Laugardagur 12.12.2015 - 15:40 - 6 ummæli

Skrípaleikur Karls Garðarssonar með tölur

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í þessari frétt á Eyjunni er haft eftir Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknar, að gagnrýni Kára Stefánssonar á afstöðu ríkisstjórnarinnar til fjárframlaga til Landspítalans sé „pólitískur skrípaleikur“. Það rökstyður hann með því að benda á að framlög til LSH hafi aukist um 30% á síðustu þrem árum, og slíkt hafi varla gerst annars staðar á byggðu bóli. Staðhæfing Karls, um aukninguna á síðustu þrem árum, virðist vera nokkurn veginn rétt, nema hvað ekki er tekið tillit til verðþróunar (á föstu verðlagi er þetta 23,3% hækkun frá 2012 til 2015). Það vantaði hins vegar dálítið í þessa sögu hjá Karli; hann byrjaði söguna á „heppilegum“ stað. Samkvæmt gögnum frá Velferðarráðuneytinu (Tafla 5, á bls. 12), líta framlög til LSH svona út síðan 2008 (á föstu verðlagi ársins 2015, þegar búið er að bæta við því aukaframlagi sem LSH fékk á þessu ári):

2008

2009

2010

2011

2012

2013

2014

2015

49,0

45,3

40,6

40,0

39,8

42,4

43,6

49,1

Það er rétt hjá Karli að hækkunin síðustu þrjú ár hefur verið mikil. En eins og sjá má á töflunni hefur hækkunin frá árinu 2008 verið nánast engin, þ.e.a.s. 0,1 milljarður eða 0,2%. Núll komma tvö prósent …

Það segir heldur ekki alla söguna, því ljóst er að gríðarlegur niðurskurður á árunum þar á milli hefur skapað uppsafnaða fjárþörf til að halda í horfinu, sem ekki hefur verið bætt úr.  Miðað við að spítalinn hefði fengið sama framlag öll árin eru það samtals rúmir 42 milljarðar sem skorið hefur verið niður um.

Karl Garðarsson sagði sem sagt nokkurn veginn satt. En útkoman úr því sem hann sagði var hins vegar ósmekkleg lygasaga, því hann notaði þetta til að gefa í skyn að ástandið væri alls ekki svo slæmt, og að það væri eitthvað mikið að fólki sem leyfði sér að gagnrýna það.

PS. Kærar þakkir til Guðbjargar Pétursdóttur, sem benti mér á þessi gögn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Þórhannes Axelsson

    Karl notar sömu aðferðina þegar hann þykist sýna fram á að örorku- og ellilífeyrisþegar hafa fengið jafnt á við aðra hópa. Þ.e. hálfsannleikur sem verðu að stórri lýgi þegar heildarmynd er birt. Merkilegt með Karl að hann skuli taka að sér hlutverk „geltandi rakkans“ fyrir húsbónda sinn. Aldrei hefði mér dottið í hug að Karl tæki við slíku hlutverki gagnstætt sem á við Vigdísi Hauks!

  • voru ekki S merktu lyfin tekin út úr kostnaðarliði LSH og sett inn í sjúkratryggingar á þessu tímabili sem kemur fram hér að ofan? þannig að getur verið að þessi samanburður sé epli og appelsínur?

    http://www.althingi.is/altext/139/s/1388.html

    • Samkvæmt töflu 5 á bls. 12 í eftirfarandi plaggi frá Velferðarráðuneytinu, þaðan sem ofangreindar tölur um LSH eru fengnar, eru S-merkt lyf (sem og önnur lyf) sérstakur liður

      https://www.velferdarraduneyti.is/media/tolfraediHeilb/2015-juni-yfirlit-rekstrarutgjalda—loka.pdf

    • Marinó G. Njálsson

      Mjög áhugaverð skýrsla sem þú tengir við svar þitt, Einar. Á bls. 9 er tafla 2 og hún segir allt sem segja þarf. Þó ég sé ekki hrifinn af að nota fast verðlag, því það er svo verðtryggingarlegt, þá getur sú nálgun verið góð stundum. Í töflu 2 eru sýnd rekstrarútgjöld og þeim skipt niður á málaflokka. Þar kemur fram að rekstrarútgjöld almennrar sjúkrahúsþjónustu voru 66,8 ma.kr. (á föstu verðlagi) árið 2008, en stefna í 57,9 ma.kr. í ár. Þetta er lækkun um 13%. Í millitíðinni fóru þessi útgjöld lægst í 53,8 ma.kr. Út frá þessum á ætla, að þegar fjársveltir spítalar landsins árið 2008 hafi verið skornir niður um 72,3 ma.kr. á árunum 2009 til 2015 eða sem nemur 108% af fjárlögum ársins 2008. Í þessu felst vandi Landspítalans (og annarra spítala landsins).

  • Gísli Tryggvason

    Takk fyrir að benda á þetta Einar. Framsetning Karls minnir á skrípamynd að lengja ásana á línu- og súluritum. Þá er hægt að jafna allt út.

  • Það má við þetta bæta að breytingar á aldursdreifingu þjóðarinnar, m.a. aukin þyngd og minni hreyfing þjóðarinnar og lakari heilsa, stórauknar kröfur. Stórbætt meðferð sem kostar miklu meira í nánast í öllum sérgreinum læknisfræðinnar sérstaklega í krabbameinslækningum, gigtarlækningum, auglækningum ofl. og þetta mun leggjast af miklum þunga á heilbrigðiskerfið sem er frá áður bæði vanfjármagnað, illa tækjum búin og húsakostur dreifður og slæmur þannig að tæki og mannafli nýtast illa.
    Það má reikna með að ef halda á í horfinu þarf að auka raunútgjöld um 2% á ári (meira en það sem er hækkun á launatöxtum).
    Áður hefur verið bent á að það þyrfti að byggja (og leggja til árlegt rekstrarfé) á 1 1/2 hjúkrunarheimili næstu 25 árin ef halda á þjónustustigi í horfi.
    Hlutfall heilbrigðisútgjalda á Íslandi bæði ef athugað ser sem hlutfall af ríkisútgjöldum annars vegar eða sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu eru langt undir þeim löndum sem við viljum líkja okkur við.
    Það er algjör ranghugmynd að segja að lagt hafi verið mikið til heilbrigðiskerfisins og þessi prósentureikningur segir kanski meira um þingmenn og fjölmiðla en nokkuð annað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur