Fimmtudagur 13.10.2011 - 18:03 - FB ummæli ()

Þegar skelin brotnar á skjánum

Í Kastljósþætti í gærkvöldi fengum við að kynnast afskaplega fallegri en um leið sorglegri sögu af tveimur hálfníræðum mönnum sem hittust í fyrsta skipti augliti til auglits en sem höfðu áttu sameiginlegt gamalt leyndarmál sem þjakaði þá á sitt hvorn háttinn mest allt þeirra líf. Hvor hafði sína sögu að segja, samt samofnar í örlögunum hvors annars eins og svart og hvítt. Tveir gamlir harðir menn sem höfðu 67 árum áður verið í tveimur ólíkum hlutverkum í ógnvænlegri og hatrammri atburðarrás og sem þeir þá gerðu sér engan vegin í hugalund hvert myndi leiða þá síðar á lífsleiðinni.

Annar þeirra, Horste Koske, hafði verið loftskeytamaður í þýskum kafbát aðeins 17 ára að aldri og sem sökkti Goðafossi út undan Garðsskaga 10. nóvember 1944. Hinn, Sigurður Guðmundsson, 18 ára háseti á Goðafossi og sem tók þátt í björgun þeirra sem komust af. Tuttuguog fimm Íslendingar fórust auk 19 Breta, börn og fullorðnir. Íslenskt samfélag gjörsamlega lamaðist eins og nærri má geta. Meðal fórnarlambanna sem drukknuðu var Friðgeir Ólason læknir og kona hans, Sigrún Briem ásamt 3 börnum þeirra. Friðgeir var að koma heim úr löngu sérnámi í Bandaríkjunum til starfa fyrir íslenska þjóð. Þau hjónin höfðu ásamt fleirum verið að hlúa að breskum, mörgum illa brenndum sjóliðum sem nýbúið var að bjarga úr köldum sjónum eftir árás þjóðverja skömmu áður en árásin á Goðafoss var gerð, rétt um það leiti sem þau voru nánast komin heim. Mörg líkanna rak síðan að landi, þar á meðal lík barnanna.

Við sáum gömlu  mennina fallast í faðma og gráta yfir hlutskipti sínu í lífinu. Hversu miskunnarlaust lífið getur verið en samt svo fagurt í senn. Þegar baráttan er milli góðs og ills og stundum vandséð er, í hvoru liðinu þú tilheyrir fyrr en um seinan. Menn sem síðan lifðu og þroskuðust í ólíkum löndum með minningarnar sínar, en sem að lífslokum eru eins og einn og sami maðurinn. Sem báðir grétu þegar harða skelin brotnað utan af þeim og tilfinningarnar einar réðu. Þeir voru svo líkir og gátu eftir allan þennan tíma þótt þeir hefðu aldrei hittst áður, miðlað sameiginlega því sem mestu máli skiptir fyrir okkur hin, ekki með löngum ræðum heldur einföldustu tilfinningunum og sem allir skildu.

Önnur skel brotnaði í vikunni og aðrar tilfinningarnar flæddu út yfir alþjóð þegar Guðrún Ebba sagði sína einstöku sögu og allir skildu sem á horfðu. Tilfinningar sem höfðu verið bældar allt of lengi  en voru því magnaðri þegar þær loks brutust út. Sögur af mannlegum harmleik á allt annan hátt og sem er hluti af lífinu sem við lifum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sögur sem hafa líka mikil áhrif á skel þeirra sem horfa og hlusta og sem stundum bresta.

Tíminn sem við lifum nú á er afskaplega sérstakur. Hvert málið af öðru er nú tekið upp og varpað á það nýju dagsljósi. Skilningur sem á mörgum sviðum átti upptök sín haustið 2008 og engan hefði órað fyrir að tekin yrðu nokkrum sinnum upp. Þegar gamla heimsmyndin okkar hrundi og þjóðfélagið sjálft neyddist til að kom út úr sinni hörðu skel og sýna tilfinningarnar sem ólguðu undir niðri. Sannleikur sem líka allt of lengi fékk að liggja undir skel en sem flæðir nú út um allt og virkar á köflum yfirþyrmandi. Of mikið í einu fyrir suma og við eigum fullt í fangi meða að átta okkur á öllu saman. Sumir verða reyndar örvinglaðir og vilja loka sig af, fá að vera í friði og fá að innbyrða sannleikann í smáskömmtum. Sumir eru ekki heldur tilbúnir að brjóta af sér sína eigin skel en gera það vonandi smá saman til að geta tekist á við sín eigin vandamál og annarra. Líka kirkjan. Smá saman raðast skelbrotin samt upp aftur en hún verður þynnri og gegnsærri og heimsmyndin skýrari en áður.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn