Miðvikudagur 16.01.2013 - 21:45 - FB ummæli ()

Svipbrigði með landi og þjóð

Eftir nokkuð langt starf í heilsugæslu og víðar í heilbrigðisþjónustunni hef ég náð að kynnast þjóðinni frá ólíkum landshornum nokkuð náið á annan hátt. Kynnst aðeins samnefnara í hinni íslensku sál ef svo má segja, en einnig mörgum ólíkum sérkennum og eiginleikum. Oft dugnaði, nægjusemi og æðruleysi, en líka því þveröfuga og öfgafulla. Ekkert síður þó eins og kemur fram í þjóðfélagsumræðunni og stjórnmálunum, en hjá einstaklingunum sjálfum.

Hugmyndin að þessum litla pistli vaknaði á Ströndum nú um áramótin og þegar ég var mikið einn og fékk tíma til að dásama stórfengleika landsins okkar og gleyma læknisfræðinni stutta stund. Hafið, firðina og strendurnar. Öll fjöllin og heiðarnar, allt með sínum sérkennum, en samt svo ótrúlega líkt hverju öðru. Þegar snjóslæðan lá jafnt yfir öllu nema sjónum og foldin fékk sinn einslita vetrarlit um leið og hlýnaði,  jafnt hátt upp allsstaðar, frá fjörum til fjalla. Strendurnar engu að síður víða stórgerðar með björgum fram og sem brimið dundi á. Það eina sem heyðist þar fyrir utan var kvakið í sjávarfuglinum og sem heldur sig gjarnan í þyrpingum úti á sjónum eða í flæðamálinu. Eins og við mennirnir í litlu sjávarplássunum.

Misvitrar ákvarðanir mannanna er hins vegar stundum eins og kvak vargfuglanna sem mest heyrist í. Dægurþras, en þar sem heildarmyndina vantar. Sögumaðurinn skynjaði þessa vídd og hina tilbúnu veröld í þéttbýlinu að minnsta kosti betur en oft áður.

Og norðanbálið, í snjóbyl á Stöndum, er engu líkt. Ekki hviður, heldur stöðugt ískalt bál sem hélar allt og sem gerir snjó að klaka og brynjar híbýli og vagna. Slítur niður rafmagnslínur og brýtur staura eins og að þeir væru eldspýtur. Þá skilur maður á annan hátt skapofsann sem fylgt getur sumum og þegar náttúran, eins og mennirnir, fá á sig óviðkunnanlegan blæ. Þó ekkert á við misvitrar varanlegar ákvarðanir mannanna sem kelur oft hjarta og rífur niður í stað þess að byggja upp.

Á allt annan hátt er samlíkingin, í snjódrífu til fjalla í algerri kyrrð og þegar freðin jörðin rennur saman við hvítan himininn. Þegar aðeins stakir klettar og grjót standa upp úr grámanum og svo einstaka manneskjur á gangi. Önnur svipbrigði í fjarska sem eiga sér sterkari samnefnara og samleið hjá landi og þjóð en flest annað. Sem einu sinni gerði okkur að því sem við vorum, en erum mörg löngu búin að gleyma.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn