Miðvikudagur 09.01.2013 - 21:51 - Lokað fyrir ummæli

Afskriftir og (ó)réttlæti

Varla líður vika án þess að DV og aðrir fjölmiðlar slái upp fréttum á borð við þessar:

Hvað er þarna á seyði? Af hverju „fá“ þessir gaurar afskrifaðar skuldir upp á margar milljónir eða milljarða, meðan meðaljóninn þarf að standa í skilum með lánin sín – og engar refjar? Hver borgar þessar afskriftir? Hvar er sanngirnin og réttlætið? Það er von að spurt sé.

Svörin eru eftirfarandi.

1. Hver borgar?

Þeir sem lánuðu bönkunum peninga fyrir hrun; hinir margfrægu „kröfuhafar“. Bankarnir tóku við peningum frá lánveitendum sínum og lánuðu þá aftur fyrirtækjum og einstaklingum. Þessi lán voru eins og kunnugt er veitt af almennu ábyrgðarleysi – svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Bankarnir fóru á hausinn og kröfuhafarnir töpuðu þúsundum milljarða króna, sem þeir fá ekki til baka úr þrotabúum gömlu bankanna, enda afskrifaðir og tapað fé.

2. Kostar þetta þá skattborgara ekki neitt?

Afskriftirnar eru ekki á kostnað skattborgara með beinum hætti. Hins vegar voru lífeyrissjóðir og Seðlabankinn meðal þeirra sem lánuðu bönkunum peninga, sem eru tapaðir að verulegu leyti. Í því liggur tap almennings.

3. Af hverju fær [óábyrgur testósteronbolti X] skuldir afskrifaðar en ekki ég?

Skýringin er almennt sú að bankinn lánaði hlutafélagi í eigu X peningana, ekki X sjálfum og persónulega. Hlutafélög bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum sínum. Það þýðir að mögulegt tap hluthafa einskorðast við hlutaféð sem þeir hafa lagt inn í félagið. Það er ekki unnt að ganga að hluthöfunum persónulega vegna skulda félagsins, nema þeir hafi sérstaklega kosið að gangast í slíka ábyrgð. Þessi staðreynd er bankanum fullkunnug þegar hann ákveður að lána hlutafélaginu peninga. Hún á jafnframt, að öllu eðlilegu, að endurspeglast í veðkröfum og vaxtakjörum lánsins.

Ef í ljós kemur að hlutafélag á ekki eignir til að borga skuldir sínar er ekkert annað að gera fyrir lánardrottna þess en að afskrifa skuldirnar. (En ef einhvers konar glæpsamlegt athæfi hefur átt sér stað, svo sem umboðssvik, geta stjórnarmenn og stjórnendur félags vitaskuld borið refsi- og bótaábyrgð.)

4. Hefði ég þá átt að stofna hlutafélag utan um íbúðina mína?

Það er löglegt og gerlegt. En hafa verður í huga að lán til fasteignakaupa hlutafélaga „eiga“ í prinsippi – ef bankinn er rekinn með eðlilegum hætti – að vera með mun lægra lánshlutfalli og lakari vaxtakjörum en lán til fasteignakaupa einstaklinga, sem eru með veði í eigninni og persónulegri sjálfskuldarábyrgð þeirra að auki.

5. Eru hlutafélög, í ljósi þessa, fáránleg hugmynd?

Nei, þau eru mjög nauðsynleg fyrir nýsköpun og fjárfestingu í atvinnulífi.

6. Hvar er sanngirnin og réttlætið?

Það er góð spurning, en þetta er útkoman úr (a) því ósjálfbæra viðskiptasiðferði og eftirlitsleysi sem viðgekkst og (b) leikreglum réttarríkisins eins og þær voru og eru. Þeim verður ekki breytt afturvirkt.

7. Er þetta dæmi núverandi ríkisstjórn að kenna?

Nei.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (28)

  • Ég er sammála því að það er eðlilegt að afskrifa skuldir af fyrirtækjum sem ekkert fæst upp í skuldirnar. Það sem ég held að fólki svíði mest er að menn eru að fá skuldir afskrifaðar af fyrirtækjunum sínum en fá síðan að halda fyrirtækjunum áfram og reka eins og ekkert sé.

    • Svona eins og Moggann, meinarðu? 😉 En kröfuhafar/bankinn getur metið stöðuna svo að það auki líkur á endurheimtum ef félagið heldur áfram rekstri, jafnvel með sömu stjórnendum. Það er út af fyrir sig þeirra ákvörðun miðað við kalt hagsmunamat. Bankarnir eiga að vera með verklagsreglur um skuldaúrvinnslu sem fylgst er með af hálfu opinberra aðila, þannig að samkeppni raskist sem minnst o.s.frv.

  • Alveg hárrétt. Ef DV hefði einhvern áhuga á því að kynna lesendum sínum heildarmyndina þá myndu þeir ekki selja jafn mörg blöð. Þeir eru í þeim „business“ að vekja upp tilfinningar, helst öfund og reiði til að selja blöð og draga þannig lesendur sína á asnaeyrunum út í sjoppu til að kaupa blaðið.

    Þetta er svona álíka heimskulegt og fréttirnar um þá sem tóku stöðu „með“ eða á „móti“ íslensku krónunni. Fólk virðist ekki skilja það að þeir sem skortseldu krónuna 2007 og 2008 gerðu þjóðinni mikinn greiða því hátt gengi hennar var langt frá því að vera sjálfbært og skortsala þrýsti því eitthvað niður á þessum tíma og minnkaði þar með ójafnvægið.

  • Þórður Magnússon

    Sumt er rétt af því sem þú heldur hér fram, en ekki aðalatríðin.

    Ég hef rekið fyrirtæki í rúma tvo áratugi og það hefur gengið mjög vel, er nánast alveg skuldlaus og á talsverðar eignir. Ég fengi aldrei lán frá bankanum mínum án veða, aldrei. Í gamla daga þegar ég þurfti þess þá þurfti ég að setja allar eignir fyrirtækisins undir, einkaheimili og sjálfan mig. Svona hefur það alltaf virkað gagnvart venjulegu fólki. Hefði ég tapað þá hefði ég tapað öllu.

    Aðalatriðið er að hér virðast gilda allt aðrar reglur á öllum sviðum gagnvart „elítunni“ sem við venjulega fólkið erum greinilega ekki hluti af. Óréttlætið liggur í því.

    • Sígild og traust bankarekstrarsjónarmið duttu út um gluggann 2005-8. Í staðinn kom mikill umboðs- og freistnivandi þar sem útdeilt var nokkurs konar valréttum til þeirra sem í kreðsinum voru. Valréttirnir fólust í lánum til hlutabréfakaupa og fjárfestinga, með svo haldlitlum veðum að tapsáhætta lántakans var lítil en hagnaðarvonin mikil – og svo öfugt hjá bankanum. Þar sem að stærstum hluta var verið að sýsla með annarra manna peninga, þ.e. lánveitenda bankanna, varð umboðsskekkjan (agency problem) ráðandi.

  • Óréttlætið fellst í því að menn sem stofnuðu slík félög njóta enn trausts í bankakerfinu og sumir jafnvel meira trausts en Þórður Magnússon. Kunningjasamfélagið og spilling hvarf ekki á Íslandi við hrunið. Tenglsin sem mynduðust við fyrri viðskipti virðast halda

  • Málefnalegur og greinargóður pistill hjá Vilhjálmi eins og venjulega.

    Ég held líka að SAS hitti naglann á höfuðið með sinni athugasemd. Allur þorri fólks er meðvitaður um tilvist spillingar og reiknar því með því að hún sé alls staðar að verki, hvort sem svo er eða ekki. Þetta sýnir það óheilbrigða andrúmsloft sem leiðir af spillingu og mismunun. Við þurfum að koma okkur út úr því.

  • Ábyrgð stjórnvalda? Hmm … hvað ætli hafi komið margar kærur frá FME eftir að Unnur Gunnarsdóttir tók við þar? Hvað hefur Ásta Helgadóttir Umboðsmaður skuldara gert fyrir skuldara?

    Stjórnvöldum hefur verið mikið í mun að ráða „meinlausa“, þæga fúskara í lykilstöður. Seðlabankastjóri er gott dæmi að mínu mati. Þetta kemur núna betur í ljós þegar veruleikinn varðandi skuldastöðu landsmanna er skoðaður.

  • kristinn geir st. briem

    góður pistill. bankar græða summum verkefnum en tapa á öðrum. Niðurstaðan á að vera í jafnfægi. Þegar men geta t.d. slept því að senda endurskoðaða ársreiknínga til viðeigandi stofnana án viðurlaga jafnvel í mörg ár er eithvað að. Líst vel á á hugmind péturs blöndal. að menn geti ekki farið í marga hríngi með eigalaus félög og hækkað þau í verði. Tekk ekki ofan fyrir mörgum mönum í viðskiptalífinu en þorvaldi heitinum í síld og fiski var einn af þeim

  • Olafur Jonsson

    Þetta er góður pistill en ég er ekki sáttur við niðurstöðuna sem virðist eiga að hvítskúra þá vitleysu sem á sér stað enn þann dag í dag.

    Tökum lán og afskriftir LI til Mónu sem er í eigu Skinney ÞInganes. LI lánar Monu peninga til að kaupa kvóta af S/Þ sem Móna fiskar en S/Þ kemur í verð en bborgar Mónu ekkert. Móna heldur áfram að fá lán hjá LI þar til skuldin er komin í 2,6 milljarðar.

    Á þessum tíma borga eigendur S/Þ eiganda Mónu sér hundruðir milljóna í arð.

    Nú afskrifar LI þessa 2,6 milljarða á þeirri forsendu að Móna (S/Þ) megi alveg eins fá afksrifað eins og aðrir! Þarna eru kvóta „eignir“ og almennar eignir og eigin fé til staðar en ekkert fæst uppí kröfur.

    Sama má síðan segja um 20 milljarða til Guðmundar Kristjánssonar útgerðar risa sem virðist ganga um LI (við hlið Þorsteins Má) eins og hann eigi hann. Fær fullt lán til að kaupa ÚA kvótann fær síðan afskrifaðar 20 milljarða og kaupir skip fyrir 35 milljónir dollara 4,5 milljarða ísl króna.

    Svona eru dæmin sem passa alls ekki inní þessa skilgreiningu að aðilinn eða fyrirtækið eigi ekki uppi kröfur.

    • Þessi dæmi sem þú rekur Ólafur hljóta að vera í aðskildum fyrirtækjum. Eins og fram kemur í pistlinum er ekki hægt að innheimta skuld eins hlutafélags hjá öðru félagi eða eigendum þess, nema um það hafi verið sérstaklega samið með ábyrgðar- eða veðsamningi. En vissulega hljómar mjög einkennilega þegar rekstraraðili hefur valdið banka tjóni, að bankinn sækist eftir frekari viðskiptum og fyrirgreiðslu við þann sama aðila.

      • Það er spillingin, að fá áfram lán og afgreiðslu, eftir að hafa jafnvel oft sýnt að manni er ekki að treysta. Sama virðist gilda um kennitöluflakk.

  • Sæll Vilhjálmur,

    Þrátt fyrir ágætan pistil þá finnst mér ég knúinn – af þörfinni fyrir afskiptasemi einni saman – til að leiðrétta sumt og benda á annað.

    1. „Bankarnir tóku við peningum frá lánveitendum sínum og lánuðu þá aftur fyrirtækjum og einstaklingum.“

    Þetta er ekki rétt því tímalínan í atburðarásinni er röng! FYRST er lánið veitt með bókhaldsfærslum einum saman, SVO er það fjármagnað, m.a. til þess að uppfylla opinberar lausafjárkröfur og ef þær kröfur eru ekki bindandi þá vilja stjórnenda bankanna taka lánin á markaði til að eiga lausafé til staðar (þeir vilja vera „liquid“ og hafa aðgang að „liquidity“). Það er mjög algengur misskilningur að bankar taki FYRST við t.d. sparnaði almennings eða taki lán á markaði og SVO láni þá fjármuni út. Sannleikurinn er að þetta gerist í öfugri röð.

    Þetta vitanlega þýðir að lánið er í upphafi búið til með peningum sem aldrei hafa verið til! Það er nú einmitt það sem bankar gera með sínum lánveitingum, þeir búa til peninga ALGJÖRLEGA ÚR ENGU nema vilja lántakans til þess að greiða þá til baka (með vöxtum) í framtíðinni. Í framhaldi af því má vitanlega spyrja sig hvort það sé hagstæðast, á heildina litið, og jafnvel eðlilegast að skuldin sé greidd að fullu til baka, sama hvað á bjátar, þar sem verðmætin að baki lánveitingunni eru ekki til heldur aðeins sem tölur á blaði eða í tölvu. Og þá komum við að atriðum nr. 2 og 3.

    2. „Ef í ljós kemur að hlutafélag á ekki eignir [eða tekjur almennt séð] til að borga skuldir sínar er ekkert annað að gera fyrir lánardrottna þess en að afskrifa skuldirnar [eða part af þeim].“

    Hér ertu ekki að segja neitt annað en það sem Michael Hudson orðaði svo hentuglega: „skuld sem ekki er hægt að greiða til baka verður ekki greidd til baka.“ Áður fyrr á öldum var raunar gengið svo hart að mönnum í innheimtingu skulda að fyrst seldu þeir dætur sínar og syni, svo eiginkonu og síðan sig sjálfan í þrældóm ef engar aðrar „eigur“ voru til staðar. Blessunarlega hefur nú mannkynið þroskast félagslega síðan þá.

    3. „Afskriftirnar eru ekki á kostnað skattborgara með beinum hætti. Hins vegar voru lífeyrissjóðir og Seðlabankinn meðal þeirra sem lánuðu bönkunum peninga, sem eru tapaðir að verulegu leyti. Í því liggur tap almennings.“

    Hárrétt, nema hér þarftu að taka tillit til þess að um brúttó tap almennings er að ræða. Því vitanlega kemur það til í framhaldinu af þessum afskriftum að hagkerfið hressist, þó ekki nema væri örlítið, þar sem skuldaklafinn á fyrirtækjum og hagkerfinu öllu er þó ekki nema örlítið léttari að bera og þau geta viðhaldið eðlilegri starfsemi innan hagkerfisins. Og jafnvel getur það verið svo að jákvæðu þjóðhagslegu áhrifin af því að afskrifa skuld geta yfirgnætt neikvæðu áhrifin. Og þá er gott að hafa í huga atriði númer 4.

    4. „En kröfuhafar/bankinn getur metið stöðuna svo að það auki líkur á endurheimtum ef félagið heldur áfram rekstri, jafnvel með sömu stjórnendum.“

    Ég ætla að leyfa mér að umorða þessa setningu með þjóðhagkerfið allt í huga:

    „En leiðtogar þjóðarinnar geta metið stöðuna svo að það auki líkur á heilbrigðara hagkerfi [ef skuldir heimila og fyrirtækja eru afskrifaðar að hluta].“ Þetta gleymist nær alltaf þegar rætt er um afskriftir skulda, hvort heldur sem rætt er um skuldir fyrirtækja eða heimila.

    Þannig að til að draga saman kommentin í tvo liði:

    a) skuldirnar voru í upphafi og eru að stórum hluta enn bókhaldsfærslur þar sem engin verðmæti (peningar eru ÁVÍSUN á verðmæti) töpuðust. Lánveitingar bankanna voru ekki flutningur verðmæta frá þeim sem spöruðu til þeirra sem tóku lán, lánveitingar bankanna voru tölur skrifaðar niður á blað eða stimplaðar inn í tölvu. Eðlilega má þá spyrja sig hvort það sé eðlilegt að lánin séu rukkuð inn að fullu? Þú svarar því raunar neitandi ef „hlutafélag á ekki eignir til að borga skuldir sínar…“ Þessu er ég alveg hjartanlega sammála og vil raunar horfa á tekjurnar líka en ekki aðeins eignirnar. Þá er sjálfsagt að íhuga aðra hluta hagkerfisins á sama hátt, s.s. heimili og jafnvel sveitarfélög.

    b) jafnvel þótt almenningur beri eitthvert brúttó tap af því að skuldir séu afskrifaðar í gegnum tapaðar kröfur seðlabankans og lífeyrissjóða þá geta nettó áhrif afskrifta skulda verið þjóðhagslega jákvæð. Og það kemur almenningi best að lifa í heilbrigðu hagkerfi. Því eins og Adam Smith ritaði: „What can be added to the happiness of the man who is in health, who is out of debt, and has a clear conscience?“

    • „En leiðtogar þjóðarinnar geta metið stöðuna svo að það auki líkur á heilbrigðara hagkerfi [ef skuldir heimila og fyrirtækja eru afskrifaðar að hluta].“ Þetta gleymist nær alltaf þegar rætt er um afskriftir skulda, hvort heldur sem rætt er um skuldir fyrirtækja eða heimila.

      Heilbrigðara hagkerfi, manni svelgist á þegar minnst er á það, Við ættum að fá Adam Smith til að koma hingað, getum notað miðil, til að sýna honum auðmagnskerfið á Íslandi. Myndi hann nota málsgrein sína um okkur? Þar sem fáir útvaldir fá hina bestu afgreiðslu sem mögulegt er í þessum heimi en hinir eru launaþrælar. Er þetta ekki svona víðar? Ég sá graf um það að fyrirtækjaeigendur í Bandaríkjunum væru búnir að ná sínu aftur eftir Hrunið en almenningur væri í sömu sporum ennþá……

    • Þú hefðir betur verið hafður með í ráðum, Ólafur, þegar forsvarsmenn Glitnis fóru heimsálfa á milli leitandi logandi ljósi að lánsfé vorið og sumarið 2008. Stór hluti af fjármögnun bankans var á gjalddaga í október 2008 og á næstu ársfjórðungum þar á eftir. Af hverju var það bankanum lífsnauðsynlegt að selja skuldabréf til fjárfesta ef hann hefði bara getað búið til peninga upp í gatið? – En vissulega er það rétt að Seðlabankinn leyfði bönkunum að búa til íslenskar krónur að vild með því að veðsetja nýútgefin skuldabréf hvers annars („ástarbréf“) í endurhverfum viðskiptum („repo“) við bankann. Það nýttu þeir sér eins og enginn væri morgundagurinn, sbr. gríðarlegan vöxt peningamagns í umferð síðustu 2-3 árin fyrir hrun. Og repo-viðskiptin voru einmitt grunnurinn að tapi Seðlabankans í hruninu.

      • „Af hverju var það bankanum lífsnauðsynlegt að selja skuldabréf til fjárfesta ef hann hefði bara getað búið til peninga upp í gatið?“

        Ég svara þessu þegar í athugasemdinni sem ég skrifaði Vilhjálmur minn:

        „…m.a. til þess að uppfylla opinberar lausafjárkröfur og ef þær kröfur eru ekki bindandi þá vilja stjórnend[ur] bankanna taka lánin á markaði til að eiga lausafé til staðar (þeir vilja vera „liquid“ og hafa aðgang að „liquidity“).“

        Svo bendir þú mjög svo réttilega á að Seðlabankinn veitti bönkunum leyfi til þess að búa til ástarbréfin, sælar minningar það. Og hví var seðlabankinn að því? Jú, vegna þess að bankarnir voru, árin 2007 og 2008 þegar ástarbréfin fara almennilega af stað, þegar búnir að búa til mest öll lánin til sinna viðskiptavina. Þeir þurftu í kjölfarið að finna lausafé – fjármagn – til að m.a. uppfylla lausafjárkröfur sem og til að uppfylla eigin þörf og vilja til að eiga lausafé.

        Þetta lausafé reyndu bankarnir m.a. að finna með því að fá almenna einstaklinga til að koma með sinn sparnað í bankana (Kaupthing Edge, Icesave, Glitnir var líka með sína eigin innlánasöfnun, aðallega í Noregi, sem ég man ekki hvað hét) en þegar það gekk ekki lengur reyndu þeir að finna meira lausafé á markaði. Það gekk ekki heldur og þá fóru þeir til bæði Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Seðlabanki Evrópu gerði meiri kröfur um veðhæfi (engin ástarbréf möguleg þar) og því var síðasta lausafjár-hálmstráið sem bankarnir gátu fundið þegar þeir áttuðu sig á því að þeir höfðu lánað alltof mikið út hin margumræddu ástarbréf Seðlabanka Íslands. En þau dugðu ekki til, bankarnir fóru á hausinn vegna arfavitlausra lánveitinga þeirra sjálfra og tóku Seðlabankann og hagkerfið allt með sér í fallinu.

        Lestu þér nú til Vilhjálmur minn um hvernig bankar búa til lán og hvernig útlánastarfsemi þeirra keyrir hagkerifð og peningamyndun áfram. Ég get mælt með t.d. þessum bókum og pappírum:

        „New Paradigm in Macroeconomics“ eftir Werner
        „Macroeconomics after Keynes“ eftir Chick
        „Keynes Betrayed“ eftir Tily
        „The Theory of Economic Development“ eftir Schumpeter
        „Debunking Economics“ eftir Keen
        „Why Are Banks Holding So Many Excess Reserves?“, pappír eftir McAndrews og Keister hjá bandaríska seðlabankanum
        „Business Cycles: Real Facts and a Monetary Myth“, pappír eftir Kydland og Prescott.

        Ekki hika við að vera í sambandi þegar þú ert búinn með þetta lesefni – þú getur horft á þetta sem heimaverkefni – ég skal glaður benda þér á meira lesefni af alvöru vísindalegri hagfræði en ekki trúarsetningum og afneitunum á staðreyndum.

        P.S. Það er enginn að tala um 100% EIGINFJÁRhlutfallskröfu heldur 100% LAUSAFJÁRhlutfallskröfu bankastofnana (sbr. svar þitt við seinni athugasemd Bjarna Gunnlaugs)

  • Skattborgari

    Lesturinn er eins og að vera í kennslustund….sem veitir stundum ekki af. Það sem vantar hins vegar, finnst mér, er eftirfarandi (og ég tek það fram að ég er enginn sérfræðingur í efnahagsmálum en greinin gengur út á hvað er sanngjarnt og réttlátt sem vakti mig til umhugsunar):

    (1) í greininni er fjallað um lán til X sem er byggt á láni frá kröfuhafa eins og lánspeningar verði til úr engu. Það er útskýrt hér að ofan hvernig peningar geta orðið til úr engu í bókhaldi en undirstaðan er eftir sem áður innistæður einstaklinga sem liggja að baki lánum. Icesave var t.d. stofnað vegna þess hversu erfitt var orðið að fá erlent lánsfé, þ.e. Landsbankinn stofnaði innistæðureikninga erlendis sem voru bundnir í ákveðinn tíma á frekar góðum vöxtum og á meðan innistæðurnar voru bundnar þá vour þær teknar að láni (vanalega eru innistæður lánaðar á hærri vöxtum til að borga til baka vaxtagreiðslunar á innlánunum nema hugsanlega ef verið er að fjármagna eigin fjárfestingaverkefni). Hugmyndin var auðvitað að borga innistæðurnar til baka en í staðinn varð til raunveruleg hætta fyrir innistæðueigendur – hætta á að þeir mundu tapa miklum fjármunum (allt umfram innistæðutryggingu) en stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi gripu í taumana (og hvaðan komu þeir peningar….frá skattborgurum…ein af þessum óbeinu afleiðingum sem um er rætt) og núna er verið að láta reyna á fordæmisgildið sem 100% innistæðutrygging íslenska ríkisins hérlendis skapaði fyrir þá sem áttu innistæður í Bretlandi og Holllandi fyrir EFTA dómstólnum. Það getur því farið svo að íslenskir skattgreiðendur verði fyrir frekari „óbeinum afleiðingum“ þó vonir séu bundnar við það að eignir gamla Landsbankans geti gengið upp í skuldina að miklu eða öllu leyti. Mér finnst það sem segir í greininni um að „afskriftirnar eru ekki á kostnað skattborgara með beinum hætti“ þvi frekar misvísandi nema litið sé á skattahækkanir, atvinnuleysi og gjaldeyrishöft og afleiðingar þeirru sem óbeinar frekar en beinar afleiðingar fyrir skattborgara hérlendis.

    (2) Það er ekki útskýrt nánar hvaða óbeinu afleiðingar afskriftir hafa fyrir skattborgara og þá hvort eða hversu þungbærar þær geti verið þó þær séu almennar?

    (3) Í lið 3 í greininni er eins og verið sé að tala um náttúrulögmál en ekki fyrirkomulag sem er mannanna verk (einkum stjórnmála- og viðskiptamanna). Er þetta eina fyrirkomulagið sem er hægt að nota? Niðurstaðan sem er síðan dregið undir lið 6 er „[að] þetta [þ.e. afskriftirnar] eru útkoman úr (a) því ósjálfbæra viðskiptasiðferði og eftirlitsleysi sem viðgekkst og (b) leikreglum réttarríkisins eins og þær voru og [ERU]. Þeim verður ekki breytt afturvirkt.“ Síðan er það ekkert rætt hvað hefur verið gert sl. 4 ár til að (A) bæta viðskiptasiðferði, (B) bæta eftirlit, og (C) laga leikreglur réttarríkisins sl. 4 ár og þar með fyrirbyggja þetta „ósjálfbæra“ fyrirbæri, þ.e. afskriftir upp á mörg hundruð milljónir og allar þær „óbeinu afleiðingar“ sem slíkar afskriftir hafa fyrir hinn almenna skattborgara.

    Og þegar spurt er hvað er sanngjarnt og réttlátt, þá held ég að flestum finnist það skjóta skökku við að mörg hundruð milljóna og milljarða afskriftir geti átt sér stað á meðan einstaklingar eða hópur einstaklinga, sem eru ábyrgir fyrir viðkomandi fyrirtækjum, getið haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist sbr. afskriftirnar (ekki ein heldur fleiri) hjá útgáfufélagi Morgunblaðsins, Árvaks, og laun útgefenda og ritstjóra eru mjög fín og bílaflotinn (útgefandinn keyrir um á einum dýrasta jeppa landsins) en fyrsta afskriftin var vegna prentsmiðju sem Morgunblaðið lét reisa. Já, hvað er sanngjarnt og réttlátt þegar menn virðast geta fengið lán til að reisa t.d. prentsmiðjur, sem virðist ekki vera byggðar á góðum fjárhagslegum forsendum, og fá afskriftir og halda ótrauðir áfram og já sjá til þess að maka krókinn fyrir sjálfan sig með því að fá lán „hjá kröfuhöfum“, þ.m.t. innistæðueigendum, og hlutafé frá almenningi (þ.m.t. lífeyrissjóðum). Það getu vel verið að það borgi sig að halda áfram rekstri en er ekki hægt að skipta um í brúnni? Þetta er eins og skipstjóri á skipi sem siglir því í stand verði skipstjóri á öðru skipi eins og ekkert hafi í skorist. Hefur engar afleiðingar fyrir skipstjórann, bara beinar afleiðingar (andlát) og óbeinar afleiðingar fyrir aðstandendur þeirra sem létu lífið í sjóslysinu sbr. sorg og tekjumissir fyrir fjölskyldur.

    Það sem ég er einfaldlega ósátt við er hversu greinin virðist ganga út á það að sætta sig bara við þetta allt saman. Svona er þetta bara. Ég mundi frekar vilja greiningu á vandanum – hvað veldur svona GÍFURLEGUR afskriftum með öllum þeim óbeinu afleiðingum fyrir aðra en þá sem afskriftirnar varðar beint (eða hlutaðeigendur) og síðan tillögu að lausnum við þessum „afskriftarvanda“.

  • Haraldur Ólafsson

    Þökk fyrir pistil. Hvernig ríma svör nr. 2 og 7 við þá staðreynd að ríkið er að greiða himinháa upphæð með SpKef (langt umfram innistæður)?
    Hvers vegna telur þú að það sé gert?

  • Bjarni Gunnlaugur

    „Bankarnir tóku við peningum frá lánveitendum sínum og lánuðu þá aftur fyrirtækjum og einstaklingum.“ Var það virkilega svo?

    Kemur ekkert svar við athugasemdum Ólafs, Vilhjálmur?

  • Bjarni Gunnlaugur

    Nú er mál að svara Vilhjálmur. Þú ert afskaplega rökvís maður og málefnalegur sem er jú kostur og vantar í umræðuna. Að vísu finnst mér þú velja það sem hentar ákveðnum fyrirframgefnum málstað frekar enn að leita „sannleikans“ en látum það liggja á milli hluta.
    Það er merkilegt með þessar róttæku hugmyndir sem Ólafur Margeirsson, Frosti Sigurjónsson og fl. tala fyrir varðandi peningakerfið að enginn veitir þeim andsvar. Af hverju ætli það sé? Getur verið að það sé einfaldlega að þeir fari með rétt mál, að þetta sé skák og mát í umræðunni? Að ástæðan fyrir því að menn hengi haus gagnvart þessum hugmyndum sé sú að þeir telji sig sjálfa hafa hagsmuni af óbreyttu ástandi peningakerfisins, sama þó það ástand sé að færa þjóðfélagið aftur fyrir þjóðarsátt, áratugi aftur í tíman í víxlverkunarástands verðlags og launa? Að þetta ástand valdi því að enginn spari af því að sífellt er stolið af þeim sem eiga peninga með því að þynna krónuna út með því að prenta nýja peninga sem ávísun á sömu verðmætin og voru fyrir? Þar sem sparnaður er þó verðtryggður eins og hjá lífeyrissjóðunum þá verður hann samt að lofti,pappírshagkerfi sem hefur allt of litla innistæðu í raunhagkerfinu?
    Að þetta ástand geri það að verkum að hér verða kreppur með reglulegu millibili með hroðalegum afleiðingum hjá þeim sem eru með verðtryggingu á lánum, sem enginn þorir þó að leggja niður út af þessu sama ástandi, þ.e. sífelldri peningaprentun og verðbólgu í kjölfarið?
    Nú reynir á Vilhjálmur ertu maður eða mús? Taktu rökræðuna við Ólaf Margeirsson, verðu það peningakerfi sem við höfum í dag og útskýrðu fyrir okkur þessa sífelldu verðbólgu í kreppunni.

    • Ef menn vilja draga saman peningamagn í umferð, hægja á hagkerfinu og minnka fjárfestingu, og jafnvel að fara yfir í verðhjöðnun, er mögulegt innan núverandi laga- og heimildaramma að hækka eiginfjárkröfur og bindiskyldu banka verulega. Ef menn vilja fara alla leið í „betra peningakerfi“ er hægt að fara með eiginfjárhlutfallskröfu í 100%. Ég held hins vegar að það sé svo berlega óskynsamlegt að alvöru hagfræðingum og sérfræðingum þyki ekki taka því að fara í þá umræðu. Það er a.m.k. mín ágiskun.

  • Bjarni Gunnlaugur

    Ólánlegt var það hjá ykkur Samfylkingarmönnum að fremja stjórnarskrárbrot þegar þið fenguð Svein Harald Øygard sem seðlabankastjóra,einkum af því að það var nokkuð skynsamlegur leikur að reyna að læra af reynslu norðmanna sem lentu í talsverðri bankakreppu árin í kringum 1990. „Alvöru hagfræðinga og sérfræðinga“ okkar hafði a.m.k. ekki borið gæfu til að læra af mistökum og svo leiðréttingu norðmannanna. Samkvæmt heimasíðu norska seðlabankans þá höfðu norðmenn búið við aðhaldssama peningastefnu frá stríðslokum og fram á áttunda áratuginn.

    http://www.norges-bank.no/upload/import/publikasjoner/skriftserie/33/chapter1.pdf

    sbr. þetta :“The bank regulation that was in place between the end of World War II and 1984-85 did not have prudential purposes. The main purpose of the quantitative regulations of banks was to control aggregate credit supply as a substitute for a market-based monetary policy. For instance, high capital requirements were not considered important. Since the early 1970s there had in fact been an effective relaxation of the banks’capital requirements.“

    Svo kom skellurinn hjá Norðmönnum, og hvers vegna: „On the contrary, in 1987 –three years after bank lending had
    been liberalised –capital regulation was loosened.“ í framhaldinu voru þeir svo með allt niðurumsig þegar olíuverð lækkaði snöggega og bankarnir reyndust ekki eiga innlán á móti útlánum. (Höfðu búið til peningana sem þeir lánuðu ?)

    Sem sagt okkar „alvöru“ hagfræðingar og sérfræðingar óðu beint út í fenið 10 árum seinna,
    http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6064 – sbr. svona töluðu þeir í júní 2008:

    „Hvorki gullfótur né peningamagnsstýring virtust raunhæfir möguleikar, en árin á undan hafði fjöldi landa tekið upp verðbólgumarkmið, að því er virtist með ágætum árangri. Sum þeirra voru lítil opin hagkerfi, t.d. frumkvöðullinn Nýja-Sjáland. Þó var ekkert þeirra jafn smátt og Ísland.“

    Það bendir þannig ýmislegt til að aukið frelsi banka til útlána og almenn afreglun fjármálakerfisins í fræðilegu umboði okkar „alvöru“ hagfræðinga og sérfræðinga hafi verið einn af hornsteinum hrunsins. Órökstudd álit þessara fræðimanna eða ágiskun um þeirra skoðanir varðandi grundvallarvanda peningakerfisins, eru þannig ekki krónu virði!

  • Bjarni Gunnlaugur

    Ps. það er ágætur punktur hjá þér Vilhjálmur að „Ef menn vilja draga saman peningamagn í umferð, hægja á hagkerfinu …………….. er mögulegt innan núverandi laga- og heimildaramma að hækka … „(eigin- öllu heldur lausa-)“ „…fjárkröfur ……… banka verulega.“

    Þó þú segir að vísu svo í framhaldinu að enginn „alvöru“ hagfræðingu vilja fara þá leið.
    En spurningin á rétt á sér gagnvart þeim sem vilja umbylta pengingakerfinu, dygði þetta ekki til? (burtséð frá snjóhengjunni sem kallar trúlega á skiftimyntarleið)

Höfundur