Miðvikudagur 01.01.2014 - 22:02 - FB ummæli ()

Hreinni ímynd um áramót

Útsýnisskífan á Esjunni 28.12.2013

Um áramót ber fegurð landsins og óspillt náttúra oft á góma. Við leyfum okkur samt að brenna út gamla árið til að geta notið þess nýja betur daginn eftir, á hreinum og tærum nýársdegi. Við virðumst jafnvel sjálf hafa gengið í gegnum hreinsunareld, þótt ekkert hafi í raun breyst nema að ný loforð voru gefin. Að vera nú betri við okkur sjálf hvað heilsuna varðar, sem og sjálfa þjóðina sem stjórnmálamennirnir lofa í sínum áramótaræðum. Boða jafnvel ný ævintýr þar sem olíudraumurinn á að geta orðið að veruleika. Á sama tíma hins vegar og blóði sjálfrar íslenskrar náttúru verður hugsanlega fórnað.

Ryk- og sótmengun er sú mengun sem mest er fjallað um hér á landi, enda vel sýnileg, ásamt díoxín-menguninni sem mikið var til umræðu um áramótin í fyrra, tengt áramótabrennum og sorpbrennslu. Ryk- og sótmengun er hins vegar miklu minna skaðleg þótt ertandi sé, en hin svokallaða örkornamengun sem er ósýnileg með öllu. Kemísk örefni (nano products) sem berast auðveldlega út í andrúmsloftið við brennslu eldsneytis og frá orkufrekum iðnaði. Korn sem eru því varasamari sem þau eru minni og smjúga auðveldar gegnum hold og bein og smygla sér oft inn í frumurnar eins og Trójuhestar. Og ósýnilegu efnin eru miklu fleiri.

Ósýnileg lífræn mengun tengist því miður oft hreinustu ímynd okkar af daglegu neysluvenjum. Hlutum sem við erum í mikilli snertingu við alla daga og læðst geta í fæðuna og tæra vatnið okkar. T.d. með ýmsum hreinlætisvörum, blautklútum og snyrtivörum, sem og úr neytendapakkningum og plastvörum sem við viljum hafa sem mýkstar og meðfærilegastar. Þetta á ekki síst við um nærumhverfi barna, ungbarnavörur hverskonar, leikföng og jafnvel fatnað. Mikil vitundarvakning hefur engu að síður orðið sl. ár um óhollustu þessara efna í okkar umhverfi og sem við áður töldum svo örugg. Efni sem mikilvægt er takmarka meira en gert hefur verið og þar sem fjölmiðlarnir gætu verið miklu duglegri að kynna.

Einna alvarlegust er mengun hormónatruflandi efna eða hormónahermum eins og þau eru oft kölluð (endocrine disruptors, endcrine mimics). Þalötin (phthalöt) sem Sigmundur Guðbjarnason prófessor hefur gert vel grein fyrir áhættunni á, ”Frá vöggu til grafar”. Alkyl phenolar, einkum bisphenol A, eru þar öflugir hormónahermar og taldir eru ógna frjósemi og heilsu manna hvað mest í dag. Á þessi efni voru sett notkunarbann í Danmörku af gefnu tilefni með lögum snemma á síðasta ári. Áður var búið að banna notkun þessara efna í pela og snuð ungbarna af augljósum ástæðum, en ekki hér heima.

onsÍ þessu samhengi má ekki heldur gleyma að minnast á lífrænu kolefnasameindirnar, PFC efnin svokölluðu, sem safnast upp í sjónum og síðan í sjálfu lífríkinu. Mest í hvölum eins og grindhvelum sem eru efstir í fæðukeðjunni, næstir á undan okkur mönnunum. Eiturefni sem tengjast vatnsfælandi eiginleikum á yfirborði allskonar eldhústækja með svokallaðri teflonhúð eða í yfirborðsfilmu á örbylgjupappírsumbúðum. Efni sem rannsóknir í Færeyjum hafa sýnt sig geta haft mikil neikvæð áhrif á ónæmiskerfið okkar, ekki síst dregið úr þroska þess hjá fóstrum í móðurkviði og að ungbörn svari vel bólusetningum sínum.

Allskonar önnur varasöm efni og þungmálmar hafa auk þess fundist í fegrunarvörum á sl. árum. Lög og reglugerðir um eftirlit með þessum efnum hefur tilfinnanlega vantað svo ekki sé talað um litarefnin sem eru notuð til húðflúrs. Alvarlegar sýkingar hafa þegar komið upp í Bandaríkjunum sem rekja má til þessara lita frá hinum ýmsu framleiðendum og þar sem notað hefur verið ósótthreinsað vatn til þynningar. Eins um möguleikana á mengun með illa fengnu eða framleiddri matvöru og kjöti, sem dæmi sanna að geta innihaldið allskonar lyf og eiturefni og tíðrætt hefur verið um á árinu.

Eins reyndust hundruð þúsunda kvenna hafa fengið falsaða lækningavörur á sl. árum til fegrunarauka, svokallaða PIP brjóstapúða og sem innihéldu iðnaðarsílikon með lífrænum leysiefnum. Íhlutir líka í líkama hundruða íslenskra kvenna ásamt þúsunda annarra af öðrum misvelgerðum gerðum, til ævilangrar notkunar. Skelin sjálf í PIP púðunum reyndist hins vegar lélegri og tærðist upp á styttri tíma en í öðrum gerðum brjóstapúða og sem margir voru líka farnir að leka innan fárra ára. Hvert allt gelið fer að lokum og hvað verður um plastefnin sem leysast upp úr skeljunum, er mönnum hins vegar en í dag hulin ráðgáta eða hvað! Hinsvegar hafa orðið til nýyrði í íslenskri tungu og læknamáli, svo sem „sílikonsnjókoma“ í holhöndum kvenna og „sílikonrif“ með ómældum verkjum, enda upplýsingar vandfengnar vegna persónuverndaákvæða.

Banna þarf með lögum notkun allra hættulegra efna í okkar daglega nærumhverfi og sem við fáum ekki með góðu móti forðast. Danir hafa sýnt frumkvæði í þessum efnum og bannað með lögum notkun á 4 hættulegustu hormónahermunum (þalötunum) í neytendaplastvörum, langt á undan öðrum Evrópuþjóðum. Miklu nánara eftirlit þarf eins með auglýsingum og sölu á öllum svokölluðum heilsuvörum, fæðubótarefnum, snyrtivörum og litarefnum sem eru ætluð í okkur og á, og þar sem víða geta líka leynst maðkar, jafnvel í sjálfum apótekunum. Ábyrgð fjölmiðla ætti að vera meiri, en sem því miður eru oft óábyrgir vegna tengsla við markaðsöflin og auglýsingarnar. Ekkert síður þarf að bæta eftirlit með lækninga- og hjúkrunarvörum og dæmi sanna að hafur brugðist eða „vörur“ komist á markað á fölskum forsendum. Sama má reyndar segja um röntgengeislana sem notaðir eru stundum óvarlega og sumir skreyta sig með í auglýsingaskyni.

Gleðilegt ár

http://www.euractiv.com/consumers/danish-minister-bans-endocrine-d-news-514424

http://www.dr.dk/DR2/VidenOm/Programmer/Viden+Om+med+Ann+Marker/Programmerne/2010/11/16162920.htm

http://www.mst.dk/Virksomhed_og_myndighed/Kemikalier/Fokus+paa+saerlige+stoffer/Hormonforstyrrende+stoffer/

http://www.medscape.com/viewarticle/773493

http://www.ewg.org/healthyhometips/dangersofteflon

(Áður birt á DV blogginu 30.12.2013)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn