Þriðjudagur 18.03.2014 - 14:10 - FB ummæli ()

PSA og kembileit að blöðruhálskirtilskrabbameini

mottumars

Í mottumarsinum í ár, eins og í marsmánuði sl. fjögur ár eru karlmenn hvattir til að sýna sérstaka árvekni vegna krabbameina sem allt að þriðjungur þeirra fær að lokum. Þeir þá hvattir til að þreifa eistun, þar sem eitt algengasta krabbameinið getur fundist tímanlega, en vera í raun alltaf vel vakandi gagnvart öllum nýjum sjúkdómseinkennum. Ekkert síður frá lungum og meltingarvegi en þvag- og kynfærum. Reglubundin sjálfskoðun á kynfærum, húð og eitlum er þannig  jafn mikilvæg og hver önnur innri skoðun á lífinu. Helst án stress og feimni sem liggur þó karlmönnum oft nærri. En jafnvel feimnustu menn sjá tækifærið í mottumarsinum og sem annars hefði ekki orðið. Vakningin í forvörnum, sem er mjög vel heppnuð í hópi þeirra sem seint hafa viljað játað sig sigraða, og um leið góð fjáröflunarleið fyrir Krabbameinsfélag Íslands (KÍ) til að geta staðið fyrir nauðsynlegri fræðslu og rannsóknnum á krabbameinum. Meðal annars í betri aðferðum með kembileit að blöðruhálskirtilskrabbameini hjá einkennalausum körlum í framtíðinni, en sem PSA (Prostata Specific Antigen) blóðmæling er ekki. Ein algengasta blóðprufan sem beðið er samt um í heilsugæslunni í dag og sem ég ætla að fjalla um í erindi á málþingi KÍ í tilefni af mottumarsi og blöðruhálskirtilskrabbameininu, algengasta krabbameini karla.

 

prostatacancer

 

Rúmlega tvöhundruð karlmenn greinast á hverju ári á ári með blöðruhálskirtilskrabbamein og tæplega fjórðungur deyr af þess völdum og sem er þá annað algengasta dánarmein af völdum illkynja krabbameina karla. Góðu fréttirnar eru samt þær að þarna sigrum við oftast óvininn eftir að hann vaknar til lífsins, eða að minnsta kosti náum sátt við hann án sérstakrar meðferðar, einkum ef við förum ekki á taugum og fórnum mikilvægum lífsgæðum. Það er þó aldrei karlmennska að stinga hausnum bara í sandinn ef grunur á annað borð vaknar um krabbamein. Um þriðjungur karla getur reiknað með að fá krabbamein, einhvern tímann á lífsleiðinni, eða um 800 á ári. Í dag eru um 5.500 karlar á lífi sem greinst hafa einhvern tímann með krabbamein og rúmlega 60% nýgreindra geta reiknað með að lifa a.m.k. næstu 5 árin, í stað aðeins um fjórðungs fyrir fjörtíu árum síðan.  Það skiptir öllu máli að kynna sér vel veikleika óvinarins ef ráðist er snemma til róttækrar atlögu, en sátt um vopnahlé er stundum besta leiðin. 

Það kostar sitt að eldast og sumar frumur eldast hraðar en aðrar. Krabbamein er heldur ekki alltaf sama og „illvígt krabbamein“ og oft aðeins afleiðing hrörnunar í litningum ákveðinna fruma. Blöðruhálskirtilskrabbamein getur þannig greinst með vefjasýni úr blöðruhálskirtli ef grant er skoðað hjá hvorki meira né minna en 30% karlmanna 50 ára og eldri. Í sumum löndum, eins og Bandaríkjunum, er hlutfall krabbameins í blöðruhálskirtli sem fundið er með smásjárskoðunum á vefjabitum úr kirtlum einkennalausra, enn hærra. Allt að 8% manna á þrítugsaldri greinast þar með slíkar breytingar, 30% manna á fertugsaldri, 50% manna á sextugsaldri og 80% manna á áttræðisaldri. Í mörgum þessara tilfella er PSA hækkað. Ef PSA er t.d. milli 4-10 ng/ml mun eitt af hverjum 5 vefjasýnum úr blöðruhálskirtlunum sýna krabbamein, en ef PSA er > 10 mun í helmingi vefjasýna greinast krabbameinsbreytingar. Hjá flestum karlmönnum munu þær frumur sem líta út sem krabbamein í vefjasýnum hins vegar aldrei dreifast og þess vegna aldrei ógna lífi viðkomandi. Þar af leiðandi hefur snemmfundið PSA lítið sem ekkert forspágildi um lífslíkur þegar upp er staðið og við skulum líta á nánar. 

Almennt hefur verið talið að það þurfi að leita að hækkuðu PSA í 1400 körlum og meðhöndla 50 með krabbamein eftir nánari rannsóknir til að bjarga einu mannslífi. Í nýlegri ástralskri rannsókn, er þó talið að það megi bjarga 2-3 mannslífum fyrir 85 ára aldur fyrir hverja 1000 karla sem taka þátt eftir 60 ára aldur. Tíu sinnum fleiri (28 karlar) greinast hins vegar með krabbamein sem telst hættulegt og fá meðferð  vegna óvissunnar, og þar af helmingur sem fær alvarlegar aukaverkanir af meðferðinni, m.a.getuleysi og þvagleka. 87 karlar munu líka greinast með falska hækkun hvað krabbameinin varðar (krabbamein ekki til staðar) og þar af fær tæplega þriðjungur (28 karlar) misalvarlegar aukaverkanir af vefjasýnatökum úr blöðruhálskirtli. PSA gildi hækkar enda í blóði við margar aðrar breytingar, svo sem bólgur og góðkynja stækkun á blöðruhálskirtlinum.

Okkur vantar þannig sérhæfðari og næmari próf til að greina æxlin, sérstaklega verstu æxlin tímanlega og sem öllu máli skiptir, án fórnarkostnaðar allt of margra. Fórnarkostnaður sem þýðir að meðferð minnkar ekki heildardánartíðni í hópnum sem tekur þátt í kembileit einkennalausra, þegar upp er staðið. Málið snýst því alls ekki um að karlar séu misrétti beittir varðandi krabbameinsleit í blöðruhálskirtli miðað við leit að krabbameinum í leghálsi kvenna eins og sumir hafa haldið fram. Erfðarannsóknir og erfðaráðgjöf fær hins vegar sífellt meira vægi í leitinni, ásamt vonandi nýjum og betri meðferðarúrræðum í framtíðinni.

Því miður er oft erfitt að segja til með vissu með smásjárskoðun á vefjasýni úr blöðruhálskirtli, hvort krabbameinið sé líklegt til að vera lífshættulegt. Ef hins vegar ákveðið er að ráðast strax á óvininn getur fórnarkostnaðurinn oft orðið mikill, enda meðferðin harkaleg. Hún felst m.a. í skurðaðgerðum, geislun, geldingu og lyfjameðferð. Risvandamál á sér stað í meira en helmingi tilvika eftir brottnám blöðruhálskirtils með skurðaðgerð, en aðeins sjaldnar í kjölfar geislunar eingöngu. Getuleysi hefur líka verið lýst í allt að 80% tilvika með androgen-hormónabælingu sem oft er notuð til að halda krabbameinunum niðri, auk þess sem slík meðferð hækkar blóðfitur, veldur þyngdaraukningu og eykur beinúrkölkun. Allt þetta er talið skýra að heildarlifun er óbreytt milli þess hóps sem fer í PSA skimun og sem greinast þá frekar með krabbamein á öllum stigum og þeirra sem velja að sleppa slíkri skimun en leita læknisaðstoðar og eftir einkennum fyrst og fremst.

Annað vandamál með blöðruhálskirtilinn, sem snýr ekki að krabbameini sérstklega, er miklu algengara og sem er góðkynja stækkun (prostata hyperplasia) eftir því sem menn eldast. Með tíðari þvaglátum, næturþvaglátum og að lokum skerðingu á nýrnastarfsemi vegna þvagtregðunnar. Oft þá er líka um PSA hækkun að ræða. Ósanngjarnt er líka að gleyma bólgum í blöðruhálskirtlinum (prostatitis) hjá ungum mönnum í þessari umræðu sem margir (ca. 10%) karlmenn glíma oft við og trufla lífsgæðin töluvert. Mál sem oft eru feimnismál hjá ungum karlmönnum en á ekkert skilt við krabbamein þótt PSA hækkar tímabundið. Ekki þá er síður ástæða til að koma til heimilislæknis og ræða vandamálin sem ungum mönnum liggur mest á hjarta. Þar sem líka má ræða alla lífsstílssjúkdóma og áhættu á að fá önnur krabbamein sem skipta meira máli tengt lífsháttum okkar.

Of mikil fita, dýraprótein og kaloríur í fæðunni,  of lítið grænmeti, baunir, hnetur og fræ (gróf kolvetni), steiktur matur og brasaður svo ekki sé talað um reykingar og mikla áfengisneyslu. Þar sem D-vítamín ásamt omega fitusýrum og jafnvel allskonar ljósefnum (sérstök jurtaefni) eru talin vernda. Eins það sem hressir okkur og bætir daglega, kaffið ásamt hugsanlega öðrum afoxandi efnum. Auðvitað skiptir samt mestu máli að reyna að lifa lífinu með lífsgleðina að leiðarljósi. Ekki í skugga kvíða og óvæntra atburða sem þó því miður geta alltaf orðið. Og gleymum ekki að stærsti óvinurinn í þessu samhengi er nú einu sinni hluti af okkur sjálfum.

Karlar mega ekki fara á límingunum í baráttunni við algengasta krabbameinið bara að því það er krabbamein. Þrátt fyrir áminningarnar sem koma reglulega fram ífjölmiðlum og stundum frá ættingjum og vinum. Áhyggjur og kvíði sem að mörgu leiti er skiljanlegur, en sem getur tekið allt of mikla stjórn á lífinu. Fá má PSA mælingu ef grunur vaknar um hnút eða önnur óljós einkenni. Ef PSA er hækkað ætti að fá ráðgjöf þvagfæraskurðlæknis á framhaldinu m.t.t. frekari rannsókna.

Vanda þarf vel leitaraðferðirnar sem notaðar eru gegn blöðruhálskirtilskrabbameininu og sem auðveldlega geta verið misvísandi. Leita á vegna einkenna frá þvag-og kynfærum, og jafnvel eigin innsæis og ættarsögu. Sjálfsagt er að fá lækni alltaf til að þreifa á blöðruhálskirtlinum ef þvagbunan verður slappari og meta áferð, stærð og eymsli. Stundum má greina hnúta sem vert er að skoða betur hjá þvagfæraskurðlækni sem ásamt krabbameinslæknum, leggja þá línurnar í meðferðinni ef grunur vaknar um illkynja vöxt, oft eftir ómskoðun og rannsóknir með tilliti til útvaxtar og meinvarpa. Í hverju tilviki fyrir sig út frá einkennum og batahorfum. 

 

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/06/04/thad-sem-allir-karlar-vilja-vita/

http://www.uspreventiveservicestaskforce.org/prostatecancerscreening.htm (maí, 2012)

Skimun fyrir Krabbameini í blöðruhálskirtli, Emil L. Sigurðsson, dósent við Heimilislæknisfræði HÍ, Læknablaðið, apríl 2012

Yfirlýsing Landlæknisembættisins vegna PSA-mælinga og krabbameins í blöðruhálskirtli. 23.2.2012

Blöðruhálskirtilskrabbamein og hópleit- allt orkar tvímælis þá er gert er http://www.laeknabladid.is/2009/06/nr/3532

Önnur lesning á blogginu um karlaheilsu og krabbamein:

 http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/02/28/baetum-arvekni-gegn-alvarlegustu-krabbameinunum/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/03/04/ofullkomleikinn-er-baedi-vinur-og-ovinur/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/12/21/adeins-halfur-madur/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/05/27/thad-sem-er-gott-ekki-sist-fyrir-karla/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn