Mánudagur 13.09.2021 - 11:53 - FB ummæli ()

Óstjórn heilbrigðiskerfisins logar á Bráðamóttöku LSH

 
Einn mikilvægasti kjarni í starfsemi Bráðamóttöku Landspítalans (BMT LSH) og sem áður hét Slysadeild Borgarspítala og var undir forræði bæklunarlækna, er almenn móttaka slasaðra og bráðveikra. Slysavarðstofa hafði áður verið rekin á Barónsstíg um árabil og þar áður á Hvíta bandinu. Sl. 4 áratugi hefur „bráðamóttakan“ og hvaða nafni sem hún nú kallast á hverjum tíma, verið minn starfsvettvangur. Afmörkun verkefna sem eðlilegt er að bráðadeildin (sem almenn slysa- og bráðamóttaka) ætti að sinna og hvað ætti að tilheyra öðrum deildum og stofnunum, er hins vegar sífellt óljósari. Hvaða sérfræðingar aðrir en sérfræðingar í bráðalæknisfræði er eðlilegt að vinni á slysa- og bráðadeild við þessar aðstæður, með hverjum og hvernig? Verkefni þar sem um leið má lesa allar brotalamir heilbrigðiskerfisins sl. ára eins og opna bók.
Allir ættu t.d. að vita hvað mikið brýtur á í öldrunarmálunum í dag og aðkomu BMT að þeim málum sem mikið hefur verið í fréttum. Mikil vöntun er enda á æskilegum þjónustuúrræðum fyrir aldraða, sérstaklega fyrir þá sem þurfa á meiri heimaaðstoð, hjúkrunar- og dvalarplássi á öldrunarstofnunum, að halda. Engum skildi því hafa komið á óvart sú þróun sem átt hefur sér stað með yfirflæði aldraða á einu bráðamóttöku höfuðborgarsvæðisins. Ekki heldur á úrræðaleysinu á yfirfullum deildum spítalans gagnvart þeim sem lokið hafa bráðameðferð en komast ekki lönd né strönd í viðeigandi úrræði. Eins löngum biðlistum sjúklinga sem bíða aðgerðar á spítalanum og komast eki að. Lélegri afköstum en annars mætti búast við og sem fjármálaráðherra hefur m.a. verið tíðrætt um undanfarnar vikur, korter í kosningar!.
En talandi um afköst í hinu opinbera heilbrigðiskerfi mætti auðvitað nefna afkastagetu BMT til tilbreytingar og sem á sér líka aðrar samfélagslegri skýringar. T.d. aukningu í tíðni áverka og sýkinga tengt áfengis- og vímuefnanotkun og afleiðingar líkamlegs ofbeldis hverskonar. Eins vöntun á félagslegum úrræðum, vaxandi fjölda erlends vinnuafls og aðflæði túrista sem streyma til landsins, jafnvel í milljónatali ár hvert. Ekki má heldur auðvitað gleyma bráðaúrræðum í heimsfaraldri eins og Covid19 og hvernig við viljum vera undirbúin fyrir stór hópslys.
Bráðamóttakan er alltaf öllum opin með hvað sem er og hvenær sem er. Starfsfólk bara verið látnið hlaupa hraðar, jafnvel meira en það getur og sérfræðingar látnir bera allt of mikla ábyrgð miðað við aðstæður. Nú er svo komið að mikill atgerfisflótti sérfræðinga er brostinn á og um og þriðjungur sérfræðilækna, 7-8 talsins, sagt upp eða hættir störfum frá áramótum. Fyrirséðar eru því óhjákvæmilegar breytingar á þjónustu sem almenningur hefur talið sjálfsagða í hremmingum lífsins.
Mikill fjöldi sjúklinga sem leita á BMT LSH á sólarhring á samt ekki stærra íbúasvæði en raun ber viti um, hlýtur að vekja upp spurningar á skilvirkni í heilbrigðiskerfinu öllu. Fjöldi sem getur nálgast fjórða hundraðið og sem skiptist á 6-7 vaktalínur starfsfólks þar sem einn sérfræðingur ber mestu ábyrgðina á hverri vaktalínu. Auðvitað ætti að vera hægt að líta á starfsemina sem ákveðinn mælikvarða á þjónustugetu og gæðum heilbrigðiskerfisins út á við og þar sem þjóðarpúlsinn er stöðugt tekinn.
Á síðustu áratugum varð til sérsvið innan læknisfræðinnar í móttöku mest veikra og slasaðra og sem krefst sérfræðingsmenntunar í bráðalæknisfræði. Á BMT LSH hefur hins vegar þróast einskonar uppvinnslusafnstöð bráðra vandamála úr heilbrigðiskerfinu öllu. Bráðaþjónustu fyrir aðrar deildir deildir sem eiga að sinna ákveðinni bráðaþjónustu eins og t.d. þegar Hjartagáttin var flutt til BMT í Fossvogi frá Hjartadeildinni á Hringbraut fyrir þremur árum. Eins þegar ráðgert var að bráðamóttaka geðdeildar flyttist í Fossvoginn um síðustu áramót.
Upphaflegar hugmyndir um starfsemi BMT LSH eins og hún er rekin í dag, miðuðust við sambærilegar deildir úti í hinum stóra heimi. Deildir með gott fráflæði á aðrar deildir og gott aðgengi að sérhæfðum göngudeildum sem ekki er reyndin hér heima. Þessu til viðbótar hefur vaktþjónusta heilsugæslunnar getað nýtt sér opinn aðgang að BMT fyrir slysaþjónustu, rannsóknir og uppvinnslu vandamála og þar sem jafnvel enga hjúkrunaraðstoð er að fá af gólfi Læknavaktarinnar. Þar sem fyrst og fremst er greitt fyrir vakterindið en ekki umfang verkefna og sem er síðan engin á nóttunni á höfuðborgarsvæðinu!
Umfang BMT LSH hefur stækkað jafnt og þétt á þeim árum sem ég hef starfað við hana eða um allt fimmfalt. Tugir sjúklinga liggja nú jafnvel sólarhringunum saman á göngum deildarinnar eins og áður sagði. Sjúklingum sem þarf að sinna jafnhliða öllum nýkomusjúklingunum. Með þessu fyrirkomulagi á svo umfangsmiklum viðföngum BMT LSH ætti aðkoma annarra sérsviða auðvitað að aukast samhliða eins og nýlega var með meiri ábyrgð lyflæknasviðs á sjúklingum BMT sem bíða innlagna á lyflæknisdeildir.
Eitt augljóst dæmið nú um breytta þjónustu- og kennslugetu BMT sem ég þekki persónulegast best, er varðandi almenna móttöku slasaðra og veikra á öllum aldri og sem þurfa sjaldnar á innlögn að halda í framhaldinu. Þjónusta sem telur um helming alls aðflæðis að deildinni, 80-150 sjúklinga á hverjum sólarhring og sem fær yfirleitt skilvirka úrlausn. Í raun stærsti hluti gömlu starfseminnar á slysa- og bráðamóttökunni, a.m.k. hvað slysin varðar. Þar sem skurðsárum og áverkum hverskonar er yfirleitt sinnt á skilvirkan hátt. Venjuleg bráðameðferð hafin á öllum og eftirfylgd skipulögð eins og best er fyrirkomið. Í endurkomu á göngudeild eða í heilsugæslunni. Með f.o.f. aðkomu sérfræðilækna og hjúkrunarfólks sem góða starfsþjálfun hafa fengið og þeirra sem eru í kennslunámi á deildinni. Stundum með sérfræðiaðstoð annarra deilda eins og t.d. bæklunarlækna og smitsjúkdómalækna.
Nú er svo komið að þessi almenna starfsemi á undir verulegt högg að sækja vegna forgangsmála mönnunar á deildinni allri. Á hinni almennu bráðamóttöku og þar sem bæði leynist stórt og smátt og spannar í raun alla almenna læknisfræði. Sumpart sem góð heilsugæsla ætti að geta sinnt eins og hún gerir víða úti á landi. Á deild sem framan af var talin aðal kennslustaður læknanema til almennra læknastarfa í heilsugæslu, ekki síst á landsbyggðinni. Við sérfræðilæknar sem höfum starfað lengst á BMT LSH í þessari móttöku erum nú nær allir hættir eða erum að hætta. Fyrst og fremst vegna yfirálags og vöntun á framtíðarsýn bráðamóttökunnar hvað þessa ákveðna þjónustu varðar. Endurkomum okkar á göngudeild hefur verið lokað og þeir sem á slíkri endurkomu þurfa á að halda t.d. vegna brotameðferðar, þurfa að koma í bland við nýkomur á deildina. Segja má að 8 sérfræðingslínan í starfsemi bráðamóttökunnar (göngudeildarþjónustan) sé þannig niðurlögð.
Það hljóta allir að geta ímyndað sér hvað vinnuaðstæður allar sem búið er að lýsa eru flóknar og þungar í við aðstæður sem nú ríkja á bráðamóttöku háskólasjúkrahússins. Deild sem er orðin að stórum hluta safnstöð langtímavanda heilbrigðiskerfisins alls til langs tíma tíma og sem sogar í sig þann mannafla og það pláss sem deildin hefur yfir að ráða. Bráðdeild sem yfirmenn lýstu nýlega yfir að gæti átt í verulegum erfiðleikum með að sinna hópslysum og alvarlegum veirufaröldrum í náinni framtíð. Æðstu stjórnvöld hafa hins vegar alltaf skellt ábyrgðinni á stjórnendur og takmarkaða fjármögnunarmöguleika ríkisins til þjóðarspítalans. Kannski rumska stjórnvöld nú rétt fyrir kosningar m.t.t. viðbragða eins og þau gerðu gegnvart yfirfullum gjörgæsludeildum spítalans nýlega. En það þurfti heimsfaraldur og nýjar alþingiskosningar til að hlustað væri loks á neyðaróp fólksins á gólfinu.
Vandinn í heild sinni er kerfislægur og djúpur. Innbyggður í áratuga hugsunum stjórnvalda og stjórn spítalans sem breiðist nú út sem eldur. Alls ekki hefur verið brugðist við með samhæfðum áætlunum innan spítalans sjálfs, milli deilda og annarra heilbrigðisstofnana og heilsugæslu. Valdabarátta og samkeppni um fjármagn milli deilda og stofnana er líka um að kenna. Öllum bráðamálum í kerfinu hefur bara verið sópað á BMT LSH og þar sem öll öryggismörk eru löngu brostin. Skert þjónusta eins og við höfum þekkt hana best, blasir við hinum almenna borgara vegna mönnunarvanda sérfræðinga. Sjúklingurinn í fyrirrúmi er samt ennþá til á prenti á toppi gæðastaðals LSH.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn