Laugardagur 11.02.2017 - 17:31 - FB ummæli ()

Gegn ölóðum áfengisáróðri á Alþingi

Áfengi er sennilega miklu skaðlegra heilsunni en tóbak og ef allt er reiknað með. Okkur finnst sjálfsagt að takmarka aðgengið að tóbaksvörunum eins og hægt er, m.a. með því að taka tóbaksvörur úr hillum marvöruverslana og stinga þeim undir borðið hjá afgreiðslukössunum. Tóbaksauglýsingar eru líka bannaðar og aðvörunarmerkingar alls staðar. Samt berjast nú sumir fyrir auknu aðgengi og frjálsri verslun með áfengið í matvöruverslunum á Íslandi árið 2017. Tæplega að það verði líka sett undir afgreiðsluborðin síðar.

Talsmenn Samtaka verslunarinnar og ritstjórar fjölmiðla, m.a. á víðlesnasta dagblaði landsins Fréttablaðinu í dag og sem eingöngu er rekið af auglýsingatekjum, berjast nú fyrir framgangi nýs frumvarps á Alþingi Íslendinga um frjálsa sölu áfengis í matvöruverslunum fyrir allra augum og að innlendar auglýsingar verði leyfðar í fjölmiðlum landsins. Jafnvel auglýsingaherferðir í íþróttaþáttum ljósvakamiðla. Erlendir viðskiptaaðilar eins og verslunarkeðjan Costco sjá tækifærið og hafa verið með fingurnar í frumvarpsdrögunum. Mönnum virðist ekkert heillagt í þessum efnum og berjast hiklaust gegn lýðheilsumarkmiðum og sérþekkingu heilbrigðisstarfsfólks sem telja eftir áratuga reynslu erlendis að óheft aðgengi að áfengi auki söluna og þar með neyslu á einum varasamasta skaðvaldi samfélagsins. Sama hvert litið er í félagslegu og heilsusamlegu tilliti. Slysatíðni í umferðinni, ofbeldisverka í samfélaginu, vaxandi tíðni lifrarbólgu og vaxandi óvinnufærni. Tölur um að 10% þjóðarinnar þurfi að leita aðstoðar í dag vegna áfengissýkinnar til meðferðaaðila og okkar lækna, talar auðvitað skýrasta málinu til Alþingismanna.

Það er einkennilegt að nýkjörnir fulltrúar þjóðarinnar neiti að hlusta á neyðaróp þjóðfélagsins og álit flestra sérfræðinga í málefnum félags- og lýðheilsu. Að þeir ætli virkilega að láta beygja sig undir gróðasjónarmið verslunareiganda í nafni „frjálsrar verslunar “ og þar með gegn almennum viðskiptahagsmunum fólksins í landinu í stóra samhenginu með sölu nauðsynjavara til heimilisins.

Áframhaldandi skert aðgengi að áfengi eins og nú er háttað með söluþjónustu ÁTVR og áframhaldandi öflugum forvörnum sem við höfum m.a. séð árangur af í minnkaðri áfengis- og tóbaksneyslu unga fólksins á Íslandi sl. áratug, er varnarsigur fyrir heilbrigðisöflin og þótt vissulega víða megi gera betur. Við höldum a.m.k. sjó. Og nú eru goshillurnar jafnvel líka að tæmast í verslununum eftir áralangan áróður gegn óhóflegri sykurneyslu landans. Leyfum ekki kaupmönnunum að fylla hillurnar í staðinn af miklu skaðmeiri vökva.

Þið góða og réttsýna fólk á Alþingi, standið öryggis- og heilsuvaktina með okkur heilbrigðisstarfsfólkinu fyrir þjóðina, gegn óhóflegum og hættulegum þrýstingi sérhagsmuna verslunarinnar, heilsu okkar allra vegna.

Úr öskunni í eldinn, í þágu verslunarinnar!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn