Þriðjudagur 09.09.2014 - 12:22 - FB ummæli ()

Heilsugæsla undir ríkisálögum

Í dag verða ný fjárlög kynnt. Undirritaður getur ekki sagst bíða spenntur eftir að heyra um hlut Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) í ár, frekar en mörg undanfarin ár, og sem hefur endalaust þurft að spara og skera niður. Væntingarnar eru einfaldlega engar í ár. Laun lækna hafa t.d. ekki enn verið leiðrétt að fullu síðan þau voru skert mikið í hruninu um árið, ólíkt laun t.d. sjúkrahúslækna. Miklu munar samt nú í lækkun launakostnaðar HH vegna ólaunaðra fría starfsmann og uppsagna, aðallega lækna sem kjósa í vaxandi mæli vinnu annars staðar, aðallega úti á landi eða erlendis.

Stjórnvöld hafa hins vegar séð sóknarfæri í rekstrinum að sameina megi nú illa mannaðar stöðvar og fækka yfirlæknisstöðum á þeim stöðvum sem þó enn starfa, eins og t.d. í Mosfellsbæ. Góður rekstur það, og svo megi leggja sveitavaktina þar niður í þokkabót, enda óþarfa lúxus í dreifbýli svona nálægt sjálfri höfuðborginni. Rafmagn hefur eins verið sparað á árinu hjá HH og öll vaktþjónusta skorin niður, m.a. á nóttunni. Reksturinn í ár án halla, þrátt fyrir aukna heimahjúkrun langveikra og sem sumir líta þá á sem varnarsigur í afleitum aðstæðum og þar sem nærsjúkrahúsin vantar. Eins og t.d. St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og sem nú stendur eyðilagður og tómur, sem minnisvarði skammarinnar. Ég fullyrði, að hvergi á landinu er aðgengi að heilsugæslunni jafnt slæmt eins og einmitt á sjálfu höfuðborgarsvæðinu og ég hef gert svo oft grein fyrir áður, síðast með pistlinum, Öskur í heilbrigðiskerfinu.

Fjármálaráðuneytið er samt örugglega nokkuð sátt. Gott rekstrarár að baki í heilsugæslunni og sem gefur tilefni til að spá í frekari niðurskurð og sparnað á komandi ári. Ríkisstjórnin örugglega himinlifandi að geta tilkynnt um aukið svigrúm til fjárframlaga Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Til lyfjainnspýtingingar og blóðgjafar á elsta sjúklingi landsins um þessar mundi, svo hann tóri aðeins lengur. Bætt þjónusta við hina yngri og minna veiku verður hins vegar að bíða betri tíma. Þjónusta sem seint verður unnin upp hvort sem er eftir að hún hefur einu sinni verið rifin niður og sem nú er þar að auki frekar eins og undir álögum en fjárlögum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn