Miðvikudagur 30.03.2016 - 23:41 - Lokað fyrir ummæli

Um meint „aflandsfélög“ og „skattaskjól“

Í dag hefur risið mikil umræða vegna þeirrar hreinskilni minnar að benda á, eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum og hefur aldrei verið leyndarmál, að ég á eignarhaldsfélag í Lúxemborg. Af því tilefni er rétt að setja fram nokkra punkta – og smá rúsínu í pylsuendanum.

Ég stofnaði hugbúnaðarfyrirtæki árið 1983, þá 17 ára gamall, ásamt félaga mínum. Félagið var svo selt á 10. áratug síðustu aldar til erlends hugbúnaðarfyrirtækis fyrir ágætis upphæð í sterlingspundum. Síðan þá hef ég verið vel settur fjárhagslega. Eignir mínar hafa að mestu leyti verið ávaxtaðar innan félags sem ég á í Lúxemborg – eins og er fullkomlega heimilt skv. „fjórfrelsi“ evrópska efnahagssvæðisins.

Félagið hefur vitaskuld alltaf verið gefið upp á skattskýrslum og íslensk skattyfirvöld hafa getað farið fram á að sjá ársreikning þess, sem þau hafa a.m.k. einu sinni gert til að sannreyna arðgreiðslu.

Félagið er venjulegt fullskattlagt hlutafélag og greiðir 21,84% tekjuskatt í Lúxemborg. Íslensk hlutafélög greiða 20%. En mikilvægt er að benda á að söluhagnaður af hlutabréfum, t.d. ef fjárfesting reynist góð og er seld með hagnaði – sem er meginuppistaðan í ávöxtun félags míns frá upphafi – er ekki tekjuskattskyldur hjá íslenskum hlutafélögum. Það er þannig m.a. til að komast hjá margsköttun. (Slíkur hagnaður er skattskyldur í nokkrum tilvikum, en ekki öllum, í Lúxemborg.)

Félagið í Lúxemborg á dótturfélag á Íslandi sem heldur utan um flestar fjárfestingar mínar hér. Það á jafnframt dótturfélag á Kýpur utan um tilteknar hlutabréfaeignir. (Það fyrirkomulag kemur til vegna reglna um skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa í Lúxemborg, og er í samræmi við bindandi álit sem leitað var eftir hjá skattyfirvöldum í Lúxemborg og þau samþykktu.) Lúxemborg og Kýpur eru innan EES og hvorugt landið er á lista RSK yfir lágskattasvæði.

Hvernig borga ég þá skatta?

Ég borga auðvitað alla skatta og skyldur sem mér ber og hef alltaf gert; í gegn um tíðina töluverðar upphæðir í sjóði íslenska ríkisins, sem ég tel ekki eftir mér.

  • Ég greiði að sjálfsögðu tekjuskatt af launum sem ég fæ;
  • ég borgaði auðlegðarskatt (sem reiknast af öllu eigin fé félagsins í Lúxemborg) meðan hann var og hét (og sem ég er almennt fylgjandi);
  • og ég borga fjármagnstekjuskatt af öllum arði sem tekinn er út úr félaginu.

Síðastnefndi liðurinn er grundvallaratriði því hann þýðir að 20% af eignum félagsins og ávöxtun þeirra (m.v. núverandi skattprósentu) munu með tíð og tíma renna til íslenska ríkisins, eftir því sem þeim er komið í verð og þær greiddar út í arð – að því gefnu að ég sé íslenskur skattþegn, sem ég er og hyggst vera. Sú staðreynd er algerlega óháð því að félagið er í Lúxemborg.

Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis, heldur fyrst og fremst vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis. Ef við værum í ESB og með evru væri engin ástæða að hafa svona félag annars staðar en á Íslandi. Á hinn bóginn hefði það verið félaginu mjög erfitt, og nánast ómögulegt, að starfa eins og það gerir ef það hefði verið íslenskt félag undir íslenskum gjaldeyrishöftum. Nógu erfið hafa höftin verið samt.

Félagið átti ekki kröfur á íslensku bankana og það notfærði sér ekki fjárfestingarleið Seðlabankans.

Sem sagt: Persónulegar skattgreiðslur mínar eru nákvæmlega þær sömu og ef eignarhaldsfélagið hefði verið íslenskt. Félagið sjálft greiðir hærri tekjuskatt í Lúxemborg en það hefði gert á Íslandi, sérstaklega þegar það er haft í huga að söluhagnaður hlutabréfa er ekki skattskyldur í íslenskum félögum. Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis.

Ég er svo heppinn að vera vel stæður, og tilheyri eflaust hinu fræga 1%. En ég er líka jafnaðarmaður að lífsskoðun, styð öflugt velferðarkerfi og samhjálp og að þeir sem mest eiga greiði sanngjarnan, og þá meina ég ríflegan, skerf til samfélagsins.

En þrátt fyrir allt sem að ofan er sagt, má augljóst vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu.

Ég hef því ákveðið að segja af mér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar, og styð stjórnarandstöðuna eindregið í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (29)

  • Sigurður

    Vilhjálmur,
    Ég hef spurt þig að þessu ótal sinnum áður, án árangurs.

    Hefur þú einhvern tíman átt félag, að hluta eða heild sem hefur átt kröfur í föllnu bankana.

    Hefur þú starfað fyrir einhvern, eða eitthvað félag sem átti kröfur í föllnu bankana.

    Í þessari yfirlýsingu þinni talar þú bara um að félag þitt í Lúx hafi ekki átt kröfu.

    Ég spyr vegna þess að þegar Samfylkingin var í stjórn var ítrekað talað um að aflétta höftum með aðstoð Seðlabanka Evrópu, og aldrei talað um neinar afskriftir.

    Ég gef mér að þessi aðstoð hafi átt að felast í láni, að það hafi átt að skuldsetja mig og mína til að greiða út eignir kröfuhafa föllnu bankanna.

    Og þú hefur frá síðustu kosningum gagnrýnt harðlega allar hugmyndir sem skerða hagnað kröfuhafa hér á landi, þar til stöðugleikaframlagið kom til sögunnar, þá fyrst varst þú sáttur.

    Ert þú til í að upplýsa þetta núna í eitt skipti fyrir öll?

    • Sigurður, forsendurnar sem þú gefur þér um aðgerðir og afstöðu síðustu ríkisstjórnar eru því miður efnislega kolrangar og stangast á við opinberar og skjalfestar heimildir.
      Þú manst kannski ekki að forsenda þess að knýja fram raunsæra mat kröfuhafa á því hvers þeir gætu vænst voru hin svokölluðu litlu neyðarlög frá 12. og 13. mars 2012 þegar allar erlendar eignir kröfuhafa voru felldar undir gjaldeyrishöft. Þarna var í alvöru „tekið á“ kröfuhöfunum og búin til bæði gulrótin og prikið. Fyrir áhugamann um vörn um almannahagsmuni í þessu máli er gagnlegt að skoða til dæmis atkvæðagreiðslurnar um málið í þinginu (þú sérð þær með því að velja „ferill máls“ á frumvarpssíðunni): http://www.althingi.is/altext/140/s/0958.html.
      Svo ætti að vera hægðarleikur að lesa yfir t.d. viðtal við Seðlabankastjóra frá síðasta kjörtímabili þar sem hann nefnir líklegustu afskriftir kröfuhafa miðað við þá stöðu sem þáverandi ríkisstjórn var búin að skapa.
      Burtséð frá áhuga þínum á fjármálum einstaklings sem ekki hefur sóst eftir að vera kjörinn fulltrúi almennings þá er mikilvægt að stjórnmálaumræða sé byggð á sögulega réttum staðreyndum, frekar en seinni tíma goðsögum eða beinum rangfærslum.

      • Sigurður

        Ég veit allt um þetta.

        Þetta kemur því sem ég er að segja bara ekkert við.

      • Arnar,

        Hið rétta er að það var Seðlabankinn sem krafðist þess að loka þrotabúin inni, ekki þáverandi stjórnvöld.

        Helga Hjörvars, gerði aftur á móti,í breytingartillögu eftir að Seðlabankamenn voru farnir úr þinginu og fulltrúar kröfuhafa mættir. Breytingin var að stinga gat á frumvarpið svo þrotabúin gátu flutt 300 milljarða í gjaldeyri úr landi.

        • Sigurður

          http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/01/a_thremur_aflandseyjum_3/

          Þeim fjölgar stöðugt leynifélögunum sem þú hefur haldið leyndum í skattaskjólum.

          Hefur eitthvað af þessum félögum átt kröfur á föllnu bankana, á sama tíma og þú beittir þér innan flokksins að hámarka hagnað vogunarsjóða hér á landi?

          • Sæll Sigurður! Það er ekkert nýtt í þessum skrifum Moggans. Ég skipti við þjónustufyrirtæki sem sér um bókhald, pappírsvinnu og annað utanumhald um félagið mitt og þeir útvega og tilnefna þessa ágætu stjórnarmenn, sem ég hef ekki haft neina ástæðu til að setja mig á móti. Þjóðerni stjórnarmanna eða endurskoðenda hefur ekkert að segja um skattgreiðslur félagsins. Og varðandi meint skattahagræði fyrir 2009 þá verður að hafa í huga að söluhagnaður hlutabréfa og móttekinn arður er ekki skattlagður hvort eð er í íslenskum félögum, aðrir tekjuskattstofnar eru óverulegir og fjármagnstekjuskattur var vitaskuld greiddur á Íslandi af mótteknum arði óháð formi félagsins. Þannig að pistillinn stendur.

          • Sigurður

            Ekkert svar um kröfur á föllnu bankana…

  • Kristinn J

    Þú er eins og sumir í Animal Farm. Jafnari en aðrir.

    Mér er flökurt

    Mæli með þessari lestningu fyrir þig í dag.

    Animal Farm is an allegorical and dystopian novella by George Orwell,

    https://en.wikipedia.org/wiki/Animal_Farm

  • Gunnar J. Ásgeirsson

    Stóra málið er ekki aflandsfélögin sem slík, enda í flestum tilfellum lögleg starfsemi. Nei, stóra málið eru þeir ótiltöldu hagsmunaárekstar sem af þeim spruttu.

    Það er algjör óhæfa, þótt viðtekin sé hér á landi, að fólk í valdastöðum standi í sérhagsmunabraski – oft á skjön við hagsmuni almennings – bak við tjöldin.

  • kristinn geir st. briem

    gott og vel. sett vel fram. að fjárfesta í útlöndum er varla glæpur. þar sem skattyfirvöld vita af þessu er ekkert að þessu. það skipir öllu máli. síðan er það smáaletrið sem engin sér. það þarf ekki langan tíma að skipta um lögheimili. en þar sem þú hefur svolítla innsín í stjórnun og stjórnmál. þó ég hafi ekki mikið vit á þessu. mér virðist vilhjálmur og sigmundur hafa svipaðar skoðunanir á peníngum. verði ykkur að góðu. um vanhæfi forsetisráðherrans. nú skilst mér að það hafi verið ráðin sérstakur hópur um uppgjör bankana. þá er komin armsleingd á milli ráðherra og bankana. mér skilst að ekki hafi verið samið beint á milli ríkistjórnar og slitastjórnar bankana. því átta ég mig ekki á vanhæfisregluni hjá forsetisráðherranum. kanski skil ég þettað ekki rétt. hitt er svo annað, það átti að skrá þettað eftir eftir að þau giftu sig ekki fyr. kanski ætti að banna alla útgreiðslur úr þrotabúunum þángað til raunveruleigir eigendur að skuldunum hafi gefið sig fram en ekki þessi imsýslufélög einsog nú er til þess að auðvelda skattaeftirlit

  • Gunnar Jóhannsson

    Ansi athyglisverður pistill hjá Vilhjálmi. Hér er byrjað á því að útskýra málið og benda á að engin lög hafi verið brotin og allt sé fullkomlega löglegt, sem er að sjálfsögðu rétt. Svo kemur „rúsínan í pylsuendanum“. Vilhjálmur ákveður þrátt fyrir að hafa ekki gert nokkuð ámælisvert, athugavert eða ólöglegt að segja af sér sem gjaldkeri Samfylkinarinnar vegna þess að það eru aðilar í ríkisstjórnarflokkunum í sömu stöðu og hann sjálfur, og þar sem stemningin í samfélaginu sé þannig að þá sé gráupplagt að nýta sér þá tortryggni til þess að vinna pólitíska sigra og koma ríkisstjórninni frá. Málið snýst semsagt um pólitík, en ekki hvort eitthvað sé athugavert hjá honum eða öðrum í sömu stöðu.

    • Garðar Garðarsson

      Vilhjálmur er athafnamaður í fyrirtækjarekstri sem er ólíkt því að vera ráðherra í ríkisstjórn, og þar að auki hefur engin leynd hvílt yfir eign Vilhjálms í Luxemborg ólíkt leyndinni hjá ráðamönnum ríkisstjórnarinnar og hagsmunaárekstur forsætisráðherrans.

      • Sigurður

        Hann hefur ekki leynt félaginu í Lúx, en hinum ætlaði hann að halda leyndum.

        Það er ljóst.

      • Gunnar Jóhannsson

        Hann er jafnframt áhrifamaður innan Samfylkingarinnar og gegnir trúnaðarstörfum fyrir hana. Varðandi leyndina þá hefur það komið fram hjá öllum þeim sem hlut eiga að máli að þessar eignir hafa verið taldar fram til skatts, þannig að það er jafnt á komið með þeim öllum. Mín athugasemd gekk hins vegar útá hinar raunverulegu ástæður afsagnarinnar. Hann byrjar pistilinn á því að útskýra mál sitt og fullvissa lesendur um að ekkert sé í raun athugavert við þetta fyrirkomulag fjármála, enda í fullu samræmi við lög og reglur, sem er að sjálfsögðu rétt hjá honum. Engu að síður segir hann af sér til að gefa Samfylkingunni svigrúm til að ráðast að pólitíska andstæðinga sem hafa kosið að haga fjármálum sínum með svipuðum hætti og hann sjálfur þ.e.a.s. allt eftir lögum og reglum.

        Mér hefði fundist sterkara hjá honum að segja af sér vegna þess að hann nyti ekki lengur trausts innan Samfylkingarinnar og jafnvel skorað á aðra að gera slíkt hið sama. Samfylkingin hefur ekki gefið út neina vantraustsyfrilýsingu gagnvart honum enda erfitt að gefa út slíka yfirlýsingu vegna þess að það er ekkert tilefni til þess að mínu mati, hvorki gagnvart honum né öðrum.

        • Garðar Garðarsson

          Sigmundur Davíð er forsætisráðherra og hann leyndi því allan tímann ásamt konu sinni að eiga yfir einn milljarð í skattaparadís á meðan við hin erum lokuð inni í vonlausu krónuhagkerfi. Og að auki áttu þau hjón um hálfan milljarð í kröfu á föllnu bankana á meðan Sigmundur átti í samningaviðræðum við sjálfan sig og aðra kröfuhafa þessara sömu föllnu banka. Er ekkert óeðlilegt hér á ferð? Hefur Vilhjálmur svipaða hagsmuni að gæta og Sigmundur?

          Gjaldkeri í Samfylkingunni hefur hingað til ekki þótt nein áhrifastaða í þjóðfélaginu og þar af leiðandi fáránlegt að vera að líkja gjaldkeranum við áhrifastöðu forsætisráðherra Íslands.

  • Gunnar Waage

    Rétt eins og Sigmundur Davíð þá misskilur Vilhjálmur arguementið. Það er ekki verið að segja að hann hafi gert neitt ólöglegt í þessu til tekna máli. En hagsmunaáreksturinn er alveg skýr. Vilhjálmur var óþreytandi við að rita greinar sem áttu að sanna að við ættum að borga bara Icesave. Allir samningarnir sem bornir voru á borð fyrir okkur nógu góðir í hans augum. Þetta er maður sem átti fyrirtæki sem bauð viðskiptavinum sínum upp á aðstoð við að taka skortstöður á ísl. Krónuna. Þetta er maðurinn sem sat í stýrihópi iðnaðarráðherra um orkumál og gerði um leið stóran samning um kaup á raforku. Hjá Vilhjálmi eru engir hagsmunaárekstrar enda eru einu hagsmunirnir í hans huga, hans eigin.

    • Garðar Garðarsson

      Skil ekki þessi rök þín Gunnar Waage.

      Sigmundur á ásamt konu sinni yfir milljarð í skattaparadís en talaði gegn samningum í Icesave.

      Vilhjálmur á félag skráð í Luxemborg og talaði fyrir samningum í Icesave.

      Ég sjálfur á eingöngu smá sparifé í skítnum krónum og talaði fyrir samningum í Icesave.

      Hvað kemur Icesave þessum skattaskjólum við?

      Ef Vilhjálmur væri með allar sínar eignir hér á landi hefði hann þá getað verið í stýrihópi iðnaðarráðherra um orkumál?

  • Ísland er eina landið í heiminum, fyrir utan Kúbu og N-Kóreu, þar sem það er ígildi mannorðsmissis að eiga eignir í útlöndum.

    Vilhjálmur hefur verið farsæll í störfum sínum og á eignir í útlöndum. Að hann þurfi að hætta í starfi út af því – er auðvitað bara alls ekki í lagi.

    Gjaldeyrishöftin hafa búið til albrjálaða umræðu og slíkar ofsóknir eftirlitsaðila og lögreglu að jaðrar við galdrabrennurnar forðum daga. Smá saman hefur þjóðinni verið talið trú um að þeir sem eigi dollara, íbúð á Spáni eða félag í Lux séu glæpamenn.

    Ísland er orðið að músarholu sem enginn sér upp úr.

  • Kristinn J

    Já var ritstjórinn að hreinsa til óþægileg comment: Mér fökrar enn meir

  • Ég vil trúa því að við séum ennþá mörg í þessu samfélagi sem gleðjumst yfir velgengni fólks og þá ekki síst manna á borð við Vilhjálm Þorsteinsson.

    Frumkvöðlar eru svo mikilvægir á mörgum sviðum. Þeir skapa ekki aðeins auð, þeir búa til störf, nýja þekkingu og síðast en ekki síst eru þeir öðrum fyrirmynd.

    Ungt fólk og framtaksamt getur þar fundið mikilvæga hvatningu.

    Því miður hefur Samfylkingin algjörlega misst sjónar á þeim verðmætum sem framtak og frumkvöðlar skapa.

    Það er önnur saga og verri.

    En við sem kunnum að meta jákvætt framlag Vilhjálms og annarra frumkvöðla til samfélagsins og áhugaverð skrif á eyjan.is hljótum að hugsa til hans á þessum tímamótum.

    Þakkir og kveðja

    Rósa G.G.

  • Það er ekki, og á ekki að vera, glæpur að eiga eignir erlendis, eða vera með eignir skráðar í erlendum fyrirtækjum. Það er eðli frjálsra viðskipta og var, sérstaklega á árunum fyrir hrun, hið eðlilega viðskiptaferli þegar kom að fjárfestingum erlendis.

    Það gengur ekki upp að hávær minnihluti sé öskrandi ásakanir um lögbrot eða þaðan af verra einfaldlega vegna þess að þeim líkar ekki við ákveðna einstaklinga eða frjáls viðskipti. Það hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að þessir einstaklingar allir hafi verið að stunda viðskipti á fullkomlega löglegan hátt.

    Og síðan er það líklega grátbroslegast í þessu öllu saman er að allir íslendingar eiga eignir erlendis og voru kröfuhafar í gömlu bönkunum. Allir fréttamenn RÚV og Stundinni sem legið hafa á flautunni núna vikum saman eiga í gegnum lífeyrissjóðina sína eignir erlendis og kröfur í þrotabúin.

    • Garðar Garðarsson

      Kalli – Á lífeyrissjóður þinn eignir í skttaskjólum sem hann heldur leyndum og hversu mikið kemur í þinn hlut?

      Ríkisstjórnin hefur ásamt ríkisstjórnum annara landa verið að vinna gegn undanskotum og leynireikningum í skattaskjólum þar sem algjör leynd hvílir yfir og ekki er skilað ársreikningum, svo það er meira en undarlegt að það séu síðan ráðherrar sem eiga milljónir og milljarða í þessum skattaskjólum. Og að auki þá á Sigmundur og frú kröfu upp á hálfan milljarð á föllnu bankana þannig að Sigmundur var að semja við sjálfan sig og aðra kröfuhafa föllnu bankana sem ætti að vera ólöglegt og í það minnsta algjörlega siðlaust.

      • Er það eðlilegt að almenningur fái að hnýsast í persónuleg fjármál íslendinga, að þess sé krafist að allar upplýsingar um þín persónulegu fjármál séu gerð opinber? Ekki vegna lagabrota heldur útaf því að einhverjir blaðamenn á Stundinni og RÚV liggja á flautunni vegna pólitískra skoðanna sinna?

        Nei, það er ekki sjálfsagt.

        Hvað kemur það okkur við þótt Vilhjálmur hafi verið að fjárfesta frá fyrirtæki í Lúx ef það var fullkomlega löglegt? Hvað með Bjarna og Ólöfu sem voru með tímabundin fyrirtæki erlendis áður en þau urðu ráðherrar?

        Það að bendla síðan fjármál eiginkonu Sigmundar inn í málið vegna þess að hún tapaði stórum hluta eigna sinna og lagði inn kröfu fyrir afganginum, eins og allir íslendingar í gegnum lífeyrissjóðinna er einfaldlega pólitískur loddaraskapur.

        Ef menn vilja ekki að íslendingar geti átt eignir eða reikninga erlendis þá þarf að banna það með lögum. Ekki að ákveðin hávær hópur geti bætt við sýndarlögum fyrir íslendinga byggðum á eigin skoðunum á því hvað sé rétt og rangt.

        • Garðar Garðarsson

          Stjórnmálamenn eiga að hafa allt upp á borðum og venja sig á að segja sannleikann. þeir eru í vinnu hjá almenningi og almenningi kemur við hvort um hagsmunaárekstur gæti verið að ræða þegar ákvarðanir eru teknar.

          Það ætti að banna aflandsfélög og skattaskjól ef það væri hægt.

          Kalli kynntu þér hér hvernig aflandsfélög starfa og til hvers þau eru notuð:
          http://kjarninn.is/skodun/2016-03-31-skattaskjol-og-aflandsfelog/

          Það er ekki slæmt að eiga eignir í útlöndum, en það er slæmt þegar eignum er komið í sakttaskjól þar sem ekki er hægt að fá nægilegar upplýsingar fyrir skattayfirvöld eins og t.d. ársreikninga.

          • Málið er afskaplega einfalt. Það eru lög um skil skatta og hagsmunaskráningu. Hafa þau verið brotin? Hafa eignir verið faldar? Hafa einstaklingar verið að svíkja undan sköttum, brjóta lög um peningaþvott eða misnota fé? Hafa viðkomandi stjórnmálamenn brotið lög um hagsmunaskráningu?

            Ef ekki þá er þetta persónulegt mál viðkomandi aðila.

            Það á aldrei að vera réttlætanlegt að ríkisfjölmiðill sé að draga persónulega hagi fólks fram í sviðsljósið einungis vegna persónulegra skoðanna viðkomandi fréttamanns. Það er misnotkun.

            Að eiga eignir erlendis og greiða af þeim skatt er ekki ólöglegt. Persónulegar skoðanir ákveðinna fréttamanna eru ekki réttlæting fyrir því að einstaklingar séu dregnir í gegnum svaðið hjá ríkisfjölmiðli.

Höfundur