Þriðjudagur 13.05.2014 - 01:45 - Lokað fyrir ummæli

Rétt og rangt um skuldabréf Landsbankans

Á fimmtudaginn var, 8. maí, tilkynntu Landsbankinn og slitastjórn LBI (gamla, fallna bankans) um að komist hefði verið að samkomulagi varðandi lengingu og breytt kjör á skuldabréfi sem nýi bankinn skuldar þeim gamla.

Samkomulagið er með fyrirvara um að Seðlabankinn veiti tilteknar undanþágur frá gjaldeyrishöftum í samráði við ráðherra og þingnefnd. (1)

Margir hafa fagnað samkomulaginu enda hefði Landsbankinn hugsanlega lent í erfiðleikum með að greiða afborganir af skuldabréfinu jafn hratt og það kvað upphaflega á um. Hann hefði að óbreyttu þurft að fá gjaldeyri að láni annars staðar frá til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Sú fjármögnun var ekki í hendi. Í því fólst raunar stærsta óvissan framundan varðandi gjaldeyrisjöfnuð þjóðarbúsins, fyrir utan sjálfa afléttingu gjaldeyrishaftanna. – Samkomulagið um lengingu skuldabréfsins eyðir óvissunni enda fyrirséð að með því getur Landsbankinn staðið við skuldbindingar sínar í erlendri mynt. Það auðveldar bankanum nýja fjármögnun á betri kjörum í framhaldinu. Ef vel tekst til mun hann geta greitt upp umrætt skuldabréf fyrir lokagjalddaga þess.

Gagnrýnendur hafa á hinn bóginn varað við því að undanþága verði veitt vegna samkomulagsins. Þar í hópi eru Eygló Harðardóttir ráðherra, Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir, Björn Bjarnason fv. ráðherra og „Orðið á götunni“ (væntanlega Björn Ingi Hrafnsson).

Í skrifum þeirra fjögurra gætir ýmislegs misskilnings. Það er því full ástæða til að fara yfir forsögu og staðreyndir málsins.

(tl;dr: Lykilpunktar eru dregnir saman neðst í pistlinum.)

Eitt grundvallaratriði er rétt að nefna fyrst: Ef Íslendingar notuðu evru (eða annan gjaldgengan gjaldmiðil) í stað krónu væri ekkert vandamál hér á ferðinni. Nýi Landsbankinn er ekki í skuldavanda; hann á nægar eignir fyrir skuldum. Eigið fé hans um síðustu áramót var 241 milljarður króna og eiginfjárhlutfallið var 26,7%, langt umfram kröfur laga og reglna. Vandinn vegna skuldabréfsins er greiðslujöfnuðarvandi krónunnar, m.ö.o. að það er torvelt að skipta krónum hratt í erlendan gjaldeyri til að greiða afborganirnar á réttum tíma. Ef skuldirnar og eignirnar væru í evru gufaði sá vandi upp. Sama gildir um öll bú föllnu bankanna og uppgjör þeirra.

LBI1

Gjaldeyrisjöfnuður Landsbankans (milljónir ISK). Heimild: Landsbankinn

Við erum hins vegar föst í krónunni. Er Landsbankinn þá ekki, þar af leiðandi, í skuldavanda í erlendri mynt? Nei. Samkvæmt ársreikningi bankans (2) eru gjaldeyriseignir hans jafnvirði 400 milljarða króna en skuldir 385 milljarðar. Gjaldeyrisjöfnuður bankans er því jákvæður um 15 milljarða króna. En, sem sagt, hluti gjaldeyriseignanna er í lánasöfnum og öðrum eignum sem skila ekki reiðufé nógu hratt upp í afborganir gjaldeyrisskuldanna, þar á meðal skuldabréfsins umrædda.

Hvernig kom þetta skuldabréf til? Þegar nýi Landsbankinn var stofnaður í krafti Neyðarlaganna í október 2008 var hann eini nýi bankinn sem tók yfir meiri eignir en skuldir frá búi gamla bankans. Til útjöfnunar – þar sem óheimilt er skv. stjórnarskrá að gera eignir upptækar án þess að fullar bætur komi fyrir – gaf nýi bankinn út skuldabréf til þess gamla fyrir mismuninum. Hluti bréfsins var skilyrtur við heimtur af yfirteknum lánasöfnum, sem stóðu að baki skuldabréfinu, en verðmæti þeirra var óvíst á sínum tíma. (3) Svo fór að heimturnar urðu góðar, þrátt fyrir t.d. dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána, og upphæð skuldabréfsins var því fest í umsaminni hámarkstölu við endanlegt uppgjör heimtanna í apríl 2013.

Snúum okkur þá að gamla Landsbankanum sem nú kallast LBI. Eins og landsmenn þekkja of vel fór hann á hausinn með glans haustið 2008. Viðurkenndar kröfur í búið nema 2.984 milljörðum króna. Þar af voru skuldir vegna innistæðna, að stórum hluta Icesave-innistæður, 1.326 milljarðar. (4) Kröfur vegna innistæðnanna eru forgangskröfur í búið. Allar eignir hins fallna banka ganga til kröfuhafanna, svo langt sem þær ná, en þeir tapa þeim hluta krafna sinna sem ekki fást greiddar úr búinu. Skattgreiðendur bera enga ábyrgð á skuldbindingum búsins, hafa aldrei gert og munu aldrei gera. (5) Áhætta almennings af uppgjörum búa bankanna er fyrst og fremst af hugsanlegu gengisfalli krónunnar vegna útgönguþrýstings, með tilheyrandi áhrifum á lán og verðlag, en ekki af skuldunum sem slíkum.

Slitastjórn LBI metur heimtur af eignum búsins nú upp á 1.534 milljarða króna (m.v. árslok 2013), sem dugir upp í 51% af samþykktum kröfum. Það þýðir að 100% forgangskrafna verði greiddar og 208 milljarðar fáist upp í almennar kröfur að auki. Af 1.534 milljarða eignum búsins eru „aðeins“ 57 milljarðar í krónum. Unnt er að greiða allar forgangskröfur án þess að nota til þess krónur, ef mönnum sýnist svo, þ.e. án þess að krónur verði keyptar eða seldar og þar af leiðandi án áhrifa á gengi krónunnar.

Þess má geta að með greiðslu forgangskrafnanna er verið að greiða höfuðstól Icesave-innistæðnanna úr búi bankans. Sá höfuðstóll gufaði ekki upp í krafti þjóðaratkvæðagreiðslu eða fyrir EFTA-dómstólnum. Eigendur langstærstu forgangskrafna í Landsbankanum eru nefnilega ekki „hrægammasjóðir“ heldur bresku og hollensku innistæðutryggingarsjóðirnir, sem greiddu út innistæðurnar þegar bankinn féll 2008 og eignuðust í staðinn kröfu í bú bankans.

 

Upphæðir í milljörðum ISK. Heimild: LBI

Undanþágan sem slitastjórn LBI fer fram á vegna samkomulagsins við Landsbankann snýst um að greiða uppsafnaðan gjaldeyri út úr búinu í áföngum til forgangskröfuhafa. Sumir gagnrýnendur þessa virðast ekki vita að slíkar hlutagreiðslur hafa þegar farið fram fjórum sinnum. Síðasta hlutagreiðslan til forgangskröfuhafa var í september 2013, eftir að núverandi ríkisstjórn tók við, en þá var greiddur út gjaldeyrir að jafnvirði 67 milljarða króna. Samtals hafa þegar verið greiddir 716 milljarðar út úr búi bankans til forgangskröfuhafa (einkum vina okkar í Bretlandi og Hollandi), nánast að öllu leyti í erlendum gjaldeyri. Eftir standa ennþá 610 milljarðar af forgangskröfum sem slitastjórnin vill fá heimild til að greiða, með þeim gjaldeyri sem búið á.

(Gaman er að benda á að þegar í október 2012 var búið að greiða út sirka upphæð lágmarkstryggingarinnar sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, TIF, bar ábyrgð á, gat ekki greitt og um var deilt í Icesave-málinu.)

Árétta verður að um er að ræða útgreiðslu á gjaldeyri sem bú LBI á sjálft eða mun eiga fyrirliggjandi. Þessi gjaldeyrir hefur safnast upp eftir því sem eignum búsins hefur verið komið í verð, viðskiptavinir hafa greitt af lánum og nýi Landsbankinn greitt af skuldabréfinu til LBI. Þetta er ekki gjaldeyrir sem sóttur er í sjóði Seðlabanka Íslands, úr ríkissjóði eða til skattgreiðenda. Þetta er heldur ekki gjaldeyrir sem þarf að mynda eða endurheimta síðar með jákvæðum vöruskiptajöfnuði eða viðskiptajöfnuði utan föllnu bankanna. (6)

Kaupþing og Glitnir hafa þegar lokið uppgreiðslu forgangskrafna án þess að það hafi vakið mikla athygli.

Ofangreint má taka saman í þessa lykilpunkta:

  • Það eru góðar fréttir að tekist hafi samkomulag milli Landsbankans og LBI um lengingu í skuldabréfi þeirra á milli. Samningurinn minnkar óvissu og áhættu í íslensku efnahagslífi verulega á næstu árum.
  • Landsbankinn stendur vel, er með jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð og með samkomulaginu verður hann í góðum færum til að þjóna atvinnulífi og almenningi.
  • Slitastjórn LBI leitar undanþágu sem hluta af samkomulaginu til að ljúka uppgreiðslu forgangskrafna. Þegar hafa verið greiddir 716 milljarðar í nokkrum áföngum, síðast í október sl., að mestu í erlendum gjaldeyri. Eftir standa 610 milljarðar. Hinir tveir föllnu bankarnir hafa lokið greiðslu forgangskrafna. Ekki verður því séð að umrædd undanþága skapi nýtt fordæmi eða að hún sé eðlisólík því sem áður hefur verið gert án skakkafalla.
  • Til útgreiðslu forgangskrafna er notaður gjaldeyrir sem búið á og aflar sjálft eftir því sem eignum þess er breytt í reiðufé. Útgreiðslurnar skapa því ekki, sem slíkar, álag á vöruskipta- eða viðskiptajöfnuð þjóðarbúsins.

Ég sé ekki betur en að það sé hið besta mál fyrir alla aðila, Landsbankann, LBI, atvinnulíf og almenning, að samkomulagið sé klárað og stefnt að því að ljúka útgreiðslu forgangskrafna í LBI sem fyrst. Því fyrr sem sá kapítuli er að baki, því betra – og þá höfum við færst einu skrefi nær því að geta dregið úr gjaldeyrishöftum (að því marki sem það er unnt með krónuna).

 


(1) Sækja þarf um undanþágu vegna þess að eignir föllnu bankanna voru felldar undir höft með lögum frá Alþingi 12. mars 2012. Þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti þeim lögum.

(2) Sjá t.d. skýringu 83 á bls. 75 í ársreikningnum.

(3) Skuldabréfin voru raunar fleiri en eitt en til einföldunar er hér talað um skuldabréfið í eintölu. Bréfin voru gefin út í erlendri mynt en að baki þeim stóðu lánasöfn og eignir sem voru að mestu, en ekki öllu, leyti í erlendri mynt. Landsbankinn hefur hagnast á þessu gjaldeyrismisvægi vegna styrkingar krónunnar frá því að skuldabréfin voru gefin út.

(4) Sjá m.a. samantekt slitastjórnar LBI fyrir kröfuhafa frá 20. mars 2014, einkum glæru 4 og áfram.

(5) Icesave-málið fræga snérist um hvort ríkissjóður bæri ábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, ekki gamla Landsbankanum, þrotabúi hans eða kröfum í það.

(6) Aðeins í þeim tilvikum þar sem innlendir aðilar skulda gamla bankanum, eða þeim nýja í lánasöfnum sem veðsett eru þeim gamla, í gjaldeyri, þarf að mynda þann gjaldeyri í gegn um vöruskipta- eða viðskiptajöfnuð. Við almenningur, eða skattborgarar, erum ekki ábyrg fyrir þeirri gjaldeyrisskuldbindingu þótt við finnum fyrir henni í gegn um gengi krónunnar. – Af öllu erlendu lánsfjármagni þarf að greiða vexti úr landi, hvort sem lánveitandinn er þrotabú og kröfuhafar þess (eins og í tilviki Landsbankans og LBI) eða „hefðbundnar“ lánastofnanir og sjóðir (eins og í nýlegu tilviki vel heppnaðs skuldabréfaútboðs Íslandsbanka).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (19)

  • Leifur Björnsson

    Takk fyrir upplýsandi og góðan pistil.
    Kveðja Leifur.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Það hangir margt fleira á spítunni varðandi uppgjör Landsbankans við LBI.
    Mig langar til þess að vísa í þessa grein úr mbl sem fer nokkuð vel yfir það um hvað málin snúast.

    http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/05/03/frettaskyring_thratefli_landsbankans_og_lbi_2/

    • Það er margt villandi í þessari umfjöllun Morgunblaðsins, Þórhallur. M.a. er ekki rétt að bera greiðslur Landsbankans saman við nettó gjaldeyrissköpun Íslands eins og gert er í skýringarmynd, enda kemur fram í textanum að Landsbankinn eigi 187 milljarða erlent lánasafn sem skilar af sér gjaldeyri, og gjaldeyrisjöfnuður bankans er jákvæður. Þá er talað um að undanþága vegna forgangskrafna feli í sér að krónur fari út úr höftum. Það er ekki nauðsynlega svo enda duga gjaldeyriseignir búsins vel rúmlega fyrir forgangskröfunum. Fleira er þarna rangt, til dæmis fabúleringar um tilurð skuldabréfsins, og getgátur um að ef Landsbankinn hefði farið öðru vísi að hefði Seðlabankinn þar með getað átt óskuldsettan gjaldeyrisforða (!), en það er ekki rými til að fara yfir það í smáatriðum hér.

    • Þórhallur Kristjánsson

      Það er bein tenging við nettó gjaldeyrissköpun íslands og greiðslur Landsbankans.

      Erlent eignasafn Landsbankans er að stærstum hluta skuld útgerðarinnar við Landsbankann. Það hefur þannig bein áhrif á gjaldeyrisjöfnuð Íslands ef stærsti hlutinn af erlendum tekjum útgerðarinnar fer beint í að greiða af lánum Landsbankans.

      Því er ekki skynsamlegt að veita Landsbankanum undanþágu frá gjaldeyrishöftum og skapa þannig fordæmi gagnvart hinum þrotabúunum.

      Það þarf að útbúa heilstæða lausn gagnvart öllum stóru aðilunum í einu ef ætlunin er að aflétta gjaldeyrishöftin. Það mundi koma mér á óvart ef Seðlabankinn og Fjármálaráðuneytið veita þessa undanþágu.

      • Ef útgerðin tekur lán í erlendum gjaldeyri þá munu gjaldeyristekjur útgerðarinnar ávallt fara úr landi í þeim mæli sem þarf til að greiða afborganir og vexti af téðum lánum. Ef lánið fer í gegn um íslenskan banka þarf sá banki alla jafna að fjármagna sig erlendis til að geta veitt gjaldeyrislán og skilar gjaldeyrinum þannig á endanum út fyrir landsteinana. Þessar staðreyndir eru alveg óháðar því hvort LBI er þrotabú eða ekki eða hvort það eru gjaldeyrishöft eða ekki.

        • Þórhallur Kristjánsson

          Þetta er ástæða þess að við erum með gjaldeyrishöft. Útgerðin og allt þjóðarbúið skuldsetti sig í gjaldeyri langt umfram það sem landið getur útvegað.
          Til þess að við getum tekið gjaldeyrishöftin af þarf annaðhvort að afskrifa stóran hluta af þessum erlendu eignum sem í dag eru að stórum hluta krónueignir í eigu erlendra aðila eða hafa höftin á næstu 20-30 ár og smá saman laga stöðuna með viðskiptaafgangi.

          Það þíðir ekki að veita einum aðila undanþágu frá höftunum þegar ekki er hægt að gera jafnt við alla.
          Ég er þeirrar skoðunnar að okkur liggji ekkert á að afnema höftin. Ef ekki næst launs sem tekur tillit til allra þá verða höftin á næstu áratugina og það þarf ekki að vera neitt slæmt.

          • Ég get spurt þveröfugt á við þig, Þórhallur: Af hverju ætti ekki að veita LBI undanþágu til að klára að greiða forgangskröfur, úr því hinir bankarnir eru búnir að því og LBI búinn að greiða rúmlega helming í fjórum greiðslum nú þegar, þar af einni undir sitjandi ríkisstjórn? Væri það ekki brot á jafnræði og fordæmi að fara að stöðva slíkar greiðslur núna, hjá LBI einum banka? Enda koma hér engar krónur við sögu og torséð hvaða vandamál þessar greiðslur skapa fyrir þjóðarbúið. Þvert á móti er það öllum í hag að klára þennan pakka, leysa vanda Landsbankans og geta þá farið að huga að næstu skrefum með minni óvissu og áhættu framundan.

  • Hrafn Arnarson

    Þetta er mjög fróðleg og greinargóð samantekt. Icesave snerist um ríkisábyrgð á Innistæðutryggingarsjóði og hugsanlegri mismunun sem íslenska ríkið átti að hafa gerst sekt um. Svo reyndist ekki vera. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur höðfa nú kröfuhafar mál gegn Innistæðutryggingasjóði og krefjast þess að fá allar vaxtagreiðslur greiddar. Svona lítur dómstólaleiðin út en samningsleiðini var hafnað af kjósendum. Hvenær er hægt að meta það hvor leiðin var betri eða verður það aldrei hægt?

    • Það er a.m.k. ljóst að höfuðstóll innistæðutryggingarinnar hefði verið að fullu greiddur í gjaldeyri úr búi LBI í október 2012 og þar af tæplega tveir þriðju í desember 2011. Margar hrakspánna í Icesave-málinu gengu út á óvissu um einmitt þetta, þ.e. að endurheimtur dygðu ekki fyrir lágmarkstryggingunni, ekki yrði til nægur gjaldeyrir, krónan myndi veikjast o.s.frv. Þær spár gengu sem betur fer ekki eftir.

      Hinn hagstæði dómur EFTA-dómstólsins sparaði okkur vextina af þessum höfuðstól í þeim mæli sem hann var útistandandi fram til ofangreindra dagsetninga.

      Svo á eftir að koma í ljós hvort einhver önnur eftirmál verða þegar dæmt verður í málum innistæðutryggingasjóða Breta og Hollendinga fyrir innlendum dómstólum. Vonandi verður það ekki.

  • Fróðlegur pistill.

    Ef slitabúin fá að borga gjaldeyri sinn út (sem þeir vissulega eiga – oft í bönkum erlendis) þá er samningsstaðan engin eftir það varðandi 4-500 milljarða krónueignir þeirra. Þá verða gjaldeyrishöft hér um ár og síð.

    Samningsstaðan er að fá krónurnar þeirra fyrir að fá að vera undanþegnir gjaldeyrishöftum með erlendu eignirnar.

    Því á ekki að veita neinar undanþágur frá höftunum nema krónustabbinn þeirra sé leystur upp í leiðinni.

    Þetta er reyndar óþolandi störukeppni.

    Það á að dúndra þessum félögum öllum í gjaldþrot. Þá verða þeir að skipta öllum gjaldeyri sem búin eiga yfir í krónur og þá getur seðlabankinn haft eitt allsherjaruppboð á þeim gjaldeyri fyrir þær krónur sem vilja út úr landinu.

    Eina big-bang lausn – eða alls enga.

    • Það er verulegur munur á forgangskröfum og almennum kröfum í þessu sambandi. Einnig er talsverður munur á gamla Landsbankanum og hinum tveimur bönkunum að því leyti að LBI á „lítið“ af krónum. Hjá LBI eru forgangskröfuhafarnir aðrir en almennu kröfuhafarnir. Forgangskröfuhafarnir eru innistæðutryggingasjóðirnir fyrst og fremst, ekki vogunarsjóðir eða aðrir sem eiga almennar kröfur á bankana.

      Málsgreinin um að „dúndra“ bönkunum í gjaldþrot og greiða út í krónum hljómar digurbarkalega en óvíst er að lögin í landinu leyfi þá leið, þ.e. ef farið er gegn vilja kröfuhafa. Um það eru a.m.k. skiptar skoðanir.

      • Af hverju eiga þrotabú bankanna að fá undanþágur frá gjaldeyrishöftum sem almenningur fær ekki?

        Þrotabú fyrirtækja sem settu hér allt á hliðina og hafa valdið almenningi erfiðleikum og þjáningum – og halda honum nú í gíslingu hafta.

        Stóri munurinn á kröfuhöfum og almenningi er að fulltrúar almennings hafa löggjafarvald – sem fulltrúar kröfuhafanna hafa ekki.

        Sjálfsagt að setja lög um að bú sem ekki ná nauðasamningum í t.d. 4 ár skuli fara í gjaldþrot. Þá er einnig sjálfsagt að hnykkja á því að gjaldþrota félög greiði allar kröfur í íslenskum krónum.

        Afföll kröfuhafanna verða hlutfallslega lítil við að krónueignir þeirra hyrfu þegar þeir fá ca. andvirði erlendra eigna sinna greiddar út í einu allsherjar uppboði hjá Seðlabankanum (eftir að hann hefur fengið allar erlendar eignir búanna fyrir krónur).

        Þetta er eina leiðin út úr gjaldeyrishöftunum.

  • kristinn geir st. briem

    ef við værum með evrur værum við með annarskonar vandamál. en látum það vera. ef landsbankinn á eignir fyrir skuldum og gétur borgað af sínum skuldum væri það ekkert vandamál. því ef svo væri hefðu gömlu bankarnir ekki farið á hausin því þeir áttu nóg af krónum, og ekkert bankarun hefði horðið að ÞEIRA SÖGN AÐ MINSTAKOSTI. eiginfjárhlutfall seigir lítið um greiðslugétuna í bestafalli um veðhæfnina. nú er minni mytt ethvað verra en vilhjálms en í mynínguni voru ýmsar leiðir skoðaðar um endureisn bankana kom í sjálfusér ekkert gjaldeyrishöftum við. um mat á eignum landsbankans voru þettað óháðir matsmenn sem mátu eignir landsbankans. eða var þettað bara samkomulag milli manna . en annars ágæt samantekt. en menn verða að fynna flöt á þessu máli sem sem flestir verða sátir við. öfugt við hina bankana eru aðal kröfuhafi lansdbankans ríkisjóðir holland og bretlands. sem munu tæplega lána okkur mikið í framtíðini

  • Hvar er gjaldeyririnn sem gamli bankinn á að hafa lánað þeim nýja?

    Þetta er einföld spurning. Áður en menn leggjast í að skrifa langa pistla þar sem gefnar eru allskyns forsendur fyrir hinu og þessu, hljóta menn að þurfa að vera vissir um að eitthvað sé að marka þær forsendur.

    Þess vegna þarf nauðsynlega að útskýra það fyrst hvaða gjaldeyri gamli Landsbankinn gæti mögulega hafa reitt af hendi til að lána þeim gamla, og hvernig það gat verið löglegt að gamli bankinn stæði í slíkum lánveitingum löngu eftir að hann var kominn í slitameðferð og búið að stöðva reksturinn?

    Þá hlýtur líka að þurfa að skoða hvort svo risavaxinn lánveiting stenst lög um hámarksstærð einstakra áhættuskuldbindinga og viðskipti fjármálafyrirtækja við tengda aðila, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

    Sé það tilfellið að enginn gjaldeyrir hafi í raun verið lánaður, eins og flest virðist benda til, hlýtur loks að þurfa að líta til þess að gengistrygging er ólögleg, sem þýðir af sé einhver skuld raunverulega fyrir hendi þá hljóti hún í versta falli að vera í óverðtryggðum íslenskum krónum.

    Að endingu þá koma gjaldeyrishöft ekki með neinum hætti í veg fyrir að nýji bankinn geti greitt það sem honum bera að greiða í raun og veru til slitastjórnar gamla bankans, því báðir aðilarnir eru innlendir. Beiðni slitastjórnarinnar um undanþágu frá gjaldeyrishöftum er því skuldbindingum nýja bankans óviðkomandi og verður að skoðast í ljósi þess. Það er hennar vandamál hvernig hún stendur að útgreiðslum til kröfuhafa, en hvorki nýja ríkisbankans né íslenskra stjórnvalda. Það eru því engin málefnalög sem mæla með því að fallist verði á slíka undanþágu enda gæti hún skapað varasamt fordæmi gagnvart öðrum kröfuhöfum hinna bankanna.

    Góðar stundir.

    • „…engar málefnalegar ástæður…“ hefði átt að standa þarna síðast. 😉

      • Eggert Guðmundsson

        „Hvar er gjaldeyririnn sem gamli bankinn á að hafa lánað þeim nýja?“

        Þessa spurningu ætti að bera upp við Steingrím J. Sigfússon fv. Fjármálaráðherra. Það var hann og enginn annar sem skrifaði undir þetta skuldabréf sem var í erlendri mynt.

        Það mætti spyrja SJS allra spurninga sem snúa að samkomulagi LÍ og NBI.

    • Nýi Landsbankinn yfirtók meira af eignum en skuldum frá fallna bankanum. Þennan mun varð að jafna með skuldabréfi þeirra á milli, enda hefði annars falist í aðgerðinni upptaka á eignum sem ekki er heimil skv. stjórnarskrá nema fullar bætur komi fyrir.

      Talsverður hluti lánasafnsins sem nýi bankinn yfirtók gegn skuldabréfinu var í erlendri mynt, þó ekki allt safnið. Af þessu skapaðist nokkuð gjaldeyrismisvægi en á því hefur nýi Landsbankinn hagnast enda hefur krónan styrkst síðan skuldabréfið var gefið út. Gjaldeyrisjöfnuður Landsbankans er í dag lítilsháttar jákvæður, þ.e. hann á 15 milljörðum meira í gjaldeyri en hann skuldar, að meðtöldum eftirstöðvum bréfsins umrædda.

  • Gunnar Sigfusson

    Sæll, fín grein en ætla aðeins að setja út á þessa tölu:

    \“Samkvæmt ársreikningi bankans (2) eru gjaldeyriseignir hans jafnvirði 400 milljarða króna en skuldir 385 milljarðar. Gjaldeyrisjöfnuður bankans er því jákvæður um 15 milljarða króna. En, sem sagt, hluti gjaldeyriseignanna er í lánasöfnum og öðrum eignum sem skila ekki reiðufé nógu hratt upp í afborganir gjaldeyrisskuldanna, þar á meðal skuldabréfsins umrædda.\“

    Þessar \“gjaldeyriseignir\“ eru að stórum hluta hvorki í erlendri mynt né erlend skuldabréfaeign, heldur gjaldeyrisreikningar á Íslandi og lán í erlendri mynt sem er greitt er af með íslenskum krónum.
    Þ.e. allavegana helmingurinn (200 milljarðar) er peningur sem þarf að koma inn í gegnum aðra veltu Landsbankans en uppgjör á viðkomandi lánasöfnum og vexti á gjaldeyrisreikningum. Þess vegna hefur bankinn verið að safna gjaldeyri úr öllum áttum og þess vegna hefur reynst erfit að standa við upphaflega áætlun.

    • Eins og fram kemur í grafinu í færslunni á bankinn 166 milljarða í erlendu lausafé. Hann á síðan 187 milljarða í lánasöfnum í erlendri mynt og 47 milljarða í öðrum eignum. Lánasöfnin eru að talsverðu leyti til útflutningsfyrirtækja, enda er Landsbankinn t.d. stærsti lánveitandi sjávarútvegsins. Þessir aðilar eru með tekjur í erlendri mynt sem þeir nota til að greiða bankanum af lánum sínum. Aðeins í þeim mæli sem lántakarnir hafa ekki (eða ónógt) tekjustreymi í erlendri mynt þurfa þeir að kaupa gjaldeyri fyrir krónur til að standa skil á skuldbindingu sinni við bankann.

Höfundur