Sunnudagur 12.02.2012 - 13:58 - FB ummæli ()

Áður

Allt er hverfult þessa daganna. Líka gullið okkar og skartgripir, kannski það eina sem við eigum í veraldlegum verðmætum. Sorg og reiði í bland við örvæntingafulla eftirvæntingu hvað framtíðin ber í skauti sér og hvort hún verði byggð á meiri sannleika og trausti en verið hefur. Á svindli og græðgi þar sem menn og konur svífast einskins til að hygla sjálfum sér og sínum. Hvort nýju kynslóðirnar geti nú tekið við af þeim gömlu í sátt og samlyndi, eins og hefur verið um aldir. Að við skiljum væntingar og vonir hvers annars og að við getum stutt hvort annað í gegnum lífið. Að við getum notið þess öll sameiginlega í þjóðfélaginu að vera til, í stað sífelldra réttlætingar á stöðunni eins og hún er í dag. Að við skulum yfir höfuð vera til. Að gildin sem kennd eru ennþá í leikskólum og grunnskólum landsins geti að minnsta kosti haldið síðar á lífsleiðinni, ef við fáum sálarró og tíma til að lifa. Að það sé ekki allt gull sem glóir, allra síst gulltennurnar úr okkur sjáfum og okkar nánustu. Jafnvel öfum okkar og ömmum sem nú má selja hæstbjóðendum.

Undanfarið hefur öll þjóðmálaumræða verið á hvolfi og að mörgu leiti ríkt hálfgert stríðsástand. Gallinn bara við þetta stríð er að þú veist ekki almennilega hver óvinurinn er og hann er jafnvel þú sjálfur. Eitt málið tekur við af öðru og stjórnmálamennirnir berjast á banaspjótum pólitíkurinnar, jafnvel innbyrðis og í sömu fylkingum. Góðar konur og mætir menn skyldi maður ætla. Ósamstaðan er allsráðandi og hver kennir hinum um allar ófarirnar og sem vissulega má rekja til vöggu nýfrjálshyggjunnar hér á landi. Þar sem menn og konur kunna þrátt fyrir allt ekki ennþá að skammast sín og viðurkenna strákapörin. Ekki síst þeir sem ennþá vilja stjórna fjölmiðlaumræðunni úti í móum og bak við tjöldin, undir nafnleysi meira eða minna. Sem vilja stjórna strengjabrúðunum sínum úr fjarlægð.

Í geðlæknisfræðinni er hugarástandi geðveikra, ekki síst kvíða- og þunglyndissjúklinga vel lýst. Þegar þeir hinu sömu hafa orðið fyrir alvarlegri áfallaröskun til margra ára og sem rýrir trúnaðarsambönd og traust til annarra. Þegar mannskepnan vill einangra sig sem mest og fá að vera í friði. Vill ekki taka ábyrga afstöðu til málanna og líður að því virðitst oft best í tómarúminu þar sem hún veslast upp, enda ekki að neinu að stefna. Eins þegar þú leggur ekkert til málanna sjálfur og lætur misvitra stjórnmálamenn stjórna lífinu þínu.

Áður mér brá. Nú vil ég skilja. Látum ekki gamla pólitík rugla okkur í rýminu. Treystum á unga fólkið og vonir þess. Hlustum og horfum í kringum okkur. Treystum á sameiginlega Evrópu og nýja framtíð á tækniöld. Treystum líka á gömlu gildin í þjóðarsálinni, áður en allt fór í vaskinn. Áður en við fórum að standa andspænis hvort öðru í stað þess að standa saman. Ósk eftir Samstöðu og Breiðfylkingu lýsir best þessari þrá.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn