Sunnudagur 18.11.2012 - 18:20 - Lokað fyrir ummæli

Örlagadagurinn 12. mars 2012

Eins og kunnugt er gilda gjaldeyrishöft, eða nánar til tekið fjármagnshöft, í landinu. Tilteknar fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti eru bönnuð samkvæmt lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992 með síðari breytingum.

Hin eiginlegu fjármagnshöft voru sett á með lögum nr. 134 frá nóvember 2008, í tíð fyrri ríkisstjórnar. Með þeim var Seðlabankanum heimilað að gefa út reglur sem takmörkuðu tilteknar fjármagnshreyfingar, sem hann gerði.

Með lögum nr. 127/2011 var lögum um gjaldeyrismál breytt þannig að inntak reglna Seðlabankans var fellt inn í lögin sjálf. Þá kom m.a. inn í lögin eftirfarandi töluliður í lista um fjármagnshreyfingar sem væru leyfðar, þ.e. undanþága frá almennu banni við að flytja krónur milli landa (4. tölul. 3. mgr. 13. gr. b):

Fjármagnshreyfingar vegna greiðslu á kröfum úr þrotabúi og greiðslu samningskrafna samkvæmt nauðasamningi, sbr. lög nr. 21/1991, og greiðsla fer fram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.

Sem sagt, greiðslur í krónum úr þrotabúum og vegna nauðasamninga milli landa voru á þessum tíma undanþegnar höftum. Einnig voru lögaðilar undir stjórn skilanefnda og slitastjórna undanþegnir banni við fjármagnshreyfingum í erlendum gjaldeyri (sbr. 4. mgr. 13. gr. n).

Þann 12. mars sl. var haldinn kvöld- og næturfundur á Alþingi þar sem afgreidd voru með afbrigðum lög nr. 17/2012 um breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Hin nýju lög gerðu einkum tvennt. Annars vegar settu þau greiðslu höfuðstóls og vaxta af skuldabréfum undir höftin. – Hins vegar, og það sem mikilvægara er, felldu þau niður ofangreinda undanþágu vegna þrotabúa og nauðasamninga, og undanþágu fjármálafyrirtækja undir stjórn skilanefnda eða slitastjórna. Þar með falla útgreiðslur vegna þrotabúa og nauðasamninga, og á vegum skilanefnda og slitastjórna, undir gjaldeyrishöft.

Vegna ábendinga um óheimila afturvirkni voru innistæður í erlendum gjaldeyri á vegum skilanefnda og slitastjórna sem orðið höfðu til fyrir 12. mars áfram undanþegnar höftum. Seðlabankanum ber „svo fljótt sem við verður komið“ að setja reglur um hvernig undanþágur verði veittar vegna gjaldeyris sem til fellur eftir 12. mars á vegum slitastjórna og skilanefnda. Þær reglur hafa ekki enn verið settar.

Með lögunum frá 12. mars var sem sagt tryggt að Seðlabankinn og stjórnvöld hefðu verkfæri til að stjórna gjaldeyris- og krónuútflæði úr þrotabúum og vegna nauðasamninga, á vegum slitastjórna eða skilanefnda. Þessi verkfæri ber að nota eftir þörfum til að tryggja fjármálastöðugleika og forðast hraða veikingu krónunnar sem annars gæti orðið við ótemprað útstreymi gjaldeyris.

Í ljósi alls þessa, og mikillar alvöru málsins sem kemur sífellt betur í ljós í umræðu, er nauðsynlegt að halda til haga hvernig lög nr. 17/2012 voru afgreidd á Alþingi.

Þau voru samþykkt með 25 atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna gegn 12 atkvæðum Sjálfstæðisflokks. Aðrir þingmenn sátu hjá eða voru fjarverandi.

Meðal þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokks sem greiddu atkvæði gegn herðingu haftanna að þessu leyti voru Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ragnheiður E. Árnadóttir.

Það kemur því nokkuð á óvart að Tryggvi Þór skuli nú segjast vilja framlengja og herða höftin, en batnandi mönnum er best að lifa. Það er mikilvægt að sem breiðust samstaða náist um að halda vel utan um þetta risastóra hagsmunamál þjóðarbúsins. Þar er ekki sama hvernig farið er að, eins og fjallað verður um í síðari pistli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • kristinn geir st. briem

    afhverju fer seðlabankin og ríkið ekki sömu leið virðist vera að þessar tvær stofnanir fari í sithvora áttina munu þíngmen verða harðir í næstu mánuði fram að næstu kosníngum en síðan gera eins og þeir hafi verið að gera siðustu árin gera flest fyrir bankana aðrar eftirlitsstofnanir vinna eftir höfðinu sinna bönkunum ekkert aðhald b.s. gaman að össuri í útvarpinu í dag þar sem hann játaði nokrar sindir alveg merkilegt hvað menn eru eru vitrir fyrir kosníngar en virðast ekki geta lært af þeim sindum eftir kosníngar menn eiga að dæma menn eftir verkum þeira enn ekki eftir orðum. Ég vona hann læri hethvað af þessu enn reinslan seiir anað, einsog nú á að fara að selja bankana og ætlan að fara sömuleið og síðast. þá guð hjálpi íslandi

Höfundur