Föstudagur 07.09.2012 - 18:38 - Lokað fyrir ummæli

Þjóðkirkjan og stjórnarskráin

Í núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands stendur:

62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.

79. gr. […] Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Sem sagt: Þjóðkirkjan nýtur stjórnarskrárverndar. Þessu má þó breyta með lögum frá Alþingi, sem bera verður undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.

Þann 20. október næstkomandi verða kjósendur m.a. spurðir að því hvort þeir vilji hafa ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá. Tilefni spurningarinnar er grein um kirkjuskipan ríkisins í nýrri stjórnarskrá Stjórnlagaráðs, sem hljóðar svo:

19. gr. Kirkjuskipan
Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Hér er breytingin sú að ekki er lengur minnst sérstaklega á evangelisk lúterska þjóðkirkju. Hins vegar er heimilt að kveða á um kirkjuskipan ríkisins, eins og gert er í núgildandi lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Samþykkt nýju stjórnarskrárinnar með 19. gr. eins og hún stendur breytir því ekki stöðu þjóðkirkjunnar samkvæmt almennum lögum.

Það má draga saman valkostina í spurningunni um þjóðkirkjuna sem hér segir:

  • Ef svarað er vill kjósandinn að hin evangelisk lúterska kirkja njóti áfram (óbreyttrar) stjórnarskrárverndar sem þjóðkirkja á Íslandi.
  • Ef svarað er nei vill kjósandinn að þjóðkirkjan sé ekki lengur nefnd sérstaklega í stjórnarskrá en að um hana gildi áfram þau lög sem nú gilda (nr. 78/1997). Efnislegar breytingar á þeirri skipan yrði eftir sem áður að bera undir þjóðaratkvæði.

Ef meirihluti kjósenda svarar við spurningunni yrði 19. gr. frumvarps Stjórnlagaráðs væntanlega breytt þannig að í stað 1. mgr. hennar kæmi texti núverandi 62. gr., sem sést hér að ofan.

Sjálfur mun ég svara spurningunni með nei enda tel ég tímaskekkju að eitt tiltekið trúfélag njóti sérstakrar stjórnarskrárverndar. En eins og hér hefur verið útskýrt felur afnám stjórnarskrárverndarinnar ekki í sér breytingu á stöðu þjóðkirkjunnar skv. almennum lögum. Það mál bíður seinni tíma og þá sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu – ef og þegar þar að kemur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (14)

  • Já, óbreytt ástand.

    Nei, óbreytt ástand?

  • Sigmundur Guðmundsson

    ******************************************************************************

    Mig grunar að öllum þætti fáránlegt að hafa eftirfarandi ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

    „KR skal vera þjóðaríþróttafélag á Íslandi, og skal ríkisv aldið að því leyti styðja það og vernda.“

    Til fróðleiks má bera þetta saman við 62. grein núgildandi stjórnarskrár sem hljóðar svo:

    „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

    ******************************************************************************

  • Páll J.

    Sú hugmynd að hafa nokkur atriði sem kjósendur geta gefið álit sitt á er mjög góð. Mér finnst hins vegar vond hugmynd að skipta um stjórnarskrá í einu lagi.

    Ég er í vinnu eins og flestir og hef ekki tíma til að fara ítarlega ofan í samanburð á núverandi stjórnarskrá og nýja stjórnarskrárfrumvarpinu. Það er verið að neyða mig til að taka fremur lítið upplýsta ákvörðun um framtíðarstjórnskipunarlög landsins. Gríðarlega pirrandi tilhugsun.

    • Sæll Páll og takk fyrir innlitið.

      Það er skiljanlegt að þér finnist þetta bratt. En má ég benda á nokkur atriði í því sambandi. Það hefur staðið til frá lýðveldisstofnun að endurskoða stjórnarskrána og margar nefndir á vegum Alþingis unnið að því verki án mikils árangurs, ef frá er talinn mannréttindakaflinn 1995. Í kjölfar hrunsins skapaðist loksins alvöru skriðþungi fyrir málinu. Þá var haldinn Þjóðfundur með 1000 manna slembivöldu úrtaki, þar sem lagðar voru línur um helstu atriði sem fólk vildi sjá í nýrri stjórnarskrá og um sameiginleg gildi. Síðan tók svokölluð stjórnlaganefnd við keflinu, en í henni sátu sjö sérfræðingar í stjórnskipunarrétti og tengdum sviðum. Hún skilaði tillögum til þjóðkjörins og þingskipaðs stjórnlagaráðs, sem vann áfram með textann í fjóra mánuði og endaði með frumvarp sem samþykkt var samhljóða, 25-0. Þannig að forvinnan í málinu hefur verið bæði lýðræðisleg og með aðkomu jafnt sérfræðinga sem kjörinna og þingskipaðra fulltrúa.

      Plaggið sjálft byggir á (1) núgildandi stjórnarskrá; (2) tillögum stjórnlaganefndar; (3) nýjum erlendum stjórnarskrám og stjórnarskrám nágrannalanda; (4) athugasemdum og tillögum frá almenningi og áhugafólki sem nýtti sér opið ferli stjórnlagaráðs til að hafa áhrif; (5) samþættingu stjórnlagaráðs á öllu ofangreindu og nokkrum efnisatriðum frá því sjálfu á grundvelli niðurstaðna Þjóðfundar.

      En einmitt af því að um er að ræða stjórnarskrá, samfélagssáttmála, finnst mér það ósköp eðlilegt að sem flestir kynni sér málið sjálfir. Plaggið er ekki nema nokkrar A4 síður, skrifað á skýru máli og tiltölulega auðlesið. Að búa í lýðræðisþjóðfélagi felur ekki bara í sér réttindi heldur einnig og ekki síður skyldur. Að kynna sér frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir atkvæðagreiðslu um það er meðal þess sem hægt er að krefjast af okkur flestum. Það er raunar líka gagnlegt, bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið allt, að þekkja samfélagssáttmálann – enda er víða lagt upp úr því að kenna hann í skólum, til dæmis í Bandaríkjunum.

  • Anna B. Mikaelsdóttir

    Það er lélegasta afsökun í heimi að lýðræðið „neyði“ fólk.
    Faðir minn kom sem flóttamaður frá kommúnistaríki og svona „afsökun“ er grátbrosleg!

    Munum öll að það voru kosningar til stjórnlagaþings og allir hafa haft rúmlega tvö ár til að kynna sér málin.

    Páll J. og fleiri hafa ekki lengur afsökun, nema að kjósa alltaf sama flokkinn, ef vera skyldi!

    Það er hræðilegt að þurfa að nota sinn heila sjálf/ur!

    • Halldór L.

      Ertu að segja að lýðræði neyði ekki neinn?

      Nú vill ég ekki hafa Þjóðkirkju en hvað ef að meirihlutinn vill hafa hana? Er þá ekki kraftur meirihlutans að neyða mig til þess að borga í svoleiðis?

  • Kjartan Eggertsson

    Kristin gildi eru grunnur okkar samfélags. Við þurfum skóla til að kenna okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt. Þjóðkirkjan er sá skóli.

    • Halldór L.

      >Kristin gildi eru grunnur okkar samfélags. Við þurfum skóla til að kenna okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt. Þjóðkirkjan er sá skóli.

      Hvaða gildi eru það? Biblían? Þú meinar að stríðsrekstur og undirgefni fyrir bandbrjáluðum einræðisherrum sé grunngildi okkar?

      Og ef að þú hefðir aldrei heyrt um Þjóðkirkjunni heldurðu í alvörunni að þú þekktir ekki muninn á réttu og röngu?

  • Sigmar Þormar

    Trúfrelsi er semsagt stjórnarskrárvarin réttindi (líkt og allar alvöru lýðræðislegar stjónarskrár kveða á um). Trúfrelsið er grunnréttindi lýðræðisþegns (e. inalienable right). En hér á landi má þó afnema trúfrelsið í kosningu með því að kjósa einn söfnuð framar öðrum.Hvílík steypa og ekki ætla ég að taka þátt í skrípaskjöri af þessu tagi.

    • Ég skil ekki athugasemdina, Sigmar. Ertu að meina að atkvæðagreiðslan 20. október „afnemi trúfrelsið“ með því að „kjósa einn söfnuð framar öðrum“? Atkvæðagreiðslan gefur einmitt kost á því að fjarlægja tiltekið trúfélag, Þjóðkirkjuna, úr stjórnarskránni, þar sem það er nú.

  • Sigmar Þormar

    Kjartan minn:

    Kristni er byggð á álfasögum og ævafornum karllægum ofbeldisgildum. Þetta er sjónarmið trúleysinga sem vilja ekkert með trú okkar hafa. Það er kannski í ætt við ofbeldisdýrkun trúar okkar að neyða yfir þetta fólk okkar eigin undarlegu lífssýn.

  • Halldór L.

    Hvað var fólk að hugsa að kjósa jafnvel um þetta?

    Hvaða rugl er að bjóða upp á þetta miðaldamisrétti?

    • Vegna ákvæða núgildandi stjórnarskrár er ekki unnt að kjósa um fullan aðskilnað ríkis og kirkju í þessari atrennu. Það mun alltaf þurfa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um að breyta kirkjuskipan ríkisins, að undangenginni samþykkt Alþingis á lögum þar um. En ég yrði hissa ef slík þjóðaratkvæðagreiðsla verður ekki einhvern tíma á næstu 10 árum eða svo. Norðmenn eru t.d. nýbúnir að aðskilja ríki og kirkju, án þess að það virtist skapa nein meiriháttar vandamál.

Höfundur