Þriðjudagur 12.03.2013 - 09:04 - FB ummæli ()

Vér göngum svo léttir í lundu….

Marsmánuður er fyrirboði vorsins. Sól hækkar hratt á lofti og við njótum útiverunnar meir en á köldum og dimmum vetrarmánuðunum á undan. Við gleðjumst í hjartanu og hlökkum til sumarsins. Staðreyndir sem breyta samt ekki lífins gangi hjá okkur strákunum og sem erum hvort sem er oftast glaðir. Við tökum allir þátt í mottumarsinum á einn eða annan hátt, en nú með lúðrablæstri og söng.

Þrátt fyrir að íslenskir karlar verða allra Evrópuþjóða elstir, greinast hátt í áttahundruð með krabbamein af mismunadi toga og tæplega þriðjungur deyr af þeirra völdum fyrir aldur fram. Tala sem má lækka um þriðjung ef tímalega er gripið í tauminn, eða skulum við segja af þessu tilefni, um sjálfan punginn. Eitt algengasta krabbameinið þeirra finnst þá fyrr en ella, krabbameinið í sjálfum eistunum. Skilaboðin verða varla skýrari og að þau þurfi að passa og þeim ber að fagna.

Í fjórða sinn í ár er þannig hvatt til árvekni gegn krabbameinum í eistum með alþjóðlegu heilsuátaki sem við köllum „mottumarsinn“. Af þessu tilefni söfnum við ekki bara fé til góðs málefnis, heldur við karlarnir skeggi og skerpum þannig átakið um leið og sjálfa karlímyndina. Krabbameinið tengist því miður aðeins að hluta lífsstíl okkar, eins og flest önnur krabbamein gera, og því er enginn óhultur. Marsinn er því alltaf gott tilefni til áminningar um hvað árvekni um eigin heilsu skiptir miklu máli, um leið og við göngum gegnum lífið, léttir í lundu.

Eftir því sem aldurinn færist yfir, verða öll krabbamein og leitin að þeim fyrirferðameiri í lífi okkar allra, kvenna og karla. Oftast greinast þau aðeins eftir ítarlegar rannsóknir og tilefnum hverju sinni, en líka stundum með kembileit hjá einkennalausum. Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands leitar þannig að einkennalausum krabbameinum hjá konum í brjóstum og leghálsi. En allra síst má slík skimun gefa falskt öryggi, draga úr eigin árvekni og jafnvel leiða til skertra lífsgæða eins og t.d. þegar skimað er eftir algengasta krabbameini karla, blöðruhálskirtilskrabbameininu og eingöngu er stuðst við PSA gildi í blóði. Því er okkur körlum meiri vandi á höndum og vanda þarf aðferðirnar.

Oftar ráðum við ferðinni mikið sjálf. Reykingar fólks er skýrt dæmi um hegðun sem aldrei má láta fara forgörðum að takast á við, enda aldrei of seint að hætta. Tengja jafnvel vægustu einkenni reykingasjúkdómsins, hóstanum, við þá miklu áhættu sem að baki býr. Þegar árin líða og hóstinn getur orðið blóðugur eða þegar æðarnar stíflast. Þetta heita fyrsta- og annarsstigs forvarnir og sem gilda um flesta nútímasjúkdóma okkar mannanna. Líka gegn nýjum og algjörlega tilbúnum sjúkdómsmyndum og sem villa okkur sýn í seinni tíð. Einkenni og heiti sem við vitum ekki hvernig á að meðhöndla og þreyfa. Í brjóstum þúsunda kvenna á Íslandi með sílikonpoka í brjóstunum sem eru farnir að leka og sem geta fengið m.a. sílikoneitla í holhendur.

Eitt af lykilhlutverkum heilsugæslunnar eru forvarnir á öllum stigum, ekki síst að tengja þekktar áhættur á að fá ákveðna sjúkdóma við lífstílinn. Eftir tilefnum og heimsóknum hverju sinni. Reyklaust umhverfi, meiri hreyfingi, hollara mataræði og nauðsynlegar bólusetningar. Jafnvel bólusetningar gegn sjálfum krabbameinunum og sem nú er farið að bjóða ungum stúlkum hér á landi í grunnskólunum með HPV bólusetningunni. Og þótt krabbameinsmeðferðir séu á höndum sérfræðinga á mismunandi sviðum læknisfræðinnar, ekki síst krabbameinslækna, er stuðningur heilsugæslunnar mikilvægur og síðan jafnvel stór hluti af batanum. Eftirmeðferðinni sem litast af varnarsókn og lífstíllinn er sterkasta vopnið.

Á einstakan hátt hefur mottumarsinn gert viðkvæmt og sjálflægt feimnismál að opinskáu umræðuefni sem kemur öllum til góðs, ekki síst almennri heilsugæslu. Að allir geta nú rætt hispurslaust um vandann og haft jafnvel gaman af. Að safna „mottu“ í dag er merki samstöðu og karlmannlegri skilaboðunum verður vart betur komið til skila. Hjá „sterkara“ kyninu sem seint hefur viljað játa sig sigrað og sem gjarnan vill marsera gegnum lífið með lúðraþyt og söng. Sem körlum er einum lagið.

http://www.krabb.is/Um-felagid/Frettir/nanar/6190/aminning-um-ad-vera-abyrg-fyrir-lifi-okkar

(áður birt á blogginu 1.3.2013)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn