Föstudagur 17.08.2012 - 14:13 - FB ummæli ()

Stórir áfangar og lítil skref

Göngur á ókunnugum slóðum er mitt uppáhald, ekki síst til að geta séð landið frá nýjum og ólíkum sjónarhól. Þegar tindarnir á fjöllunum reynast upphafið að nýju ævintýri og heimurinn tekur á sig nýjar myndir. Ég man vel daginn 21. júlí 1969 þegar ég var í sveit og fréttir bárust um alla heimsbyggðina að Ameríkani (Neil Armstrong) væri búinn að stíga fyrstur manna á tunglið. „Yfirgengileg“ vísindalegt afrek í öðrum heimi, sem sannaði hverjir væru fremstir og bestir. Að minnsta kosti í mínum huga þá. Lítið fyrir geimfarann, en stórt fyrir mannkynið eins og sagt var. Varla nokkur feilnóta og framúrskarandi skýrar myndir teknar, þessu öllu til sönnunar. Væntingar um framhaldið voru líka miklar og menn spáðu jafnvel lífi á reikisstjörnunni Mars sem þyrfti að finna.

Ég hef alltaf viljað getað trúað mannkynssögunni, þótt margsannað sé að lygar hafi verið notaðar til að gæta þjóðaröryggis og efnahagslegra hagsmuna af ýmsum toga gegnum aldirnar. Pólitískra hagsmuna sem ná yfir allt annað, og réttlæta að sannleikurinn nái ekki fram að ganga, fyrr en þá ef til vill löngu síðar. Um mikilvægi þýðingar Bandaríkjamanna á tunglgöngunni fyrir ímynd sína efast enginn. Hvað ef síðar hefði komið í ljós að tunglgangan væri sviðsett í áróðurstilgangi og sem sumir hafa jafnvel haldið fram, allt til dagsins í dag? Hvað hefðu Bandaríkjamenn verið tilbúnir að fórna miklu til að ekki kæmist upp um leyndarmál sem breytt hefur gangi sögunnar? En sannleikurinn er oft lyginni líkust og oft höfum við líka séð heimsmyndina hrynja þegar hann verður okkur loks ljós.

Ef maður hugsar samt í dag, hve ófullkomið mannlífið er í mörgum löndum og hvað tæknin hjálpar okkur oft lítið, hlýtur tunglgangan fyrir hálfri öld að virka hálf fjarstæðukennd. En nú berast aftur myndir utan úr geimnum, frá vitbílnum Curiosity á Mars sem fáir efast um að séu sannar. Af sandi, urð og grjóti sem er alls ekki frábrugðið því íslenska. Sagan ein sker hins vegar endalega úr um mikilvægi ferðanna, eins og um ferðir sjósiglingaþjóðanna á öldum áður. Jafnvel ferðir forfeðra okkar, því án þeirra værum við ekki til sem þjóð.

Ofurtrú á framfarir, tæknina og ókannaða heima er okkur sennilega í blóð borin, ásamt hetjudýrkun hverskonar. Samsvörun við nútíðina eru önnur hátæknivísindi, ekki síst á heilbrigðissviði. Kraftaverk t.d. með tilkomu nýrra bólusetninga og framfara á skurðlækna- og gjörgæslusviðum. Þar sem margir geta þurft að vera tengdir tækjum og tólum á allt annan hátt en geimfararnir voru á sínum tíma. Eins meiri skilningi á tengslum genanna okkar og umhverfi sem mestu máli skiptir. Oft hættir okkur þannig að gleyma grunninum og því sjálfsagðasta, sem kostar auk þess miklu minna.

Heimurinn okkar er allavega ekki svarthvítur eins og á tunglinu, eða gulur eins og á Mars, heldur grænn, hlýr og kunnuglegur ef betur er að gáð, jafnvel í öllum regnboganslitum og við horfum vel í kringum okkur. Mannleg samskipti byggja þannig á árþúsunda þróun í litlum skrefum, ekki þeim stóru. Líka hvernig við yfir höfuð komumst af sem lítil þjóð, oft í harðbýlu landi. Heilsugæsla í dag byggir á þeirri þróun svo og félagsleg hjálp og sálgæsla. Mikilvægasti þátturinn í þróun menningar okkar og lista.

Skilningur á mikilvægi hreyfingar er í dag lítil nærvísindi, en sem skiptir allt mannkynið miklu máli. Sem ásamt aðgangi að hollri fæðu, góðu vatni og hreinu lofti tryggir best líkamlega heilsu. Nokkuð sem Íslendingar eiga nóg af, en sem hreyfa sig allt of lítið og fitna nú um hóf fram. Miklu mikilvægari vettvangur vísinda fyrir okkur í dag en nokkur skref á tunglinu eða ökutúr á Mars. Sem samt blæs í okkur trú á vísindin og eykur bjartsýni á mátt mannsins um ókomna framtíð.

En mikilvægi litlu skrefanna eru að minnsta kosti sönn hjá hverju og einu okkar og á þau vísindi getum við alltaf treyst. Hátíðin Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþonið er til marks um mikilvægi þessara skrefa, í okkar eigin lífi. Þar sem frelsið, gleðin og hreystin eru í fyrirrúmi. Líka til að minnast mikilvægi göngu þjóðarinnar gegnum aldirnar og sameiginlegs menningararfs okkar allra.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn