Þriðjudagur 25.10.2011 - 21:01 - FB ummæli ()

Stóra „D“ málið

Meira um D-vítamínið. Mál málanna í dag í heilbrigðisgeiranum og þar sem minna er talað um pólitík og deilur í fjármálaheiminum. Því öll viljum við geta lifað heilbrigðu lífi eins lengi og kostur er, þegar dægurumræðan í dag er löngu um garð gengin og gleymd. Þar sem andlega heilsan er ekkert minna mikilvæg en sú líkamlega og best að parið eigi alltaf samleið í þjóðfélagsumræðunni. Allt þar til andinn yfirgefur efnið eins og sagt er. Frá vöggu til grafar, í ungbarnaheilsuverndinni og að lokum í heilsuvernd aldraðra. Allt þar á milli og þar sem þverfaglega er unnið að málum, oftast í sátt og samlyndi.

Enda er vitað að heilsan ræðst af því hvernig við sjálf hegðum okkur og hreyfum, hvað við borðum og drekkum ekkert síður en hvernig við hugsum og hvað við segjum hvort við annað. Hvernig við getum verið betur í stakk búin að takast á við álagið í daglega lífinu og alla kvillana sem á okkur herja. Ekki síst þar sem skuggi myrkurs ríkir stóran hluta ársins og angistin nagar nú beinin. Hvergi er meiri ástæða að fá aðra orku í kroppinn en sem bara mælist í kaloríum og sólargeislum. Ekki bara í andlegum skilningi heldur óumbreytanlegri jarðbundinni orku. D-vítamíninu sem aðrir geta framleitt fyrir okkur og nóg finnst af í sjónum.

Sennilega eru fá lífefni nauðsynlegri líkamanum enda var ætlast til að við framleiddum það sjálf eins og aðra hormóna í upphafinu. Fyrir hundrað milljón árum þegar hún fékk að skína á okkur ber allt árið um hring. Löngu síðar þegar við fluttum okkur frá sólinni og Adam fékk ekki lengur að vera í paradís urðum við að treysta á inntökuna með fæðunni, sjávarfangi og innmat. Löngu síðar líka þegar við vorum harðgerð þjóð og gerðum það sem gera þurfti og drukkum lýsi. En á síðustu tímum spruttu upp ný vandamál, ekki síst þegar við hættum að borða það sem náttúran sjálf ætlaðist til að við gerðum.

Þegar þann hlekk vantaði fóru börnin aftur að greinast með hörgulsjúkdóminn beinkröm og fullorðnir að brotna af minnsta tilefni. Líka marga aðra hörgulsjúkdóma tengt ónógu kalki og D-vítamínskorti. Hörgulsjúkdómar sem geta tengst flestum þeim kvillum sem við í heilsugæslunni erum að fást við alla daga, vöðvaslen, þunglyndi, háþrýsting, sýkingar og flensur. Nokkuð sem líka er gott að hafa í huga þegar litlu börnin fá oft eyrnbólgur og aðrar sýkingar.

Viðmiðunarmörk af D-vítamíni í blóði hafa nú verið hækkuð en fyrir vantaði helming Íslendinga vítamínið í kroppinn. Ekki síst yngsta fólkið þar sem alvarlegur skortur mælist jafnvel í tugprósentum. Jafnvel þar sem dæmi eru um að ekkert D-vítamín mælist í blóðinu og börn fá krampa. Á landi þar sem fæst ungmenni taka inn lýsi eða borða nógan fisk.

Þjóðarátak þarf nú til að snúa þróuninni við, enda ekkert jafn ánægjulegt og ódýrt en vel heppnað þannig átak og sem allir eru sammála um að sé nú nauðsynlegt. Ekki síst ef við viljum að unga fólkið verði sterkara en við í framtíðinni. Ekki sveigt, ekki brotgjarnt eða veikburða fyrir aldur fram, bara af því við búum á Íslandi og pössum ekki upp á það nauðsynlegasta. Það er „stóra málið“ í dag og sem tengist miklum D-vítamínskorti hjá þjóðinni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn