinn og hið góða verður alltaf að eiga samleið innan kirkjunnar, sama hversu vont það getur verið að viðurkenna hvað sannleikurinn getur verið ljótur.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · kirkjan · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn