Mánudagur 15.07.2013 - 16:37 - Lokað fyrir ummæli

Verðtryggð lán og grunnskólastærðfræði

Nýlega birti Umboðsmaður Alþingis álit vegna erindis Hagsmunasamtaka heimilanna um útreikning verðtryggðra lána. Hagsmunasamtökin álitu að verðtrygging lána væri rangt reiknuð hjá fjármálastofnunum. Óheimilt væri að uppfæra höfuðstól með vísitölu áður en afborganir væru reiknaðar, heldur mætti samkvæmt lagatextanum einungis verðtryggja greiðslurnar sjálfar. Eða eins og Umboðsmaður lýsir kvörtuninni:

Bentu samtökin á að í reglunum væri kveðið á um verðtryggingu láns með breytingu á „höfuðstóli“ láns. Í 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem reglurnar grundvallist á, væri hins vegar kveðið á um verðtryggingu „greiðslna“. Að mati samtakanna yrði 13. gr. laga nr. 38/2001 því ekki skilin á annan hátt en þann að verðbætur mætti einungis leggja við afborganir lána en ekki höfuðstól lánsfjár. 

Álit umboðsmanns er ítarlegt og rekur sögu lagasetningar og reglugerða um verðtryggingu lánsfjár í löngu máli. Kemst hann að þeirri niðurstöðu að þegar litið sé til forsögu og samhengis væri það fyrirkomulag sem mælt er fyrir í reglum Seðlabankans um útreikning verðtryggingar í samræmi við lög.

Að mínu mati hefði mátt sleppa hinum ítarlega lögfræðilega rökstuðningi og komast að sömu niðurstöðu eftir mun einfaldari leið, þ.e. leið grunnskólastærðfræðinnar.

Í grunnskóla eru okkur kenndar ýmsar lykilreglur á borð við víxlregluna (a + b = b + a, a * b = b * a) og tengiregluna: a * (b * c) = (a * b) * c. Sem sagt, ekki skiptir máli í hvaða röð tölur eru margfaldaðar saman, niðurstaðan er sú sama.

Afborganir af lánum eru fundnar með útreikningi sem felur í sér röð margfaldana og deilinga. Það á einnig við um verðtryggð lán. Tengireglan segir okkur að það hefur ekki áhrif á niðurstöðuna hvort margfaldað er með vísitölu í upphafi (höfuðstóll uppreiknaður) eða í lok (tiltekin greiðsla uppreiknuð).

Skoðum þetta betur.

Hér er til að byrja með einfalt óverðtryggt jafngreiðslulán*) til 5 ára með 5% vöxtum.

5 ára jafngreiðslulán
Höfuðstóll 1.000.000
Vextir 5%
Fjöldi ára 5
Staða í upphafi Vextir Afborgun Greiðsla Staða í lok
Ár 1 1.000.000 50.000 180.975 230.975 819.025
Ár 2 819.025 40.951 190.024 230.975 629.002
Ár 3 629.002 31.450 199.525 230.975 429.477
Ár 4 429.477 21.474 209.501 230.975 219.976
Ár 5 219.976 10.999 219.976 230.975 0

Í lok hvers árs greiðast 230.975 krónur af láninu, sem skiptast í vexti og afborgun eftir kúnstarinnar reglum, og eftir 5 ár hafa verið greiddar 1.154.874 krónur samtals af þessu óverðtryggða láni.

Skoðum nú hvað gerist ef lánið er verðtryggt, verðbólga er 10% á ári og lánið er reiknað eins og bankar gera yfirleitt, þ.e. höfuðstóll er uppreiknaður jafnóðum með vísitölu áður en vextir og afborgun er fundin:

5 ára jafngreiðslulán, verðtryggt, höfuðstóll uppreiknaður
Höfuðstóll 1.000.000
Vextir 5%
Fjöldi ára 5
Verðbólga 10%
Staða í upphafi Vísitala í lok árs Verðbætur á árinu Vextir Afborgun Greiðsla Staða í lok
Ár 1 1.000.000 1,1000 100.000 55.000 199.072 254.072 900.928
Ár 2 900.928 1,2100 90.093 49.551 229.928 279.480 761.092
Ár 3 761.092 1,3310 76.109 41.860 265.567 307.427 571.634
Ár 4 571.634 1,4641 57.163 31.440 306.730 338.170 322.067
Ár 5 322.067 1,6105 32.207 17.714 354.274 371.987 0

Hér er uppreiknaður höfuðstóll orðinn 1.100.000 krónur í lok fyrsta ársins. Af þeirri upphæð eru reiknaðir 5% vextir og jafngreiðsluafborgun. Staða lánsins, þannig reiknuð, er færð yfir á næsta ár, þar sem höfuðstóllinn er aftur verðbættur um 10%. Við sjáum að greiðslurnar fara hækkandi í krónum hvers árs. Á verðlagi lántökudagsins eru þær hins vegar alltaf hinar sömu, 230.975 krónur eins og í fyrra (óverðtryggða) dæminu.

Hvernig liti dæmið út ef við notuðum aðferðina sem Hagsmunasamtök heimilanna vilja sjá, þ.e. þar sem höfuðstóll er ekki uppfærður með vísitölu heldur eru einungis greiðslurnar sjálfar verðbættar?

5 ára jafngreiðslulán, verðtryggt, hver greiðsla verðbætt
Höfuðstóll 1.000.000
Vextir 5%
Fjöldi ára 5
Verðbólga 10%
Staða í upphafi Vextir Afborgun Óverðbætt greiðsla Staða í lok Vísitala í lok Verðbætt greiðsla
Ár 1 1.000.000 50.000 180.975 230.975 819.025 1,1000 254.072
Ár 2 819.025 40.951 190.024 230.975 629.002 1,2100 279.480
Ár 3 629.002 31.450 199.525 230.975 429.477 1,3310 307.427
Ár 4 429.477 21.474 209.501 230.975 219.976 1,4641 338.170
Ár 5 219.976 10.999 219.976 230.975 0 1,6105 371.987

Viti menn, greiðslurnar eru upp á krónu þær sömu og í síðustu töflu – enda gildir tengireglan! Nánar til tekið er hér óverðtryggða jafngreiðslulánið (fyrsta dæmið) sýnt nema hvað hver greiðsla (230.975 kr. á föstu verðlagi) er uppreiknuð miðað við vísitölu í lok hvers árs (þegar greiðslan fer fram). Höfuðstóllinn er sem sagt óverðbættur, aðeins greiðslurnar sjálfar eru verðbættar. – Og niðurstaðan er nákvæmlega eins.

Þessu hefði Umboðsmaður Alþingis getað svarað hratt og vel – og sparað sér þar með talsverða vinnu.

Lærdómurinn er: Ekki vanmeta grunnskólastærðfræðina! Hún stendur fyrir sínu.

 

P.S.: Til að losna við verðbólgu og verðtryggingu, og lækka raunvexti, þurfum við að taka upp evru. Það er eitt stærsta hagsmunamál íslenskra heimila.

P.P.S.: Bankarnir og ÍLS ættu að taka til athugunar að breyta framsetningu greiðsluseðla í átt að því sem HH lýsa, þ.e. að sýna stöðu lána miðað við upphaflegt verðlag en verðbæta aðeins greiðsluupphæðina. Það myndi skýra afborgunarferilinn og gera fólk sáttara við framgang mála.

*) Fallið til að reikna afborgun jafngreiðsluláns heitir PMT() í Excel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (33)

  • kristinn geir st. briem

    ef ég man þenann grunskólareikníng rétt er óverðtrygða lánið lægra sem nemur 10% það þirfti að vera um 15% til að þessi lán væru sambærileg það er spurníng hvort að vísitalan eigi að legjast á höfuðstól og bera einga vexti því vísitalan er ekki hluti af láninu altaf gaman að sjá að menn hafa ekki alveg gleimt grunskólareikníngnum

  • Ásmundur

    Það er rökleysa að aðeins megi verðtryggja greiðslur en ekki höfuðstólinn.

    Sá hluti greiðslu sem kallast afborgun er hluti höfuðstólsins. Saman mynda allar afborganirnar höfuðstólinn. Þess vegna er höfustóllinn verðtryggður ef greiðslur eru verðtryggðar.

    Þetta mál Hagsmunasamtaka heimilanna finnst mér því með algjörum ólíkindum.

    • Mál HH er aðallega með ólíkindum vegna þess að þetta tvennt, að verðbæta höfuðstólinn annars vegar og að verðbæta greiðslurnar hins vegar, er alveg sami hlutur stærðfræðilega. Á þessu er enginn munur, eins og pistillinn sýnir svart á hvítu.

      • Ásmundur

        Einmitt. Það furðulega er að HH viðurkenna að greiðslur eigi að hækka í samræmi við hækkun vísitölu en þau virðast ekki hafa sannreynt að þannig hefur það einmitt verið og því ekkert verið ofgreitt.

  • Halldór Guðmundsson

    Í verðtryggðu láni ertu að taka viðbótarlán, í hverjum mánuði fyrir helming heildar vaxtagreiðslunnar, sem er lagt ofan á höfuðstól,lánsins sem aldrei var samið um, og á sér ekki stoð í lögum um vexti og verðtryggingu, það á því að verðbæta greiðsluna eins og lögin segja,og dómstólar verða að dæma eftir lögum landsins.

    • Í fyrsta lagi kemur það alveg eins út að verðbæta greiðsluna eins og að verðbæta höfuðstólinn, eins og ég sýni í færslunni. Þetta er sami hluturinn. Í öðru lagi ertu ekki að „taka viðbótarlán“ í hverjum mánuði, heldur verða krónurnar stöðugt verðminni og þá er þeim fjölgað til samræmis. Skuldin sem slík helst sú sama, mæld í neyslukörfum, þótt krónunum fjölgi.

      Hitt er annað mál að verðtrygging er leiðinda fylgifiskur krónunnar. Til að losna við hana þurfum við að losna við verðbólgu og það held ég að takist ekki fyrr en við fáum stöðugan gjaldmiðil, les evru.

      • Halldór Guðmundsson

        Taktu helming heildarvaxtagriðslunnar í hverjum mánuði (ári) og settu það ofaná höfuðstólinn, og athugaðu hvort að ú færð það sama út, í báðum þessum dæmum.

  • stefán benediktsson

    Takk fyrir að nenna Vilhjálmur

  • kristinn geir st. briem

    athiglisvert að lesa athugasemdyrnar: 1. hvað er höfuðstóll að mati ásmundar
    það eru nokkrar tegundir til af verðtryggíngu afhverju að nota bara eina tegund.
    um verðrírnun á peníngum : þegar bankarnir fóru í þrott hverskonar verðrirnun var það ef nu er oframboð á peníngum sem mér skilst að sé rauninn verða fjármálastofnanir að minka afgjaldið á þeim með einhverjum ráðum. hvort menn taka það af höfuðstól eða einhverju öðru skiptir ekki höfuð máli. peningar sem eru ekki í vinnu eru verri enn eingir peningar hvað munu bankar og íbúðarlánasjóður gera ef þer eru búnir að innleisa þær íbúðir og fyrirtæki sem þau munu þurfa að taka til sín á uppoðum. man eftir því að bankarnir voru að væla yfir öllum afborgununum af einbílishúsi sem þeir höfðu yfirtekið hvað hafa bankarnir lagt mikkið fé í fyrirtæki sem þeir hafa yfirtekið áður enn þeir gátu selt þau aftur jafnvel með tapi ef fólk getur ekki borgað af lánum getur verið haghvæmara fyrir bankan að læka skuldina að greiðslugétu lántaka og verðtryggíng þar ekki að vera filgifiskur krónunnar þettað sníst allt um hagstjórn afhverju er svissneski galdmiðillin stöðugur er reindar eitn af þreimur galdmiðlum í sviss skilst mér en samt stöðugur það sníst alt um traust ekki um gjadmiðilin

    • Ásmundur

      Höfuðstóll láns er upphæðin sem er tekin að láni.

      Ég held að það sé lögbundið að verðtrygging lána eigi að vera skv vísitölu neysluverðs. Annars kæmu aðrar visitölur vel til greina að mínu mati.

      Ef launavísitalan væri viðmiðunin myndu lán aldrei hækka meira en laun almennt.

      • kristinn geir st. briem

        þakka ásmundi fyrir skilgreininguna hvað er höfuðstóll .
        um vísitölur þar eru til margar visitölur veit ekki til að ein sé meira lögbundin enn önnur veit um eit fyrirtæki sem bír til sina eigin vísitölu. er hún þá ólögleg
        hvort launavísitala er skári neisluvísitala veit ég ekki. finst eðlilegt að notta byggingarvísitölu það er þó bara tekkin byggíngarkosnaður en neisluvísitalan á að mínu mati að vera á neisluvörum s.s sjónvörpum .nema rikið hafi sérstaka sjónvarpsvísitölu. er ekki til sérstökk lánavísitala sem er tekkin úr ymsum áttum hugsa þeir einnir sem græðir á henni séu bankarnir ekkert kerfi er gallalaust ef lánastofnanir vilja hækka byggingarkosnað eru leiðir til þess verð að taka fram að mér er ílla við banka eins þeir koma fram við fólk í dag virðast ekki géta lært nokurn skapaðan hlut
        ps.
        gaman að vilhjálmi að skrifa um hann sé ekki að skrifa um tölur heldur aðferð en leggur svo mismunandi tölur til grundvallaren auðvitað getur maður feingið þá niðurstöður sem menn vilja ég lærði það í mínum grunskóla að ef á að bera saman aðferðir á að hafa sama grunnin í báðum dæmunum það er greinilegt að við viljhálmur höfum ekki haft sama kennaran

  • Ertu enn að halda í möntruna um háa vexti vegna krónu, hvenær ætlarðu að læra þá grunnskólahagfræði að það er ekki raunin? Það er kerfið sjálft sem veldur háu vöxtunum.

    • Hu? Það er ljóst og liggur fyrir hvaða vexti fólk og fyrirtæki eru að borga í evrulöndunum, til dæmis af húsnæðislánum eða dæmigerðum fyrirtækjaskuldabréfum. Auðvitað dálítið mismunandi eftir löndum/mörkuðum og áhættumati hvers þeirra, en grunnurinn er miklu lægri en hér á landi. Vextir í sjálfstæðri krónu munu alltaf verða til lengdar hærri en t.d. í evru, vegna smæðar hagkerfisins, sveiflna, hagsögunnar og almenns áhættumats, ekki síst eftir atburði á borð við hrunið 2008.

      • Hvernig eru vextirnir í SICPIGS löndunum núna, lönd sem lentu i svipuðum áföllum og við (eða eru að fara að lenda í þeim á nk. misserum? Einmitt, hélt það. Og bíddu bara þar til kosningum í Þýskalandi lýkur í september. Lognið á undan storminum er núna. Njótum þess.

        Svo mætti líka spyrja sig af hverju fjárfesting hefur hrunið á evrusvæðinu ÞRÁTT fyrir svona lága vexti? Svarið blasir reyndar við öllum sem vilja sjá það. Það er alltof mikil skuldsetning einkaaðila og fyrirtækja en skuldsetningin er komin til vegna OF LÁGRA vaxta margra landa innan óhagkvæms myntsvæðis fyrir fjármálahrun 2008.

        Það eru ENGIN bein tengsl milli vaxta og gjaldmiðla. Það eru hins vegar óbein tengsl. Þessi óbeinu tengsl sem þú nefnir eru KOMIN TIL vegna galla í kerfinu.

        Nú skulum við renna yfir ‘stuttbuxnarökin’ þín. Sko, því þín heimsmynd byggir á því að frjálst fjármagnsflæði sé það besta (nei, ég nenni ekki að hlusta á gervirök um höftin okkar, sem eru ansi ströng vegna snjóhengjunnar en snjóhengjan er komin til vegna frjáls fjármagnsflæðis til að byrja með). Frjálst fjármagnsflæði er að gera út af við Vesturlöndin eins og þau leggja sig með auknu valdi fjármálakerfa, sífellt hærra hlutfall peninga sem eru til fara í bjóða upp verðmæti á eignamörkuðum en ekki til að framleiða ný og raunveruleg gæði, sem myndu svo gefa af sér það tekjustreymi sem til þyrfti til að borga skuldirnar niður. Það er því síaukin misskipting tekna í gangi á flestum Vesturlöndum. Gullöld kapítalismans hefur oft verið nefnd þegar Bretton Woods kerfið var við lýði. Hár hagvöxtur, hátt atvinnustig, lág verðbólga og engar fjármálakrísur í um það bil þrjá áratugi. En fjármagnshöft á sama tíma! Þannig að ég nenni ekki að hlusta á rök um frjálst fjármagnsflæði akkúrat núna. Fleiri og fleiri eru að vakna hvað þetta varðar en að öllum líkindum munu þurfa átök áður en þessi heimsmynd fær að hrynja varanlega. Frjálsa fjármagnsflæðið byggir nefnilega upp a því að ‘meiri fjármál séu alltaf betri’ og að hagkerfi séu alltaf í jafnvægi. Bæði stenst ekki nokkra skoðun.

        Þú segir að vextir séu hærri vegna ‘smæðar hagkerfis’. Engin rök fylgja. Þetta er að hluta til rétt þó og tengist það punkti mínum að neðan varðandi sveiflur.

        Þú segir að vextir séu hærri vegna ‘sveiflna’. Sveiflur hér á landi eru komnar til vegna þess að við treystum hlutfallslega miklu meira á viðskipti (útlflutning og innflutning) en aðrar þjóðir, auk þess sem útflutningur er tiltölulega einhæfur. Þetta, auk smæðar okkar valda því að gjaldeyrisviðskiptin miklu hærra hlutfall af þeim heildargjaldeyri sem er til af krónu hverju sinni en gengur og gerist úti. Það veldur sveiflum. Lausnin er afskaplega einföld: Stofna auðlindasjóð sem væri að hluta til notaður til að jafna gengið. Það myndi leiða til lægri verðbólgu og lægri nafn- og raunvaxta.

        Þú segir að vextir séu hærri vegna ‘hagsögunnar’. Engin rök fylgja. Hagsagan hér hefur verið mjög skrautleg í gegnum tíðina, það er þó ekki vegna krónunnar sem hún hefur verið það, heldur vegna gamals og úrelts valdakerfis sem veita ráðamönnum ENGA hvata til að hugsa lengra fram í tímann en til fjögurra ára. Þetta smitar út frá sér inn í alla anga stjórnsýslunnar sem endar með því að fólk sem heldur að það sé að vinna að almannahagsmunum innan kerfisins er í raun að vinna að sérhagsmunum lítilla valdaklíka innan kerfisins. Almenningur áttaði sig á þessu í Bretlandi á síðari hluta 20. aldarinnar og fékk nóg á endanum. Lausnin er afskaplega einföld: Búa til hvata sem hvetja til meiri langtímahugsunar hins opinbera. En sjáðu til, það er mjög erfitt í verðtryggðu kerfi neytendalána þegar skuldir hins opinbera eru hlutfallslega miklu meiri óverðtryggðar en verðtryggðar. Þeir hafa því lítinn hvata til að halda aftur af verðbólgu því hún rýrir skuldir hins opinbera svo. Hér hef ég viljandi skilið eftir hin verðbólguhvetjandi áhrif verðtryggingar sem eru ekkert annað en undirmálslán.

        EKKERT hagkerfi á að notast við undirmálslán sem helsta lánaform sitt á neytendalánum. Í bólu fasteignamarkaðar Bandaríkjanna var notast við þetta, svokölluð ‘negative ammortization’ lán, eins og verðtryggðu lánin okkar eru. Sjá nánar gagnrýni um þau lán hér, http://en.wikipedia.org/wiki/Negative_amortization#Criticisms

        Verðbólguhvetjandi áhrif verðtryggingar valda svo já, hærri verðbólgu en ella. Hærri verðbólga veldur hærri nafnvöxtum. Hærri nafnvextir gera það að verkum að fólk getur síðar leitað í óverðtryggðu lánin en fremur í verðtryggðu. Þannig heldur vítahringurinn áfram. Hærri verðbólga stuðlar einnig að hækkandi raungengi sem er mjög hættulegt fyrir þjóð sem treystir mikið á útflutning. Hækkandi raungengi leiðir til verri viðskiptajafnaðar sem þarf á endanum að leiða til gengisfalls nafngengis. Sem leiðir til enn hærri verðbólgu sem límist á höfuðstól undirmálslána okkar. Auk þessara áhrifa má nefna vaxtagólfið sem (dauðvona) lífeyrissjóðirnir setja undir húsnæðislánin okkar, í það minnsta þegar litið er til ÍLS. Bankarnir hafa í sjálfu sér litla hvata til að fara mikið undir það vaxtastig í rauninni. Er það helst vegna fákeppnismarkaðar hérna og hve erfitt það erfyrir einkaaðila að stofna samkeppnisfyrirtæki á fjármálamarkaði.

        Svo má nefna hvað stýrivaxtabreytingar SÍ hafa lítil áhrif á neysluhegðun almennings vegna verðtryggingarinnar. Það eitt veldur því svo að SÍ þarf að hækka vexti enn meira, sem veldur því svo að fólk þarf að leita í enn meira mæli í verðtryggðu lánin. Og vitleysan heldur áfram.

        Fyrir utan allt þetta má nefna að íslenska þjóðin er frekar ung þjóð, í það minnsta þegar litið er á aðrar þjóðir. Þetta ýtir vaxtastigi líka upp, því þegar hlutfallslega fleiri þegnar þjóðfélags eru yngri, þeim mun meiri verður lánsfjárþörfin. Þetta er ekki kerfisgalli en snýr að ‘náttúrunni’ ef svo má segja.

        Nei, það er ekki gjaldmiðillinn sem veldur hærri vöxtum, nema kannski að örlitlu leyti. Það sem er helst að hérna er dauðvona lífeyriskerfi, verðtryggingin og úr sér gengið embættismannakerfi. Einfalt mál.

        • Ásmundur

          Að sjálfögðu veldur krónan miklu hærri vöxtum hér en á evrusvæðinu og víðar ef viðskipti með hana eru frjáls. Ástæðan er augljós. Það er mikil áhætta fólgin í því að fjárfesta í jafn óstöðugum gjaldmiðli og krónunni. Aukinni áhættu fylgja hærri vextir.

          Ef hér væru jafnháir vextir og á evrusvæðinu (og viðskipti með krónuna frjáls) myndu innlán streyma úr landi til að komast hjá gengisáhættu. Engum heilvita manni dytti í hug að ávaxta sitt fé hér ótilneyddur.

          Meðan íslenska ríkið þarf að greiða 6.3% vexti á tíu ára skuldabréfum í evrum greiða Danir 1.74%, Finnar 1.82%, Svíar 2.12% og Norðmenn 2.59%. Norðmenn greiða væntanlega mest vegna þess að þeir eru ekki í ESB og Svíar næstmest vegna þess að þeir hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

          http://www.tradingeconomics.com/country-list/government-bond-10y

          Ef íslenska ríkið nyti sömu vaxtakjara og Danir og Finnar myndu sparast um 60 milljarðar á ári vegna lægri vaxtagjalda ríkisins.

          • Ásmundur – með nákvæmlega sömu ‘rökum’ gæti ég beðið þig um að bera saman vaxtakjör Norðmanna og Grikklands og haldið því svo fram að sjálfsögðu væri vaxtakostnaður Grikkja svona mikill vegna evru og Norðmanna lítill vegna sinnar krónu. Sem sagt, rökleysa.

          • Ásmundur

            Ísland þarf að greiða miklu hærri vexti en Írland, Spánn og Ítalía, sem öll eru með evru, þrátt fyrir að staða okkar sé mun betri en þeirra ef vandamál vegna krónunnar eru undanskilin.

            Að sjálfsögðu er evran ekki vernd gegn öllum meinum. Kannski að Grikkir hafi trúað því og þess vegna sé komið fyrir þeim eins og raunin er. Allar þjóðir sem eru á barmi gjaldþrots þurfa að greiða himinháa vexti óháð því hvaða gjaldmiðil þær nota.

            Evrópuþjóðir með tiltölulega stöðugan gjaldmiðil, mikla landsframleiðslu og litlar skuldir njóta hins vegar lágra vaxta þó að ekki séu þær með evru. Norðmenn eru dæmi um þetta.

            Íslenska krónan er ónothæf sem gjaldmiðill vegna smæðar. Smæðinni fylgja óhjákvæmilega miklar sveiflur á gengi, aðallega niður á við, með mikilli verðbólgu.

            Ástæðan fyrir því að við þurfum að greiða margfalt hærri vexti en Norðmenn er ekki aðeins krónan. Landsframleiðsla Norðmanna er tvisvar til þrisvar sinnum meiri en okkar en skuldir okkar fjórum sinnum hærri en þeirra, hvorutveggja á íbúa.

          • Annars er hann Leight Harkenss alveg með ‘etta ! „Whether it is the US, Australia, Britain, Iceland, the European Monetary Union, or countries within that union, such as Greece, Friedman’s float has taken its toll. Aside from the volatility and instability associated with it, the float progressively erodes the ability of domestic industries to compete against imports; it destroys those industries, and the jobs that go with them; and it prevents exports contributing to economic growth. In tandem with unsustainable debt that the deregulation of the banking industry facilitates, the future faced under the float, instead of prosperity, is inevitably one of massive recession and grinding poverty – A vulnerable situation with considerable potential for giving rise to serious national security issues. It is little wonder that China has been so dismissive of the float’s peddlers.“ http://www.davidbrown1801nsw.info/exchangeratederegdebt.pdf
            The more that the community buys from itself, or exports, the greater the income of the community !
            http://www.buoyanteconomies.com/default.html
            og innlegg Ólafs Margeirssonar á heimasíðu Harkness „Exports, Imports and Floating Krona“. http://icelandicecon.blogspot.com.au/2012/03/exports-imports-and-floating-krona.html

        • Sigurður

          Sammála hverju orði, og athyglisvert að Vilhjálmjur þorir ekki gegn þessu innleggi.

          • Tja, mér finnst Gunnar í fyrsta lagi lýsa mörgum ókostum og fylgifiskum krónunnar vel (þó á hundavaði sé), og svo hefur Ásmundur svarað ágætlega og engu við það að bæta.

          • Sérhver aðili sem les þessi innlegg sér að Vilhjálmur og Ásmundur eru báðir úti á túni þegar kemur að hagrænni umræðu.

            Ásmundur gerir ekki annað en að röfla undan háum vöxtum og bendir á vexti 10 ára ríkisskuldabréfa. Portúgalir og Grikkir eru í evrunni en vextir á 10 ára ríkisbréfum þeirra eru hærri en hjá okkur. Samt sem áður lentu þær þjóðir ekki í nánar jafn miklu efnahagsáfalli og við. Nei, ekki Grikkir heldur, ekki nálægt því. Þetta er óútskýranlegt í heimi þeirra beggja þar sem evrusamstarfið bjargar öllu (þegar raunin er að evrusamstarfið bjargr bönkum). Þá er auðvitað alltaf gripið til þeirra ‘raka’ að spilling sé aðalmálið hjá þeim þjóðum. Ég veit þó ekki betur en að slíkt hafi komið okkur í þetta ástand til að byrja með og sé auðvitað enn við lýði að einhverju marki.

            Ég veit af hverju Vilhjálmur þrjóskast við þrátt fyrir að virðast hafa eitthvað vit en að nefna það upphátt jafnast á við að fara í manninn, jafnvel þó ástæðurnar hans séu óheiðarlegar. Hann getur átt það við sjálfan sig. Það verður þó ekki langt að bíða þar til svona tappar verða ómarktækir í umræðu hér heima.

        • Nkl Gunnar – alveg hreint bravo innlegg 🙂

  • Valgarður Guðjónsson

    Gangi þér vel að reyna að útskýra þetta.. fólk vill ekki hlusta.

    Ég skrifaði pistil á svipuðum nótum fyrir nokkrum árum og fyrir utan skammirnar og uppnefnin, þá var ekki nokkur leið að fá fólk til að skilja að þetta kemur í sama stað niður. Jafnvel langskólagengið fólk í raungreinum skildi ekki þó ég tæki skýr dæmi.

  • Ég er afar slakur í stærðfræði, en velti vöngum yfir af hverju valin er 10% verðbólga í dæminu með verðtryggingunni?

    Til að fá alvöru samanburð á verðtryggðu láni versus óverðtryggðu þyrfti maður að hafa t.d. 10% vexti á því óverðtryggða og 5% vexti með 5% verðbólgu á því verðtryggða, ekki satt ?

