Laugardagur 30.05.2015 - 17:44 - FB ummæli ()

Rauðu augun, ofnæmið og umferðaöryggið

rauðu-augun

Þegar þú mætir rauðeygðum sljóum ökumanni í umferðinni, þarf hann ekki endilega að vera ílla sofinn, ölvaður eða undir áhrifum örvandi efna. Þreyta, slæving og pirringur sem er samfara gróðurofnæmi, eru vanmetin vandamál í þjóðfélaginu og sem valda skertu öryggi á vinnustöðum og í umferðinni, vinnutapi og umtalsvert skertum lífsgæðum þeirra sem í hlut eiga. Áhugaverð rannsókn birtist í vísindatímaritinu Allergy sl. sumar, sýnir fram á umtalsverða slævingu og skerta aksturhæfileika þeirra sem þjást af gróðurofnæmi og sem ekki er hægt að kenna lyfjum um. Sambærileg slævig og við ólögleg áfengismörk í bóði, þ.e. 0.05% (0.5 prómill).

Sum ofnæmislyf valda einnig vissri slævingu og aukaverkunum. Því er til mikils að vinna að átta sig vel á ástandinu og velja bestu meðfeðina við ofnæminu hverju sinni.  Bráðaofnæmi hverskonar er líka orðin algeng orsök koma á bráðamóttökur og sem getur í sumum tilvikum tengst lífshættulegu ástandi (anafylaxis shock).Fyrstu fíflarni eru nú víða sprungnir út og grösin farin að grænka. Sumarið er komið, þótt það verði kannski bæði kalt og stutt þetta árið. Eins er farið að bera á foki frjókorna af fræflum trjánna, ekki síst aspa, bjarka og hlyns. Birkið okkar íslenska er seinna til. Yfir hásumarið eru það síðan grösin og smárinn sem eru allsráðandi orsök sjúkdómsmyndanna, ekki síst á þurrum sláttardögum. Mikilvægt er fyrir þá sem eru með slæmt ofnæmi að fylgjast vel með loftgæðum og magni frjókorna sem mælast í loftinu hverju sinni og sem Veðurstofan og Náttúrufræðistofnun standa að.

frjóTalið er að allt að 30% ungs fólks á Norðurlöndunum sé með ofnæmi af einhverju tagi, flestir fyrir gróðri. Tíðnin hefur að því er virðist aukist mest hjá unga fólkinu. Gróður er miklu meiri í görðum en fyrir nokkrum áratugum og landið víða meira gróið. Ofnæmi hér á landi hefur smá saman nálgast tíðnina sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Auk meiri gróðurs er sennilega líka meiru hreinlæti frá blautu barnsbeini um að kenna. Börn eru ekki eins oft í sveit á sumrin og meira varin á allan hátt. „Af misjöfnu þrífast börnin best“, það var löngu vitað áður. Ofnæmissvörun er mest tengt viðbrögðum í húð og slímhúð með losun svokallaðs histamíns úr mastfrumum (oftast kallaðar ofnæmisfrumur). Oft eftir að fjölgun hefur átt sér stað meðal svokallaðra eosinophile hvíta blóðkorna (rauðkyrninga) og sem framleiða ákveðin prótein (cytokines) sem vekja upp mastfrumurnar. Eins með framleiðslu IgE ofnæmismótefna sem setjast geta á ofnæmisvakann og auðvelda þannig ræsingu ofnæmissvarsins. Sama svörun og sem hafði mikilvægara hlutverk hér áður fyrr í vörnum líkamans gegn sníkjudýra- og ormasýkingum. Nú virðist hlutverkið vera orðið allt annað og ómarkvissara.

Tíðni astma og excema hjá börnum og unglingum hefur líka mikið aukist, oft tengt ofnæmi fyrir matvælum, loðdýrum, köttum, hundum og jafnvel hestum. Eins ákveðnum fæðutegundum og stundum hugsanlega skorti á bætiefnum, eins og t.d. D-vítamíni. Vaxandi athygli beinist einnig að því hvernig við nálgumst okkar nánasta umhverfi með allskonar inngripum, efnum og jafnvel lyfjum sem flokkast á til að auka hreinlæti og jafnvel í fyrirbyggjandi tilgangi gegn hugsanlegum smitsjúkdómum.  Gegn oft saklausum sýklum og sýkingum með inngripum sýklalyfjanna. Stundum með langvinnum sýklalyfjakúrum eins og t.d. gegn unglingabólum og ráðumst þannig gróflega á flóruna okkar í görninni. Á gerla og eðlilegar bakteríur sem þar eru nauðsynlegar og sem eru tífalt fleiri en frumurnar í líkamanum sjálfum. Ofnæmissjúkdómarnir tengjast auk þess stundum ónæmissjúkdómum, t.d. ákveðnum skjaldkirtilssjúkdómum og viðbrögðum gegn okkur sjálfum (sjálfsofnæmissjúkdómum). 

frjoAK_2014Einkenni gróðurofnæmis líkist stundum slæmu langvinnu kvefi (hay fever), jafnvel með mikilli og langvinnri slímhimnubólgu í augum, nefstíflum og hnerraköstum, ennis- og kinnholubólgum og jafnvel berkjubólgu (astmaeinkennum). Allt einkenni sem verulega dregur úr lífsgæðunum og eykur hættu á fylgisýkingum. Ömurlegur sjúkdómur hjá annars frísku fólki, vanmetinn, vangreindur og oft undirmeðhöndlaður hjá okkur Íslendingum á sumrin. Þegar fólk grætur alla daga, af allt öðrum ástæðum en helst væri ástæða að gráta yfir, svo sem illa skipulögðu heilbrigðiskerfi, lélegum launum og öðru óréttlæti heimsins.

Ofnæmi er eins og hver annar ólæknandi langvinnur sjúkdómur, en sem oft er hægt að halda niðri með góðri meðferð og sem stundum leggst í dvala. Meðferð við einkennum getur hins vegar verið bæði flókin og dýr. Ofnæmistöflur sem ekki valda of mikill sljóvgun eins og áður var, fyrirbyggjandi steraúðar í nefið alla daga, æðaherpandi úðar við bráðaeinkennum og miklum stíflum í nefi, augndropar sem eru gefnir fyrirbyggjandi 2-3 svar á dag allt sumarið eða æðaherpandi augndropar við skyndilegum einkennum og bjúg í augnslímhúðum, en sem oft geta verið varasamir eins og nefdroparnir við of mikla notkun. Sennilega eru þannig flest skemmd nef landans einmitt skemmd vegna ofnotkunar á æðaherpandi nefúðum sem seldir eru í lausasölu í apótekanna. Vegna hugsanlegra aukaverkana virkra lyfja og milliverkana með öðrum lyfjum er rétt að ráðfæra sig við lækni um hvernig nota eigi ofnæmislyfin. Stundum og í verstu tilfellunum er jafnvel mælt með sterakúrum í töfluformi í stuttan tíma eða með fyrirbyggjandi sterasprautum í vöðva á vorin og þar sem verkun endist í 6-8 vikur. Sprauta hjá lækni sem getur gert gæfumuninn fyrir þá allra verstu. Og þrátt fyrir alla meðferðina geta komið einstaka grátdagar, ekki síst í miklum þurrki og roki. 

Meðferð við ofnæmi á þannig helst að vera klæðskerasaumuð að þörfum hvers og eins, til að lágmarka einkenni en jafnframt til að koma sem best í veg fyrir óæskilegar aukaverkanir af lyfjunum. Eins og á við um meðferð allra langvinna sjúkdóma. Kostnaður við lyfjakaup á ofnæmislyfjum er hins vegar allt of hár, enda niðurgreiðslur þess opinbera takmarkaðar. Sumir hafa þannig ekki ráð á bestu meðferðinni í dag og láta sig hafa það næst besta, eða jafnvel að vera hálf grátandi, háfsofandi og hnerrandi yfir sumarið. Á tíma sem flestum ætti að geta liðið aðeins betur en á öðrum tímum ársins og fengið tækifæri til að njóta þess sem sumarið hefur best upp á að bjóða, í sumarfríum, í útivist og á ferðalögum. Sérfræðingar í ofnæmisjúkdómum sinna verstu tilfellunum og gera ofnæmispróf þegar þeirra er þörf og stundum er reynd svokölluð afnæming með sérstakri sprautumeðferð á ofnæmisvökum, úr litlum í vaxandi styrk.

Fyrir utan lyfjameðferðir er ýmislegt hægt að gera til að lágmarka aðeins ofnæmiseinkennin. Skola augun og andlitið upp úr fersku vatni, fara í bað/sturtu á daginn og þvo hárið á kvöldin. Eins getur verið áhrifaríkt að nota saltvatn til að skola nefgöngin. Loka gluggum á daginn, sérstaklega fyrri partinn og nota frjókornasíur í loftræstingu bíla. Þurrka þvottinn í þurrkara frekar en hengja hann út til þerris og svo mætti lengi telja. 

Greining á ofnæmi er oftast fengin með góðri sögu einni saman og með klínísku mati læknis. Rétt meðferð er síðan lykilatriðið til að ofnæmissjúklingar og aðrir fái notið sem mest öryggis á sumrin. Yfir hlýju og björtu mánuðina, ekkert síður en þeirra köldu og dimmu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn