Fimmtudagur 05.04.2018 - 15:00 - Lokað fyrir ummæli

Þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!

Var að lesa viðtal við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, en í þessu viðtali segir hann að innan Alþýðusambandsins standi yfir „persónulegar nornaveiðar“ af hálfu forsvarsmanna ákveðinna aðildarfélaga. Þannig upplifi Gylfi gagnrýni Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, sem persónuníð í sinn garð, ekki sé um málefnaágreining að ræða.

Það er með ólíkindum og í raun grátbroslegt að forseti ASÍ ætli núna að reyna að endurskrifa söguna og láta í veðri vaka að gagnrýni á hans störf lúti að persónuníði en ekki málefnalegum ágreiningi. Er forseti ASÍ ekki að grínast? Á hverju einasta þingi Alþýðusambandsins frá árinu 2004 hef ég farið ítarlega yfir þann djúpstæða málefnaágreining sem er t.d. á milli okkar í Verkalýðsfélagi Akraness og stefnu og áherslur sem forseti ASÍ hefur barist fyrir.

Það liggur t.d. algerlega fyrir að forseti ASÍ er hugmyndasmiður að þeirri samræmdu láglaunastefnu sem ASÍ hefur reynt að troða ofan í kok á öðrum aðildarfélögum ASÍ.

Það er t.d. mikilvægt að rifja upp þegar forseti ASÍ og aðrir forystumenn innan ASÍ kölluðu fulltrúa Samtaka atvinnulífsins árið 2011 á fund þar sem forseti ASÍ húðskammaði og gagnrýndi fulltrúa Samtaka atvinnulífsins harðlega. Ástæðan var að Samtök atvinnulífsins höfðu gengið frá kjarasamningi við Verkalýðsfélags Akraness vegna starfsmanna sem vinna hjá Elkem Ísland á Grundartanga sem var mun betri en sá samningur sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði samningur VLFA við SA hljóðaði upp á rúm 10% auk þess sem hver starfsmaður fékk afturvirkni og 500 þúsund króna eingreiðslu.

Já hugsið ykkur forysta ASÍ kallaði forystu Samtaka atvinnulífsins á fund til að gagnrýna að eitt af aðildarfélögum ASÍ hafi náð mun betri kjarasamningi en samræmda láglaunastefna kvað á um og forseti ASÍ gerði þennan kjarasamning að umtalsefni í 1. maí ræðu sinni árið 2011 þar sem hann gagnrýndi Samtök atvinnulífsins harðlega fyrir að hafa gert þennan samning

Hugsið ykkur að ef Verkalýðsfélag Akraness hefði ekki barist af alefli gegn samræmdu láglaunastefnunni sem forysta ASÍ vildi að gilti fyrir alla fyrir félagsmenn sína á Grundartanga þá væru árslaun starfsmanna Elkem Ísland og Norðuráls um 1,5 milljón lægri en þau eru í dag. Já launin væru 1,5 milljón lakari en þau eru í dag ef VLFA hefði ekki barist gegn þessari samræmdu láglaunastefnu sem forseti ASÍ vildi að gilti fyrir allan vinnumarkaðinn.

Er það persónuníð að hafna þessari samræmdu láglaunastefnu í þeim sérkjarasamningum sem Verkalýðsfélag Akraness er með og sem dæmi þá eru um 700 manns sem eru félagsmenn VLFA sem vinna á Grundartanga sem þýðir að ef við hefðum tekið þátt í samræmdu láglaunastefnunni þá væru laun á Grundartanga um 1 milljarði lægri en þau eru í dag. Er þetta persónuníð? Nei að sjálfsögðu ekki, þetta er djúpstæður málefnaágreiningur þegar kemur að því að semja um kaup og kjör.

Ég tala alla vega fyrir mína hönd þá hef ég ekkert út á persónu forseta ASÍ út á að setja en gagnrýni hins vegar harðlega þá brauðmolahagfræði sem forseti ASÍ vill vinna eftir og við höfnum henni algerlega og höfum margoft fært góð og gild rök fyrir þeirri höfnun.

En hérna eru nokkur dæmi sem ég hef gagnrýnt forseta ASÍ harðlega fyrir á liðnum árum þar sem hann tekur stöðu með fjármálaöflum og auðmannselítunni í þessu landi:

• Forseti ASÍ vildi að íslenskir skattgreiðendur myndu ábyrgjast og greiða Icesave.

Forseti ASÍ barðist gegn því í október 2008 að neysluvísitalan yrði tekin úr sambandi vegna verðbólguskotsins sem kom í kjölfarið á hruninu. Ástæðan var að það myndi kosta fjármálakerfið 200 til 300 milljarða! Skítt með að verðtryggðarskuldir heimilanna skyldu hækka um 400 milljarða þeim mátti fórna á blóðugu altari verðtryggingar.

Forseti ASÍ lagðist alfarið gegn því að forsendubrestur heimilanna yrði leiðréttur í kjölfar hrunsins

• Forseti ASÍ lagðist gegn ályktun sem VLFA lagði fram á þingi ASÍ um að ASÍ myndi beita sér fyrir afnámi verðtryggingar og þak yrði sett á óverðtryggða vexti.

• Forseti ASÍ lagðist gegn tillögu VLFA á þingi ASÍ um að auka lýðræðið við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og að atvinnurekendur færu úr stjórnum sjóðanna.

• Forseti ASÍ er hugmyndafræðingur að samræmdri láglaunastefnu enda liggur fyrir að honum fannst krafa samninganefndar SGS árið 2015 um að hækka lágmarkslaun í 300 þúsund á mánuði of há.

• Forseti ASÍ gagnrýndi Samtök atvinnulífsins í ræðu á 1. maí árið 2011 um að hafa gengið frá of góðum kjarasamningi við Verkalýðsfélag Akraness vegna starfsmanna á Grundatanga.

• Forseti ASÍ gekk frá Salek samkomulaginu án þess að bera það undir flest aðildarfélög innan SGS en í þessu samkomulagi var verið að takmarka samningsrétt stéttarfélaganna enda skýrt kveðið á um að aðildarfélögin máttu ekki semja um meira en 32% launahækkun á tímabilinu nóv. 2013 til ársloka 2018.

• Forseti ASÍ samdi við Samtök atvinnulífsins um tilgreinda séreign þar sem reynt var að þvinga launafólk til að greiða eingöngu til lífeyrissjóðanna þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi ítrekað bent á að launafólk hefði val um að velja sér vörsluaðila til að ávaxta sína séreign.

Á þessari upptalningu sem er alls ekki tæmandi sést að forseti ASÍ hefur ætíð tekið hagsmuni fjármálakerfisins framyfir hagsmuni sinna félagsmanna og því nýtur hann ekki trausts hins almenna félagsmanns.

Því segi ég við forseta ASÍ, þetta hefur ekkert með þína persónu að gera heldur þá staðreynd að þú tekur ætíð hagsmuni fjármálakerfisins og auðmannselítunnar framyfir hagsmuni félagsmanna þinna og guðanna bænum ekki reyna að endurskrifa söguna upp á nýtt. Mín skoðun er að þinn tími sem forseti ASÍ er liðinn!

Flokkar: blogg

«
»

Höfundur

Vilhjálmur Birgisson
Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir