Fimmtudagur 30.01.2014 - 23:30 - FB ummæli ()

Fuglaflensur og uppruni kjötsins

Fuglaflensa sem breytist í heimsfaraldur inflúensu er sennilega sá smitsjúkdómur sem við ættum helst að hræðast í dag og reyna að búa okkur sem best undir að mæta með öllum ráðum. Alvarlegir faraldrar sem mannkynssagan sýnir að hafa endurtekið sig með mislöngum hléum. Aðstæður í dag, góðar samgöngur og krafan um stærri markaðssvæði og mikið er rætt um nú hér á landi, þar sem jafnvel uppruni kjötsins er óljós, gera þessa hættu miklu raunverulegri en áður.

Samkvæmt nýjustu fréttum hefur fuglaflensan H7N9 aftur skotið upp kollinum í Kína og nú í þremur einstaklingum innan sömu fjölskyldunnar, ungu pari og nokkrum dögum síðar í dóttur þeirra, og sem sýnir líklega aukinn smithæfileika að veiran smitist líka á milli manna. Fuglaflensufaraldurinn H7N9 sem greinst hefur á stóru svæði í austurhluta Kína sl. ár, hefur sýkt yfir 100 manns, þar af hefur um fjórðungur dáið þrátt fyrir hámarksmeðferð á sjúkrahúsum. Heilbrigðisyfirvöld hafa þegar hafið rannsóknir til undirbúnings á framleiðslu bóluefnis sem nota mætti gegn fuglaflensunni og sem vonandi skilar sér tímalega. Strax og um staðfestan heimsfaraldur fuglaflensuveiru milli manna væri að ræða, færi allt úr skorðum í samgöngum milli landa og þar sem heimurinn allur færi í raun í sóttkví.

Fuglaflensur, eins og nafnið ber með sér, eru fyrst og fremst smitsjúkdómur inflúensu meðal hænsnfugla og sem lifa oft í þéttu og þröngu sambýli, líka með mönnum. Sýking meðal manna sem enn sem komið er mest frá fugli í mann er í mörgum tilvikum bráðdrepandi, dánartíðnin á milli 10-50%. Alvarlegast við þessar fréttir nú er hugsanlega aukin smithætta manna á milli á sama tíma og einkennin eru duldari og vægari hjá sjálfum fuglunum og því erfiðara að forðast smitleiðir jafnvel á stórum landsvæðum.

Talið er að sýkingarmáttur (virulences) veirunnar veikist meira ef hún fer að smitast auðveldlega á milli manna og sem er þá kostnaður veirunnar við að stökkbreytast. Oftast er um að ræða breytingar á heamagglutin próteinmótefnavakanum (H) í hjúp veirunnar. Miklu langdregnari breytingar má greina með venjulega árstíðarbundna inflúensu sem er þúsundfalt vægari. Oftast aðlagast þó fuglaflensuvírusinn meira í þá veru að getað smitað önnur dýr á undan smiti í menn, sem oft eru í nánu sambýli við fiðurfé. Vefjagerð svína líkist hins vegar meira vefjagerð okkar mannanna og sem er talið skýra þá þróun að flestir nýir inflúensuveirustofnar manna ganga  áður í gegnum. Svínin virka þá sem millihýsill í þeirri veiruþróun að auka smithæfni veirunnar hjá mönnum, með frekari stökkbreytingum í hjúp veirunnar.

Skemmst er að minnast svínaflensufaraldursins fyrir 4 árum, sem síðar breyttist í heimsfaraldur inflúensu manna á nokkrum mánuðum. Svipað var talið hafa gerst þegar Spænska veikin gekk yfir heimsbyggðina fyrir tæpri öld síðan. Hröð framleiðsla bóluefna í svínaflensufaraldrinum um árið bjargaði hins vegar miklu og gerði faraldurinn miklu viðráðanlegri en annars hefði orðið. Enginn faraldur er heldur eins, og erfitt getur verið að spá um framvinduna þegar nýr faraldur breiðist út. Sem betur fer varð svínaflensufaraldurinn ekki alveg jafn alvarlegur og menn óttuðust. Verst af öllu er þó sennilega ef fuglaflensuvírus stökkbreytist beint, þannig að hann geti farið að smitast auðveldlega á milli manna eins og áður sagði og verði að heimsfaraldri.

Það sérkennilegasta við hættuna á smiti fuglaflensu í menn og alvarlegustu faraldra inflúensu, eru óeðlileg viðbrögð í ónæmiskerfi mannsins. Oft veikjast þannig þeir mest sem eru sterkastir fyrir á besta aldri, með ofursvörun og bólgustormum, m.a. í lungunum. Þetta skýrði dauða margra í Spænsku veikinni sem jafnvel gat verið bráðdrepandi á nokkrum klukkustundum frá því menn veiktust.

Enn og aftur hræðast menn nú útbreiðslu fuglaflensu og að hún geti breyst í heimsfaraldur inflúensu. Allnokkrir takmarkaðir fuglaflensufaraldrar hafa þó þegar gengið yfir á síðustu áratugum, aðallega í Asíu en líka víðar, jafnvel í Evrópu, án þess að þeir hafi breyst í heimsfaraldur og sem allir vona auðvitað í dag. Í flestum þessara faraldra hefur aðeins verið um nokkra tugi sýktra einstaklinga að ræða á mjög takmörkuðum landsvæðum, og sem náð hefur verið að hefta með slátrun fiðurfés og takmörkun sölu kjöts auk einangrun svæða.

Fuglaflensan í Kína sýnir okkur vel hvað smitefni í dýrum getur verið varasamt mönnum og hvað mikilvægt er að vita alltaf um uppruna kjötsins og matvörunnar  sem við látum ofan í okkur. (jafnvel þótt um öndunarfærasýkingu sé að ræða). Eins hvað mikilvægt er að vinna ætíð að góðum forvörnum smitsjúkdóma í flókinni veröld manna og dýra og að nauðsynlegum bólusetningum með hjarðónæmi okkar sjálfra í huga.

http://www.aljazeera.com/news/asia-pacific/2014/01/china-high-alert-over-new-bird-flu-cases-201412992057688355.html

(Áður birt á DV blogginu 30.1.2014)

Auglýsing

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn