Fimmtudagur 29.12.2011 - 09:37 - FB ummæli ()

Heilbrigðisannáll 2011

Á flestum sviðum læknisfræðinnar höfum við Íslendingar talið okkur standa fremstir meðal þjóða, læknismenntunin góð og boðið er upp á hátæknilækningar á flestum sviðum. Þetta er svo sem allt gott og blessað ef heilbrigðisþjónustan sjálf stæði í blóma og að ekki væru efasemdir forgangsröðun verkefnanna á niðurskurðartímum. Á tímum þegar velmegunarsjúkdómarnir eru farnir í að sliga heilsuna hjá mörgum svo og heilbrigðisþjónustuna almennt. Sem þó er aðeins vísir að því sem koma skal, að öllu óbreyttu, og besta sókn læknisfræðinnar felst nú til gamalla, en áður vel þekktra gilda sem hafa því miður gleymst. En horfum nú yfir sviðið eins og það blasti við árið 2011.

Helmingur þjóðarinnar er of þungur og tæplega fjórðungur of feitur. Þar sem illviðráðanlegur blóðþrýstingur, heilablóðföll, æðaskemmdir og alvarlegir augnsjúkdómar verða sífellt algengari. Þegar okkur var loks búið að takast að ná niður tíðni kransæðasjúkdómsins og minnka tóbaksreykingar um allt að helming. Nýir sjúkdómar sem í dag eru taldir geta breytt heimsmyndinni og sem meirihluti íbúa á hvaða aldri sem er stefna þá í að fá. Á næstu áratugum að óbreyttu en þegar um fjórðungur 65 ára og eldri þegar komnir með sykursýki í Ameríku og við virðumst síðan vera næst í röðinni. Þegar börnin fá sjúkdóma gamla fólksins og heilbrigðiskerfið hefur ekki lengur burði til að geta sinnt nema litlum hluta af því sem okkur finnst svo sjálfsagt í dag. Sem bara breytingar í lífsstíl okkar geta breytt.

Sennilega eru mestu heilbrigðisgrýlur 21. aldar ofþyngdin og sykursýkin. Ástand og sjúkdómur sem eru eins og tvíburar. Orsök og afleiðing af sama meiði sem leiðir til alvarlegra sjúkdóma og sem eru ekki endilega aldurstengdir. Grimmir sjúkdómar sem valda flestu því sem við viljum vera laus við, ekkert síður þegar við eldumst. Þegar líkaminn eldist hraðar en árin og meðalaldur hjá þjóðinni getur snarlækkað.

Mestar áhyggjur ber auðvitað af hafa af hratt vaxandi ofþyngd barna og unglinga, sem að miklu leiti tengist aukinni neyslu sykraðra drykkja í dag, auk þess sem drykkjan leiðir til meiri neyslu sælgætis og aukabita með, yfir daginn og langt fram á kvöld. Alls drukku Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á árinu og innbyrtu að meðaltali sem samsvaraði um 1 kíló af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir meira aðrir minna.

Stundum hefur verið sagt í hálfgerðu gríni að Íslendingar séu líka ofvirk þjóð, burt séð frá sykurneyslunni og að genin hafi komið meira en góðu hófi gegndi með óstýrlátum forfeðrum okkar. Eitt er víst að sjúkdómsmyndin er vel staðfest hér á landi í mörgum myndum, einnig meðal nútímavíkinga. Vitað er að margt í umhverfinu og uppeldinu ræður því hvernig við þroskumst og hvaða hegðun við tileinkum okkur þegar við fullorðnumst. Námserfiðleikar og hætta á detta úr námi og skóla er vissulega fyrir hendi með miklum síðkomnum afleiðingum fyrir viðkomandi. Kvíði og þunglyndi eru þannig algengir fylgikvillar. Einnig er meiri hætta á tóbaksfíkn. Eins hætta á misnotkun áfengis og jafnvel eiturlyfja ef illa gengur í félagslegum samskiptum. Félagslegur stuðningur, ekki síst í skólunum, er þannig mikilvægur fyrir þjóðfélagið allt svo og góð lyfjameðferð fyrir þá sem verst eru settir.

Lítil áfengisneysla og lág tíðni lifrarbólgu B og C var þakkað lágri tíðni á skorpulifur hér á árum áður og þótti líka bera vott um góðar forvarnir gegn þessum sjúkdómum. Eins lágri tíðni offitu og sykursýki. Nú er öldin sem sagt önnur og vaxandi sambland þessara sjúkdóma í náinni framtíð er stórhættuleg blanda sem ekki sér fyrir endann á. Á  tíma sem áfengisneyslan hefur meira en tvöfaldast, fíkinefnavandin margfaldast og hröð þróun offitu er að slá öll Evrópumet.

Áður sköpuðum við okkur þó sérstöðu miðað við vínmenningarþjóðir þar sem áfengi var haft daglega um hönd, þrátt fyrir slæma drykkjusiði um aldir. Á tímabili var talað um að þrátt fyrir allt, væri e.t.v. bara hollara að skella í sig um helgar en sötra léttvín daglega. Þá værum við að minnsta kosti laus við skorpulifrina sem er eitt algengasta dánarmein vínmenningarþjóðanna. Í stað þess að láta af helgarsiðum okkar bættum við bara við okkur bjórnum og léttvíninu. Hálft til eitt glas af léttvíni á dag átti svo sem ekki að vera svo óhollt og jafnvel hollt hvað æðasjúkdómana varðar og elliglöpin eins og rannsóknir ársins benda til. Aðrar rannsóknir benda hins vegar á að öll áfengisneysla getur verið varasöm, líka lítil, ekki síst er varðar hættu á myndun krabbameina, sérstaklega brjóstarkrabbameina meðal kvenna. En hvað var það sem fór úr böndunum hjá okkur? Sennilega svipað og í öllu öðru, óhófið. Neysla áfengis nálgast nú að vera að meðaltali um 8 alkóhóllítrar á ári fyrir alla 15 ára og eldri og um 7% fullorðinna hafa lagst inn á Vog til áfengis- og vímuefnameðferðar.

Svefnvandi þjóðarinnar er líka mikill, að minnsta kosti miðað við gríðarlega sölu svefnlyfja hér á landi. Reyndar eiga Íslendingar líka norðurlandamet í notkun svefnlyfja og annarra tauga- og geðlyfja. Lyf sem slæva auk þess að hjálpa með að ná svefni, sem þó verður aldrei jafn góður svefn og án lyfja. Stundum  meira eins og stutt rot. Svefnlyf sem aldrei ná að hreinsast alveg úr heilanum daginn eftir og veldur höfga og oft truflaðri hugsun. í Bretlandi og Bandaríkjunum eru t.d. fleiri taldir valda umferðarslysum undir áhrifum verkja- og svefnlyfja en áfengis. En ávísun á svefnlyf er samt því miður algengasta úrræði heilsugæslunnar í dag, miðað við fjölda úrlausna í „rafrænu gáttinni“ og þar sem ekkert toppar þessar lyfjaendurnýjanir. Skyldi engan undra að þjóðin fitni og gangi síðan oft um eins og undir.. álögum.

Sennilega eru fá lífefni nauðsynlegri líkamanum en D-vítamínið sem var mikið til umræðu á haustmánuðum, enda var ætlast til að við framleiddum það sjálf eins og aðra hormóna í upphafinu með tilstuðlan sólarinnar en sem er að skornum skammti hér á landi eins og allir vita. Fyrir hundrað milljón árum þegar hún fékk að skína á okkur ber allt árið um hring. Löngu síðar þegar við fluttum okkur frá sólinni og Adam fékk ekki lengur að vera í paradís, urðum við að treysta á inntökuna með fæðunni, sjávarfangi og innmat. Löngu síðar líka þegar við drukkum lýsi. En á síðustu tímum spruttu upp ný vandamál, ekki síst þegar við hættum að borða það sem náttúran sjálf ætlaðist til að við gerðum og hættum að drekka lýsið.

Þegar þann hlekk vantaði fóru börnin aftur að greinast með hörgulsjúkdóminn beinkröm og fullorðnir að brotna af minnsta tilefni. Líka marga aðra hörgulsjúkdóma tengt ónógri kalkinntöku og D-vítamínskorti. Hörgulsjúkdómar sem geta tengst flestum þeim kvillum sem við í heilsugæslunni erum að fást við alla daga, vöðvaslen, þunglyndi, háþrýsting, sýkingar og flensur. Nokkuð sem líka er gott að hafa í huga þegar litlu börnin fá oft eyrnbólgur og aðrar sýkingar.

Fréttir bárust líka frá Evrópu og Ameríku að milljónir foreldra kjósi að láta ekki bólusetja börnin sín við hinum ýmsu barnasjúkdómum eins og mislingum, af ótta við síðkomnar aukaverkanir. Ýmsum síðkomnum sjúkdómum sem í flestum tilfellum hefur ekki verið hægt að sanna að séu tengt bólusetningunum. Sumir hafa reyndar gengið svo langt að falsa rannsóknir og fengið þær birtar í virtum læknatímaritum, máli sínu til framdráttar. Þannig var t.d. með rannsókn um meint tengsl MMR bólusetningarinnar (Hettusótt, mislinga og rauða hunda) og einhverfu. Afleiðingarnar eru hins vegar þær að tugþúsundir barna greinast nú á ári hverju með mislinga, mest þar sem þátttakan í bólusetningunum er lökust. Líka hér á landi.

Ný bólusetning bættist við í ungbarnaheilsuverndinni hér á landi á árinu sem ber að fagna. Bólusetning gegn pneumókokkum, einum helsta meinvaldi mannsins. Rannsóknir í seinni tíð í löndum þar sem bóluefnin hafa verið notuð sýna að tekist hefur að lækka tíðni ífarandi sýkinga sem pneumókokkar valda um 80%, þ.e. gegn þeim algengu stofnum sem bólusett er gegn. Vissar áhyggjur er þó á fjölgun annarra stofna á sama tíma og sem eru ekki í bóluefninu, jafnvel sýklalyfja-fjölónæmum stofnum og þegar er farið að bera á erlendis þar sem bóluefnin hafa verið notuð lengi.

Tíðni eyrnabólgusýkinga af völdum penumókokka hefur líka snarminnkað þar sem bóluefnin hafa verið notuð um árabil og fjöldi heimsókna til lækna vegna eyrnabólgu barna hefur fækkað um allt að helming. Á Íslandi hefur tíðni eyrnabólgu hjá ungbörnum verið há hingað til og sem í dag skýrir yfir helming af allri sýklalyfjanotkun barna og sem er um 20% af öllum sýklalyfjaávísunum utan spítala í landinu. Sterk tengsl hafa líka fundist milli útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka í þjóðfélaginu og notkun sýklalyfja hjá börnum. Í dag eru um 40% af öllum pneumókokkum sem valda sýkingum  penicillínónæmir og jafnvel fjölónæmir og sem flestir eru algjörlega ónæmir fyrir helsta varalyfi penicillíns, makrólíðum (19F stofninn). Bóluefni gegn algengustu pneumókokkastofnunum sem í mörgum tilfellum eru auk þess sýklalyfjaónæmir, eru því kærkomin í baráttunni  gegn alvarlegum sýkingum meðal barna á Íslandi og okkar hinna líka með hjarðáhrifum. Mikilvægt er að nota nú tækifærið og skjólið sem þessar bólusetningar veita og draga úr ónauðsynlegum sýklalyfjagjöfum eins og Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með enda telur hún hratt vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu meinvalda mannsins eina af alvarlegustu heilbrigðsiógnum samtímans.

Á árinu urðu 12 dauðaslys í umferðinni, meirihluti úti á landi og þar sem meira en helmingur fórnarlambanna voru undir 18 ára. Sumir segja að slys séu bara ákveðin líkindi að óheppni. Að sumu leiti satt en oftar ekki, sérstaklega þegar umferðarslysin eiga í hlut og sem að í flestum tilvikum má koma í veg fyrir. Ekki síst alvarlegustu slysin þar sem hinn slasaði “var jafnvel í rétti”. Þau forðumst við best með því að keyra hægar og sýna aðgát og kurteisi.

Ekkert er heldur sameiginlegt með ofsaakstri fólksbifreiða eða bifhjóla og þungaflutningum á vegum landsins, annað en afleiðingarnar ef slys verða. Ofsaakstur á bifreiðum og bifhjólum er endurtekið í fréttum, en miklu síður þungaflutningarnir á ófullkomnum vegum landsins. Oft er rætt um hvað gera megi til að sporna gegn ofsaakstrinum, ekki síst hvernig bæta megi löggæsluna, en síður hvernig eftirlit með farmi vöruflutningabifreiða er háttað, sem eru stundum illa hlaðnir eða ofhlaðnir og geta skapað stórhættu vegna skertra aksturshæfleika. Eins er mikið rætt hvernig við getum aukið umferðaröryggi okkar allra með nýjum og betri vegum og byggingu umferðamannvirkja hverskonar, en minna hvernig koma megi þungum vöruflutningum af vegunum og aftur á sjóinn, jafnvel landflutningi alls sjávarafla heilu byggðarlaganna. Þar sem höggið sem gæti hugsanlega orðið við árekstur margfaldast með þyngd og hraða bifreiðarinnar sem á móti kemur. Þar sem höggið er í réttu hlutfalli við þyngdarmun farartækjanna. Eins, að stuðari stórra bifreiða lendir ekki á stuðara fólksbifreiðarinnar, heldur farþegarýminu. Það er ójafn leikur.

Óvinir læknisfræðinnar og okkar allra eru sjúkdómarnir sem við viljum sigrast á. Í það minnsta ná sáttum við og læra að lifa með, því auðvitað vinnum við ekki alltaf  fullnaðar sigur. Þetta eru sjónarmið sem sameinar okkur í það minnsta sem vinnum í heilbrigðisgeiranum. En leiðirnar eru mismunandi. Vísindin hafa skapað okkur ýmiss verkfæri til að auðvelda okkur að svo megi verða og eru lyf og bóluefni stór hluti af vopnabúrinu. Eins nýjar rannsóknir á orsökum sjúkdóma og annarra meðferða. Samfélagslækningar og samvinna heilbrigðisstétta hefur þannig aldrei verið mikilvægari í flóknum samtímanum, enda er líkaminn aldrei eyland.

Vopnin þurfa hins vegar að vera vel varðveitt og skilgreina þarf oft miklu betur en gert er í dag hvenær á að nota þau, til að þau missi ekki mátt sinn og hætti að bíta. Skilningur á venjulegum sjúkdómsgangi er mikilvægur, ekki síst þegar líkaminn læknar sig oft sjálfur. Læknirinn á að vera sérfræðingurinn til ráðgjafar um alla þessa hluti ásamt öðru heilbrigðisstarfsfólki og meta hvenær frekari meðferðar er þörf. Í dag hefur aldrei verið meiri þörf á teymisstjórum, til að samnýta vinnukraftinn og  mannauðinn innan heilbrigðiskerfisins sem best. Til fræðslu og nauðsynlegra meðferða.

Vitað er, að oft er um helmings mun að ræða á notkun flestra lyfjaflokka milli svæða og landa, allt eftir því hvernig heilbrigðisyfirvöld skipuleggja heilbrigðisþjónustuna og hvernig  læknar á hverjum stað standa að málum. Það eina sem raunverulega skiptir máli í þessu samhengi. Spurningin er bara hvort hefur meiri áhrif, markaðsöflin eða gæðin. Í vel skipulagðri heilsugæslu sem getur unnið eftir alþjóðlegum stöðlum eða á sundurlausum skyndivöktum út um allan bæ. Hvort tilvísanir á lyf séu fyrst og fremst í rafræna „opna gátt“ sem enginn veit hvað geymir eða augliti til auglits við þann lækni sem best til þekkir og á að vera gæsluvörður sjúkraskrárinnar.

Í samskiptum læknis og sjúklings á ávallt að ríkja mikill trúnaður. Læknirinn vill yfirleitt alltaf gera sitt besta, en verður að miða við aðstæður og tíma sem samskiptunum er ætlað. Dýrasta verkfæri hans er reynsla og þekking sem því miður er oft vannýtt í tímaleysinu. Huglægt mat og ráðgjöf, en ekki eintómar skyndilausnir. Heildræn nálgun verður þannig oft að víkja fyrir skammtíma „gæðatryggingu“ þar sem gengið er hvað lengst í úrræðunum. Það er t.d. fljótlegra að gefa kvíða- eða þunglyndislyf við kvíða og þunglyndi en beita samtalsmeðferð eða hugrænni atferlismeðferð sem er samt miklu líklegri til að skila betri árangri til lengri tíma litið. Sama á við um ráðgjöf gegn svefnleysi og krónískum verkjum. Og útskýringum á eðlilegum gangi öndunarfæarasýkinga, góðri ráðgjöf í stað sýklalyfjagjafar. Spurningin er þannig um skipulag á heilbrigðisþjónustunni sem samt því miður, miðar oft fyrst og fremst við skyndiþjónustu. Þegar skyndiúrlausnir leiða síðan til frekir þjónustukröfur um aðrar skyndiúrlausnir. Á meðan vopnin slitna, úreldast og verða smá saman óvirk, aukaverkanir algengari og hliðverkanir dýrari. Heildarkostnaður heilbrigðisþjónustunnar eykst og heilsa þjóðarinnar versnar. Í stað heildrænnar nálgunar á vandamálunum og að fólk beri meira ábyrgð á sjálfu sér. Í stað þess að alast upp við sjúkdómahræðslu og að við öllu séu til skjótvirkar skyndilausnir.

Sjúkraskrárkerfin á  Íslandi eru heldur ekki ennþá samtengd, né heldur lyfjaskrárnar og „lyfjagátt“ apótekanna eins og áður var minnst á, þangað sem allar rafrænar lyfjaávísanir enda. Allt sem býður hættunni heim og veldur miklum rugling, hvað aðrir eru búnir að gera og hugsa. Meiri hætta er á allskonar milliverkunum á milli lyfja frá hinum ýmsu læknum. Ofnotkun og röng notkun lyfja getur einnig orðið mikið heilbrigðisvandamál og er heilsuspillandi í eðli sínu.

Á sama tíma eru lyf frá læknum jafnvel misnotkuð og notuð sem „læknadóp“ í afkimum þjóðfélagsins. Jafnvel þar sem talað er um að ekkert dóp sé öruggara gagnvart óvæntum eiturverkunum en „læknadópið“, og sem í sumum tilvikum slær jafnvel heróini við sem vímugjafi. Þar sem stutt getur verið á milli neyslu saklausra vímugjafa og þeirra sterkustu, allt eftir framboði og eftirspurn. Verst af öllu er síðan þegar sjálfur löggjafinn stendur í vegi fyrir að sá sem ávísar lyfjunum í góðri trú geti fylgst með neyslunni í hinni sögufrægu gátt. Eitt mikilvægasta vandamálið sem stjórnmálamennirnir verða að leysa strax með breytingum á persónuverndarákvæðum.

Í fyrra og aftur nú hefur orðið mikil jákvæð vakning í átaki gegn einu algengasta krabbameini karla, krabbameini í eistum. Krabbameini sem að hluta tengist líka lífsstíl og reykingum eins og öll önnur krabbamein. Áminning um nauðsyn þess að takmarka sölu tóbaks eins og kostur er. Forræðishyggja myndu sjálfsagt sumir segja, lög og bönn. Staðreyndin er hins vegar sú að árlega greinast um 700 karlar með krabbamein á Íslandi og tæplega þriðjungur deyr af þeirra völdum. Rannsóknir sýna að lækka má þessa tölu um þriðjung ef tímalega er gripið í „taumana“. Þökkum Krabbameinsfélaginu þessa vakningu og fyrir mottumarsinn í ár.

