Miðvikudagur 06.06.2012 - 12:35 - 46 ummæli

Tryggir Þóra sigur Ólafs Ragnars?

Margir stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur lögðu ofuráherslu á það í upphafi að finna þyrfti frambjóðanda sem gæti fellt Ólaf Ragnar og að hún væri sá eini sem það gæti. Þetta fólk er annað hvort sammála afstöðu Þóru um hlutverk embættisins, eða telur hana aukaatriði, því mikilvægast sé að koma Ólafi frá og fá „frambærilega“ manneskju í hans stað á Bessastaði.

Það er óhætt að segja að þetta hafi gengið eftir, enn sem komið er, því aðrir frambjóðendur en þau tvö mælast varla með nokkurt fylgi. Vandamálið er hins vegar að þegar Ólafur Ragnar hefur nú hafið kosningabaráttu sína, af alkunnri hörku og kunnáttu, þá fara að renna tvær grímur á ýmsa áður óákveðna kjósendur. Það finnst ekki öllum lengur jafn aðlaðandi að heyra Þóru tala um að „það eigi að vera aukinn samhljómur milli forseta og þeirrar ríkisstjórnar sem situr við völd hverju sinni“ og að hlutverki forseta sé lýst með þeim loðna hætti að „Hann á að leiða saman ólík sjónarmið, hann á að geta miðlað upplýsingum á milli …“

Stuðningsmönnum Þóru tókst sú ætlun sín að gera aðra frambjóðendur lítt sýnilega, og Þóru að eina valkostinum við ÓRG. Gerðu þeir þannig út af við möguleikann á að finna frambjóðanda sem meirihluti kjósenda gæti sameinast um og sem gæti fellt Ólaf?

Mun árangurinn af „hernaðarlist“ stuðningsmanna Þóru verða fullkominn ósigur, þar sem þeir tryggja á endanum sigur Ólafs Ragnars, eftir að hafa rutt burt öllum þeim sem hefðu getað lagt hann að velli?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (46)

  • Einar Karl

    Bera stuðningsmenn Þóru ábyrgð á að vekja athygli á öðrum frambjóðendum gegn sitjandi forseta og gera það „sýnilegt“?

    Eru það ekki frekar stuðningsmenn þeirra frambjóðenda sem eiga að reyna að vekja athygli á sínu fólki?

  • Ég skila ekki þessa setningu: „Stuðningsmönnum Þóru tókst sú ætlun sín að gera aðra frambjóðendur lítt sýnilega“. Hvernig var það gert? Hver kom því til leiðar að allir gátu komið fram í þættinum á Stöð2 ?

  • Kristján Elís

    Ef fólk vill að þjóðin standi í morfís-kappræðu frá morgni til kvölds þá kýs það ‘Ólaf Ragnar, ef fólk vill ástunda heiðarlegar og sanngjarnar samræður þá kýs það Þóru. Ólafur skilur eftir sig slóð sundrungar

  • Ómar Kristjánsson

    það er nú reyndar þannig að ,,aðrir frambjóðendur“ og fylgismenn þeirra sjá til þess að kallinn verður í 20 ár hérna.

    Enda kemur alveg fram að fylgismenn annarra en þóru eru í raun stuðningmenn ÓRG – þó þeir skammist sín eitthvað fyrir að viðurkenna það og þykist styðja aðra ss. Ástþór.

    Málflutningurinnn er i algjöru samræmi við útí hött tal kallsins.

  • Ég tel ekki að stuðningsmenn Þóru hafi gert neitt á hlut annarra frambjóðenda, né heldur tel ég að Þóra hafi með nokkrum hætti komið ósæmilega fram.

    Hins vegar var nokkuð ljóst að það var stór hópur fólks sem lagði sig fram um að finna einn frambjóðanda til að sameinast um sem gæti fellt Ólaf, og þar sem það var aðalatriðið. Þessi hópur var meðal annars með síðu á Facebook þar sem þetta var rætt mjög opinskátt (sem mér finnst ekkert rangt við í sjálfu sér). Sá hópur, að því marki sem hann stóð saman, studdi Þóru mjög eindregið þegar ljóst var að hún fékk mikið fylgi í skoðanakönnunum (áður en hún lýsti yfir framboði).

    Það sem ég er að velta fyrir mér hér er einfaldlega hvort þetta hafi verið misreiknað, hjá þeim sem töldu mikilvægast að sameinast um einhvern vandræðalausan frambjóðanda sem gæti fellt Ólaf, og veðjuðu öllu á Þóru. Í ljós hefur nefnilega komið að hún er enginn bógur, getur hvorki tekist á við Ólaf á þeim vígvelli sem honum hefur tekist að marka, né heldur getur hún lýst skoðunum sínum á embættinu með nógu fjölbreyttum hætti til að fólki finnist hún gera annað en að endurtaka innantóm orð um að „allir eigi að vera vinir“.

  • Er þetta ekki tóm þvæla Einar? Hefur ekki ítrekað verið bent á það að leikþáttur ÓRG sem stóð allt frá áramótum fram í maí hafi haft mikil áhrif á það að frambjóðendur komu seint fram og margir vænlegir jafnvel ekki boðið sig fram vegna þessa.
    Það hlýtur því að vera vegna herkænsku ÓRG sem að þetta snýst alfarið um hann enn og aftur, er það ekki?

  • Það er ljóst að herkænsku ÓRG standast fáir snúning …

  • Þetta er alveg hárrétt hjá þér. Það er nákvæmlega þetta sem er að gerast.

  • Ósköp hugnast mér lítið herskænskuforseti.

  • Bara svo það sé á hreinu þá hugnast mér ÓRG afar illa, og mér finnst sorglegt að sjá hvernig herkænska hans snýst alltaf um að fegra eigin ímynd.

  • Ekkert fjárans esb hér

    Enn 1 neyðarlega tapið hjá háværa minnihlutanum……..

  • Fram að þessu hefur ÓRG stjórnað leiknum og dregið línurnar. Það kann að breytast. Einar – þú ræðir hópinn sem vildi annann valkost. Þóra var ein af mörgum sem voru í sjónmáli í byrjun. Ég sé ekkert að því að vilja losna við Ólaf – hann er sundrungarafl. Og þótt hann sé nú hátt skrifaður hjá mörgum vegna Icesave II og III þá samþykkti hann nr. i. Og hvar var þessi forseti heimsfriðar og lýðræðis þegar Dóri og Dabbi drógu okkur í stríðið? Hvar var þessi höfðingi þegar Kárahnjúkavirkjun klauf þjóðina? Þessi maður var með allt niðurm sig eftir útrásardaðrið – hann sá tækifæri í Icesave fyrir kombakk og spilaði snilldarlega úr því. Svo tókst honum að sviðsetja heilt leikrit um að hætta og hætta svo ekki – og eins og fyrr segir þá setur hann leikreglurnar í kosningabaráttunni núna. Hann túlkar stjórnarskrána og vitnar í fyrri forseta eins og að hann einn viti. Fræðimenn deila ekki allir hans skoðunum. En hann hefur tækifærin til að túlka sín sjónarmið – hann yfirtók þáttinn á Stöð 2. Svona forseta vil ég ekki. X Þóra.

  • Hreggviður

    Síðuhaldari hefur greinilega lítið álit á Þóru og segist ekki vilja Ólaf!
    Þetta verða erfiðar kosningar fyrir Einar.

  • Halldór

    Það sem mér þykir áhugavert er hve ákaft margir sjálfstæðismenn virðast styðja ÓRG. Sjálfstæðisflokkurinn hefur almennt ekki verið þeirrar skoðunnar að forseti eigi að grípa fram fyrir hendur ríkisstjórna, og einmitt núna þegar augljóst virðist að þeir eru að fara að komast aftur til valda á næsta ári ætla þeir að leggja sig alla fram um að hafa hentistefnu-ólíkindatólið hangandi yfir sér. Halda sjálfstæðismenn að einhverjar ríkistjórnir (núverandi eða sú næsta) séu eitthvað sérstaklega vinsælar lengi í þeim verkefnum sem þær þurfa að sinna við núverandi efnahagsaðstæður? Það er alla vega alveg ljóst hver verður fyrstur til að setja allt í uppnám þegar vinælt verður að vera á móti næstu stjórn.

  • Svavar Bjarnason

    Vitað var að bæði Kristján Eldjárn og Vigdís voru herstöðvaandstæðingar.

    Herstöðvamálið klauf þjóðina í áratugi eins og ESB málið gerir núna. Hvað hefðu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, sem nú fylkja liði um Ólaf, sagt ef Kristján og Vigdís hefðu tekið fullan þátt í þeirri deilu?

  • Hjálmtýr: Ég tek undir allt sem þú segir. Mér finnst heldur ekkert rangt við þá afstöðu að vilja fyrir alla muni losna við ÓRG og kjósa til þess einhvern sem maður er e.t.v. ekki sáttur við að öllu leyti. Það er afstaða sem fólk má auðvitað hafa, og sem ég gæti alveg haft stundum. Að sama skapi finnst mér rangt að skamma þá sem ekki vilja kjósa Þóru, þótt þeim finnist Ólafur ömurlegur.

  • Ámundi Loftsson

    Eina leiðin til að fella einhvern er að bjóða uppá eitthvað betra. Á það skortir hér.

  • Ekkert fjárans esb hér.
    Það væri skratti gaman að sjá hvernig þeir tækju sig út, greyin – en athugaðu þetta:

    http://eirikurjonsson.is/forsetinn-hunsar-homma-og-lesbiur/

  • Vissulega er Þóra ekki mikið forsetaefni en naut samt ákveðins goodwill hjá fólki sökum þokkalegrar frammistöðu sem spyrill í spurningaþætti. Þetta virðist nú allt vera að glutrast niður, en líkast til hefði farið eins alveg sama hvaða kandídat Samfylkingin hefði teflt fram, því flokksfólk virðist vanmeta stórlega þá miklu óbeit sem stærsti hluti þjóðarinnar hefur á ríkisstjórnarflokkunum.

    Eina leiðin til að fella ÓRG hefði verið að fylkja sér á bak við algerlega ópólitískan frambjóðanda, en stóru hernaðarmistök hatursmanna ÓRG voru að tefla fram kandídat úr eigin röðum sem svo augljóslega er tengdur Samfylkingunni þéttum tengslum.

    Hatur þjóðarinnar á ríkisstjórninni sér síðan um restina.

  • Sennilega nær ÓRG að taka þetta og þar með fær hann frekara tækifæri í opinberu starfi til að hreinsa af sér óværuna sem hann safnaði fyrir hrun.

    Hann fer í rauninni gulltryggður með gæðastimpil í sögubækurnar m.t.t. að hann er þá kosinn aftur þrátt fyrir aldur og fyrri störf. Trúi að þessi möguleiki hafi haft megin áhrif á að hann bauð sig fram enn eitt kjörtímabilið.

    Mikið hlýtur DO að öfunda ÓRG ef þetta gengur eftir.

  • „Á einhvern hátt hafa ömmur okkar innrætt okkur að við skyldum skara fram úr eins og forfeður okkar, skáld og frumkvöðlar, draumóramenn og landkönnuðir, og nota frumkvöðulsandann til að kanna heiminn“. (ÓRG í Los Angeles árið 2000).
    Ég er að reyna að rifja upp hvað ömmur mínar sögðu við mig.

  • Algjörlega rétt hjá þér.
    Þrýstihópurinn á bak við Þóru lætur ekkert sem hún segir eða gerir slá sig út af laginu.
    Nýjasta slagorðið hennar er: „Við erum ein þjóð í einu landi.“
    http://www.fjordurinn.net/?p=406
    Hverjir geta eiginlega tekið undir svona málflutning?

  • Malcolm X

    Herdís myndi leggja Ólaf að velli ef kvenþjóðin hætti að öfunda hana og leyfði henni að njóta sannmælis.

  • Svavar R.

    Þetta er nú meiri fýlan í stuðningsfólki Þóru hér í athugasemdakerfinu.

    Horfist bara í auga við staðreyndirnar. Þóra er ekki að gera sig í þessu.
    Hún er allsendis óvön að standa hinum meginn við míkrófóninn og á því erfitt með að svara spurningum fréttamanna og tjá sig sem frambjóðandi.

    Og svo er hún með Samfylkingarstimpil því Samfylkingarfólk er æstast í að fá hana sem forseta og hafa því gert hana að „sínum“ frambjóðanda.

    Slíkur stimpill þvæst bara ekki af hvað sem sem Þóra eða stuðningsfólk hennar gera.

    Og þar sem að Samfylkingin er orðinn óvinsælasti flokkur á Íslandi fyrr og síðar, er framboð Þóru dauðadæmt.

  • Jón Erlingur Jónsson

    Torfi. Þetta er reyndar ekki slagorð, heldur hluti af svari við spurningu Fjarðarins. Auk þess er þetta frá 7. maí og getur því varla talist með því allra nýjasta. Mæli með því að fólk lesi svör Þóru í heild sinni við spurningum fréttablaðs sunnanverðra Vestfjarða. Enginn annar frambjóðandi virðist hafa ómakað sig við að svara þeim.
    Þú spyrð hver taki undir svona málflutning: „Við erum ein þjóð í einu landi.“
    Ég geri það. En vegna þess að þetta er ekki sett fram sem slagorð heldur er hluti af hugsun sem hún setur fram í ákveðnu samhengi. Forseti Íslands þarf að gera mikið af því að fara um landið, tala við fólk, efla samhug og samfélagsvitund svo samfélagið leysist ekki upp. Ekki með þjóðrembu, heldur hlýju og vinarþeli. Ég sé Þóru fyrir mér standa sig vel í því sem öðru.
    Sem Íslendingur erlendis stuðast ég heldur ekki af „. . . í einu landi“, kannski vegna þess að að svo miklu leyti sem ég fylgist með umræðum á Íslandi – les fréttablöð frá Vestfjörðum og svona – þá finnst ég mér ég vera í landinu í einhverjum skilningi.
    Með kveðju frá Lundi, Jón Erlingur

  • Jón Erlingur Jónsson

    Samkvæmt skoðanakönnun er Ólafur með forustu sem stendur. Eins og staðan er núna lítur því út fyrir að hann verði áfram forseti. Einar veltir því fyrir sér hverjum verði hægt að kenna um ef þetta gerist og nefnir í því sambandi stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur. Þeir eru frekar margir og þess vegna fer ansi mikið fyrir þeim. Þeir dúkka alls staðar upp og trufla aðra frambjóðendur.
    Ég veit ekki hvort röksemdafærslan er fyllilega skotheld eða sanngjörn. Allavega verður erfitt að sanna tilgátuna: „Ef stuðningsmenn Þóru hefðu ekki verið svona ákafir, þá hefði einhver annar frambjóðandi sigrað Ólaf.“

  • Ólafur Ísleifsson sagði í morgun „Til að skáka manni eins og ÓRG þarf frambjóðanda af sama kaliberi, eins og Herdísi“.
    (6:30 mín) http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=11774

  • Jón Erlingur Jónsson

    (framh) þ.e.a.s. ef úrslitin verða eins síðustu kannanir benda til og Ólafur verði áfram en það á ekki að slá því föstu fyrr en búið er að telja atkvæðin. Sjálfum finnst mér augljóst að það er kominn tími til að skipta um forseta og þakka Ólafi fyrir 16 ára starf á Bessastöðum. Sextán ár er langur tími og lengri seta er alls ekki holl fyrir neinn aðila.

  • Ólafur Arnarsson: „Þeir sem ætla að fara fram gegn manni eins og ÓRG og leggja hann að velli, þar dugar ekki að tefla fram neinum meðalmanni“.
    10. mín http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=11774

  • Torfi Hjartarson

    Jón Erlingur: „Ein þjóð í einu landi.“ Það er hámark þjóðrembunnar sbr. „Ein Volk ein Reich ein Fuhrer“. Ekki líst mér á sjálfskipað sameiningartákn sem tekur svona til orða.
    Og að kalla allt ESB brennandi hús er kokgleypt af þrýstihópnum án gagnrýni. Hvað á manneskjan við? Frambjóðendur sem vilja taka sig alvarlega hafa orðað það sem svo að þeir hafi áhyggjur af stöðunni í ESB og mögulegri aðild en þarna er ekki verið að skafa utanaf hlutunum.

  • Jón Erlingur Jónsson

    Torfi. Þú þarft að gæta þín á samlíkingum . Ég efast um að Þóra hafi sótt innblástur hjá sjálfum Adolf Hitler! Samstaða með fólki á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru afskekktir og fólki þar fækkað svo áratugum skiptir ekki hægt að líkja við múgæsingar þriðja ríkisins. Samstaða fólks er ekki slæm í sjálfri sér þótt sumstaðar hafi hún verið mynduð til illra verka.
    Svo er Þóra ekki sjálfskipað sameiningartákn. Það var skorað á hana að bjóða sig fram í embætti. Embætti sem að hennar mati „er laust við flokkapólitík og á að ýta undir það sem sameinar okkur.“ http://www.fjordurinn.net/?p=406
    og þar er ég alveg sammála henni. Hún skipar sig hins vegar ekki sjálf í það embætti, hún getur bara boðið sig fram til þess.

  • Torfi Hjartarson

    Jón Erlingur. Þurfa kjósendur nú að gæta sín þegar þeir vitna í orð frambjóðenda? Frambjóðendur eiga að tala fyrir sig sjálfa en ekki þurfa langra túlkana og útskýringa við.
    Forsetinn á að gera það sem stjórnarskráin kveður um og ekkert annað. Þar er ekki gert ráð fyrir því að hann sé sameiningartákn, handbendi ríkisstjórna eða auglýsingamaskína fyrir stórfyrirtæki. Forsetinn á að vera tilbúinn að taka umdeildar ákvarðanir eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir þótt það kosti sundrungu.

  • Einar Karl

    Í könnunum fyrir hálfu ári kom fram að um 85% þeirra sem telja sig stuðningsmenn Framsóknarflokks vildu Ólaf Ragnar áfram sem forseta.

    Gerir það Ólaf Ragnar að frambjóðanda Framsóknarflokks? Setur það „Framsóknarstimpil“ á Ólaf Ragnar?

    Nei. Ekki að mínum dómi. Ég met manninn út frá orðum og gjörðum, hef skoðun á manninum sjálfum án þess að þurfa að skipa hann í flokk.

  • Jón Erlingur Jónsson

    Torfi. Ef þú tengir orð Þóru við Þriðja ríkið og Adolf Hitler getur þú sagt þér sjálfur að þú ert farinn að mála skrattann á vegginn. „Ein Volk“ hjá Hitler hefur undirtón kynþáttahyggju. Fólk af germönskum uppruna átti að verða yfir en aðrir kynþættir fara í gasklefa eða þrælkun. Í daglegu tali hefur orðið „ein þjóð“ ekki neina slíka skírskotun. Mér finnst ekki þurfa sérstakar túlkanir eða útskýringar á því t.d. að til þjóðarinnar teljast innflytjendur af hvaða kynþætti og trúarbrögðum sem er. Er þetta ekki bara eðlilegur málskilningur?
    Mér er meinilla við þjóðarrembing og þar erum við sammála. Hann felur í sér hugmynd um að eigin þjóð sé öðrum æðri, hugmynd sem nær hástigi einmitt í þriðja ríkinu. Olli þá heimstyrjöld og dauða 50 milljóna manna. Út á við, gagnvart öðrum þjóðum, mætti heldur viðhafa sömu reglu og Þóra leggur til, „. . .að ýta undir það sem sameinar okkur“, þá sem manneskjur eða jarðarbúa.

  • Torfi Hjartarson

    Jón Erlingur.
    Þetta er það sem gerist þegar frambjóðendur og forseti fara að boða aðgerðir sem eru í engu samræmi við starfslýsingu forseta sem er skýr í stjórnarskránni og tala út og suður um hvað þeir ætli að gera komist þeir á Bessastaði.
    Vanhugsaður áróður, meinleg og óskýr ummæli í anda Dan Quayle og George Bush er ekki það sem maður óskar frá Bessastöðum. Nóg er að hafa Alþingi Íslendinga.

  • Bara svona til að því sé haldið til haga að þá eru margar þjóðir á Íslandi og íslenska þjóðin er dreifð yfir mörg ríki.

  • Orri Örn Árnason

    Sammála þér Einar.
    En hvar á að draga mörkin milli mikilvægra eða ómikilvægra mála. Ætlar Ólafur að setja rammaáætlun í þjóðaratkvæðagreiðslu… nú eða fordæmisgefandi mál svo sem sölu á HS orku nú eða leigu til Kínverjans.

  • Hvernig tryggir Þóra kosningu ÓRG? Þetta heitir að snúa hlutunum við eða á haus. Og þetta segir maður sem er stærðfræðingur. Með endemum óskýr vitleysa. Gef lítið fyrir svona rök. Herkænskurök kannski en rökleysa fyrst og fremst.

  • Versta bullið fyrir þessar kosningar koma frá ÓRG og Andreu og jafnvel Herdísi. Þetta er fólk sem þykist geta túlkað þjóðarviljann. Svona rétt einsog hann sé einsleitur. Þjóðin er ekki einn einfaldur aðili. Þjóðin er margslungnar áherslur og hagsmunir. Verst er að hagsmunir ráða yfirleitt og þess vegna endar Sjálfstæðisflokkurinn yfirleitt við völd. ÓRG er greinilega frambjóðandi þeirra, til að koma núverandi stjórnvöldum frá.

  • Fríður Finnboga

    Jæja gott fólk, fróðlegt að lesa þessi ummæli, þetta er ekki grín framboð heldur fúlasta alvara. Straks eftir sjónvarpsútsendingar um fosetakjör hrundi fylgi Þóru, segir það ekki allt sem segja þarf. Íslenska þjóðin vill Hr. Ólaf Ragnar R. Grímsson. Reið ríkisstjórn með 10% fylgi stillir ekki upp forsetaefni á móti Hr. Ólafi, þjóðin fer í þveröfuga átt. Í dag hefur Hr. Ólafur tvöfalt meira fylgi en sjónvarpskonan, Ruv. þegir enn:)

  • Fríður algjörlega sammála. Það er ekki hægt að kenna neinum um hrun Þóru nema henni sjálfri. Hún einfaldlega stóðst ekki prófið. Við þurfum forseta eins og Ólaf Ragnar Grímsson. Það er bara þannig.

  • Anna Guðmundsdóttir

    Ég skal gera játningu í tilefni þessa fína pistils þíns. Ég DÁI Andreu og ber hvað mesta virðingu fyrir henni af öllum íslenskum konum, enda þekki ég vel til hennar góða starfs í sjálfboðavinnu fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, sem hún er í forsvari fyrir. Ég ber líka djúpa virðingu fyrir Herdísi og finnst hún stórkostleg. Og Ari Trausti finnst mér viðkunnanlegur og viðfelldinn. Ólafur kæmist ekki á blað hjá mér ef Þóra væri ekki í framboði. Ég virði það við hann að hafa virt þjóðarviljann, en finnst hann ekki gallalaus og kominn tími á að hafa mannaskipti og tel slíkt æskilegt. En afþví Þóra er í framboði og gengur svo vel neyðist ég til að kjósa Ólaf, sjálfri mér þvert um geð. Ég get bara ekki hugsað mér að kjósa konu sem bíður ekkert fram annað en innantóm slagorð, sem minna mig helst á sértrúarsöfnuði eða hátterni fasistaflokka og annarra sem beita auglýsingabrellum og væmni frekar en rökum og skynsemi til að afla sér fylgismanna. Sérstaklega ekki þegar sú hin sama er hættuleg lýðræði okkar og almannaheill, því hún hefur lýst því yfir að ætla sér ekkert að aðhafast og vilja ekki þjóðarvilja, heldur vera til skrauts, sem mér finnst algjörlega siðlaust. Ég skil ekki hvernig nokkur manneskja getur hugsað sér að fá borgað svo há laun fyrir að vera baggi á skattborgurum, skrautdúkka sem sýpur kaffi víða um land með bæjarstjórum og spjallar síðan um þá fundi við aðra bæjarstjóra og hvað annað hún sagðist ætla að gera, á tímum þar sem þjóðin hefur ekki efni á svo dýrum auðnuleysingja, þegar við höfum nóg að gera með löggilta öryrkja og heiðarlega bótaþega fjölmennari en nokkru sinni fyrr, á tímum þegar þúsundir manns hafa ekki í sig og á og börnin þeirra skortir mat um mánaðarmótin. Hún ætti bara að skammast sín þessi kona og hún hefur eyðilagt kosningabaráttuna. Mér tekur sárt að geta ekki kosið Andreu.

  • Alveg er ömurlegt að sjá karlrembur lýsa hér frambærilegri konu sem „skrautdúkku“.

    Það er alveg ljóst að Herdís, Andrea og Ari Trausti áttu aldrei möguleika í þessum kosningum. Þó að Þóra væri ekki í framboði myndi ekkert þeirra sigra Ólaf Ragnar.

    Herdís bauð sig fram fyrst allra og hefur þó aldrei fengið nema örfá prósent í skoðanakönnunum. Andrea virðist halda að hún sé að bjóða sig fram sem forsætisráðherra, þar sem hún ætlar að leggja fram frumvörp og reka ráðherra. Ari Trausti bauð sig fram til að auglýsa bækur.

    En stuðningsmenn þessara frambjóðenda eru þeir sem munu tryggja Ólafi Ragnari endurkjör, með því að styðja ekki eina frambjóðandann sem á einhverja möguleika gegn honum.

  • Já, og konur geta alveg verið karlrembur, bara svo það sé á hreinu.

  • Steingrimur

    Er Herdís úlfur í sauðagæru?
    Á LEKUM BÁT!
    Fimmtudaginn 28. júlí 1977 spurði Vísir fimm einstaklinga ”hver yrðu fyrstu viðbrögð þín, ef hingað til lands flyttust skyndilega 10 þúsund svertingjar?”
    Einn kvaðst mjög mótfallinn komu þeirra hingað, og annar kvaðst bara myndi forða sér. Hinn þriðji sagðist ekki sjá neitt athugavert við það, og hinn fjórði kvaðst myndi bara bjóða þá velkomna. Hinn fimmti, Herdís Þorgeirsdóttir blaðamaður, svaraði orðrétt: ”Fáránleg spurning. Ég myndi senda þá á lekum bát aftur út á haf.”

    http://timarit.is/view_page_init.jspissId=247648&pageId=3363258&lang=is&q=lekum

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur