Sunnudagur 18.03.2012 - 15:26 - FB ummæli ()

Frumhlaup að heilbrigði ungra stúlkna?

Sjaldan hefur maður orðið meira undrandi í umræðunni um heilbrigðismál og viðhorfunum sem nú koma fram í frumvarpi velferðarráðherra um hverjir eigi að geta ávísað getnaðarvarnahormónum til ungra kvenna. Ekki síst þar sem frumvarpið slakar á kröfum um þekkingu á lyfjunum sem um ræðir og mati með tilliti til aukaverkana. Eins að breyttu hlutverki heilsugæslunnar, ekki síst störfum og vinnuumhverfi heimilislækna. Hins vegar nýju hlutverki hjúkrunarfræðingar og ljósmæðra, sem að undangengnu sérstöku námsskeiði eiga að gefa þeim löglegan rétt á að ávísa getnaðarvarnarhormónum til ungra stúlkna sem byrjaðar eru að stunda kynlíf, m.a. skólahjúkrunarfræðingum í grunnskólunum. Frá allt að 11 ára aldri eins og fram hefur komið í viðtölum og sem í mínum huga telst barnsaldur. Jafnvel án vitundar foreldra og væntanlega fylgja margar vinkonur á eftir. Viðtal var við skólahjúkrunarfræðing í Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu og við landlæknir af þessu tilefni í lok síðustu viku.

Í viðtali við Smuguna í fyrir helgi lét svo Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra  hafa eftir sér eftirfarandi innlegg til málsins; „Og ég leyfi mér bara að fullyrða að margir í þessum stéttum eru ekkert síður undirbúnir til að fjalla um þetta mál heldur en sumir af þessum læknum sem eru þarna að koma inn, með fullri virðingu fyrir þeim. Þetta er líka spurning um að heilsugæslan verði teymisvinna þannig að menn vinni saman. Og í dag er þetta þannig að endurútgáfa á sumum lyfjaávísunum er ekki bara beint frá læknum. Þetta er líka kjarabarátta að sumu leyti. Við skulum bara taka þetta eins og þetta er. Þetta er bara mjög góð umræða til að meta hvernig við getum aukið aðgengi almennings að þjónustunni á þeim stað þar sem hún er best veitt. “

Þar sem þetta er „góð umræða“ vil ég halda áfram með hana frá því sem frá var horfið fyrir viku síðan. Rétt er að byrja að benda aftur á að læknar eru í 12-14 ára námi til að tileinka sér fyrst og fremst sjúkdómafræði og lyfjafræði. Hormónalyf geta haft alvarlegar aukaverkanir ef ekki er gáð að heilsufarinu almennt og annarri lyfjanotkun á sama tíma. Val á réttu hormónalyfjunum og fræðsla að umgangast p-pilluna eins og hvert annað lyf er því afar mikilvægur boðskapur til ungra stúlkna. Ekki síst þegar þessum lyfjum er ávísað í fyrsta sinn og að þær skilji vel hvað að baki býr. Þessi ákveðna ávísun er líka mikilvæg í tengslamyndun við ungar stúlkur, þar sem ræða má marga aðra góða hluti í leiðinni í viðtalinu við lækninn sinn,  sem e.t.v. smá veganesti út í hið flókna líf. Meðal annars fræðsla um alla kynsjúkdómana sem leynast bak við hornið . Mikilvægi þess að nota smokkinn við öll skyndikynni og Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) leggur hvað mesta áherslu á. Helst að hafa smokkinn ókeypis. Sem sagt meiri fræðslu þar sem margir koma að málum, alls ekki síst skólahjúkrunarfræðingarnir. Eins læknanemar og sem hafa reyndar þegar gert í samtökum sínum, Ástráði, með góðum árangri í mörg ár.

Varðandi hugmyndir velferðarráðherra um frekari útþynningnu á starfi heimilislæknisins sem fellst í frumvarpinu nú og fram kemur í orðum hans hér að ofan þar sem hann segir að heimilislæknar séu nú í einhverskonar kjarabaráttu, verður að nefna nokkrar staðreyndir því til andmælis. Uppbygging heilsugæslunnar á sjálfu höfuðborgarsvæðinu hefur verið látin sitja á hakanum sl. ártatugi og sem mikið hefur verið rætt um og skrifað. Verulega þyrfti því að styrkja hana og ekki síst fjölga heimilislæknum til að hún geti staðið undir alþjóðlegum skuldbyndingum um klínísk vinnubrögð og til að hún geti farið eftir viðurkenndum alþjóðlegum gæðastöðlum varðandi úrlausnir, eins og lyfjaávísanir í hinum ýmsu lyfjaflokkum. Samráðsleysi stjórnvalda og viðhorf til starfs heimilislæknisins í dag verður hins vegar því miður ekki til að auka áhuga ungra lækna að sérnámi í heimilislækningum. Þetta kalla ég frekar tilvistarkreppu en kjarabaráttu.

Til að upplýsa velferðarráðherra nánar og ef til vill gleðja hann aðeins í leiðinni, að þá má fullyrða að furðu gott starf sé samt unnið miðað við afar erfiðar aðstæður í heilsugæslunni í dag. Þrátt fyrir allt og að álagið sé allt of mikið og vissulega megi margt bæta, m.a. með meiru samráði. Um þetta eru flestir sammála. Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) hefur fyrir löngu mótað stefnu í fjölskylduheilbrigði (1994) auk þessa að hafa gefið út staðal um uppbyggingu sérfræðináms í heimilislækningum sem tekur a.m.k. 4 ár og starfsaðstöðu á heilsugæslustöðvum. Þar sem teymisvinna er lykilatriðið og sem ráðherrann minntist á. Að hluta vegna skorts á uppbyggingunni á höfuðborgarsvæðinu og allt of lítilli fjölgun heimilislækna, hefur hins vegar orðið að leysa mörg vandamál sem ættu að tilheyra heilsugæslunni á bráðamóttökum og grípa oftar til bráðaúrlausna en æskilegt getur talist, svo sem lyfjaávísana hverskonar. Sem undirritaður skal vera fyrstur til að viðurkenna. Afleiðingar af mikil notkun sýklalyfja meðal barna hér á landi hefur t.d. verið eitt skýrasta dæmið sem af þessu hefur leitt og bent hefur verið ítrekað á sl. tvo áratugi. Án mikilla eða góðra undirtekta stjórnvalda eða með ósk um samvinnu til að laga. Til dæmis í baráttunni við sýklalyfjaónæmið og skynsamlega notkun sýklalyfja sem ég þekki hvað best til.

Frekari útþynnig er nú að færa lyfjaávísanir á torgin og yfir til skólaheilsugæslunnar og skólahjúkrunarfræðinga sem þegar hafa nóg á sinni könnu, eftir því sem ég best get séð, enda unnið sem skólalæknir í grunnskóla í meira en 20 ár. Aðilar sem hafa engan veginn sambærilega þekkingu á lyfjum og sjúkdómum og læknar, eðli málsins samkvæmt. Þeir sem það vilja geta hins vegar farið í læknisfræði. Og gleymum ekki að hér eiga börn og unglingar stærstan hlut að máli. Ekki læknarnir sem slíkir eða hjúkrunarfræðingarnir.

Varðandi lyfjamálin og ávísanavenjur lækna almennt og hvað betur má fara, hefur ítrekað verið bent á ýmislegt, m.a. með bréfum til fyrrverandi tveggja heilbrigðisráðherra. Bréfunum sem ekki var svarað. Aðilar sem ekki hafa viljað ræða málin við heilsugæsluna, þótt jafnvel heilsuhrun blasir við. Eins og nú vegna aukinnar hættu á alvarlegra sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvaldanna hér á landi næstu misseri. Og sem tengist líka baráttunni gegn kynsjúkdómunum.

Þrátt fyrir áratuga gæðaþróun heilsugæslunnar sjálfrar, hvernig best er að standa að lyfjanotkun almennt og þar sem mikil reynsla hefur skapast. Hins vegar eru skipaðar nefndir á bak við tjöldin án aðkomu heimilislækna, eins og er varðaði undirbúning fyrir þetta ákveðna frumvarp velferðarráðherra nú. Þrátt fyrir upphaflegan góðan ásetning um að reyna að bæta kynheilbrigði ungs fólks, en sem síðar á einhverjum tímapunkti snerist um sérhagsmuni ákveðinna heilbrigðisstétta. Sem lýtur að sérstökum ávísanarétti hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á hormónalyf m.a. fyrir ungar stúlkur og engar sérstakar forsendur eru fyrir hendi hér á landi. Sérstaklega ef litið er til fjölda ótímabærra þungana ungra stúlkna á Íslandi, samanborðið við nágranalöndin. Frumvarp sem tekur heldur ekki á því mikilvægasta sem er ódýrt aðgengi að getnaðarvörnum og öruggari smitvörnum gegn kynsjúkdómum, m.a. með auðveldu aðgengi að smokknum. Því vil ég kalla tillögur velferðarráðherra nú til alþingis frekar frumhlaup en skynsamlegt frumvarp til nýrra laga, og sem bæta á heilbrigði ungra stúlkna í dag.

http://ruv.is/frett/hjukrunarfraedingar-avisi-pillunni

http://ruv.is/sarpurinn/kastljos/16032012/eiga-hjukrunarfr-ad-avisa-getnadarvarnarpillunni

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/03/11/laeknisfraedin-a-althingi/

 http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/02/11/graena-ljosid-2/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn