Mánudagur 06.01.2014 - 09:37 - FB ummæli ()

Hvíti hvalurinn og skipsstjórinn Ahab

Skáldsagan um hvalinn Moby-Dick á sér ekki aðeins margar samsvaranir í heimsbókmenntunum, heldur einnig í íslenskum veruleika. Við vorum einu sinni mikil hvalveiðiþjóð og þekktum norðurhöfin og hætturnar þar þjóða best.

Samsvörunin er enn raunverulegri ef við rifjum upp hvernig sjálfri þjóðarskútunni var siglt um árið. En hver er boðskapurinn okkar í dag með sögunni um hval hvalanna og örlög skipstjórans Ahab sem dró alla áhafnameðlimi sína með sér í vitfirringuna? Eftir að hafa náð markmiði sínu og sigrað heiminn, eða svo hélt hann eitt andartak.

Skáldsöguna frægu skrifaði Herman Melville 1851, um hvalfangara sem átti sér bara einn draum og sem var að veiða hvíta hvalinn Moby-Dick. Hvalveiðiskipið Pequod lagði upp í sína hinstu för með afskaplega ólíka áhafnarmeðlimi frá ýmsum heimshornum, þar á meðal einn frá Íslandi. En skipsstjórinn var mislyndur og hafði aðeins eitt takmark. Að fanga hvíta hvalinn og sem honum tókst að lokum. Endalokin voru hins vegar ömurleg “í kulda eins og bara gerist á Íslandi“ eins og sagt er frá í sögunni. Hann flæktist í skutulreipinu og dróst með hvalnum í hafdjúpið. Sogið á eftir dró með sér hvalveiðibátinn og alla áhafnarmeðlimi nema einn. Alla nema sögumanninn, hinn útskúfaða Ishmael.

En var hvalurinn hvíti fórnarlamb? Samlíkingin gæti þá verið við landið hvíta sem storkar umheiminum og margir reyna að fanga án árangurs. Lítil eyþjóð í viðskiptaólgusjó alþjóðasamfélagsins. Áhafnarmeðlimir hvalveiðibátsins þá fulltrúar almennings, alþingismennirnir. Hver á sínum stað en með sína ábyrgð. Skipsstjórinn forsætisráðherrann, en sem stefnir þjóðarskútunni í glötun, bara til að ná fram kosningaloforðum sínum. Eða jafnvel forsetinn sem einblínir á eigið ágæti og mikilvægi norðurhafa í alþjóðlegu samhengi viðskiptanna. Hvað sem hver tautar eða raular um ástandið á sjálfri þjóðarskútunni og sem veit jafnvel betur.

Sennilega geta allir fundið sér ákveðið hlutverk á hvalveiðiskipinu. Sjálfur hafði einn félagi minn varað mig við að gangast í hlutverk skipsstjórans Ahab með rannsóknaraðferðum mínum og félaga um árið, gegn ríkjandi sýklalyfjaávísunarhefðum og að vissu leiti ofurvaldi í stjórn heilbrigðismála um árabil. Hvíti hvalurinn í mínum huga hefur engu að síður lengi verið sú heilbrigðisógn sem sýklalyfjaónæmið er orðið á Íslandi. Ómarkvissar aðgerðir heilbrigðisyfirvalda, hins vegar veiðiaðferðirnar sem notaðar hafa verið. Bólusetning ein og sér, t.d. gegn stofnum sem eru ónæmir gegn sýklalyfjunum í dag, gagnast ekki til lengdar, meðan aðrir ónæmir bakteríustofnar fjölga sér eða koma í staðin. Vegna óþarfa notkun sýklalyfja þar sem læknirinn sjálfur er jafnvel veiðimaðurinn.

Að stýra vel stjórnsýslumálum á Íslandi er eins og að sigla gegnum ólgusjó. Nauðsynlegt er að skipsstjórinn leiti sér ráðgjafar hjá öllum áhafnameðlimum svo ekki fari illa. Þrákelkni og yfirlátsháttur kann heldur aldrei góðri lukku að stýra. Að fordæma nú opinbera netumræðu um mikilvæg stefnumál á Íslandi og sem forsetinn gerði í sjálfu áramótaávarpinu, um leið og hann ásakaði þá sem fyrir slíkri umræðu standa vígamenn, er sennilega enn ein misvitur ávísun skipsstjórans og að allir geti þá dregist niður í ískalt hafið með honum að lokum. Allir nema þá e.t.v. hinn útskúfaði málglaði Ishmael.

(Áður birt á DV blogginu 5.1.2014)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn