Föstudagur 13.12.2013 - 16:23 - Lokað fyrir ummæli

Stóra Millifærslan er ómarkviss

Í síðasta pistli fjallaði ég í nokkuð löngu máli um Stóru Millifærslu ríkisstjórnarinnar og tvær rökvillur að baki henni.

En stundum segir einfalt dæmi meira en mörg orð. (Dæmið gildir að breyttu breytanda um flesta þá sem keyptu fasteign á höfuðborgarsvæðinu árið 2004 eða fyrr.)

Hjón keyptu sér vandað og rúmgott raðhús á 30 m.kr. í janúar 2003. Þau lögðu fram 5 m.kr. af eigin fé og tóku 25 m.kr. verðtryggt lán með 5% vöxtum og jöfnum greiðslum til 25 ára.

Raðhúsið er núna 65,4 m.kr. virði, miðað við almenna þróun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu. Lánið stendur í 33 m.kr.

Hjónin eiga því núna 32,4 m.kr. skuldlausar í húsinu góða. Eigið fé þeirra hefur margfaldast þrisvar og hálfum sinnum að raunvirði á tíu árum, þrátt fyrir hrunið og fall krónunnar.

(Ef verðbólga hefði engin verið og fasteignaverð óbreytt á þessum tíu árum, hefði eigið fé hjónanna hins vegar margfaldast tæplega tvisvar og hálfum sinnum – mun minna en raunin varð.)

Nú stendur sem sagt til að greiða þessum ágætu (og dæmigerðu) hjónum 4.000.000 krónur í bætur frá stórskuldugum ríkissjóði, á kostnað allra skattborgara og komandi kynslóða, til að leiðrétta meintan “forsendubrest” sem þau hafi orðið fyrir.

Er það rökrétt? Sanngjarnt? Skynsamlegt? Svari hver fyrir sig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (34)

  • kristinn geir st. briem

    eiga þá jónnin að selja húsið borga upp skuldina og gista hjá pappa og mömmu og bíða eftir að húsið lækki í verði eigið fé í húsnæði skiptir ekki máli nema þú seljir . þú þarf ekki að hafa efni á lánunum .

  • Ómar Kristjánsson

    Þetta er náttúrulega útí hött og svo vitlaust að engu tali tekur. Það er alveg merkilegt að í umræðunni og própagandanu síðustu 4 ár eða svo – þá er eins og engin vitglóra hafi komist inní umræðuna. Eg er samt á því, að núna þegar fólk sér hvað um er að ræða, þ.e. að verið er að taka peninga úr ríkiskassanum og setja fólk á bætur sem alls ekki þurfa á því að halda og er barasta vel stætt og í góðum málum með sín húsnæðislán – að margir verði talsvert hissa. Ef þetta verður gert eins og tillögurnar gera ráð fyrir – þetta á eftir að leiða til sundrungar og langvarnadi deilna manna á millum. Auk þess sem fordæmisgildið er alveg svakalegt. Vegna þess að eins og tekið fram í áliti sérfræðinghóps, þá er ekkert hægt að sýna fram á tjón þarna lagalega séð og/eða ,,forsendubrest“. Þetta er alfarið pólitísk ákvörðun að taka ákveðin hóp út og setja hann á sérstakar bætur úr ríkiskassanum. Og að hugsanlega er stærsti hluti hópsins vel stæðir einstaklingar sem eru í engum vandræðum með sín húsnæðiskaup og húsnæðislán. Þessar tillögur, eru svo vitlausar, óskynsamlegar og óréttlátar – að stórfurðu vekur ef fólk sem kosið er á Alþingi fer að samþyggja slíkan gjörning.

  • Þeir eru duglegir þessa dagana sósíaldemókratarnir við að grafa upp skáldaða og ímyndaða vankanta á leiðréttingarstefnu stjórnvalda. Skjaldborgin brást og almenningur refsaði og vinstri stjórnin féll með brestum. Berin finnast þeim súr þessa dagana og öfundin skín í gegn.
    Jafnaðarmennirnir brugðust fólkinu og það kemur í hlut ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að fylgja fram sannri fjölskyldustefnu með réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.
    Sanngjörn leiðrétting stökkbreyttra lána er liður í þeirri stefnu, framundan er afnám verðtryggingar og lyklalög. Almenningur kann vel að meta. Allir nema jafnaðarmenn.
    Samkvæmt fjárlögum er kalli svarað um aukið fjármagn til heilbrigðismála og almenningur fagnar; allir nema jafnaðarmenn, einkum þeir sem sitja á þingi og skrifa pistla á eyjunni. Staða eldri borgara hefur vænkast með nýrri stjórnarstefnu og framlög til félagslegra þátta aukist. Þetta hefur tekist með hagræðingu, hóflegum niðurskurði og kröfum um sparnað á ýmsum sviðum og aðgæslu í meðferð fjármuna. Almenningur fagnar en ekki jafnaðarmenn.
    Þrátt fyrir framantalið er stefnt að hallalausum fjárlögum og má það teljast afrek eftir skuldaslóðann sem vinstri stjórnin skildi eftir sig. Og takist það mun almenningur fagna en ekki jafnaðarmenn.
    Þeir eru sokknir ofaní skotgrafirnar, særðir og þjáðir af mistökum síðasta kjörtímabils og mega nú horfa uppá höfuðandstæðinga sína í pólitík taka upp merki réttlætis og jöfnuðar með hagmuni almennings í landinu að leiðarljósi. Meira að segja er listamönnum gert hátt undir höfði og tuttugu og fjórum útdeilt dágóðum heiðurslaunum og fær mesta skáldmenni þjóðarinnar um þessar mundir, Þráinn Bertelsson drýgstan hlut og er sómi að!

    • GSS:

      Vilhjálmur sýnir svart á hvítu að það varð engin „stökkbreyting“, a.m.k. fyrir stóran hóp fólks (alla þá sem hefður keypt fasteign fyrir 2005).

      Þess vegna þarf enga „leiðréttingu“. Allra síst úr vösum skattgreiðenda.

    • Þetta eru hvorki „skáldaðir“ né „ímyndaðir“ vankantar á fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar, heldur raunveruleg og vandlega útreiknuð tilvik sem eru dæmigerð fyrir langflesta þá sem keyptu fasteign á höfuðborgarsvæðinu árið 2004 eða fyrr á verðtryggðu láni. Það fólk hefur ekki orðið fyrir neinum „forsendubresti“ miðað við það sem vænta mátti þegar fasteignin var keypt á sínum tíma; raunar þvert á móti því verðhækkun fasteignarinnar hefur verið umfram verðbólgu – nokkuð sem enginn gat gert ráð fyrir með vissu. Á kannski að „leiðrétta“ þann öfuga „forsendubrest“ og láta fólkið skila eiginfjáraukningunni í ríkissjóð?

      Eins og margoft hefur komið fram í pistlum mínum hef ég fulla samúð með þeim sem keyptu fyrstu eign eða stækkuðu við sig vegna fjölskylduaðstæðna á árunum 2005-2008 og tóku til þess verðtryggð lán. Sá hópur hefur orðið fyrir talsverðri raunlækkun á fasteigninni vegna falls krónunnar, séð eigið fé sitt þurrkast út og margt af því fólki er í skulda- og/eða greiðsluvanda. Á því þarf að taka með myndarlegum hætti – enda þarna margt ungt fólk sem er nýkomið á vinnumarkað og í allra þágu að það sjái ekki tómt ströggl framundan.

      Að öðru leyti á að verja fjármunum sem kunna að koma út úr skattlagningu fjármálafyrirtækja í slitameðferð (og það er óvíst ennþá) til að verja velferðarkerfið, koma upp nýju húsnæðisbótakerfi (einnig fyrir leigjendur), fjárfesta í framtíðinni (sbr. fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar) og greiða niður skuldir. Það væri skynsamleg leið jafnaðarmanna.

      Síðast þegar við létum glepjast af gylliboðum og atkvæðakaupatilburðum Framsóknarflokksins, með 90% lánunum 2003, fór það mjög illa. Eins gæti farið nú – nema skynsamari partur þingsins taki málið í sínar hendur og sýni þá ábyrgð og ráðdeild að tóna þessa steypu niður í viðunandi stærðargráður. Það er hreint með ólíkindum að þessar delluhugmyndir hafi komist jafn langt og raun ber vitni.

  • Þessi aðgerð – skuldaleiðréttingin – er að mínu viti skaðleg og þar af leiðandi vitlaus út frá fllestum mælikvörðum.

    En í hana er ráðist í nafni réttlætis og jöfnuðar.

    Hvers vegna er það nauðsynlegt að mati stjórnmálamanna?

    Jú, vegna þess að gengislán voru dæmd ógild. Með þeim dómi skapaðist ójafnræði gagnvart þeim sem tóku MEIRI áhættu og skuldsettu sig í erlendum gjaldmiðli gagnvart þeim sem tóku LITLA áhættu – tóku verðtryggð Íslandslán og stóðu undir stóraukinni skuldabyrði vegna verðbólgu.

    Eina leiðin til þess að réttlæta þessa aðgerð er sú að vísa til jafnstöðu fólks og þar með réttlætis.

    Og mér finnst eilítið einkennilegt að sjá „jafnaðarmenn“ fara hamförum gegn þessari viðleitni til að tryggja Íslendingum öllum jafna stöðu.

    Ég er ekki hrifin af aðgerðinni. En því síður hrífst ég af pólitískum hráskinnaleik íslenskra jafnaðarmanna sem til er komin vegna pólitískra hagsmuna og viðleitni til að grafa undan andstæðingunum þvert á yfirlýsta hugmyndafræði um jafna stöðu borgaranna.

    Þannig að allt er þetta heldur dapurlegt.

    Ömurleg pólitík – íslenskt samfélag í hnotskurn.

    Svo tala menn sig hása vegna þverrandi virðingar landsmanna fyrir flokkum og þingi!

    Búa til gay pride á þingi í nafni jákvæðni!

    Ótrúlegt!

    • Ómar Kristjánsson

      Þú kemur nú eins og vanalega af ótrúlegaheitafjöllum framsjalla og ekki furða að þú þori ekki að stinga höfðinu uppúr holræsi valhallar nema grímuklæddur. Og hefur aldrei heyrt talað um ,,forsendubrest“ og að ríkiskassinn eigi að ,,bæta tjón sem gömlu bankarnir ollu“ . Það er útfrá þessu própaganda sem bætur til vel stæðra einstaklinga eru handrukkaðar af ykkur framsjöllum á kostnað hinna verst settu í samfélaginu sem þið framsóknarmenn og sjallar skerið niður við trog útá plani og virðist fá sérstakt kikk útú því að kvelja og níðast á hinum al-verst settu í samfélaginu. Skömm ykkar og níðingsskapur mun uppi meðan land byggist. (Það að einhver önnur lán hafi verið dæmd ,,ólögleg“ er heilt annað efni og ef það á að vera réttlæting núna hjá ykkur sjöllum til að réttlæta framferði ykkar – þá verður í framtíðinni ef eitthvað er dæmt ólöglegt – að meta allt sambærilegt ólöglegt yfir línuna og bæta öllum tjón úr ríkiskassanum. En þetta er svo sem í línu við óskapar- og óvitamálflutning ykkar framsjalla núna með allt niðurum ykkur að öllu leiti og það eina sem er sjánlegt er berstrípaður LÍÚ bossinn sem hefur í raun sagt sig úr þjóðinni með því að neita með frekju og ofbeldi að borga sanngjarnan skerf til samfélagsins.)

    • „Tryggja Íslendingum jafna stöðu?“ Er dæmið sem ég lýsi hluti af því? Að færa fólki með 32,4 milljónir í jákvæða eiginfjárstöðu af rúmgóðu húsi, fjórar milljónir að auki gefins úr ríkissjóði? Vegna meints „forsendubrests“ sem engin leið er að færa rök fyrir, enda fasteignaverð hækkað langt umfram verðbólgu á því tímabili sem um er rætt? Á sama tíma og ákveðið er að innheimta komugjöld á sjúkrahúsum, ekki er talið unnt að greiða atvinnulausum desemberuppbót, vaxtabætur og framlög til þróunaraðstoðar eru skorin niður, sjóðir rannsókna og skapandi greina tæmdir, nefsköttum til RÚV rænt og þeir settir í ríkissjóð en útvarpið svelt, o.s.frv. o.s.frv.?

      • Vilhjálmur víkur ekki orði að því sem er verið að benda á hér fyrir ofan, að eitt að því sem þessi leiðrétting gengur út á er að jafna hlut þeirra sem voru með verðtryggð lán á þessum tíma í samræmi við þá leiðréttingu sem fólk með gengistryggð lán fékk í gegnum dómstóla.

        Honum finnst sennilega sanngjarnt að þeir sem meðvitað voru varkárir, eða töldu sig vera, skuli sitja eftir með skellinn meðan hópurinn með gengislánin fékk stórfellda leiðréttingu bara af því það var svo heppilegt að lánin þeirra voru ólögleg.

        Skyldi Vilhjálmur vera einn af þeim?

        Týpiskur hroki jafnaðarmanna sem vilja ekki sjá réttlæti í þessu máli.

        • Leiðrétting gengistryggðu lánanna var á kostnað lánveitendanna, ekki ríkissjóðs. „Leiðrétting“ verðtryggðra lána er óhjákvæmilega á kostnað ríkissjóðs/skattgreiðenda. Í því liggur stór munur og þess vegna þarf að fara vel og gætilega í sakirnar, eins og alltaf með fé almennings.

          • kristinn geir st. briem

            skilst að bankarnir eigi að fjarmagn niðurfærsluna svo staðan er sú sama

        • Þessi umræða minnir aðeins á óréttlætið sem felst í mis dýrum gjöfum sem krakkarnir fá í skóinn.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Ég er fullkomlega ósammála þér, en hef gaman af því að benda öllum á að í Evrulandi væri lánið í 14,5 milljónum, sbr. http://lan.jaisland.is/

    • Helgi Viðar

      Á 10 ára tímabili 1998 – 2008 hækkuðu fasteignir um 170% að raungildi. Það þýðir 170% umfram verðtryggð lán. Á þriggja ára tímabili 2008 – 2011 hækkuðu lán um 40% umfram fasteignir (verðbólga + lækkun á nafnverði fasteigna). Þetta hefur verið kallað forsendubrestur og bóta er krafist. Á þessa kröfu hefur Framsóknarflokkurinn fallist og ætlar með því að leyfa fasteignaeigendum að hirða gróðann en ríkisvæða tapið að hluta til skv. nýjustu tillögum og finnst það gríðarlega góð pólitík.

    • Ásmundur

      Guðbjörn, ef þú hefur einhvern skilning á eðli verðbólgu veistu að hækkun lána í evrulandi er ekki samanburðarhæf við hækkun lána á Íslandi vegna þess að verðbólga er hér svo miklu meiri.

      Eitt það versta við verðbólguna er hve margir skilja hana ekki eða láta sem þeir skilji hana ekki. Þess vegna eru menn endalaust að svara út í hött.

      Ég sé ekki að neinn hafi enn komið með nein rök sem réttlæta að fólkið í dæmi Vilhjálms fái lækkun á sínum skuldum, hvað þá heilar fjórar milljónir. Sennilega er meirihluti skuldara í sömu sporum þó að lækkunin sé mishá.

  • Hákon Hrafn

    Hvar fengust 25 milljónir að láni með 5% vöxtum í ársbyrjun 2003 (með 83,8% veðsetningu) ?

    • Vaxtakjör í byrjun 2003 voru á þessu róli, aðeins yfir 5% á verðtryggðum lánum og fóru ört lækkandi á árinu. Framsókn lofaði sem kunnugt er 90% lánum í kosningunum vorið 2003.

      • Hákon Hrafn

        Þetta er reyndar ekki svar við spurningunni. Hámarkslán íls voru 65% (70% max af brunabótamati) allt árið 2003 og hámarkið var 9 milljónir (fyrir nýja íbúð, annars 8 milljónir). Hægt var að fá viðbótarlán sem tengdust félagslegslegum íbúðum sem getur ekki verið og enginn lánaði 16-17 milljónir í viðbót. Ég er bara að benda á að þetta dæmi er ekki til, gengur ekki upp.

        • Frjálsi fjárfestingarbankinn og Landsbankinn voru farnir að auglýsa 80% lán snemma árs 2003. En það breytir heldur engu um eðli máls þótt veðsetningarhlutfallið hefði verið lægra í upphafi. Eigið fé kaupendanna hefur samt ávaxtað sig betur til dagsins í dag en þeir hefðu getað gert ráð fyrir þegar þeir keyptu, og „forsendubrestur“ er ekki til staðar.

    • …en vaxtaprósenta einhverja tugi punkta upp eða niður skiptir sáralitlu í útkomu dæmisins.

  • Mér finnst nú stóra spurningin hvað er að marka íbúðarverðið þar sem Íbúðalánasjóður einn er með 2500 óseldar íbúðir og ætli bankarnir séu ekki með eitthvað svipað. M.ö.o. framboð er takmarkað til að halda uppi íbúðaverði Ætla má að það sé dýrt til lengdar.

    Síðan er spurning hversu mikið af fasteignaviðskiptum eru makaskipti og þar með raunverulegt verð falið. Ef ég horfti einungis á hús til sölu í minni litlu götu þá virðast þær ekki haggast.

    Ef mínar efasemdir um íbúðarverð reynist rétt eru forsendur Vilhjálms roknar út í veður og vind.

    • Þetta eru ekki forsendur mínar heldur Seðlabankans, sem setur fram þessa vísitölu. Ég hef ekki heyrt fólk halda því fram í neinni alvöru að opinberar vísitölur um fasteignaverð væru kerfisbundið skakkar. En ef fasteignaverð er ofmetið kvarnast að sama skapi úr hinni hlið Stóru Millifærslunnar, sem felst í því að hvetja fólk til að færa séreignasparnað yfir í (aðfararhæfar) fasteignir.

      • Þetta eru að sjálfsögðu þínar forsendur byggðar á opinberum tölum sem ég leyfi mér að draga í efa, enda taka þær ekki á þáttum sem ég nefni.

        Varðandi það hvort eitthvað kvarnist úr séreignasparnaðarleiðinni fer það væntanlega eftir mati hvers og eins enda eru fólki í sjáfsvald sett hvort það nýtir þann möguleika eður ei, sem er að mínu mati grundvallaratriði.

        • Ásmundur

          Íbúðarverðið skiptir litlu máli fyrir íbúðareigendur nema til standi að selja án þess að kaupa aðra íbúð. Þess vegna er út i hött að lækka skuldir vegna tímabundins lægra íbúðarverðs sem gæti hækkað langt umfram verðlagsvísitölu þegar íbúðin verður loksins seld.

          Reyndar er heppilegt fyrir íbúðareigendur sem eru ekki í söluhugleiðingum að íbúðarverð sé sem lægst vegna þess að húsnæðiskostnaður er inni í visitölunni. Því lægra sem íbúðarverð er þeim mun léttari er greiðslubyrði lána.

          Annars sýnir þetta dæmi Vilhjálms vel eðli þessarar fullkomlega gölnu tillögu. Hér er verið að sóa fé sem nemur hærri upphæð en áætlaður kostnaður nýs spítala sem hefur verið slegið á frest vegna fjárskorts. Þá er ekki tekið tillit til skaðsemi vegna aukinnar verðbólgu, lægra lánshæfismats og aukins taps Íbúðarlánasjóðs.

          • Enda laut mín ábending að forsendum útreikninga en ekki hvort sú pólitíska ákvörðun verði tekin að byggja sjúkrahús eða greiða niður skuldir heimila.

  • Það hefði líka verið hægt að taka dæmi um 25.000.000 kr. lán í 15 ár en ekki 25 ár, þá væri eign þessara hjóna í húsnæðinu enn meiri og þá væntanlega fleiri sem gætu tekið undir með þér og formælt ríkisstjórninni.

    Ég held reyndar að þetta 25 ára lán stæði í 40 milljónum í dag og afborganir af því væru 335.000 á mánuði. Þau væru búin að greiða rúmar 30 milljónir af láninu til dagsins í dag eða að meðaltali um 2.8 milljónir á ári. Þá er ég að miða við 8,11% verðbólgu að meðaltali og 5% vexti (sem er sennilega óraunhæft mv. tímasetningarnar hjá þér í dæminu)

    Best hefði auðvitað verið fyrir þetta fólk að selja eignina snemma árs 2007 og leggja aurinn inn á peningamarkaðsreikning (ríkistryggðan), hirða þar 20% vexti í rúmlega ár og losa svo rétt fyrir hrun, færa þá aurinn til lúxemborgar (nú eða setja hann í að veðja á fall krónunnar) og koma með hann aftur til landsins í gegnum seðlabankaleiðina og fjárfesta í gagnaveri eða einhverju álíka arðbæru dæmi.

    • Tölurnar eru réttar, lánið er reiknað frá mánuði til mánaðar með gildandi VNV hverju sinni. Og aftur: það skiptir ekki máli í prinsippinu hversu langt lánið er eða hver vaxtaprósentan er nákvæmlega; ef lánið var tekið 2004 eða fyrr þá hefur orðið raunaukning eigin fjár, einfaldlega vegna þess að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur (að meðaltali) hækkað meira en vísitala neysluverðs frá 2004. Þrátt fyrir hrun og fall krónunnar.

      • Það skiptir auðvitað máli til hversu langs tíma lánið er, í þínu dæmi eru hjónin búin að greiða af því nærri helming lánstímans og þess vegna m.a. hefur eign þeirra aukist.

        Svo er spurning hvort þú getir fundið dæmi úr 110% leiðinni sem eru jafn ósanngjörn (að þínu mati) eða hvort þar hafi allir haft þörf fyrir leiðréttinu?

        • Punkturinn er ekki hversu mikið fólkið hefur greitt niður af láninu með afborgunum, heldur hversu mikil eiginfjáraukningin hefur verið í gegn um raunhækkun íbúðaverðs, í þessu tilviki frá byrjun 2003 til sumars 2013. Sú eiginfjáraukning er óháð lánstíma og lánskjörum. Hún hefur átt sér stað þrátt fyrir hrun og verðbólgu. Verðbólgan hefur fjölgað krónunum bæði eigna- og skuldamegin og breytir ein og sér ekki eiginfjárstöðu fasteignaeigandans (þ.e. kaupmætti hennar, raunverðgildi). Er þetta mjög erfitt að skilja?

          Ég hef engar sérstakar athugasemdir við 110% leiðina enda var þar um að ræða samkomulag lánveitenda og stjórnvalda sem var afskaplega rökrétt í stöðunni.

  • Bull.
    Þetta eru bestu mögulega aðstæður sem nokkur % hafa geta gert.
    Alltaf tekið alversta dæmið.

    En dæmið með innistæðu eigendann sem átti 10Milljarða inn í sjóði og fékk rúmlega 80% af þeim endurheimt og þetta var áhættu fjárfesting.

  • Ásmundur

    Helsta rökvilla þessara ótrúlegu tillagna er að við reikning á forsendubresti eru einungis tekin þau ár þegar skuldarar töpuðu en þeim árum þegar þeir högnuðust sleppt.

    Það mætti eins tala um forsendubrest hjá eigendum hlutabréfa með því að taka aðeins þau ár þegar hlutabréfin lækkuðu í verði en sleppa þeim árum þegar þau hækkuðu í verði. Þannig fæst út forsendubrestur sem ríkið þyrftii að bæta ef gæta á samræmis þrátt fyrir hagnað af viðskiptunum.

    Það sorglega við þessar tillögur er að þetta er ekki félagsleg aðgerð heldur millifærsla fjár frá hinum verrr settu til hinna betur settu. Það er í samræmi við flest annað af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

    Það er hreinn skandall að svona nokkuð eigi sér stað þegar skuldir ríkisins eru hættulega miklar og kjörin með því alversta sem þekkist. Aðgerðin gæti hæglega haft þau áhrif að lánskjör ríkisins versnuðu enn frekar.

  • Ingimundur K. Guðmundsson

    Persónulega finnst mér þessi grein lykta af því að notaðar eru tölur sem eru þægilegar til þess að fá vissa niðurstöðu. Hér er eingöngu litið til virði íbúðarinnar og stöðu láns, en ekki getið neitt um aðra þætti sem skipta máli. Það er nefnilega þannig að ef allar breytur eru teknar með, þá lítur málið svoldið öðruvísi út.

    Ef engin væri verðtryggingin stæði lánið í rúmum 17,6 milljónum. Hér hefur því verðtryggingin bætt á lánið rúmlega 15 milljónum. Ekki má heldur gleyma því að fólkið hefur þegar greitt rúmar 7,3 milljónir af láninu á grunnvirði sem að núvirði eru þá orðnar rúmlega 13,6 milljónir. Vaxtakostnaður er að grunnvirði um 11,5 milljónir, að núvirði 21,5 milljónir. Upphafs eigið fé var 5 milljónir, sem er þá að núvirði tæplega 9,3 milljónir. Samtals er því heildarkostnaður við kaupin orðinn um 77 milljónir króna, eða 10 milljónum hærri en núverandi verðgildi eignarinnar.

    Já, lækkun um 4 milljónir er bæði rökrétt, sanngjörn og skynsamleg.

    • Verðtryggingin (þ.e. verðbólgan), og raunhækkun íbúðaverðs, hafa bætt meiru við verðmæti hússins en bæst hefur við lánið á sama tíma. Það er kjarni málsins. Þess vegna er enginn forsendubrestur í þessu tilviki, langt frá því.

      Lánið er með 5% raunvöxtum þannig að augljóslega kostar það peninga, það lá alltaf fyrir og enginn forsendubrestur í því. Ef þú ert með 25 milljónir að láni í 10 ár á 5% vöxtum þá veistu að þú munt borga nálægt 50% af upphæðinni í vexti á þeim tíma, plús verðtryggingu. Stóru Millifærslunni getur varla verið ætlað að endurgreiða fólki vexti sem það samdi sjálft um með opin augun?

Höfundur