Mánudagur 23.11.2015 - 10:52 - FB ummæli ()

Fjárlög og fjármagn til byggðamála

Fjárlög og fjármagn til byggðamála

Til að Ísland standi undir velferð íbúanna verður landið að vera sem mest í byggð. Til að afla tekna af ferðamennsku og náttúruauðlindum, svo dæmi séu tekin, verður byggðin að vera traust sem víðast um landið. Á árunum eftir hrun varð landsbyggðin fyrir meiri blóðtöku í formi tapaðra opinberra starfa en höfuðborgarsvæðið. Tek undir með formanni byggðaráðs Skagafjarðar um að það þurfi að veita auknu fjármagni til byggðamála en það þarf meira til.

Byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpi

Undirritaður lagði til við fjárlaganefnd Alþingis árið 2010, ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að gerð yrði úttekt á byggaðáhrifum fjárlagafrumvarpsins áður en það yrði samþykkt. Ástæða tillögunnar var sú að veruleg hætta væri á því að mörg byggðalög þyldu ekki þann gríðarlega niðurskurð sem boðaður var í fjárlögum enda af litlu að taka vegna mikillar fólksfækkunar og neikvæðs hagvaxtar undanfarin ár. Þá var það einnig að gerast  að ráðuneytin og síðan undirstofnanir, hver í sínu horni, voru að vinna hagræðingartillögur án þess að neinn væri með yfirsýn yfir heildaráhrifin. Niðurstaða úr þessari úttekt kom ekki fyrr en í apríl 2013 og sýndi því miður að þessar spár höfðu orðið að veruleika.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur haft til umfjöllunar frumvarp um opinber fjármál en þar er verið að móta nýjan ramma utan um það hvernig fjárlagafrumvarp er unnið. Við vinnslu málsins ákvað fjárlaganefnd að leggja til breytingar sem fela það í sér að fjárlagafrumvarp hvers árs skal fá sérstaka byggðaúttekt sem unnið verður af Byggðastofnun áður en frumvarpið er lagt fram.

 

Fjárlög 2016 – Það þarf aukið fjármagn til byggðamála

Ég er sannfærður um að fjárlagafrumvörp sl. 10 ára myndu falla á slíkri úttekt enda hefur þjónustu víða á landsbyggðinni hrakað jafnt og þétt. Skilningur fyrir mikilvægi öflugrar byggðar fer vaxandi. Í ljósi þeirrar breyttu hugsunar sem lögð er til við vinnslu fjárlaga þá er mikilvægt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016 þá verði byrjað að rétta kúrsinn og veitt verði auknu fjármagni til byggðamála. Brotthættar byggðir eru einn af þeim liðum sem þarf á auknu fjármagni að halda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur