Miðvikudagur 16.5.2018 - 18:22 - 1 ummæli

BYKO glæpona í tugthúsið

Við búum í markaðsþjóðfélagi en vegna smæðar markaðarins og vegna þess hversu afskekkt við erum er hér fákeppnismarkaður eins og kannski í fáum öðrum löndum í þessum heimshluta.

Af þessum sökum eru stórfelld brot á samkeppnislögum ekki bara einhver saklaus „hvítflippaglæpur“, heldur grafalvarlegur þjófnaður bæði frá almenningi og fyrirtækjum í landinu, sem valda stórskaða.

Nokkur hundruð milljóna sekt mörgum árum eftir að glæpur hefur átt sér stað og jafnvel eftir að stjórnendur sem báru ábyrgð á glæpnum eru hættir og nýir eigendur til staðar eru allt of lítil refsing.

Hér ætti að dæma þá sem ábyrgð bera í nokkurra ára tugthúsvist á Litla-Hrauni og hárra fjársekta persónulega. Væntanlega myndu forstjórarnir þá hugsa sig tvisvar sinnum um áður en þeir haga sér svona.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.5.2018 - 10:45 - 5 ummæli

Vegatollar: JÁ – ef allir landsmenn greiða þá

Hér og nú viðurkenni ég í fyrsta skipti opinberlega að líklega er ekki hægt að fara í slíkan framkvæmdapakka í vegakerfinu upp á 150 milljarða nema að á sama tíma verði teknir upp vegatollar. Við vitum jú öll að göng og fjórföldum vega og nýjar tvöfaldar brýr eru gríðarlegar samgöngubætur, sem verður að ráðast í sem allra allra fyrst. Þúsundir Íslendinga hafa orðið að flýja höfuðborgarsvæðið vegna íbúðarskorts en að auki nær „stór-höfuðborgarsvæðið“ frá Akranes yfir til Hveragerð og Selfoss, Þorlákshafnar, Grindavíkur, Reykjanesbæjar, Sandgarða (Útnárabyggð) og í Vogana.
Að mínu mati væri þó óþolandi væri að sjá að vegagjöld yrðu einungis tekin upp í kringum höfuðborgarsvæðið, t.d. Sundabraut, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og tvöföldun ganga um Hvalfjörð, en að sama tíma myndu dreifbýlismenn aka ókeypis um öll sín atvinnusvæði annars staðar á landinu. Nei, þarna verður auðvitað að ríkja fullkomið jafnræði þegar kemur að greiðslu dýrra umferðarmannvirkja. Annaðhvort erum við með kerfi án vegatolla eða vegatollakerfi og þá skal eitt yfir ALLA landsmenn ganga, auk þess sem lækka yrði skatta á eldsneyti á sama tíma.
Taka verður upp greiðslu fyrir notkun á gömlum og uppgreiddum umferðarmannvirkjum jafnt sem á þau sem eru ný eru eða sem eru að klárast. Hér er að tala um áframhaldandi gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum og að taka þyrfti upp gjaldtöku í öllu vegakerfinu út úr höfuðborginni; Reykjanesbraut, Vesturlandsveg og Suðurlandsveg en þó í fyrsta lagi þegar fjórföldun er lokið + mislæg gatnamót (fullfrágengnar hraðbrautir út úr borginni) og nýtt malbik er komið á brautirnar. Ekki er ástæða til að greiða krónu fyrir vegina í því ástandi sem þeir eru í dag, því eru stórhættulegir og ekki fólki bjóðandi.
Varðandi gjaldtöku úti á landi, erum við á Vestfjörðum að tala um að taka upp gjaldtöku í hinum nýju Dýrafjarðagöngum en einnig í Bolungarvíkurgöngum, Ólafsfjarðargöngum eða Múlagöngum og Vestfjarðagöngum. Á Norðurlandi þyrfti að taka upp gjaldtöku í hinum fokdýru Héðinsfjarðargöngum og Ólafsfjarðargöngum/Múlagöngum. Nú þegar er gjaldtaka plönuð í Vaðlaheiðargöngum. Á Austurlandi á með þessu nýja fyrirkomulagi að ráðast fljótlega í gerð Fjarðarheiðarganga á Seyðisfirði með gjaldtöku og auðvitað taka gjald um hin nýju Norðfjarðargöng og nýleg Fáskrúðsfjarðargöng.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.4.2018 - 10:36 - 2 ummæli

Karlréttindafélag Íslands

Er það virkilega ekki orðið áhyggjuefni hjá stjórnvöldum að aðeins 35% karla séu með háskólamenntun á meðan 50% kvenna eru haskólamenntaðar? Í nýlegri frétt stóð að 63% nemenda í Háskóla Íslands í dag væru konur – tilhneyging hækkandi – en aðeins 37% karlar, þannig að þessi 50% sem að ofan gætu auðveldlega stefnd í 63% eða hærri tölu. Ungir karlmenn eru auðsjáanlega í tilvistarkreppu og öllum hér á landi stendur auðsjáanlega á sama um það.

Á sama tíma og við rekum með ærnum tilkostnaði Jafnréttisstofnun, erum með jafnréttisáætlanir í öllum fyrirtækjum og stofnunum til að auka hlut kvenna enn frekar, virðist enginn hafa áhyggjur af stefnulausum og menntunarlausum ungum drengjum og mönnum. Enginn virðist átta sig á mótsögninni í þeim aðgerðum sem við erum í og hvað er í raun að gerast. Svo það sé enn og aftur tekið fram er ég sjálfur háskólamenntaður og 2 af 3 dætrum mínum í námi við H.Í. og sú þriðja endar væntanlega þar líka.

Ég er jafnréttissinni, en í dag virðist jafnréttisbaráttan vera að þróast í „trójuhest“ til að koma hér á nýju kynbundnu misrétti, sem í þetta skipti skal beinast að körlum og þá væntanlega sem hefndaraðgerð fyrir kúgun frá fornu fari? Eða hvernig á maður að skilja áhugaleysi íslenskra mæðra, systra og eiginkvenna á drengjunum sínum og hvurslags aumingjar og dusilmenni eru karlmenn að passa ekki betur upp á velferð og menntun sona sinna, bræðra og frænda?

Á nýlegu Jafnréttisþingi í mars 2018 fór mikill tími umræðunnar víst í að ræða: „Kynjaáhrif uppbyggingar innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja“. Konurnar hefðu auðvitað frekar átt að ræða, hvort ekki væri rétt að byrgja brunninn áður en sonur þeirra dettur ofan í hann!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.4.2018 - 18:16 - 1 ummæli

Ísland, góðærislandið?

Menn tala hér þvers og kruss um efnahagsmálin. Bjarni Benediktsson talaði í gærkvöldi um gríðarlega sterka stöðu ríkissjóðs og blómlegt efnahagslíf á meðan seðlabankastjóri er búinn að spá kreppu frá því að hann tók við embætti. Sannleikurinn er sá að 24% aukning varð á fjölda ferðamanna á síðasta ári, sem er eitthvað sem við í raun ráðum illa við ár eftir ár. Í desember 2017 var 8,4% aukning, janúar 2818 komu 8,5% fleiri túristar og í febrúar 2018 komu 7,9% fleiri ferðamenn en í sama mánuði 2017. Það er alls ekki lítil aukning að vera með 8-9% aukningu í vetrartúrisma, en viðráðanleg, sérstaklega þegar tekið er tillit til styrkingar krónunnar á liðnu ári og gríðarlegrar aukningar ferðamanna undanfarin ár, sem hlaut aðeins að láta undan með tíð og tíma. Aukning ferðamanna í ár er spáð um 10% eða um 250 þúsund manns, sem eru helmingur þess fjölda sem kom hingað fyrir 5-6 árum síðan.

Það er reyndar einnig bullandi uppgangur í sjávarútvegi og fiskvinnslu og var verðmæti útflutnings núna í byrjun árs 67% meira en fyrir ári síðan. Þá er álverð í hæstu hæðum og kísilverksmiðjan fyrir norðan að opna, þótt bakslag sé í kísilnum í Helguvík. Örlítill halli er á vöruskiptum við útlönd, en þó ekki eins óhagstæður og hann var fyrir ári síðan, þrátt fyrir að innflutningur á skipum, flugvélum, bílum og öðrum fjárfestingarvörum sé gríðarlega mikill nú um stundir. Þótt ferðamenn eyði minna núna er þjónustujöfnuðurinn mjög hagstæður, sem gerir það að verkum að viðskiptajöfnuður er enn mjög hagstæður og betri en við höfum yfirleitt átt að venjast í sögu landsins. Þrátt fyrir met eyðslu eru allir sjóðir fullir af gjaldeyri og um og yfir 687 milljarðar króna af honum í gjaldeyrisforða SÍ. Orð seðlabankastjóra eru því satt best að segja óskiljanleg og deili ég aldrei þessu vant frekar meiningu

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.4.2018 - 21:52 - Rita ummæli

Vegakerfið og blanka ríkisstjórnin

Drepfyndið, 16.5 milljarðar í „innspýtingu“ til nýfjárfestinga í vegakerfinu „á næstu árum“. Samkvæmt nýlegri frétt FÍB hafa á liðnum 5 árum 258 milljarðar skatttekna frá bifreiðaeigendum EKKI verið nýttir í vegakerfið. Tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum eru um 90 milljarðar árið 2018.
Ein venjuleg tvöföld mislæg gatnamót kosta um 1 milljarð og það kostar 10 milljarða bara að klára Reykjanesbrautina á meðan tvöföldun milli Selfoss og Hveragerðis kostar um 11 milljarða. Í raun þýða 16 milljarðar á 3 árum rúmir 5 milljarðar á ári ofan á þá 19 milljarða sem planaðir voru á fjárlögum fyrir árið 2018. Dýrafjarðargöng ein og sér taka af þeim fjármunum um 9 milljarða og ef ég man rétt fara 8 milljarðar í viðhald, 2 í nýframkvæmdir. Vegamálastjóri telur þurfa um 11 milljarða bara til viðhalds, svo hægt sé að halda í horfinu.

 
Samkvæmt áreiðanlegri kostnaðarúttekt Samtaka iðnaðarins þarf 65 milljarða strax til að koma málum í sæmilegt horf, en sumir nefna mun hærri tölur. Þetta er því allt of lítið fjármagn, sem kemur allt of seint, þar sem vegakerfið er hvoru tveggja sprungið og ónýtt.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2018 - 10:53 - 7 ummæli

Íshellan yfir Norðuskautinu stækkar aftur

Samkvæmt niðurstöðu vísindamanna við Snjó- og ísgagnamiðstöð Bandaríkjanna (NSIDC) minnkaði ísbreiðan yfir norðurslóðum ekki þetta árið, heldur stækkaði lítillega. Þetta hljóta að teljast stórfréttir í ljósi þess að fullyrt hefur verið um árabil að ísbreiðan minnki mjög hratt nú um stundir og muni gera það áfram. Allir sem eru efasemdarmenn í þessu máli er vilja auknar rannsóknir áður gripið er til afdrifaríkra aðgerða eru sagðir óvinir framtíðarkynslóða.

Fyrirsagnir eiga að segja til um innihald frétta og því ætti fyrisögn neðangreindrar fréttar að vera eitthvað á þessa leið: „Íshellan yfir norðurslóðum stækkar aftur“. En það er öðru nær að fyrirsögnin hljóði þannig eins og við sjáum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fréttamenn láta hluti eins sannleikann ekki vera að trufla sig, þegar hann hentar ekki persónulegum skoðunum þeirra á ákveðnum málum. Þannig líkjast þeir mörgum stjórnmálamönnum.

Vísindamenn rannsaka og draga ályktanir af niðurstöðum sínum. Fréttamenn skýra almenningi satt og rétt frá niðurstöðunum. Ef vísindamenn álykta ekki í samræmi við niðurstöður og fréttamenn rangtúlka erum yfirleitt komin í þau vandræði vegna „Political Correctness“. Í rannsóknum um loftslagsbreytingar þarf allur sannleikurinn að vera upp á borðinu, líka staðreyndir sem koma sér illa fyrir heilaga stríðsmenn kenninga um hlýnun jarðar og áhangendur þeirra.

Heimild:

http://www.visir.is/g/2018180329329/utbreidsla-hafissins-a-nordurskauti-naerri-thvi-minnsta-sem-sest-hef

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.3.2018 - 10:55 - 1 ummæli

Léleg framleiðni er stjórnendavandi

Sigurður Hannesson er afskaplega vel gefinn maður og vert að leggja við hlustir þegar hann segir eitthvað, jafnvel eftir að hann gerðist framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Upptalningin á staðreyndum hjá honum er vafalaust rétt, þótt hann hafi gleymt að segja frá þeirri staðreynd að til viðbótar við vaxtaokrið og skattpíninguna, þá er verð hér á mat og allri vöru og þjónustu hærra en gerist í nokkru landi, nema kannski í Sviss og Noregi, þar sem einnig eru greidd mjög há laun, þótt þar sé framleiðnin vissulega hærri.
Um áratuga skeið las maður í fjölmiðlum um áhyggjur íslenskra stjórnenda og fræðimanna af framleiðni hér á landi og var þá nær alltaf miðað við framleiðni hjá aðalatvinnuvegunum, útgerð og fiskvinnslu, og samanburðurinn voru Danmörk og Noregur. Það verður að viðurkennast að með kvótakerfinu snarbatnaði framleiðni fyrirtækja í sjávarútvegi og gróði þeirra hefur allt frá þeim verið ævintýralegur og í framhaldi af því keyptu stóru kvótagreifarnir upp allar litlu útgerðirnar. Þetta á að hafa skilað samfélagi öllu miklu ávinningi, sem ég efast svo sem ekkert um, nema að honum er oft misskipt milli landsvæða.
Í Mc Kinsey skýrslunni, sem mikið var vitnað til fyrir nokkrum árum, var mikið talað um lélega framleiðni. Þar var þó staðfest að framleiðni í sjávarútvegi væri góð. Framleiðni hjá hinu opinbera var aðeins lakari en í nágrannalöndunum, sem að sögn Mc Kinsey væri hægt að útskýra með fámenninu og mikilli stærð landsins. Framleiðni í ferðaþjónustu var ekki nógu góð á þessum tíma af því að ferðamenn komu aðallega á sumrin, en það hlýtur að hafa batnað mikið á síðustu árum. Framleiðni í verslun og þjónustu var skv. skýrslunni hræðileg og það sama mátti segja um bankastarfsemi.
Allir sem eitthvað hafa ferðast vita að fjöldi bensínstöðva hér á landi er ótrúlega mikill miðað við erlendis og sömu sögu má segja um matvöruverslanir. Varla er í nokkurri borg af þessari stærðargráðu hægt að finna tvær risastórar verslanamiðstöðvar auk fjöldanum öllum af smærri miðstöðvum. Einhvern tíma las ég að við værum 3svar sinnum fleiri lögfræðinga en í nágrannalöndunum. Þegar ég kom heim fyrir tuttugu árum frá námi og vinnu erlendis í 12 ár varð ég undrandi að sjá allan þennan fjölda hárskera fyrir karla og konur sem sitja og horfa á tóma stóla nær allan daginn.
Að mínu mati þyrfti að fá utanaðkomandi fyrirtæki á borð við Mc Kinsey til að endurtaka rannsókn sína núna, því að mörgu leyti eru aðstæður aðrar. Atvinnustigið er hátt og ef það þarf að hagfræða, t.d. með því að fækka í bönkum eða annars staðar, er þetta rétti tíminn. Það er hins vegar ekki launþegum einum að kenna – eiginlega bara alls ekki þeim að kenna – ef framleiðni er léleg heldur miklu frekar lélegri stjórnun forstjóra, sem við vitum þó að eru mjög vel launaðir. Kannski er hér aðallega um stjórnendavandamál í íslenskum fyrirtækjum og bönkum að ræða og afleiðingar eru okurvextir, okurverðlag og léleg framleiðni í fyrirtækjum. Þurfum við alfarið nýja stjórnendur?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.3.2018 - 16:21 - Rita ummæli

Ríkisstarfsmenn með 6 milljónir á mánuði?

Það er alltaf gaman að lesa viðtöl við forsvarsmenn atvinnulífsins og sérstaklega þá þeir tjá sig um laun opinberra starfsamanna, en skv. Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, getur atvinnulífið ekki ekki keppt við ríkið, þar sem þar eru borguð slík ofurlaun. Þekkir þessi kona laun kennara, leikskólakennara, lögreglumanna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða? Sveiattan er það eina sem heilvita fólki dettur í hug!
Þetta segir hún á sama tíma og upplýst er að forstjóri N1, sem er sjoppufyrirtæki sem selur rjómaís, pylsur, kók, rúðupiss og smurolíu en að auki með nokkrar sjálfvirkar bensíndælur, og er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna líkt nær öll önnur íslensk fyrirtæki, sé með 5.900.000 kr. á mánuð eða um 75 milljónir á ári. Þekkir einhver ríkisstarfsmenn eða jafnvel stjórnmálamenn – jafnvel þá allra launahæstu – með slík ofurlaun?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.3.2018 - 11:11 - 4 ummæli

Þjóðkirkjan orðin deild innan VG eða Pírata?

Hvað er til ráða fyrir mann, sem veit að hann er ósköp eitthvað hvítur og miðaldra, kristinn maður og hugsanlega pínulítið gamaldags, og sem slíkur hefur hann ansi oft hneykslast bæði á framkomu biskups og á einstaka presti? Á maður að ganga úr þjóðkirkjunni, sem manni þykir vænt um og er búinn að tilheyra frá skýrn eða í rúmlega 55 ár? Þetta er stórt mál, því undir merkjum Þjóðkirkjunnar var maður skýrður, fermdur, kvæntist og hefur þar skýrt börn sín og fermt og átti eiginlega von á að vera borinn til grafar innan þessa trúfélags?

Er hugsanlega til einhver annar tiltölulega venjulegur evangelísk-lútherskur söfnuður, þar sem presturinn vill ekki að kirkjan hans sé lánuð til helgihalds fyrir múslimi og að ímam þjóni fyrir altari í húsi Krists? Þar sem maður má ekki eiga von á að lögregla þurfi að leita ólöglegra innflytjenda, sem eru faldir í skrúðhúsi kirkjunnar? Eða að embættismenn ríkiskirkjunnar hamist með ósannindnum og ljótum munnsöfnuði gegn saklausu fólki úti í bæ, sem hefur það eitt til saka unnið að vera á annarri pólitískri skoðun en sumir „þjónar Guðs“?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.1.2018 - 19:01 - 2 ummæli

Samgöngumál – blóðbaðið heldur áfram

VG og Katrín Jakobsdóttir hlýtur að verja vegatolla eins og annað sem kemur úr smiðju Sjálfstæðisflokksins þessa dagana. Svik VG við kjósendur núna trompa sennilega svik Jóhönnu og Steingríms, því aðstæður eru nú aðrar í efnahagsmálum.

Samkvæmt útreikningur FÍB innheimti ríkið árið 2016 um 60 milljarða króna í skatta á bíleigendur, sem með hækkandi skatti á eldsneyti og aukna innheimtu vegna gríðarlegs innflutning á bifreiðum eru væntanlega í dag í það minnsta 80 milljaðar. Aðeins 19,1 milljörðum króna er hins vegar varið til viðhalds og lagningar vega á fjárlögum ársins 2018. Um 9 milljörðum er varið í viðhald vega en nýlega sagði vegamálastjóri að þótt um smá aukningu væri að ræða næðum við ekki að halda í horfinu þegar svo litlir peningar fara í viðhald vega, þ.e. hálfpartinn ónýtt vegakerfi mun halda áfram að versna.

Stór hluti af „viðhaldspeningunum“ fer – skv. Vegagerðinni – í að auka umferðaröryggi. Þannig á að leggja bundið slitlag á síðasta kafla veg­ar­ins yfir Fróðár­heiði. Auka á um­ferðarör­yggi með því að tvö­falda brýr við Kvíá og við Vatns­nes­veg um Tjarn­ará. Í ljósi þessarar forgangsröðun vekja framkvæmdir sem ráðist er í mikla furðu. Malbika á t.a.m. fáfarna leið um Fróðárheiði á Snæfellsnesi, en flestir taka jú Vatnaleiðina. Samkvæmt talningu á heimasíðu Vegagerðarinnar fóru 64 bifreiðar um bifreiðina á þessum sólarhring. Þegar umferðin var hvað mest á Fróðárheiði í dag milli 15:40-15:50 fóru 5 bílar um heiðina.

Í nýlegu viðtali taldi vegamálastjóri framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss, veginn um Gufudalssveit, Dynjandisheiði, Borgarfjarðarveg og Dettifossveg mjög brýnar, þar sem einn og hálfan milljarð vantar upp á fjárframlög. Þessu mati geta held ég flestir verið sammála. Vegamálastjóri minntist ekki einu orði á að klára þyrfti einfalda kafla Reykjanesbrautarinnar, þar sem um tugir banaslysa og alvarlegra umferðarslysa hafa orðið á liðnum árum. Um Reykjanesbrautina fara að meðaltali um 15.000 ökutæki á dag og stefnir í 20.000 ökutækja umferð á þessu eða næsta ári. Í dag 24. janúar, þ.e. umferðin var mest kl.08:40-08:50, fóru 200 bifreiðar á 10 mínútum um Reykjanesbrautina.

Allt tal Alþingis og vegamálastjóra um forgangsröðun í þágu umferðaröryggis er hlálegt þegar málin eru skoðuð nánar. Stjórnarflokkarnir boðuðu stórsókn í samgöngumálum í kosningabaráttunni í vetur og allir hafa þeir svikið kosningaloforð sín.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur