Föstudagur 27.05.2016 - 09:47 - FB ummæli ()

Þorskurinn og lækningamátturinn fyrir vestan

2908_þorskurÍ vikunni greindi RÚV frá góðum árangri í meðhöndlun djúpra legusára á Ísafirði með þorskroði. Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis á Ísafirði hefur getið af sér gott orð áður fyrir árangur í meðferð langvinnra sára. Sérmeðhöndlað þorskroð án lifandi frumna og sem er ríkt af Omega 3 er notað sem gervihúð eða stoðgrind yfir sárin. Þessi meðferð er viðurkennd af bandarískum og evrópskum heilbrigðisyfirvöldum til nota í sérvöldum tilvikum hjá heilbrigðisstofnunum og þótt enn sé unnið að rannsóknum á endanlegum áhrifum meðferðarinnar.

Með sanni má segja að þetta er í fyrsta skipti sem viðurkennd íslensk læknismeðferð við alvarlegu sjúkdómsástandi kemst á markað erlendis og sem auk þess lofar miklu um framhaldið. Árlega er áætlað að um 35 milljón sjúklinga séu til meðferðar vegna legusára í heiminum og milljónir vegna annarra skurðaðgerða og vefjahöfnunar eftir ígræðslur hverskonar, t.d. vegna oft brjóstaimplanta (gervibrjósta) sem Íslendingar nálgast að eiga heimsmet í miðað við íbúafjölda og sem þegar er orðin alvarlegur tilbúinn heimilisvandi. Í sumum tilvikum varður samt um langtímahöfnun að ræða á þorskroðinu en sem hefur þá skapað oft miklu betri vef umhverfis sárin og sem vænlegra er að reyna húðágræðslu síðar. Eins verður spennandi að fylgjast með árangri í meðferð alvarlegra og jafnvel útbreiddra brunasára með filmum úr þorskroði og sem mér skilst að unnið sé að hjá Kerecis. Þetta kemur svo sem ekkert voðalega á óvart, enda kemur oft það besta til lækninga beint frá náttúrunni. Hér er þó engan veginn lítið gert úr hátæknislæknisfræðinn og hefðbundnum lyfjameðferðum, en sem margar hvejar eiga reyndar líka rætur að rekja til jurta og dýraríkisins.

Annars leiðir þessi frétt að annarri frétt hér á blogginu mínu fyrir 3 árum. Um var að ræða árangur sem undirritaður varð vitni af í meðferð legusára á baki og lendum tveggja langlegusjúklinga á Sjúkrahúsi HVE á Hólmavík. Frumkvæðið hafði verið hjá sjúrkliðum og hjúkrunarfræðingi sem önnuðust hjúkrun og hreinsun sáranna og sem höfðu stækkað og dýpkað mánuðum saman eins og oft gerist hjá langveikum, þrátt fyrir hámarks umönnun með snúningum á eggjadýnum og fleiri úrræðum til að tryggja betri loftun um sárin og minnka leguþrýsting. Allt var prófa þar til tilraun var gerða að nota íslenskt nátttúrkrem, bioICE (áður kallað Lýsiskremið) og framleitt er á Grenivík. Notað var bórsýruslím til að hreinsa upp sárin áður en kremið var borið í. Sárin tóku fljótlega við sér og greru síðan upp á nokkrum vikum. Nokkuð sem ég hafði aldrei búist við en varð vitni að á milli tveggja áramóta þar sem ég starfaði þá á heilbrigðisstofnuninni. Mér lék mikill hugur á að vita hvað þetta undrakrem innihélt og hafði samband í framhaldinu við hönnuðinn símleiðis.

Sigríður Einarsdóttir heitir hún og sem er nú öldruð kona sem að mestu er búin að draga sig í hlé. Hún tjáði mér um vissa eiginleika kremsins og sem hafði verið um langt skeið mikið notað til sárameðferðar á dýrum, einkum hrossum. Og ekki bara hér á landi heldur hafði hún leyfi lyfja- og matvælaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) til útflutnings, aðallega til meðferðar á sólarexcemasárum á bandarískum hrossum. Sigríður upplýsti að uppistaðan í kreminu væri lýsi sem eins og allir vita inniheldur ríkulega m.a. af Omega 3 og 6 fitusýrun og repjuolía. Síðan væri galdurinn uppleystar ákveðnar íslenskar lækingajurtir í ethanol seyði, m.a. blóðberg. Allar þessar upplýsingar fannst mér stórmerkilegar auk frásagna Sigríðar af virkni kremsins á allskonar sár dýra hjá bændum. Vísindaleg athugun hafði þó ekki verið gerð á virkni kremsins.

Einhvern veginn hafa menn komist af hér áður fyrr og sem erlendar forskriftarbækur á jurtalyf lækna bera glöggt vitni um. Nýlega minntist ég á annan „galdraseyð“ af Ströndum og sem er safinn hennar Ragnheiðar Hörpu Guðmundsdóttir á Kálfanesi og sem inniheldur seyði af stórnetlu og sem virkar á vel gegn bólgusjúkdómum hverskonar. Eins vitum við sögu asperíns (magnýls) sem meðal annars fíflamjólkin okkar er ríkuleg af og notað var til lækninga allt frá dögum Hippókratesar. Ekkert síður mikilvægi eðlilegrar garnaflóru með réttu mataræði m.a. okkur til varnar. Og um lýsið og D vítamínið efast enginn sem gerir mikið gott, ekki síst fyrir húðina.

Hvað varðar almennt húðsjúkdóma og sár kennir margra grasa er varðar læknismeðferðir m.a. hér á landi á árum áður og ég nokkrum sinnum komið inn á áður m.a. með tilvitnunum úr alþýðutímaritinu Eir um heilbrigðismál um aldarmótin 1900. Sár vegna stórubólu gátu t.d. verið sérlega illvíg og seingróandi. Niels Finsen, danskur læknir af íslenskum ættum fékk Nóbelsverðlaunin í læknis- og eðlisfræði árið 1903 fyrir geislarannsóknir. Fyrir hans orð fóru læknar að reyna þá aðferð við bólusótt að byrgja úti bláa hættulega geisla sólarinnar með því móti að láta aðeins rautt ljós komast að sjúklingnum (síðar skilgreind sem innrauð geislameferð). Það mátti gera með því að hafa rautt gler í gluggarúðunum eða rauð tjöld fyrir gluggum og hurðum. Reynslan sýndi að bólan varð miklu vægari með þessari aðferð og það gróf lítið sem ekkert í bólunum auk þess sem þær þornuðu upp fyrr en ella.

Í dag eru hins vegar allskonar dellukúrar ráðandi og sem stundum skírskota til náttúruefna. Kúrar sem settir eru á markað fyrst og fremst til að framleiðendur maki krókinn. Sennilega er Zinzino kúrinn hvað frægastur og sem fær ákveðinn trúverðugleika með því að innihalda Omega 3 fitusýrur umfram aðrar omega fitusýrur. Fólk er haft að féþúfu og heilu íþróttafélögin hef ég heyrt fjármagni starfsemi sína með pýramídasölu á þessu rándýra mixtúrudufti í ársáskrift. Auðvitað er a.m.k. jafn hollt eða sennilega miklu hollara að taka bara inn sitt íslenska Lýsi daglega og losna þannig við tilhugsunina um að vera sem nýveiddur spriklandi þorskur á króki misvandaðra veiðimanna.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn