Sunnudagur 17.03.2019 - 01:15 - FB ummæli ()

Mikilvægi frystingar til að takmarka sem mest smithættu sýklalyfjaónæmra baktería með erlendu kjöti til landsins.

Mikils misskilnings virðist gæta á gagnsemi frystingar á hráu kjöti erlendis frá og sem fjölmiðlarnir vilja ekki ræða, sennilega til að styggja ekki Samtök verslunarinnar og til að ógna ekki auglýsingatekjum. Frysting heftir vöxt örveira og drepur jafnvel sumar og sem kæling gerir aðeins takmarkað. Það sem er meira um vert að fryst kjöt lekur ekki gegnum umbúðir sem geta brugðist og smitar þannig ekki frá sér yfirborðsörveirum með blóðvessum eins og ferskt kjöt auðvitað gerir. Umræða sl. daga gerir reyndar lítið úr mikilvægi frystingar og sem hefði líka mátt gera betri skil í annars ágætu nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Það hvort frysting drepi allar bakteríur í kjötinu skiptir minna máli í þessu samhengi, en sem vissulega getur átt vel við hvað kamphýlobakter smitað kjöt varðar. Varðandi innflutning á sýklalyfjaónæmum flórubakteríur í kjöti erum við hins vegar ekki að tala um matareitrunarbakteríur. Hins vegar flórubakteríur sem óhjákvæmilega berst með kjötinu, frosnu eða ófrosnu. Ófrosið hinsvegar sem smitar 1000 sinnum meira út frá sér og til umhverfisins. Allt gæðaeftirlit í dag og sem víða er mjög brothætt snýst hins vegar nær eingöngu að matareitrunarbakteríum eins og Salmonella og Kamphýlobakter. Að lágmarka hættu á hópsýkingu með kjötinu og að sýklarnir séu ekki þar að auki sýklalyfjaónæmir.

Ef sýklar eru varasamir heilsu manna í kjöti, hvað a nafni sem þier kallast, ætti frysting að vera grundvallaratriði sem lágmarks smitvörn m.t.t. dreifingar í flutningum og verslunum. Sérstaklega gildir þetta auðvitað um nýjar sameiginlegar flórubakteríur dýra og manna í dag og ef þær eru sýklalyfjaónæmar eins og t.d. E. coli (ESBL) eða klasakokkar (MRSA, öðru nafni MÓSAR) og sem geta valdið tilfallandi  sýkingum löngu síðar eftir að þær hafa borist í flóruna okkar. Sýklar sem geta fundist allt að helmingi erlends kjöts eins og í kjúklingum og svínakjöti. Líklegt er að þessir sýklar dreifist í miklu magni í nærflóru landsmanna og bíða þar tækifæris að blómstra, jafnvel svo mánuðum skiptir. Oft þá frekar tengt tilfallandi sýklalyfjagjöfum sem við þurfum stundum á að halda. Með öðrum orðum ef gamla góða garnaflóran okkar heldur þeim ekki í skefjum. Ein af hverjum 5 sýkingum í Bandaríkjunum og víða í Evrópu í dag eiga þannig rætur að rekja til sýklalyfjaónæmra baktería sem koma beint eða óbeint frá landbúnaðarvörum. – Vandamál sem hefur verið nær óþekkt hér á landi, þótt tíðni sérstaklega ESBL bera og jafnvel sýkinga hefur farið heldur vaxandi sl. áratug á Íslandi. Miklu betri varnarstaða samt m.t.t. smits en víða erlendis þar sem smithlutfall íbúa getur talist í tugprósentum hvað þessar bakteríur varðar. Allt sem þakka má lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér á landi (smitumst ekki af eigin framleiðslu) einangrunar landsins og frystiákvæða sem gilt hefur á erlendu innfluttu kjöti.

Upp undir 90% svínabænda víða í Þýskalandi bera með sér sýklalyfjaónæma E.coli og Klasakokka (ESBL og MRSA) og sem sýnir hvað auðvelt er að smitast af eldisdýrum af flórubakteríum og kjöti þess eftir slátrun og þar sem sýklalyfjanotkun er mikil í landbúnaði. Kjötið sem við ætlum nú að fara að flytja ferskt inn í landið, ófrosið í þokkabót sem stóreykur smithættuna við meðhöndlun kjötsins, á svipaðann hátt og gerist hjá bændunum í Þýskalandi. Bara líka á aðrar vörur okkar í leiðinni. Augljóst ætti að vera hvaða hættu slíkt bíður upp á varðandi algengustu sýkingar mannsins. T.d. þvagfærasýkingar og sárasýkingum og þegar venjuleg, eða jafnvel allar tegundir sýklalyfja, duga ekki til að ráða niðurlögum á og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) varar nú einmitt eindregið við. Með sömu þróun og verið hefur er útlit fyrir að fleiri látist úr ómeðhöndlanlegum bakteríusýkingum en af völdum krabbameina eftir nokkra áratugi. Í grunninn er ráðlagt hætta að nota sýklalyf í eldissjónarmiði í landbúnaði og sem er um 70-80% sýklalyfjanotkunarinnar í heiminum í dag og eins að minnka alla óþarfa sýklalyfjanotkun meðal manna og sem telur um 30% heildarnotkunarinnar. Eins að hefta útbreiðslu þessara sýklalyfjaónæmustofna með öllum ráðum, á sjúkrahúsum (eins og við heilbrigðisstarfsfólk gerum í dag) og eins úti í þjóðfélaginu, með öllum ráðum. Þar sem hreinlætissjónarmið og lögmál smitvarnanna skipta mestu máli og þar sem við eigum einmitt mikil sóknartækifæri á Íslandi.

Íslendingar standa betur að vígi varðandi sýklalyfjalaust dýraeldi og dýraheilbrigði almennt, m.a. vegna einangrunar landsins um aldir, almenns hreinlætis og ómengaðs vatns til akuryrkju og landbúnaðar. Sýklalyfjanotkun meðal manna er hins vegar, því miður, meiri en á hinum Norðurlöndunum, einkum meðal ungra barna og eldra fólks og sem gerir Íslendinga viðkvæmari að taka upp sýklalyfjaónæmar bakteríur frá umhverfinu en fólk á hinum Norðurlöndunum og fyrri rannsóknir undirritaðs hafa sýnt vel á loftvegaflórubakteríum meðal barna á Íslandi (fjölónæmra pneumókokka.) Kappsamlega er samt unnið að því að ná óþarfa sýklalyfjanotkun niður meðal fólks hér á landi og sem telur a.m.k. 1/3 notkunarinnar í dag.

Frysting fljótlega eftir slátrun og allt þar til kjötið er þýtt, rétt fyrir suðu eða steikingu, minnkar sennilega 1000 falt hættu á smiti og að sýklalyfjaónæmar flórubakteríur sem fylgdu dýrinu í eldisvextinum og síðan í kjötinu, smitist út með flutningi og að lokum í verslunum á aðrar vörur, hendur viðskiptavina og loks í innkaupapokann. Við vitum vel hvar þessir sýklar geta endað að lokum, ofan í okkur.

Líkja má vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda okkar sem einum ógnvænlegasta heimsfaraldri 21. aldarinnar. Alvarlegar sýkingar sem hafa verið nokkuð auðvelt að meðhöndla með kraftaverkalyfjum 20. aldarinnar verða aftur algengar og lífshættulegar. Alla tíð reyna lönd að seinka smiti í eigin landi með öllum ráðum. Að flýta fyrir hugsanlegu smiti þessa faraldurs eins og nú er ráðgert á Íslandi fyrir hag verslunarinnar eingöngu, eru forkastanleg vinnubrögð stjórnvalds gagnvart lýðheilsusjónarmiðum og sem sagan ein á eftir að geyma.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn