Þriðjudagur 31.10.2017 - 15:26 - FB ummæli ()

Næsta stjórn: Sigurður Ingi í lykilstöðu?

Ég spáði Panamastjórn 2.0 fyrir kosningar (D+C og B+M), og sýnist úrslit í samræmi við það. Sú spá stendur enn, þótt ég hafi að vísu ekki gert ráð fyrir munstrinu D+B+M+F sem er aðeins popúlískari útgáfa af þeirri stjórn. En hvað veit ég?!

Stærsta óvissuefnið í mínum huga er Sigurður Ingi, formaður Framsóknar, og hvort hann vilji renna saman við Miðflokkinn í ríkisstjórn. Vandi Sigurðar Inga er sá að þá mun hann ef til vill mæta SDG í næstu formannskosningum Framsóknar, eða kannski Lilju Dögg sem gæti þá teppalagt fyrir sameiningu með Sigmundi í aðdraganda næstu kosninga. Ef gamla Framsókn ákvæði að halla sér til vinstri, gæti hún vel gert það, og þá væri naflastrengurinn við SDG rofinn (til dæmis væri munstrið BSVPC með góðan meirihluta) og Sigurður Ingi myndi styrkja stöðu sína sem formaður Framsóknar.

Mig grunar að það gæti orðið gott skref fyrir Framsóknarflokkinn, þótt spá mín um Panamstjórn 2.0 (DBMC eða varíasjónin DBMF) sem líklegustu niðurstöðuna standi enn. Sú lending verður kannski ekki strax, en eftir dálítið japl er hún líklegust. Afhverju? Því þarna eru á ferðinni sömu hagsmunahópar og hafa verið saman í ríkisstjórn mestalla lýðveldissöguna … sem eru vel vanir að gera málamiðlanir til þess að komast til valda. Og á Íslandi er það þannig að það er ansi mikils virði, í beinhörðum peningum, að vera við völd eins og dæmin sanna, nú þegar framundan er einkavæðing bankanna og sala ýmissi eigna sem ríkið tók yfir í kjölfar hruns.

Ég sé að aðrir velta upp þeim möguleika á „sáttarstjórn“, sjá hér, Sjálfsæðisflokks, VG og Samfylkingar. Það getur vel verið að þetta sé í spilunum, ekki hef ég hugmynd um það. Mig grunar reyndar að ef Sigurður Ingi fer að ofmeta stöðu sína, haldi að hann sé í lykilstöðu til að myndi stjórn bæði til vinstri og hægri og ráði þessu, gæti hann gleymt því að fyrir VG væri miklu betra að vera með S og D í ríkisstjórn (fremur en B og D) og fyrir D er líklega ekki sérlega spennandi að fara aftur í samstarf við SDG. Ef „sáttarstjórn“ yrði ofan á myndi Sigurður Ingi allt í einu lenda í stjórnarandstöðu með SDG, og ekki ólíklegt að þær raddir færu að heyrast að sameina eigi krafta flokkanna undir forystu ……

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur