Fimmtudagur 20.03.2014 - 16:20 - FB ummæli ()

Eitt algengasta krabbameinið okkar er kynsjúkdómur

Nú í mottumars, átaks Krabbameinsfélags Íslands um eigin árvekni gegn krabbameinum, er rétt að rifja upp að eitt algengasta krabbameinið hjá báðum kynjum tengist kynsjúkdómi og smiti HPV (Human Papilloma Virus) veirunnar. Um er að ræða krabbamein oft hjá ungu fólki, í leghálsi kvenna og hálsi, koki og endaþarmi, meira hjá körlum. Nú er svo komið að álíka margir greinast með krabbamein tengt þessari HPV veirusýkingu í koki og hálsi, og leghálsi eða um 20 á ári.

Í yfir 70% tilfella eru krabbameinin tengd smiti stofngerða 16 og 18 sem bólusetja má gegn. Smit HPV veirunnar er mjög algeng meðal okkar allra (>80%) og sem tengist kynlífi og hegðun. Margir aðrir stofnar HPV geta auk þess valdið frumubreytingum (hugsanlegum forstigsbreytingum að krabbameinum) í leghálsi og stofnar 6 og 11 eru algengastir að valda kynfæravörtum (condyloma acuminata) sem hvergi finnast í meira mæli á Norðurlöndum en hér á landi.

Nýgengi leghálskrabbameina kvenna á Norðurlöndunum sem oftast (>90% tilfella) tengist HPV veirusýkingu, er um 9 konur af hverjum 100.000. Tíðnin hefur farið lækkandi með góðri krabbameinsleit og sem mun væntanlega lækka enn frekar þegar árangur af bólusetningum ungra stúlkna í dag gegn HPV veirunni fer að skila sér gegn stofnum 16 og 18. Forstigsbreytingarnar finnast hins vegar í miklu oftar en sjálf krabbameininin, eða hjá hátt í 1000 konum á ári og allt að 300 konur fara í  keiluskurð á hverju ári hér á landi vegna þeirra. Þótt leghálskrabbameinseftirlitið verði alltaf  mikilvægt meðal kvenna, má fækka tilfellum forstigsbreytinga um allt að þriðjung og krabbameina um 70%, miklu hraðar, með bólusetningum ungra kvenna gegn stofnum 16 og 18 í tíma. Reyndar bjóða Danir ókeypis bólusetningu til allra kvenna til 26 ára aldurs (frá árinu 2012) til að vinna upp ávinninginn sem fyrst.

Með vaxandi fjölda kvenna sem eru bólusettar fyrir stofnum 16 og 18, eiga hlutfallslega enn fleiri karlar eftir að greinast og deyja með krabbamein í koki, hálsi og endaþarmi. Vaxandi þrýstingur er því á að bólusetja unga drengi gegn þessum stofnum eins og gert er með 11-12 ára stúlkur í grunnskólanaum í dag, ókeypis. Um er að ræða þrjár bólusetningar, fyrst með mánaðar millibili og síðan 6 mán eftir þá fyrstu. Bóluefnið sem notað er í dag hér á landi fyrir ungu stúlkurnar er Cervarix, en með því að velja Gardasil er bólusett einnig geng stofnum 6 og 11 og sem veita þá yfir 90% vörn gegn kynfæravörtum einnig. Slík bólusetning er þegar í dag í boði ókeypis í Ástralíu, en hvergi á Norðurlöndunum eru kynfæravörtur algengari en á Íslandi og sem etv. gefur einnig til kynna um mikið smit HPV veirunnar almennt hér á landi.

Samkynhneigðir drengir eru í sérstökum áhættuhóp og krabbamein í endaþarmi er sífellt að verða algengara út í hinum stóra heimi. Þótt krabbamein almennt séu algengari eftir því sem við eldumst, eu HPV krabbameinin, sérstaklega í hálsi og endaþarmi  illvígust af þeim öllum og þar sem dánartíðnin er hvað hæst. Það er því vel við hæfi að enda Mottumars í ár með því að hvetja líka heilbrigðisyfirvöld að þukla vel á heilbrigðiskerfinu og fjárhyrslunum og bjóða ókeypis upp á þessar bólusetningar, bæði fyrir eldri stúlkur og alla drengi. Um leið og heilbrigðisstarfsfólk hvetur nú til meiri árvekni um kynsjúkdómana almennt og að nota alltaf smokkinn við fyrstu kynni.

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/01/08/hpv-veiran-og-krabbamein-unga-folksins/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/03/17/kynsjukdomasarin-farin-og-tarin/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn