Umræðan um gjaldeyrishöftin og framtíðargjaldmiðil Íslendinga þokast áfram. Á rúmri viku hafa birst athyglisverðir pistlar eftir Árna Pál Árnason (1, 2, 3) og andsvör frá m.a. Lilju Mósesdóttur og Jóni Helga Egilssyni. Frosti Sigurjónsson heldur uppi málsvörn krónunnar, en Hjálmar Gíslason dregur saman umræðuna og kallar eftir sátt um ferli til að komast að niðurstöðu í þessu mikilvæga viðfangsefni.
Lilja segir þrjár leiðir vera uppi í umræðunni. Ég tel þær vera a.m.k. sex. Skoðum þær betur:
- Að halda í krónuna en fara varlega. Þessi leið krefst mun agaðri hagstjórnar en hér hefur verið lengst af. Seðlabankinn þyrfti ný verkfæri til að stjórna fjármagnsflæði og erlendri skuldsetningu, til dæmis bann við gengistryggðum lánum til neytenda, strangari skilyrði um gjaldeyrisjöfnuð banka, og hugsanlega skatt á fjármagnsflutninga (Tobin-skatt). Vextir yrðu áfram að jafnaði hærri en í nágrannalöndum. Verðtrygging yrði áfram við lýði á lengri fjárskuldbindingum a.m.k. uns nýtt traust hefði myndast. Erlendir krónueigendur yrðu losaðir út úr stöðum sínum smám saman með gjaldeyri sem afla þarf í gegn um viðskiptajöfnuð þjóðarbúsins, en það getur tekið mjög langan tíma. Kostir: Eigin mynt getur aukið sveigjanleika í hagstjórn og minnkað atvinnuleysi þegar kreppir að, einkum í frumframleiðslugreinum. Með því að fara varlega í losun hafta er verðbólgu haldið í skefjum eins og kostur er. Gallar: Krónunni mun óhjákvæmilega fylgja kostnaður fyrir fólk og fyrirtæki, í formi vaxta, verðtryggingar og hafta á fjármagnsflutninga, sem aftur draga úr fjárfestingu. Snjóhengja erlendra krónueigna, sem talin er nema allt að 1.000 milljörðum króna, myndi vofa áfram yfir.
- Að halda í krónuna og aflétta höftum hratt. Svipuð næstu leið á undan, en „plástrinum kippt af“ og gengi krónunnar látið finna nýtt jafnvægi með frjálsum fjármagnsflutningum. Hér er hættan sú að nýtt jafnvægisgengi yrði mun veikara en nú er. Eitt viðmið gæti verið nýlegt gengi krónunnar í útboðum Seðlabankans, sem er 43% veikara en opinbert gengi. Slík veiking krónunnar myndi valda 16-20% verðbólgu á skömmum tíma. Höfuðstóll og greiðslur af verðtryggðum lánum hækka sem því nemur, auk þess sem gengistryggð lán hækka um 43% í krónum. Fjölmörg heimili og fyrirtæki myndu ekki þola áfallið, sem einnig yrði til lækkunar á eigin fé bankakerfisins og útlánagetu þess. Saga krónunnar yrði enn skrautlegri og trúverðugleiki hennar minni til framtíðar. Kostir: Snjóhengjan losuð í einu lagi með sprengingu. Gallar: Úr yrði snjóflóð sem gæti farið yfir þorpið og skilið nokkur hverfi, og frystihúsið, eftir í rústum.
- Einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Hluti gjaldeyrisforðans yrði notaður til að kaupa seðla og mynt í öðrum gjaldmiðli. Krónuseðlum og mynt yrði skipt út og tekin úr umferð. Deilt yrði í upphæðir rafrænna fjárskuldbindinga í kerfum íslenskra fjármálastofnana með skiptigengi hins nýja gjaldmiðils og lögbundið að efna mætti krónuskuldbindingar með honum. Peningamálastefna Seðlabankans fælist í að herma eftir vaxtaákvörðunum seðlabanka viðmiðunargjaldmiðilsins. Ísland myndi sækja um nýja skammstöfun fyrir heiti hins nýja gjaldmiðils, t.d. IEU fyrir íslenskar evrur eða ISD fyrir íslenskan dollar. Seðlabankinn héti því að skipta einu IEU í eina EUR (eða ISD í USD), og öfugt, eftir óskum. Kostir: Sálfræðileg breyting sem fælist í nýju nafni gjaldmiðilsins og fyrirheiti og væntingum um skipti á sléttu yfir í nýja viðmiðunargjaldmiðilinn ef og þegar óskað er. Sálfræði skiptir talsverðu máli á mörkuðum og ber ekki að vanmeta þátt hennar. Gallar: Kostnaður við skipti á seðlum og mynt er allt að 41 milljarður króna í beinhörðum gjaldeyri. Upp kæmi fangaþversögn (Prisoner’s Dilemma) þar sem krónueigendur, sérstaklega erlendir, myndu vilja skipta IEU/ISD í „alvöru“ EUR/USD strax á fyrsta degi til að vera „fyrstir út“ áður en „alvöru“ EUR/USD klárast í Seðlabanka Íslands. Þar sem vitað er fyrirfram að gjaldeyrisforðinn nægir ekki til að losa alla út, vilja allir losna sem fyrst. Loforðið um skiptin er því ógerlegt að efna, nema gjaldeyrisforðinn sé nægilega stór og trúverðugur – sem hann er því miður ekki.
- Tvíhliða upptaka annars gjaldmiðils. Hér er átt við samkomulag við annað ríki og/eða seðlabanka um að kosta útskiptingu krónunnar og fjármagna útflæði vegna hennar, og taka í kjölfarið við sem seðlabanki Íslands og bakhjarl íslenska bankakerfisins. Ef um er að ræða ríki með tiltölulega lítinn gjaldmiðil, t.d. Kanada eða Noreg, þyrfti það að vera reiðubúið að fjármagna útflæði upp á allt að 6-10 milljarða bandaríkjadala. Kostir: Happdrættisvinningur fyrir krónueigendur. Þeir fengju alþjóðlega gjaldgengan gjaldmiðil fyrir allar sínar krónur í boði hins vinveitta ríkis. Fyrirsjáanlegur stöðugleiki og lægri vextir. Gallar: Finna þarf „vinveitt ríki“ sem er tilbúið til verulegra fjárútláta án þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Framsal fullveldis og sjálfstæðis í peningamálum, enn frekar en með upptöku evru. Ef um er að ræða gjaldmiðil utan EES er vandséð að Ísland gæti verið áfram innan EES. Sníða yrði löggjöf og regluverk fjármálamarkaðarins að löggjöf samstarfslandsins og innlendir bankar færu að líkindum undir erlent fjármálaeftirlit og seðlabanka.
- Skiptigengisleið Lilju Mósesdóttur. Lilja vill búa til Nýkrónu og skipta gömlum krónum í Nýkrónur á mismunandi skiptigengi. Svokölluðum „froðueignum á leið úr landi“ yrði t.d. skipt á genginu 2 og húsnæðisskuldum á genginu 1,25. Með þessu yrði ákveðnar eignir teknar upp (lækkaðar) og skuldir afskrifaðar. Kostir: Skuldabyrði myndi minnka og snjóhengja erlendra krónueigna dragast saman um helming. Gallar: Þessi ráðstöfun gengur gegn friðhelgi eignarréttar skv. ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar og 17. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Afskrift húsnæðisskulda yrði á kostnað lífeyrisþega nútíðar og framtíðar, og skattborgara (í gegn um Íbúðalánasjóð). Lánshæfi ríkissjóðs myndi skaðast til frambúðar sem torveldaði lántökur og hækkaði vaxtakostnað komandi kynslóða.
- Upptaka evru með aðild að ESB. Þessi leið er svipuð tvíhliða upptökunni en hefði þann undanfara að við aðild fengi Seðlabankinn aðstoð evrópska seðlabankans ECB við að halda gengi krónunnar innan tiltekinna vikmarka (+/- 15%) frá markgengi evru (ERM II rammi). Evran er önnur helsta utanríkisverslunarmynt Íslendinga. Að öllu jöfnu er ekki reiknað með að ríki séu með gjaldeyrishöft við inngöngu í ERM II. Ljóst er að um það atriði þarf að semja sérstaklega við ESB. Þegar svokölluð Maastricht-skilyrði hafa verið uppfyllt, sem getur fyrst orðið tveimur árum eftir inngöngu, er öllum krónum skipt yfir í evrur á því markgengi sem samið var um, í boði ECB. Ekki þarf að kaupa seðla eða mynt sérstaklega. Snjóhengja erlendra krónueigna hverfur sjálfkrafa. Til þess þarf íslenska ríkið ekki að taka evrur að láni, öfugt við það sem Lilja Mósesdóttir heldur fram. (Fjárstreymi milli aðildarbanka evrópska seðlabankakerfisins myndar innistæður og kröfur þeirra á milli en jöfnuður einstakra aðildarbanka er ekki á ábyrgð skattgreiðenda eða vandamál þeirra.) Kostir: Krónan yrði trúverðugri og stöðugri strax við inngöngu í ERM II, en við upptöku evru breytast allar krónur í alvöru evrur sem eru gjaldgengar hvarvetna. Vextir lækka og verðtrygging verður óþörf. Búast má við aukinni erlendri fjárfestingu til landsins í kjölfar evruupptöku. Gallar: Krefst aðildar að ESB (sem margir telja þó ekki galla). Peningamálastefna verður ekki lengur sjálfstæð og þar af leiðandi ósveigjanlegri, sem getur kostað atvinnuleysi þegar kreppir að. Uppfylla þarf ströng skilyrði um agaða hagstjórn til að komast í evru. Semja þarf um sérstaka meðhöndlun í ERM II vegna gjaldeyrishafta.
Eins og sjá má af ofangreindu er enginn kostur alveg borðleggjandi, ókeypis eða áreynslulaus. En þegar móta á stefnu með skipulegum og skynsamlegum hætti, þarf að skilgreina markmið, leggja mat á kosti og galla hinna ýmsu leiða með vísan til markmiðanna, og rökstyðja hver sé skásti kosturinn í stöðunni. Þetta þarf að gerast í opinni og lýðræðislegri umræðu. Hlutverk stjórnmálamanna er svo að hvetja umræðuna og leggja til hennar, draga saman niðurstöður, skerpa myndina og efla sátt um niðurstöðuna. Síðan þarf að fara þá leið sem ákveðin er. Þar munu skiptast á skin og skúrir áður en komið er í mark. En okkur er ekki til setunnar boðið; vegferðina þarf að hefja sem fyrst.
Mér sýnist leið 1 vera sú sem farin verður. Hinar leiðirnar eru ekki raunhæfar. Ég held að íslendingar séu ekki að fara að kjósa sig inn í ESB.
Leið 1 er sú raunhæfa. Við þurfum að styrkja peningastefnuna eins og leið 1 bendir á og vinna okkur hægt og rólega út úr hruninu eins og við höfum verið að gera undanfarin ár. Þetta kemur allt hægt og rólega.
Það eru engar skyndilausnir raunhæfar.
Við erum sammála um það, Þórhallur: Það eru engar skyndilausnir raunhæfar.
Hvaða leið finnst þér best?
Við erum á leið 1 og ég vona að leið 6 (upptaka evru eftir aðild að ESB) geti tekið við af henni. Tel það haldbærustu lausnina til framtíðar. Með þeirri leið eigum við besta möguleika á að byggja upp velferð og atvinnulíf sem komandi kynslóðir vilja og sækja í. Ég óttast að krónuhagkerfi muni fyrst og fremst henta frumframleiðslugreinum, en vera til trafala fyrir greinar sem þurfa sérfræðinga og sérhæfða iðnaðarmenn – fólk sem er færanlegt milli landa. Það eru einmitt greinarnar sem við þurfum að byggja upp og efla.
Leið 6 gæti með tíð og tíma sett okkur í þá stöðu sem Nýfundnaland var í, þ.e þeir ganga í Kanada sem buguð þjóð, staða þeirra í dag innan Kanada er lituð af því. Það má sjá á umfjöllun margra Evrópskra fréttamiðla að þeir telji okkur bugaða og á hnjánum í ölmusuleiðangri í Brussel. Ég geri fastlega ráð fyrir að ESB í dag sé bara núverandi birtingarmynd á hinu væntanlega stórríki sem yrði USE.
Það þarf ekki endilega að vera slæm tíðindi að Evrópa verði að USE heldur væri samningsstaða okkar margfalt betri ef svo væri enda minnsta mál að taka tillit til sérhagsmuna hvers svæðis um sig í sambandsíki heldur en í núverandi ESB.
Tíminn vinnur með okkur og er farsælast að bíða átekta og sjá hver þróun í Evrópu verður áður en við göngum óvart inn á röngum forsendum.
Núverandi stefna um aðild að ESB ber frekar vott um hugsjónahita í erfiðu árferði heldur en að um yfirvegaða taktík sé að ræða. Aðild að Evrópu er langhlaup, sem getur tekið mannsaldra, en ekki spretthlaup á einum mannsaldri eða fáum áratugum.
Leið sjöunda leiðin er möguleg: Hár skattur á fjármagnsflutninga úr landinu sem yrði lækkaður í skrefum á löngum tíma.
Ekki skyndilausn en einfalt, ódýrt og engin hætta á að skattborgarar sitji eftir með 1000 milljarða skuld vegna fastgengisbrölts (hvort sem það heitir ERM II eða eitthvað annað).
Já, þetta er eiginlega útfærsla á leið 1 með stiglækkandi Tobin-skatti. Það má segja að gjaldeyrisútboð Seðlabankans séu tilraun í þessa átt.
Gott yfirlit í miðju moldvirðinu. Fyrir mér er spurningin varla um nema 1 og 6 — 1 þangað til 6 gengur upp. Kannski svipað og hjá Hans. Takk, Vilhjálmur.
Aðal málið er að „landsfeður og mæður“ standi undir nafni og hagi sér samkvæmt því. Hér er svo stórt og alvarlegt mál á ferðum að aldrei má blanda því sérhagsmunum, aldrei.
Það fólk sem telur sig verðugt þess að teljast „landsfeður og mæður“ þurfa að setja sjálfu sér harðari og óvægni reglur en öðrum, þannig fæst besta lausnin á þessu.
Annars sammála Merði Árnasyni.
Rétt, þetta er svo stórt og mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur og komandi kynslóðir að það er ótækt að sérhagsmunir ráði ákvörðun um leiðina sem farin verður.
Við getum rætt um mögulegar leiðir og raunhæfar leiðir. Það er sama hvaða leið er farin, vandinn verður til staðar þar til búið er að jafna hallann á gjaldeyrisjöfnuði/viðskiptajöfnuði. Enginn leiðanna verður lausn, ef þetta mál er ekki leyst. Við verðum að létta þrýstingnum sem er á krónunni, þannig að hún geti jafnað sig.
Við þurfum því að skoða hvernig verður það vandamál leyst. Markmiðin eru einföld: A. Auka það mikið (tímabundið) muninn á magni gjaldeyris sem streymir inn og út úr landinu, innstreyminu í hag, að hægt sé að gera upp misvægi fortíðarinnar. B. Eftir að jafnvægi er komið á, að viðhalda jafnvæginu til langs tíma.
Málið er að ekki skiptir máli hvaða mynt við erum með, ef við náum ekki þessum markmiðum.
Ég gæti farið út í langt mál um það hvað þarf að gera, en þar sem það er ekki umræðuefnið á þræðinum, þá geri ég það ekki.
Ef við tökum upp evru, sem er helsta viðskiptamynt okkar í utanríkisviðskiptum, þá verður viðskiptajöfnuður allt annað og miklu minna áhyggjuefni en ef við erum með krónu. Meðan við erum með krónu þá kemur óhagstæður viðskiptajöfnuður fram í lækkandi gengi krónunnar, sem hefur áhrif á lán og kaupmátt alls almennings. Eftir að við tökum upp evru hefur „óhagstæður viðskiptajöfnuður“ einstakra fyrirtækja eða lögaðila hins vegar engin almenn áhrif á kjör landsmanna. Vissulega vandamál viðkomandi lögaðila, en ekki almennings með sama hætti og nú er. Sama á við um „erlendar skuldir“ ríkissjóðs, en með upptöku evru verða (nánast) allar skuldir ríkissjóðs í heimamyntinni, þ.e. þeirri mynt sem skatttekjur er í. „Erlendar“ skuldir hverfa því sem sjálfstætt vandamál.
Hvernig getur þú sagt þetta, Vilhjálmur? Ertu að gefa í skyn að Seðlabanki Evrópu muni bara leggja Seðlabanka Íslands til endalaust evrur svo peningamagn í umferð haldist rétt? Hugsanlega verður vandinn minni, en hann verður verulegur. Paul Krugman hefur einmitt bent á í bloggi sínu að þau lönd Evrópu sem eru í mestum vanda, eru þau sem eru með mest neikvætt misvægi á viðskiptajöfnuði.
Nei, við þurfum að ráðast með kjafti og klóm að þessum viðskiptahalla og ekki fyrr en við erum búin að snúa þeirri stöðu við mun ástandið lagast. Ein hlið af því er að halda eins mikið aftur af innflutningi og efla innlenda framleiðslu hvort heldur til að selja á innlendum markaði eða flytja út. Önnur er að draga úr fjármagnskostnaði í útlöndum og minnka ávöxtun sem við erum að bjóða erlendu fjármagni hér á landi.
Já, Seðlabanki Íslands yrði aðili að evrópska seðlabankakerfinu (ECSB) og nyti ótakmarkaðrar lausafjárfyrirgreiðslu frá ECB, svo lengi sem hann getur lagt inn veð, þ.á.m. íslensk ríkisskuldabréf. Einnig ber að hafa í huga að eitt af Maastricht-skilyrðunum er um sjálfstæði Seðlabankans, sem mun hvorki þiggja fé úr ríkissjóði né leggja fé í ríkissjóð. – Auðvitað verður það vandamál út af fyrir sig ef minna fé leitar til landsins en fer út úr því, og bendir til þess að hvetja þurfi til fjárfestingar og efla traust og trú á hagkerfinu, en það er ekki vandamál almennings í þeim skilningi að það hafi áhrif á gengi gjaldmiðils, verðbólgu, verðtryggingu og höfuðstól lána eins og nú er í krónuhagkerfinu.
Þú getur nú betur en þetta, Vilhjálmur. Vandinn við viðskiptahallann okkar er einmitt erlend skuldsetning og þú leggur til að það sé leyst með frekari erlendri skuldsetningu!
Nei, þessi vandi verður ekki leystur nema með því að auka innanlandsframleiðslu og draga úr innflutningi. Við verðum að efla innanlandsframleiðslu, þannig að við sem þjóð verðum eins sjálfbær og við frekast getur orðið. Það er t.d. betra fyrir okkur að kaupa dýrar innlendar landbúnaðarvörur, en að flytja inn ódýrar erlendar. Það er betra að framleiða yfirbyggingar á hópferðabíla hér á landi, en flytja þá fullbúna inn, þó svo að heildarkostnaðurinn við vinnuna hér á landi sé meiri meðan hráefnisverðið er lægra. Það er betra að ráða íslenska verktaka til að reisa virkjanir en erlenda, þó svo að kostnaðurinn við verkið verði hærra. Ástæðan er alltaf sú sama. Sá kostur er hagstæðastur í augnablikinu sem kostar okkur minnstan gjaldeyri.
Marinó: Þú ert að rugla saman skuldsetningu og lausafjárfyrirgreiðslu. Ríkið yrði ekki ábyrgt fyrir evruskuldum einkaaðila eða banka (utan innistæðutryggingar); ekki heldur Seðlabankans. (Lausafjárfyrirgreiðsla Seðlabankans felur heldur ekki í sér nettó skuldsetningu bankans.) Og ef við værum komin í evru, þyrfti einmitt ekki að viðhafa miðstýrða áætlanagerð um innlenda framleiðslu (verndarstefnu, merkantílisma), vegna þess að viðskiptajöfnuður hættir að vera vandamál almennings í gegn um gjaldmiðilinn.
Vilhjálmur, farðu nú að ákveða þig. Í svarinu á undan segir þú að sett verði ríkisskuldabréf að veði og núna segir þú að skuldsetning aukist ekki. Ef setja þarf eitthvað að veði, þá eykst skuldsetning.
Ef Seðlabanki Íslands ætlar að halda sama peningamagni í umferð, það verður jú á hans ábyrgð, þar sem bankarnir fá ekki lengur að búa til peninga með verðtryggingu, þá þarf hann að setja þá í umferð. Þar sem hann býr evrur ekki til, þá þarf hann að fá að láni evrur frá Seðlabanka Evrópu, eins og Seðlabanki Írlands hefur þurft að gera og sá í Ungverjalandi. Lán fela í sér vexti sem þarf að greiða, þannig að þegar SÍ endurgreiðir ECB þá þarf hann að greiða hærri tölu til baka og eykur þannig á viðskiptahallann.
Nei, enn og aftur. Við leysum vandann við viðskiptahallann bara með því að taka til hjá okkur, þ.e. efla innanlandsframleiðslu og láta hana koma eins mikið í staðinn fyrir innflutning og hægt er. Við þurfum ekki bara að ná sjálfbærni heldur þurfum við að ná verulegum afgangi í umtalsvert langan tíma til að tæma flórinn. Myntin sem við verðum með meðan þessu stendur skiptir engu máli. Meðan við höldum áfram að vera með neikvæðan viðskiptajöfnuð, þá verðum við að vera með einhvers konar höft.
Ég held svei mér þá að allar setningarnar í þessu síðasta innleggi þínu, Marinó, séu rangar. Lausafjárfyrirgreiðsla banka hjá seðlabönkum fer hvarvetna að mestu leyti fram í gegn um endurhverf viðskipti (repo) þar sem veðhæf skuldabréf eru lögð inn hjá seðlabankanum og hann lætur bankana hafa reiðufé (krónur, evrur, dollara…) í staðinn. Þetta yrði með sama hætti hjá Seðlabanka Íslands gagnvart evrópska seðlabankanum. Seðlabankinn yrði aðildarbanki evrópska seðlabankakerfisins ECSB og getur „búið til evrur“ í repo-viðskiptum. Í þeim viðskiptum verður engin nettó skuldsetning hjá Seðlabankanum. Seðlabankinn lætur svo íslenskum viðskiptabönkum evrurnar í té á kostnaðarverði eða því sem næst. Athugaðu að einnig verða í umferð evrur frá öðrum viðskiptabönkum á evrusvæðinu enda fólki og fyrirtækjum heimilt að vera með reikninga í bönkum hvar sem er innan ESB. Það er því ekkert séríslenskt „peningamagn í umferð“ sem Seðlabanka Íslands er ætlað að sjá um; hér gæti Danske Bank t.d. sett upp útibú og dreift „dönskum evrum“ um allt í boði danska seðlabankans. – Og enn einu sinni: það verður enginn „viðskiptahalli“ sem almenningur þarf að hafa áhyggjur af með sama hætti og af krónuhallanum í dag. Vitaskuld þarf að laða að erlenda fjárfestingu o.s.frv. en það verður af öðrum ástæðum en þeim að verja þurfi gengi gjaldmiðilsins með jákvæðum viðskiptajöfnuði.
Hvað með leið tvö með háum Tobinskatti t.d. 80 prósent fyrstu 5 árin?
Annars líst mér einna skárst á síðustu leiðina, held ég, -ennþá.
Takk fyrir fróðlega og fína grein.
Takk fyrir málefnalegan og góðan pistil Vilhjálmur.
Að mínu mati eru i raun bara tvær leiðir og þar af aðeins önnur skynsamleg. Hún heitir leið 6. Hinar leiðirnar eru ekkert raunhæfar og eru bara í besta falli teoría sem hagfræðingum sumum finnst gaman að fabúlera með.
Hin leiðin er eigi svo skysamleg en sennilegast detta íslendingar niður á að fara hana, allavega fyrst um sinn. því . Munu velja hinn verri kostinn. Og það verður ekkert með aðhaldi eða aga eins og nefnt er í leið 1. Verður auðvitað barasta með sama hringavitleysishætti og verið hefur hingað til.
þegar menn loks fara leið 6 þá verður að líklega með skyndilegum hætti. Er oft þannig þegar að þróun nær loks hingað eftir að hafa verið lengi allt um kring – þá gerast umskiptin á Íslandi bara allt í einu eða á stuttum tíma. Er svo skrítið nefnilega.
Jamm. Ég er, eins og þú, dálítið efins um að menn átti sig á hvað felst í aganum sem um er rætt í leið 1. Margir þeirra sem vilja fara þá leið munu svo við næsta tækifæri væla yfir vonsku Seðlabankans, þegar hann hækkar vexti, festir í sessi höft á fjármagnsflutningum og bannar mönnum að taka erlend lán. Það er nefnilega orsakasamhengi þarna á ferð – og ekki hægt að bæði eiga kökuna og borða hana.
Tilbrigði við stef „Að halda í krónuna og aflétta höftum hratt“ en með þeim fyrirvara að það gerist að liðnu ári og það sé sagt svo aðilar sem hagsmuna eiga að gæta geti undirbúið sig. Og áður en ósköpin ganga yfir verði verðtrygging afnumin þannig að lántkar og lánveitendur hafi lokið samningum sín á milli þegar höftum er aflétt.
Ef verðtrygging yrði afnumin og svona lagað væri fyrirséð kæmu væntanlega í staðinn óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Greiðslubyrði þeirra yrði gríðarleg á meðan farið yrði í gegn um verðbólguskaflinn. Það myndi ekki hjálpa heldur þvert á móti. (Sama átti við í október-nóvember 2008 þegar stýrivextir Seðlabanka fóru á tímabili í 18% sællar minningar. Sem betur fer voru lán almennt ekki með stuttum breytilegum vöxtum þá.)
Ég get ekki betur séð en það séu talsverðar ýkjur að halda því fram að þessi svokölluð snjóhengja af gjaldeyri sem vill fara úr landi sé 1000 milljarðar því það er til talsvert af gjaldeyri upp í þetta.
Seðlabankinn er með um 1000 milljarða í erlendum gjaldeyri. Hluti af þessum gjaldeyri eru lánin sem voru tekin frá AGS og vinaþjóðum. Afgangurinn er að mestu leyti gjaldeyrir sem þrotabú gömlu bankanna hafa innheimt og geyma í Seðlabankanum. Það er því til talsvert upp í þessa 1000 milljarða sem verið er að tala um. Þetta eru krónueignir erlendra aðila sem leituðu hingað í háa vexti og erlendar greiðslur til kröfuhafa föllnu bankana.
Vöru og þjónustujöfnuðurinn hefur verið jákvæður um sirka 140 milljarða á ári síðastliðin þrjú ár. Ég mundi skjóta á að erlendar vaxtagreiðslur séu milli 40-50 milljarðar á ári ef Actavis er undanskilin. Það er því að koma inn í landið um 90 milljarðar af gjaldeyri á ári þegar krónan er eins veik og hún er í dag.
Jákvæður viðskiptajöfnuður gerði til dæmis Landsbankanum kleift að safna 50 milljörðum í erlendum gjaldeyri í fyrra. Þennan gjaldeyri notar síðan Landsbankinn til þess að greiða af erlendu skuldabréfi sem var gefið út til gamla Landsbankans sem var um 280 milljarðar.
Útgerarfyrirtækin eru að greiða niður erlendar skuldir. Skuldir Landsvirkjunar lækkuðu um 20 milljarða í fyrra.
Við erum smá saman að vinna okkur út úr erlendu skuldafargani sem var stofnað til í góðærinu. Þetta gerum við með því að fara leið 1 sem Vilhjálmur benti á hér fyrir ofan. Það tekur nokkur ár enn að jafna stöðuna en eftir því sem erlendar skuldir minnka þá skapast forsendur fyrir því að krónan styrkist. Krónan verður síðan rétt skráð þegar skuldirnar verða í jafnvægi og viðskiptajöfnuðrinn nálægt núllinu.
Við verðum því að vera þolinmóð í nokkur ár enn og lækka erlendar skuldir með afgangi á útflutningi. Leið 1 er að virka þvi það er verið að fara hana í dag.
Þórhallur Kristjánsson
14.4 2012 @ 22:58
Leið 1 er í gangi og leið 1 er að virka. En það eru kosningar eftir akkurat ár og þá fer ýmislegt á kreik sem ekki er endilega skynsamlegt. Þú kaupir engin atkvæði með því að segja fólki að bíða í 5-10 ár í viðbót. Það vita pólitíkusarnir. Þeir mæta með skyndilausnirnar og glópagullið.
Margt til í þessu hvoru tveggja hjá ykkur, Þórhallur og Sjóður…
Sambland af leið Lilju og Hægri Grænna, er eina færa leiðin.
Efnahagsráðgjafi Samfylkingarinnar telur að upptaka evrunnar sé töfrabragð. Hann fullyrðir að snjóhengja erlendra krónueigna muni hverfa sjálfkrafa við upptöku evrunnar! Það mun ekki gerast nema Íslendingar tryggi Evrópumet í ávöxtun ríkisskuldabréfa, innistæðna og annarra fjárfestinga kröfuhafa gömlu bankanna. Við upptöku evrunnar eiga vextir hér á landi að nálgast evrópska vexti. Lítill vaxtamunur hér á landi og í Evrópu mun leiða til útflæðis snjóhengjunnar sem er bundin í ríkisskuldabréfum, bankakerfinu og atvinnulífinu, þar sem fjárfestar tengja hagkerfið við áhættu og óstöðugleika. Skattgreiðendur munu þá neyðast til að leggja velferðarkerfinu, bankakerfinu og þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum til aukið fjármagn.
Snjóhengjan hverfur sem vandamál fyrir krónuna, þ.e. það þarf ekki að finna gjaldeyri til að losa krónurnar út. Þær breytast sjálfkrafa í evrur í boði ECB. Eftir sem áður eiga þessir erlendu aðilar viðkomandi eignir, þ.e. innistæður í íslenskum bönkum, ríkisskuldabréf og aðrar eignir á Íslandi. Þeir munu vilja taka þær eignir út, selja ríkisskuldabréfin o.s.frv. Það skapar söluþrýsting á eignirnar og mun tímabundið hækka ávöxtunarkröfu íslenskra ríkisskuldabréfa. Á móti kemur að ísland verður álitlegri fjárfestingarkostur eftir ESB-aðild og upptöku evru, þannig að búast má við innflæði og kaupáhuga á móti. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa mun leita niður á við vegna gjaldmiðlaskiptanna og vegna þess að skuldastaða ríkissjóðs og fjárlagahalli verða tiltölulega góð í alþjóðlegum samanburði. (Við stefnum í hallalaus fjárlög og skuldir hins opinbera undir 60% af VLF á næstu 3-4 árum.)
Sæll Vilhjálmur, góð samantekt hjá þér.
það er ein leið sem hægt er að fara strax á meðan fólk er ósammála um hvaða leið eigi að fara. Hún er að heimila fólki og fyrirtækjum að spara í erlendri mynt. Það mun auka möguleika innlendra fyrirtækja að fjármagna sig hér á landi, það mun lækka greiðslubyrði, efla innlenda eftirspurn og styrkja krónuna.
Fólk er hrætt við orðið „spara“ en það er fullkomin skynsemi að spara „gjaldeyri“ vegna þess að það er skortur á honum. Þessi gjaldeyrir mun ekki draga úr eftirspurn heldur mun eftirspurnin breytast og hlutfall neyslu minnka en sparnaðar og fjárfestingar aukast. Keynes heldur því einmitt fram að auknar fjárfestingar séu leiðin úr kreppunni vegna þess að þar er margfaldarinn (vogaraflið) mest.
Aðrir hagspekingar eins og von Mises og Schumpeter leggja líka mikla áherslu á tengsl sparnaðar og fjárfestingu.
Nú er fjárfesting í lágmarki og það er því ljóst að áherslan á neyslu hefur verið of mikil á sama tíma og áherslan á sparnað og fjárfestingu hefur ekki verið næg. Einnig skiptir máli að stjórnvöld skapa raunhæfar væntingar um betri tíð.
Mér líst illa á skiptigengisleið ef það á að taka 8 milljónir af 10 eins og Lilja nefnir dæmi um. Sumir hafa unnið mikið fyrir eignum sínum til að fara í nám og stofna fjölskyldur og svona fordæmalaus eignaupptaka mun rústa sumum fjölskyldum og það er ekkert sem réttlætir það.
Sömuleiðis hafa stjórnvöld gert mistök þegar þau lýsa því yfir að krónan eigi inni 20-30% hækkun. Það gerir það að verkum að aflandskrónueigendur bíða í stað þess að taka þátt í útboði Seðlabankans á lægra gengi. Ef þeir geta búist við 20-30% hagnaði er minni möguleiki á því að þeir fari út með 50% tapi.
kveðja,
Lúðvík
Er það rétt að segja að Evran sé helsti útflutningsgjaldmiðill Íslands? Sumir segja að það sé eingöngu vegna þess að útflutningur áls frá Íslandi sé gerður upp í Evrum til að auðvelda afgreiðslu í Rotterdam. Greiðsla fyrir álið sjálft berist í dollurum. Held að það sé réttast að fá þetta á hreint áður en við getum talað um að Evran sé þetta eða hitt.
Ég segi að evran sé helsta utanríkisverslunarmynt Íslendinga. Tékkaði aftur á tölunum og sé að það er ekki allskostar rétt. Evra og evrutengdar myntir (DKK og SEK) eru álíka og dollarinn skv. tölum Hagstofunnar, ef litið er til innflutnings og útflutnings. Mér sýnist Hagstofan telja álið í dollar, að öðrum kosti næði hann ekki sirka helmingi af útflutningi eins og tölurnar sýna.
Takk fyrir gott yfirlit og mjög málefnalega umræðu Vilhjálmur.
Þetta er til fyrirmyndar.
Þetta er fín samantekt og ágætt yfirlit. Hún lítur hins vegar fram hjá stærð vandans, þ.e. gerir ráð fyrir að leiðirnar séu allar færar til að leysa í kringum þúsund milljarða „snjóhengju“, þótt misgóðar geti verið. Ég er ekki viss um það.
Þó svo að upptaka Evru með aðildarsamningum leysi vanda seðlabankans og ríkisins yrði engu að síður mikill fjármagnsflótti fyrirsjáanlegur frá landinu. Þurfi að leysa út 1.000 milljarða á einu bretti yrði það auðvitað ekki tilefni til gengisfellingar evrunnar (en íslenskrar myntar í hvaða formi sem væri), en íslenskir aðilar þurfa engu að síður að vera borgunarmenn fyrir slíkum upphæðum. Varla eru þær geymdar á debetreikningum?
Það verður því alltaf kostnaður við að fjarlægja snjóhengjuna/afnema gjaldeyrishöftin. Sá kostnaður yrði að mestu tekinn út með gengisfellingu í tilfelli íslenskrar myntar (með afleiðingum sem eru vel þekktar hér á landi), en kemur væntanlega fram í fjármagnsþurrð og gjaldþrotum við samningsbundna upptöku annarra gjaldmiðla. Vilhjálmur telur ekki líklegt að „vinveitt“ ríki sé tilbúið að fjármagna útflæði fjármagns frá Íslandi. Ég efast ekki um að ECB vilji hafa sitt á hreinu þannig að Íslendingum verði ekki gefnir peningar.
Þá skiptir mestu að finna leið sem sé sem minnst skaðleg fyrir íslenska OG erlenda aðila. „Plásturinn af“-aðferðin þýðir væntanlega hámarkstjón fyrir bæði Ísland og kröfuhafa. Á hinn bóginn er tillaga Lilju Mósesdóttur um að kostnaðurinn falli allur á eigendur krafnanna. Hvorug aðferðin hugnast mér, því ég held að win-win aðferðin sé eins og oftast kostnaðarminnst og affarasælust. Sú leið felst í því að freista þess að fá aðstoð ECB jafnframt aðild að ESB.
Ég er sammála greiningu þinni, Ómar, varðandi tvíeðli vandans: sé tekin upp evra (þá meina ég „alvöru“ evra) er hið væntanlega útstreymi ekki vandamál hvað varðar gengi gjaldmiðilsins, verðtryggingu eða verðbólgu, eins og hættan er á ef við höldum í krónu eða aðra „heimatilbúna“ mynt. En eftir stendur að viðkomandi krónueignir, sem þá verða orðnar að evrueignum, munu verða seldar og reiðuféð mun fara úr landi. Það þarf hins vegar ekki að vera stórvandamál þótt ríkisskuldabréf gangi kaupum og sölum eða þótt menn taki evruinnistæður (sem urðu til við krónuskiptin) út úr íslenskum bönkum og færi þær yfir í þýska banka eða annað. Bankarnir munu hafa aðgang að lausafé úr evrópska seðlabankakerfinu í gegn um íslenska Seðlabankann og útstreymið hefur ekki áhrif á eigið fé þeirra. (Svo má ekki gleyma því að hinar eiginlegu aflandskrónur sitja á erlendum bankareikningum, ekki íslenskum, þótt þær séu eins og allar aðrar krónur hluti af efnahagsreikningi íslenska Seðlabankans.)
þetta með Snjóhengjuna sko, að þá eru gjaldeyrishöftin líkt og snjóflóðavarnargarður sem sjá má í fjöllum í fjörðum útá landi. Garðar til öryggis fyrir ofan byggðir til öryggis í því skyni að taka hugsanleg snjófóð.
Munurinn er að gjaldeyrishöftin (Snjóhengjuvörnin) eru alveg upp við snjóhengjuna (erlendar krónueignir). Snjóhengjuvörnin var smíðuð sérstaklega til að ákv. hengja kæmi ekki niður.
þ.e.a.s. að ef garðurinn er tekinn – þá kemur snjóhengjan!
Við þessu er bara ein raunhæf lausn. það er að bræða snjóhengjuna! það gerist með upptöku Evru eins og skýrt er í pistli.
Sæll Vilhjálmur,
Skemmtileg grein sem sýnir að þú hefur góða yfirsýn í mikilvægasta máli þjóðarinnar. Ef fleiri en 5% þingmanna hefðu slíka yfirsýn í málinu þá ætti þjóðin bjarta daga framundan.
En ég kem auga á þrjár rangfærslur í þessari grein og vonast til að þú leiðréttir þær eða hafir þær í huga við næstu grein.
Ein rangfærslan kemur fram í leið 5.
Þar segir þú „Þessi ráðstöfun gengur gegn friðhelgi eignarréttar skv. ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar“
Það er alls ekki rétt, í fyrsta lagi gengur skattlagning ekki gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og í öðru lagi..
Ef að við værum stödd í parallel-universe þar sem skattlagning gengi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Jafnvel þá ætti slíkt ekki við í þessu tilviki vegna þess að enginn er neyddur til að láta neitt af hendi. Engin upptaka á nokkrum sköpuðum hlut á sér stað. Menn einfaldlega skipta yfir í nýju krónuna ef þeir vilja. Ef þeir vilja það ekki, þá halda þeir bara sínum gömlu krónum og halda sínum eignum.
Tvær rangfærslur koma svo fram í leið 6.
Sú fyrsta „Evran er helsta utanríkisverslunarmynt Íslendinga.“ Hið rétta er, ESB ríkin eru helstu utanríkisverslunarlönd Íslendinga, Bretland er þar lang stærsta ESB ríkið og í Bretlandi eru notuð Pund.
Sú seinni í leið 6. „Þegar svokölluð Maastricht-skilyrði hafa verið uppfyllt, sem getur fyrst orðið tveimur árum eftir inngöngu, er öllum krónum skipt yfir í evrur á því markgengi sem samið var um, í boði ECB.“
Um leið og ERM-II er tekið upp, þá eru krónufjöllin frjáls til að skipta yfir og valda meira en -15% og ERM-II þar með brostið. Þá þarf að byrja allt ferlið upp á nýtt og ganga í ERM-II aftur, snjófjallaskaðinn skeður og allur á okkar kostnað. Afleiðingunum af þessu lýsir þú mjög vel í leið 2. Eftir að sá skaði er skeður verður þó líklega jafn ljúft að ganga í ERM-II og Evru eins og þú lýsir. En ekki fyrr.
Þakka þetta skýra og rökfasta andsvar.
Varðandi friðhelgi eignarréttar annars vegar og skattlagningu hins vegar, þá er vissulega grátt svæði þar á milli. Það hefur verið talið heimilt að leggja hóflega skatta á eignir, m.a. eignarskatt og auðlegðarskatt. En mér er mjög til efs að dómstólar teldu upptöku helmings eigna vera hóflega eða eðlilega skattlagningu. Ég hygg því að lög um slíkt yrðu talin andstæð stjórnarskrá ef á það yrði látið reyna fyrir dómstólum.
Varðandi seinni punktinn hjá þér þá næ ég honum ekki alveg. Áttu þá við að það yrðu tveir gjaldmiðlar lögeyrir í landinu, gamla krónan og Nýkrónan? Eða ertu einfaldlega að meina að þeir sem vilja komast út úr krónunni, fái að gera það á tvöföldu hlutfalli krónu á móti evru? Það er svipað og nú er í gangi í uppboðum Seðlabankans, nema að uppboðsgengið er 43% lægra en opinbera gengið, í stað 100% eins og í Nýkrónudæminu.
Varðandi utanríkisverslunarmyntina, þá svaraði ég því ofar, og skal leiðrétta orðalagið í pistlinum þannig að það sé rétt.
Varðandi ERM-II, þá er ljóst að það þarf að semja um afléttingu haftanna og stuðning við það ferli sem hluta af aðildarsamningi við ESB. Fordæmislaus staða Íslands að þessu leyti hefur verið báðum samningsaðilum ljós frá upphafi viðræðna. Í prinsippi er ECB tilbúið að veita ótakmarkaðan stuðning innan ERM-II til að gæta vikmarkanna („Intervention at the margins shall in principle be automatic and unlimited“ segir í rammasamningi um ERM II.) En land hefur ekki áður komið inn í ERM-II með snjóhengju eins og við myndum gera og á þeirri stöðu þarf að taka sérstaklega – eins og ég tek fram í pistlinum. Þetta er raunar mikið lykilatriði í aðildarviðræðunum.
Sæll Vilhjálmur,
Til þess að skilja punktinn minn varðandi nýkrónuna er best að hugsa þetta í seðlum. Menn sem eiga tonn af þúsundkrónuseðlum geta átt það tonn áfram í friði. Nei það yrði áfram einn lögeyrir í landinu en ekki tveir, það yrði nýkrónan sem væri lögeyrir í landinu.
En það væri samt engum skylt að skipta þúsundkrónuseðlum sínum yfir í nýkrónuna. Þeir sem vildu gætu sleppt því alveg að skipta og geymt tonnin sín af seðlum við hliðina á arinum heima hjá sér. Menn eiga rétt á bótum skv eignarréttarákvæði stjórnarskrár þegar eitthvað er tekið af þeim. En hér er ekki verið að taka neitt af neinum.
Menn eiga engan rétt á að eignir þeirra haldi háu virði gagnvart öðrum eignum, hvort sem það er land, húsnæði eða þúsundkrónuseðill. Ef svo væri, þá væri nú þegar heldur betur búið að brjóta á eignarrétti hlutabréfaeigenda, húsnæðiseigenda og krónueigenda. Sama gildir svo um rafrænar innistæður.
Varðandi ERM-II punktinn þinn um („Intervention at the margins shall in principle be automatic and unlimited“ segir í rammasamningi um ERM II.).
Þá getur vel verið að ESB vilji taka þetta á sig eftir langar samningaviðræður. En það er ekki eitthvað sem menn ættu að ganga út frá. Menn eiga að búast við hinu versta og vinna raunsætt í málum. Í raun eiga menn að taka til heima hjá sér áður en menn mæta til ERM-II samningaviðræðna.
Sæl öll sömul.
Sjaldgæft að sjá sæmilega ígrundaða umræðu. Meira segja Ómar Kristjáns er ekki með upphrópanir og fyrirsagnir 🙂
Valmöguleikarnir sem þú setur upp Vilhjálmur eru ekki fullnægjandi fyrir okkur sem eigum sögu í útflutningi til margra áratuga. Við stöndum frammi fyrir verulega flókinni og erfiðri stöðu. (við, mundum þá vera við sem skigreinum okkur sem Íslendinga og beru sögu okkar sem þjóðarbrots í hjarta okkar)
1. algjörlega ótengt því hvernig menn líta á á fortíðina þá hefur tekist að koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot, í bili. Það er raunveruleikinn.
2 Algjörlega ótengt því hverjum við viljum hellst kenna glæpinn sem gerði það að verkum að við urðum nærri því gjaldþrota, þá verðum við að finna leiðina sem kemur í veg fyrir að það skeður.
3. Allgjörlega ótengt því hvaða tilfinningu ég ber til sósíal demókrata í Evrópu sem allt gott vilja gera þá liggur okkar vandi í getuleysi okkar að viðahalda jákvæðum viðskiptajöfnuði í lengri tíma en nokkra mánuði í hvert skipti sem það hefur skeð. Við höfum haft gríðarlega þörf til að taka út núna í dag væntanlegar tekjur okkar í framtíðinni. Draumurinn í Evrópulandinu hefur ekkert með þann raunveruleika að gera i.e. að eyða um efni fram. Það hafa þeir gert í langan tíma líka og þeirra staða á að vera okkur víti til varnaðar.
4.Algjörlega ótengt því hvernig við mundum vilja hafa hlutina þá er raunveruleikinn sá að við erum hréfnisframleiðandi ennþá. Við urðum verulega rík og það er okkar kynslóð, (við vorum á sama tíma í MH Villi), sem hefur brugðist í tilrauninni að sannfæra alla um að við séum eithvað sem við erum ekki.
5.Algjörlega ótengt því sem þú hefur skrifað sem 6 leiðir sem við sem þjóðarbrot höfum, þá hef ég ennþá ekki fundið neina skilgreiningu á vandanum. Er þetta vandi þeirra sem eiga ÍSK inná reikningum banka um allan heim? Ef svo er, hverjum er ekki sama? Er það vandinn að það er svo mikið af krónum inná reikningum í bönkum í Reykjavík sem eigendur vilja skipta yfir í alþjóðlegan viðurkenndan gjaldmiðil (samt er M1 og M2 bara skráð sem 40 milljarðar hjá Seðlabanka Íslands)? Ef svo er afhverju er það vandamál? Af hverju er það vandamál að gengið mun falla um 30% til viðbótar? Út af verðtryggingunni? Hvar á hún heima? Hver getur talað við hana svo hún verði ekki reið? Ég veit ekki betur en þessi verðtrygging er eitthvað sem við bjuggum til sjálf, er það ekki? Hún er mæld með mælitæki sem mikil óvissa ríkir um að sé rétta mælitækið er það ekki? er það útaf gengisbundu lánunum sem við meira eað minna öll tókum vegna áeggjan okkar eigin banka? Er ekki búið að banna þau?Svo afhverju allar þessar alhæfingar um valmöguleika í stöðunni (að hann sé bara einn)? Hvern er verið að verja?
6. Algjörlega ótengd þeim skrítna heimi sem þið sem tengist stjórnmála flokkum sem núna eru við völd og reynið að sanfæra ykkur sjálf um að það sé hægt að hlaupa frá vandanum þá er það vissa mín að meirihluti íbúa landsins sem við berum nafn okkar þjóðarbrots frá, er tilbúinn að taka skellinn, skilgreina vandann og halda áfram. Það að vera skuldaþræll sæmir okkur ekki. Tökum skellinn, veiðum meira, spörum, tölum og föðmum hvort annað. Það nefnilega sæmir okkur betur að vera bara þjóðarbrot í ballarhafi. Gerum vandann að raunveruleika, ekki hafa hann óskilgreindann, og sættum okkur við að við erum framleiðendur ekki fjármálaspekúlantar og vinnum okkur út úr honum saman. Við höfum gerð það áður.
Rétt í því að víman er að renna á mann kemur Kristján og öskrar. RÆS.
Mikið er leiðinlegt að sjá Lilju Mósesdóttir vera hér með ómálefnalegan málflutning og nafnaköll. Það lofar ekki góðu um framtíð flokks hennar eða samstarfshæfni hans eftir kosningar, nái hún kjöri á þing eftir ár.
Gallinn við leið 1, sem sumir segja að verði farin eða sé nú þegar í gangi, er sá að íslenskum stjórnmálamönnum hefur aldrei tekist að halda verðbólgunni í skefjum með agaðri hagstjórn. Allir stóru stjórnmálaflokkarnir hafa fengið að spreyta sig í ríkisstjórn og mistekist í hagstjórn. Jafnvel nú, í miðri kreppu, hefur verðbólgan verið í kringum sex prósent. Leið eitt er greinilega að ekki að virka.
Í landi þar sem að ríkir meiri velsæld en í velflestum ríkjum heimsins yrði afar erfitt að fara Þýsku leiðina, þ.e. skiptigengisleiðin sem Lilja mælir með, án þess að það hefði afskaplega neikvæð efnahagsleg áhrif á okkur um leið. Lánskjör myndu snarversna, erlend viðskipti væntanlega sömuleiðis og lífskjör hér é Fróni mjög líklega færast langt aftur í tímann.
Ef við tölum yfirvegað hreint út um kosti og galla allra leiða, í stað þess að tala stöðugt um galla hinna og eigin leiða kosti, þá fyrst skapast möguleiki á yfirvegaðri og þroskaðri umfjöllun.
Mér finnst þér hafa tekist afar vel upp með það í þessum pistli Vilhjálmur og virkilega gaman að sjá rökræna umræðu í framhaldinu. Pistillinn og umræðan hefur sannarlega hjálpað mér við að fá skýrari sýn á málið.
Ef við viljum vera þátttakendur til langs tíma í EES þá er leið 1 ekki raunhæf. Leið 1 mun taka 10-15 ár og við getum ekki brotið fjórfrelsið í þetta langan tíma. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er valkosturinn annars vegar höft og einangrun næstu 10-15 árin eða innganga í ESB. Flestir ættu að vera farnir að skilja þetta.
Eina sem getur verið meira virði en innganga í ESB og framkvæmd á leið 6 er að viðhalda yfirráðum yfir landhelginni og sjálfsákvörðunarrétt okkar þar, ætti ekki að vera of flókið mál þar sem EU stefnir hvort sem er í þá átt með minni miðstýringu.
Það er reyndar þannig að stjórnarfrumvarp Steingríms um sjávarútveginn útilokar algjörlega leið 6 þar sem við verðum að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og höft til að takast á við þá kaupmáttarskerðinguna og lífskjaraskerðingu allrar þjóðarinnar sem það mun hafa í för með sér. Ef þú hreinsar alla arðsemi úr atvinnugrein sem stendur undir 25% af GDP og lætur í hendur stjórnmálamönnum þá hrynja lífskjör fljótlega, skattstofninn verður að engu og allir tapa.
Takk fyrir góðan pistil. Það væri áhugavert að sjá greiningu á leið 1 og hóflegum Tóbinskatti. Mig grunar að fyrir erlendan fjárfesti sem er hér fastur með krónur á ásættanlegum vöxtum en með óásættanlega gjaldeyrisáhættu sé Tóbinskattur ekki mikil fyrirstaða. Nema hann sé þeimmun hærri. Og of hár skattur hefur verið ræddur hér að ofan. En þetta er ekki eini vandinn við Tóbin.
Marínó bendir réttilega á að lausn þessa máls (og annarra) byggir að hluta á auknum gjaldeyristekjum og þá þarf að efla íslenskt atvinnulíf. Til þess þarf aukna fjárfestingu, sem þýðir bætt aðgengi að lánamörkuðum og allt það. Ef við erum með Tóbinskatt en samkeppnislönd ekki er hætta á að hann hafi letjandi áhrif á erlenda fjárfestingu. Nema menn undanskilji arð af fjárfestingu erlendra aðila, með tilheyrandi flækjustigi.
Ég sé því ekki að þessi leið gangi upp.
Tek undir með þér Halldór, þetta eru allt mjög réttmæt áhyggjuefni.
Mjög áhugaverð grein. Ég tek eftir að margir sem rita ummæli, taka vel í leið 6. Hins vegar er (enn allavega) mjög óvíst hvort við förum í Evrópusambandið og margir á móti aðild. Miðað við hvað sú leið er óljós að þá finnst mér vanta að fólḱ ræði um leið 4, (það er tvíhliða upptöku annars gjaldeyris). Miðað við grein þína að þá gæti sú leið verið nokkuð góð. Þá er spurning hvort einhverjar líkur eru á að t.d. Noregur mundi taka þátt í slíku (ef við mundum missa möguleika inn á EES svæðinu með samningi við Kanada að þá er það kannski ekki eins áhugavert). Veit enhver um hugi Norðmanna og hvort þessi leið sé raunverulega til staðar?
Ég er sjálfur svo mikið á báðum áttum með Evrópusambandið og get í raun ekki skilgreint mig sem evru-sinna eða á móti. Hins vegar verður Evra aldrey að veruleika nema með aðild og eins og staðan er í dag að þá er það langt í frá öruggt að við göngum inn þar og ástæðulaust annað en að skoða „hinn“ möguleikan og ræða meira um kosti hans og galla.
ja ég vorkenni þjóðinni.. að hafa svona vinalegan ref sem ráðgjafa… það er víst ekkert hægt að gera með aurana … við sitjum föst! nú r það ekki það sem menn vilja að festast? …auðvitað er hægt að festa gengi krónunnar bara með svolítið flóknum lögum.. svosem að það þurfi tveggja þinga 3/4 meirihluta til að fella krónuna eða hækka og þar með væri sá vandi á bak…og mundi væntanlega efla tiltrú á krónur slík lög…en það er merkilegt að menn vilja festa gjaldmiðilinn til þess að geta andað léttar en losa verðtryggðu lánin… sem menn vilja losna við af því að þau eru föst.. halda alltaf verðgildi þegar annað hrapar.. sem er þá fastur miðill í hugarheimum manna… sem samkomulag.. hið endalausa óbreytta ástand sem er ekki til.. alltaf sama veðrið er bara hugmynd sem er ekki í eðlisfræði né heldur líffræðum og náttúru sem er öll í bylgjum…. það eitt er víst að allt er aðstæðum háð.. það er það sem aurapúkar vilja ekki horfast í augu við að í fjárhættuspili tapa menn jafnvel oftar en þeir vinna… allir eiga að tapa nema þeir… það er það sem vantar bara í dæmið að verðtryggja lánin niðurávið… að þau sígi með öðru í bylgjuhreyfingonum… og það er kallað stuldur hér og varðar bókstaflega við lög.. er glæpur .. sé ekki betur en þau lög séu þá hluti af lygavefnum.. og hin verstu trúarbrögð á mannana verk…. það sem ég sé verst hér er að mér finnst Vilhjálmur setja dæmið upp hér að gangan inn í Evrópu sé eini kosturinn fyrir þjóðina sem vit er í því að Evrópubankar muni sjá um allt hér.. ja það þurfi kannski að veðsetja allar eignir þjóðarinnar og borga aftur innan sviga.. svoaðseigja allir erfiðleikar að baki og allir geta fjárfest vilt og farið með aura að vild í eyðslu út um heim allan… jaa í rauninni sérílagi aðlaðandi fyrir þá sem trúa á rentu af peningum einsog vilhjálmur gerir væntanlega og fleiri.. hin eilífa gróða….bjartsýni og aukningu… uppspönun… og trú á mammon til hins ítrasta… sem er einmitt ekki vit á kúlunni jörð.. við þurfum bara rólegheit og samveru í jafnvægi hér… hætta útþenslunni… fariðeir þá bara út í geiminn.. þar er pláss fyrir endalausan vöxt… jú hann minnist á það í framhjálhlaupi að það þurfi jú að fórna fullveldinu… sem sé soltið leitt en bara eina leiðin.. fyrir buddurnar okkar og eftirleiðis erum við bara þorp í sæg af þorpum þar sem ekkert haggast… allt staabýlt…. en sem öll lúta jú Goldman Sack og félögum…
jú það er hægt að búa til sér gjaldmiðil í hverjum bæ og hverri sveit.. einn frystann og annann síjaðan og saltaðan og sigin… en að við eigum að græða á því að gerast þrælar stórþjófa um aldir alda… ja það er óhugnanlegur misskilningur. Viljastýrður misskilningu þess sem vill komast í peningakassann sem fyrst. Þyrstir í lotto. Hér er banana veifað af lipurð en innihaldið er dapurt. Seljum okkur .. og um leið… jafnvel að borga stórar fjárhæðir til þess að fá að gefa sjálfræðið úr landi. Við erum þjóð og einstök menning sem við eigum að passa uppá, aðrir gera það ekki….. við höfum öll sambönd og getum verið í bandalagi með öllum heiminum en bara ekki með því að kasta frelsinu og ganga inn í bankastjóraríki… ef við ekki sjáum hvernig peningamenn vinna NÚ þegar eru ekki gæfulegir tímar frammundan… öllu verður rænt af þjóðinni og menn sökkva sér dýpra í þetta fen af gróðavon þeirra sem vilja selja allt uppí topp í kvelli. Og svo fljúga með fenginn burt þegar allt er selt… En fyrir þeim sem hafa fengið smjörþefin af fjármagnsgróða er ég hræddur um að peningaleikurinn sé orðin að fíkn.. framleiðsla er ekki mikið til umræðu.. eða öllu heldur auð og verðmætasköpun…mér finnst þessi stúfur verulega áróðurskendur en athyglisvert hvernig það er ofið af fimi. Er tilvist þjóðar bara spurning um að vera með alþjóðlega fjármálamarkað við að selja allt laust og fast?… sérílagi orkuna en almennt allar eignir helst til „erlendra fjárfesta“…er ekkert annað sameiginlegt markmið en að opna allar krukkur fyrir gróðaleiki? Jaa Vilhjálmur veit hvað hann vill fyrir sjálfansig og máski fleiri peningafursta. En hann sér ekki hvert hann er að fara með þjóðina í sínum næstum of laglega hannaða óskalista og með loforðum sem íjað er að um auð og alsnæktir ef bara gert er einsog hann seigir… nú er að koma í ljós hverju er haldið að Jóhönnu og félögum… nefnilega ESB er eina lausnin, allt annað er hörmung á mínu taflborði elski besta.. En hafa menn hugleitt að ef við förum þangað þá erum við í mun verri stöðu að skapa alvöru lýðræði á eigin vegum, kannski enga stöðu til að hagga neinu… nóg hefur alþingi verið stimpilstofnun fyrir lög erlendis frá fram að þessu… og ekki tæki betra við.. ég vil halda því fram að Baltísku löndin séu í algjörri úlfakreppu með sína Evrópuaðild.. ef menn hefðu ekki garðana sína væri hungursneyð í Austurevrópu… hjá venjulegu fólki….. og allt suðrið logar þar fyrir utan og norðurþjóðirnar eru líka að ramba… hversu stabýll er þessi massi af fólki að vera með í klúbbi… ég tala um varnarorð kynslóðanna.. „seljið aldrei sjálfræðið undir erlend yfirráð aftur“ það kostaði okkur 7 aldir að komast frá síðasta erlenda haustakinu… og gæti verið ógerningur að komast út úr þessu með síbreytilegum hausum og fasískum lögum fyrir velfarnað eigandanna.. .. í besta falli gæti það tekið árþúsundir bara að skapa möguleika á að standa uppí hárinu á þeim með manneskjulegt samráð en nú höfum við lag á eigin spítur…og nú er þessi staða kominn upp aftur… að hér er maður sem vill selja sjálfræðið og lofar aðeins meira í budduna… fyrir flesta og jafnvel mikið fyrir þá sem eru nettir og snjallir í lands og auðlindasölu ..þegar allt er stabýlt.. með aurana.. hm… er hægt að kaupa eitthvað fyrir 30 silfurpeninga í dag?
Hvaða kjarabætur höfum við sjálf í farvatninu?
Með réttlæti innanlands yrði jafnara skipt og krónufjöldinn eykst í umferð og það réttlæti fáum við ekki í gegnum Brussel.. það réttlæti verðum við að hafa fyrir að koma á sjálf.. ennfremur með gamaldags hagsýni einsog garðrækt og berjaferðum, sem er auk þess góð fyrir kroppinn, fáum við kjarabót… og svo með því að skapa úr engu…. vinna með nýjar hugmyndir og eldfornar saman… þannig að við eigum margt að vinna… en ekki með því að taka áskorunum kaupsýslumanna um að SELJA fjöreggið í fáti fyrir fáeinar Evrur að láni.. ei meira auraóðag.
Ps og ég hef trú á leið 7 og 8 og 9 líka.. semsé að leggja niður alla banka og innflutning og peninga og hafa bara almenna samhjálp um allar nauðsynjar… skipa öllum landsmönnum í litla hópa sem hafa sjálfstjórn og þing … afhenda þjóðinni landið aftur… og þá verða menn sjálfstæðir og sjálfbjarga smám saman.. og hraustir… þannig að það eru ýmsir möguleikar sem ekki koma fram hér og veruleikinn er flóknari en hér er um rætt. Fleiri áhrifsvaldar. Meira kraftur í súpunni en séð er fyrir hér.
Respect fyrir að nenna að vélrita þetta allt saman, Tryggvi.
Góð og áhugavert grein Vilhjálmur. Mín skoðun er sú að leið 6 sé heppilegust fyrir okkur með sínum kostum og göllum þá eru kostirnir fleiri.
Það eru sumir að tala fyrir leið 1 og benda á að við þurfum að beita agaðri efnahagsstjórn. En það er svo sem oft búið að reyna að hafa betri efnahagsstjórn en hefur því miður aldrei tekist þó svo mikið hafi verið reynt. Einnig er vandamál með EES samningin og gjaldeyrishöftin.
Það verður alltaf erfitt að hafa góða efnahagsstjórn með krónu, verðtryggingu og misvægi á atkvæðum eins og hefur sýnt sig áður.