    • Ég er ekki að bera saman verðtryggð og óverðtryggð lán, heldur tvær meintar mismunandi aðferðir við að verðbæta verðtryggð lán. Í ljós kemur að báðar aðferðirnar skila nákvæmlega sömu niðurstöðu, eins og tengireglan spáir. Ég hefði getað valið hvaða verðbólguprósentu sem er sem dæmi til að sýna fram á þetta.

  • Sigurður

    Hvort heildargreiðsla sé sú sama, verðtryggð lán hagstæðari eða óhagstæðari eða að hagfræðingur skrifi pistil um grunnskólasærðfræði skiptir bara nákvæmlega ENGU máli um lögmæti verðtryggingarinnar.

    Annað hvort er lagaheimild fyrir því að verðtryggja höfuðstól eða ekki.

    Hagfræðingar geta svo sem alveg reynt að halda því fram að það skipti lántakandann engu máli hvort höfuðstóllinn, eða afborgunin er verðtryggð, en það breytir engu um lögmætið og eru í raun engin rök í umræðunni.

    Staðreyndin er sú að í lögum um vexti og verðtryggingu er engin heimild fyrir því að verðtryggja höfuðstól lána, hana er bara hvergi að finna.

    Það er bara enginn sem þorir að segja það upphátt.

    • Sigurður: Ef það er lagaheimild fyrir að verðtryggja greiðslur þá er hún jafngild heimild fyrir að verðtryggja höfuðstól. Það er enginn munur á þessu tvennu, eins og bloggfærslan sýnir. Deilan er því um keisarans skegg.

      • Sigurður

        Það er bara rangt hjá þér að þetta skipti engu máli.

        Með því að velta verðtryggingunni sjálfkrafa á höfuðstólinn um hver mánaðarmót í stað þess að staðgreiða verðtrygginguna eins og lög segja til um tekst bönkum og öðrum fjármálastofnunum að blekkja fólk þegar .að sýnir lántakandanum greiðslubyrðina af láninu.

        Greiðslubyrðin lækkar, sem þýðir að lántakandinn getur tekið hærra lán og bankinn þannig grætt enn meir en annars, og heimilin því enn skuldsettri en annars.

        Þar fyrir utan hefur Seðlabankinn einnig líst því yfir að ein meginástæða þess að stýrivextir virki ekki hér á landi sem skyldi, sé þessi andsk…verðtrygging sem sjálfkrafa frestar öllum afleiðingum af stýrivaxtahækkunum langt inn í framtíðina og slær því alls ekkert á neina þenslu í landinu.

        Afleiðingarnar eru þær Seðlabankinn er í sífeldum eltingarleik við skottið á sjálfum sér að hækka stýrivexti til að reyna að slá á verðbólguhækkanir eftir síðustu tilgangslausu stýrivaxtahækkun, og á meðan búa heimilin við einhver hæstau vaxtakjör á allri jörðinni.

        Síðan er það bara þessi staðreynd að það er sérstaklega tekið fram í lögum um verðtryggingu að heimildin á við um afborganirnar.

        Og það er engin heimild í þessum lögum sem veitir neinum svigrúm til að meta það hvort það skipti einhverju máli að lögunum sé fylgt eða ekki.

        Ef þetta skiptir raunverulega engu máli, þá myndu fjármálafyrirtækin einfaldlega fara eftior þessum lögum, en það gera þau ekki því þá gætu þau ekki lánað eins mikið sem þýðir minni hagnað hjá þeim.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Ég er með eina spurningu varðandi þessar aðferðir.

    Ef lánþegi ákveður að greiða upp allann höfuðstólinn eftir segjum hálfan lánstíman, er þá litið á uppgreiðslu höfuðstólsins sem afborgun og hún verðtryggð eða er höfuðstóllinn greiddur upp óverðtryggður eins og hann stendur eftir hálfan lánstímann?

  • Þú ættir e.t.v. að spyrja Hagsmunasamtök heimilanna hvernig þau hugsa sér þetta. En auðvitað er uppgreiðsla höfuðstóls reiknuð á verðlagi uppgreiðsludagsins, ekki á verðlagi lántökudagsins.

Höfundur