Þann 15. október var ég á mjög góðum fundi á Grand hótel á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félags forstöðumanna ríkisstofnana, þar sem stjórnendur hjá hinu opinbera, áhugafólk og fræðimenn um opinbera stjórnun og stefnumótun o.fl. veltu fyrir sér, hvernig varðveita megi góðan starfsanda hjá hinu opinbera á tímum svo mikils niðurskurðar. Það kom svo sem ekki margt nýtt fram á fundinum, en hann rifjaði upp ýmislegt, sem ég hafði lesið um og lært í meistaranámi mínu í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu við Háskóla Íslands á árunum 2005 – 2008. Þar á meðal var rifjað upp hugtakið um „Sálfræðilega samninginn“, sem er að mínu mati afskaplega merkilegt fyrirbæri. Með því að nota leitarvél á netinu komst ég strax yfir nokkrar ágætis greinar um „Sálfræðilega samninginn“, m.a. eftir Gylfa Dalmann Aðalsteinsson og Ingrid Kuhlmann, og ráðlegg ég eindregið þeim sem vilja fræðast meira um þetta fyrirbæri að kynna sér það á netinu eða í bókum um stjórnun og vinnusálfræði.
Um er að ræða huglægan, gagnkvæman samning milli starfsmanns og vinnuveitanda, sem byggir á þeim væntingum, sem gefnar voru starfsmanninum varðandi starfið og þeirra væntinga, sem vinnuveitandi ber til nýja starfsmannsins síns. Vinnuveitandi gerir kröfu um hollustu, stundvísi, dugnað, frumkvæði og árangur hjá starfsmönnum, en á móti ætlast starfsmaðurinn til að fá starfsöryggi, sanngjörn laun, góð starfsskilyrði, tækifæri til starfsþróunar og ábyrgðar ásamt sveigjanleika til að geta samræmt vinnu og einkalíf. Svo mörg voru þau orð. Mig langar að taka þessa samlíkingu aðeins lengra og fullyrða að slíkur „Sálfræðilegur samningur“ sé ekki aðeins í gildi milli launþega og vinnuveitenda, heldur einnig milli launþega og fyrirtækja annars vegar og bankanna og ríkisins hins vegar. Þessi samningur var hins vegar mölbrotinn, þegar efnahagslífið hrundi í október á liðnu ári og fórnarlömbin – eða réttara sagt brotaþolinn – eru almenningur og eigendur fyrirtækja í landinu. Fyrirtækin – þ.e. þau sem ekki tóku þátt í sukkinu – og almenningur upplifa bankana, útrásarvíkingana og ríkið sem gerendur í málinu.
Ég skrifaði bankanum mínum til yfir 30 ára – Íslandsbanka – bréf í gær, þar sem ég tilkynnti, að á grundvelli fyrrnefndra brota á „Sálfræðilega samningnum“, milli mín og bankans, liti ég svo á, að samningnum hefði verið sagt upp einhliða af þeirra hálfu. Í framhaldi þyrfti ég því að endurmeta stöðu mína og framtíðaráform, m.t.t. greiðslugetu og nú nýlega einnig greiðsluvilja, þar sem ég teldi gróflega á mér brotið. Allt fór þetta fram á hinn kurteisasta hátt, enda engin ástæða til að elta ólar við starfsfólk bankanna með einhverjum fúkyrðum, sem búa við það ömurlega hlutskipti að fást við afleiðingar þeirra glæpaverka, sem yfirmenn þeirra skipulögðu á liðnum árum. Í bréfi mínu útskýrði ég að staðan væri þó erfið, jafnvel þótt ég væri allur af vilja gerður, þar sem ég gæti ekki selt húsið, því enga kaupendur væri að hafa. Ég hefði velt því fyrir mér að selja bílinn, en það væri heldur ekki valkostur, þar sem eign mín þurrkaðist ekki aðeins upp við efnahagshrunið, heldur skuldaði ég bankanum enn nokkrar milljónir gæti ég selt bílinn. Að auki gæti ég ekki verið bíllaus vegna þess að ég þyrfti að aka 100 km í vinnuna á hverjum degi. Þetta væri því hálfgerð pattstaða hjá mér, á meðan bankinn eða fjármagnseigendur og ríkið virðast vera með allt sitt á hreinu – allavega m.t.t. tekjuöflunar: ég á að borga skuldina mína til baka með vöxtum, verðtryggða, gengistryggða og með vaxtavöxtum út yfir gröf og dauða; hvað ríkið varðar á ég að borga skattana mína og helst enn hærri skatta. Allt eru þetta – a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð – stórt brot á „Sálfræðilega samningnum“ og hann er því – aftur að mínu mati en ekki þeirra – í stórkostlegri hættu. Ég geri mér grein fyrir því að samningsstaða mín er dapurleg, því ég á einhverjar 10-15 milljónir í fasteign, sem bankinn getur gengið að, hvenær sem ég hætti að geta borgað.
Mér er einnig deginum ljósara – fjármagnseigendum og ríkinu hins vegar ekki – að bankarnir, ríkið, atvinnulífið og þjóðin þurfa að lenda nýjum og gjörbreyttum samningi, sem allir aðilar geta staðið við – nýtt jafnvægi verður að myndast. Að mínu mati er ekki margir valkostir í stöðunni, því annaðhvort ákveður ríkið og fjármagnseigendur að gera lítið sem ekki neitt og horfa upp á 100-150.000 manns verða að öreigum eða farið verður í mun massívari aðgerðir en við höfum séð til þessa. Ég held að hvorki ég eða þjóðin séu að gefast upp – alls ekki. Þvert á móti held ég að við séum að gera það sem allir af tegundinni „homo sapiens“ gera og gera best, en það er að sýna af sér mikla aðlögunarhæfni,raunsæi og þrautseygju. Fram að þessu hefur margborgað sig að mennta sig, vera duglegur í vinnunni, þéna mikla peninga, borga sína reikninga, kaupa sér þá hluti sem fólki hefur langað í, ferðast og eyða þeim peningum sem fólk aflaði í einhver veraldleg gæði. Í þetta höfum við eytt mestum okkar tíma, en andlega hliðin hefur því miður oft á tíðum verið vanrækt í staðinn. Núna er hins vegar verið að koma hlutunum þannig fyrir – veit að þetta er allt okkur sjálfstæðismönnum að kenna – að stór hluti þjóðarinnar á rétt svo fyrir skuldbindingum mínum og sumir jafnvel ekki svo gæfusamir. Þjóðin getur ekki leyft sér neitt og því hljóta menn að átta sig á því bráðum, að það borgar sig alls ekki að vinna, borga reikninga sína, hvað þá að bæta við sig snúningi til að reyna að ná endum saman.
Þjóðin hlýtur því að forgangsraða upp á nýtt og breyta gjörsamlega hegðan sinni. Íslendingar hætta að hafa einhver langtímamarkmið á borð við „eignast“ húsnæði og halda sig alfarið við skammtímamarkmið á borð við skemmta sér og eyða öllu sem aflað er eins hratt og hægt. Fólk mun neita að taka þátt í þeim þjóðfélagssáttmála, sem við höfum búið við svo lengi og hafna þeim gildum, sem þar eru á bak við – ráðvendni, traust, heiðarleiki, dugnaður, skyldurækni. Til hvers að vera að standa í þessu – mun fólk spyrja sig – þegar ríkið og fjármagnseigendur hafa snúið bakinu við okkur, hvað eigum við að vera að taka þátt í þessu bulli hjá þeim? Hvað mun þjóðin þá takast á hendur að gera? Þeirri spuningu verður hver að svara fyrir sig.
Ef ríkisstjórnin og viðskiptabankarnir ætla ekki að koma þjóðinni til hjálpar á einhvern hátt, mun ég segja upp „sálfræðilega samningnum“ við báða þessa aðila – ríkið og bankana – á næsta ári. Að sjálfsögðu á löglegan og réttan hátt, en afleiðingarnar eru þær sömu. Ég mun að sjálfsögðu borga mína reikninga á meðan ég hef kraft, getu og vilja til þess. Ég á þó von á að ég og svo stór hluti þjóðarinnar og atvinnulífsins gefist upp á næstu 6-12 mánuðum, að bankarnir og ríkið hrynji endanlega. Fólk orkar ekki að borga af myntkörfulánunum sínum og verðtryggðu lánunum og horfa á þetta hækka endalaust. Þær aðgerðir, sem litið hafa dagsins ljós, nægja því miður ekki til að fólk og fyrirtæki sjái aftur ljósið, því að um of miklar smáskammtalækningar er að ræða! Ástæða þess að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands standa nú saman gegn ríkinu og krefjast þess að ríkið standi við þeirra „Sálfræðilega samning“ – Stöðuleikasáttmálanum – er að brotið var á báðum þessum aðilum, þegar hrunið átti sér stað og þeir sitja báðir í sömu súpunni. Bankarnir og fjármagnseigendur auk ríkisstjórnarinnar eru í annarri súpuskál. Hér kemst ekki aftur eðlilegt ástand á fyrr en „Sálfræðilegi samningurinn“ verður endurnýjaður við þjóðina og fyrirtæki landsins og þá munu fyrirtækin og þjóðin endurnýja sinn samning. Tefjist samningsgerðin enn frekar eru afleyðingarnar þyngri en tárum taki, eða að greiðsluvandi breyti í algjört greiðslufall einstaklinga jafnt sem fyrirtækja, vegna vangetu til að greiða og „greiðsluuppgjafar“ eða „greiðsluþreytu“ – sem eru hugtök sem ég var að finna upp – en það er þegar fólk sér að það er sama hvað það greiðir, ástandið versnar bara! Stór hluti þjóðarinnar mun þá láta gera sig upp og vinna eins lítið og hægt er í framtíðinni eða flytjast úr landi. Fólk er ekki fífl og lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Og svo einkennilegt sem það hljómar virðist enginn átta sig á að hér er tifandi tímasprengja og hún springur ef ekkert er að gert!
Vel mælt gengur EKKI lengur.
Æðruleysi er orð orðanna þessa daga!
En einhvertíma verða menn síðan að verða raunsæir og þora að höggva á hnúta!
Flókinn texti. Steinbach í „þrúgur reiðinnar“ er skírmæltari. kv. ÞÞ
Sæll Guðbjörn.
Fín geining hjá þér og þú vekur athygli á því sem stjórnvöld virðast ekki skilja, að með því að halda áfram á þeirri braut að neita að leiðrétta ranglætið og endurnýja samningsgrundvöllinn á þann hátt að hægt sé að standa við hann, þá er í raun verið að segja upp samfélagssáttmálanum sem byggir á þeim þáttum sem þú rekur svo vel.
Fólk er nefnilega ekki fífl eins og þú segir; það verða allir að sjá tilgang í því sem þeir taka þátt í, annars er sjálfhætt. Staðan í dag er sú, að fjöldinn allur af skuldurum hefur lagt ALLT sitt í það að greiða af lánum (fólk er búið með allan sparnaðinn sinn og líka búið að sturta lífeyrissparnaðinum í „okurlánaklósettið“) í trausti þess að stjórnvöld séu raunverulega að bregðast við og slá margnefndri skjaldborg um heimilin í landinu eins og þau hafa lofað. Því miður er enn sem komið er að mestu um innantóm orð og frasa að ræða – fólk er að sjá að gáfulegast er að taka ekk þátt lengur – af því að það er ekki fífl… Stjórnvöld virðast halda að staða skulda (höfuðstóll) skipti skuldara engu máli, svo lengi sem hægt sé að greiða af lánunum… Hve lengi heldur skuldari sem skuldar 60 milljónir (stökkbreyttur höfuðsóll) í eign sem er í dag 25 milljón króa virði áfram að borga?
Það er mjög knýjandi að finna sanngjarna lendingu á milli hagsmuna fjármagnseigenda og skuldara í þessum málum, lausn sem byggir á pólitísku mati á öllum þáttum, með framtíð Íslensks samfélags að leiðarljósi. Það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma!
Það er óásættanlegt að það vald framselji stjórnvöld til nýrra eigenda nýju bankanna, sem við n.b. vitum ekki hverjir eru frekar en stjórnvöldin sjálf!
Frábær pistill Guðbjörn !!
Og eg bið þig að senda hann út meðal almennings i Blað eða eitthvað þar sem allir geta lesið .þvi fólk vantar svo upplysingar .það hrópar úr öllum áttum á sannar og rettar upplysingar , ekki sist nu þegar búið er að koma svona hryllilega aftan að fólki , eins og felagsmála ráðherra með þessum skelfilegu lögum ,og svo margir eru i raun ekki búnir að átta sig hvaða þyðingu þetta hefur ogþað mun taka tima lika vegna upplysingaleysis !!
Þetta er ömurlegt allt og mun ekki batna og eg er hrædd um fólkið i landinu og allt álagið sem fylgir þessum hörmungum , sem kanski eru rett að byrja i alvöru ??????
ÞÞ:
Já, ég er enginn Steinbach – rétt er það!
Hef ekki fundið neinn slíkan á netinu, en held áfram að leita!
Björn Þorri:
Þetta var nú skrifað beint frá hjartanu og kannski minna einhver greining, en varð það óvart. Kannski að því að ég vinn mest við að skoða hluti og greina þá og skrifa um það.
Ég óttast afleiðingarnar og það þarf að opna augu fjármagnseigenda, því þeirra skaði er mestur.
rhj:
Takk fyrir það.
Ég hugsa málið og reyni kannski að stytta þetta aðeins og endurbirta.
Góð grein Guðbjartur.
Ég starfa í hlutastarfi við að aðstoða fólk við greiðsluaðlögunarferli. Margir sem hafa komið til mín hafa byrjað á að spyrja „get ég farið einhversstaðar og skrifað undir svo ég get orðið gjaldþrota?“.
Fyrsta skrefið er oftast að skýra fyrir fólki að það sé ekki glæpamenn og hægt sé að opna framtíðina. Jafnvel þó að þetta ferli sé meingallað og þá aðallega vegna þess að umsjónarmenn margir hverjir og lögmenn banka virðast ekki skilja tilgang laganna. Mér er ljóst að ég er einungis að tala við agnarlítinn hluta þjóðarinnar en ég hef nokkuð góða hugmynd um hvað er í gangi þarna úti meðal fjölskyldna. Engin þessara fjölskyldna hefur kvartað yfir að hafa misst allan sína eign. Flestir eru haldnir skömm og eru að leita að glufu í framtíðinni.
Vandinn við aðgerðir stjórnvalda og málflutning stjórnarandstöðunnar er að verið er að reyna að endurreisa fortíðina, hvor á sínum forsendum. Það er ekki hægt! Samfélagssáttmálinn (sbr. Rousseau) er rofinn. Það verður ekki haldið áfram án þess að gera fyrst nýjan sáttmála. Það er þess vegna sem ekki er hægt að plástra núverandi fyrirkomulag.
Engir núverandi flokka verða hluti af því ferli. Því fyrr sem við skiljum það og náum að yfirgefa fortíðina huglægt þeim mun betra. Þeir sem verða eftir á veginum eru sennilega þeir sem arga á hvorn annan með tilvísun um gæði og galla fortíðar og eigin úreltra hugmynda. Uppnefna hvorn annan kommúnista og fasista og gera sér ekki ljósa stöðuna.
Ég get ekki sagt hvað þetta nýja ferli verður. Þá væri það sennilega ekki nýtt. En án þess að búa til „nýja“ framtíð og leggja þar með grunninn að sáttum er hætt við að ferlið taki stefnu í átt að ofbeldi. Oftar en ekki í sögunni hefur það þurft að gerast.