Starfsfólk heilsugæslunnar grét sölu Heilsuverndarstöðvarinnar á sínum tíma, íslenskum tárum. Stjórnsýslan skildi þá ekki hlutverk hennar til fulls eða rætur. Tapið hefði geta orðið mikið fyrir komandi kynslóðir, en um leið sárt fyrir okkur hin sem þekktum sögu húsins og vissum af sálinni sem húsið geymir. Rauða húsið sem tekur á móti okkur nú aftur opnum örmum og er með stóra landganga eins og skip sem siglt getur til fjarlægra landa. Með anddyri sem býður mann hjartanlega velkominn og er með stórum breiðum bogadregnum stiga til efstu hæða. Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg, stolt heilbrigðsiþjónustunnar í landinu og flaggskip, sem sannarlega er sómi af og fær nú nýtt hlutverk. Endurnýjaðir lífdagar Heilsuverdarstöðvarinnar er því mikið fagnaðarefni og vel við hæfi á 250 ára afmæli Landlæknisembættisins.

Heilbrigðisþjónustuna hefur tekið langan tíma að byggja upp á Íslandi, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu með sjálfan Landspítlann Háskólasjúkrahús í fararbroddi og þangað sem flestra leiðir liggja einhvern tímann á ævinni. Fátt er okkur mikilvægara í mestri neyð lífsins en gott sjúkrahús með góðri bráðaþjónustu, um það eru allir sammála. Að mörgu þarf hins vegar að hyggja þegar þarf að byggja og vissulega býr Landspítalinn við erfiðan húsakost. Vandamálin þar er þó eins og hljóm eitt miðað við æpandi þörf á lagfæringum í heilbrigðiskerfinu hingað og þangað. Samt hefur verið ákveðið að byggja nýjan spítala á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt fyrirliggjandi byggingartillögum á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Fyrsti áfangi hljóðar upp á 40 milljarða króna. Ég set mikinn fyrirvara er á nausyn þess að fara út í svo dýra framkvæmd á niðurskurðartímum og þar sem þá hætta er á að önnur grunnþjónusta blæði í staðin. Um byggingaráformin og staðsetninguna við Hringbraut skrifaði ég í haust.

Það eru blikur á lofti og margir nú skjótráðir með ráð undir rifi hverju. Sumir vilja maka krókinn og telja hiklaust að aðrar heilbrigðisstéttir en læknar geti stundað lækningarnar og ávísað lyfjum. Jafnvel klæðst hvítum læknasloppum. Þess má hins vegar „til gamans“ geta að til er fyrirtæki sem heitir „Hvítir sloppar“ og sem ásamt fleirum fyrirtækjum sérhæfa sig í útflutningi á íslenskri lækisþjónustu til Norðurlandanna, aðallega til Noregs og Svíþjóðar. Þar sem sótst er eftir vinnukrafti þeirra sem læknasloppunum tilheyra í raun, og þar sem veitt eru viðunandi starfskjör og aðstaða eins og menntun lækna hæfir. Staðreyndir sem blasa við í dag.

Læknar verða að vera í fararbroddi að lýsa og varða veginn í heilbrigðismálunum. Marka leiðina í heilbrigðisþjónustunni með öðru heilbrigðisstarfsfólki. Allra síst eiga pólitíkusarnir að ráða hvernig læknar vinni eða ávísi lyfjum. Þeir geta hins vegar átt þátt í að skapa viðunandi vinnuskilyrði þar sem öllu eftirliti er fullnægt. Heilsan er best varðveitt með heilbrigðu líferni sem flest okkar vita vel í hverju felst. Hollur matur, félagslegt öryggi og nóg hreyfing alla daga. Baráttan við sjúkdómana vinnst best með samstöðu allra, á vígstöðvum þar sem trúverðugleiki læknisfræðinnar og heildræn sýn á vanda fólks er aðalvopnið. Með þeirri sýn og meiri áherslu á atferli mannsins verða leiddar fram mestu framfarirnar í læknisfræðinni á næstu áratugum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn