Föstudagur 06.05.2011 - 07:11 - 4 ummæli

Atvinnuleiðin og ríkisstjórnin

Hef ég ímyndað mér að VG og hluti Samfylkingarinnar hafi á allan hátt reynt að koma í veg fyrir virkjanir og erlendar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði á undanförnum árum? Hefur orðið stefnubreyting hjá VG í þessum efnum og má búast við að sú massíva andstaða, sem verið hefur að finna innan þessa flokks gegn nokkurskonar jarðraski sé á bak og burt? Ég spyr, því forsendurnar fyrir þeim miklu kauphækkunum, sem samið var um í gær, eru að farið verði í umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir og að sú orka verði notuð, m.a. í orkufrekan iðnað. Ennfremur leikur mér forvitni á að vita, hvort ríkisstjórnin ætli þá í framtíðinni að hætta að gaspra um þjóðnýtingu á orkufyrirtækjum, sem er eitthvað sem lætur öll viðvörunarljós loga hjá erlendum fjárfestum og lánveitendum.

Ég set jafnframt stórt spurningamerki við allar þær vegaframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Ríkissjóður er mjög skuldsettur og á sama tíma á að fara í vegaframkvæmdir fyrir tugi milljarða, sem einungis verða fjármagnaðar með gífurlegri skuldsetningu ríkisins. Væri ekki nær að setja enn meiri kraft í framkvæmdir við virkjanir og stóriðju og auka þannig útflutning og innstreymi gjaldeyris í landinu, sem myndi styrkja krónuna og þar með kaupmátt landsmanna, auk þess þess sem þannig eru sköpuð vel launuð störf til framtíðar. Að sama skapi er nauðsynlegt að bæta rekstrarumhverfi annarra atvinnugreina, s.s. ferðaþjónustunnar, skapandi greina og annars iðnaðar en stóriðju. Ríkisstjórnin er búin að vera við völd 2 1/2 ár og á 2 ár eftir af sínu kjörtímabili og ætlar fyrst núna að hefja eitthvað átak í atvinnumálum. Eftir hverju hefur þetta fólk verið að bíða, en ekki stendur á vinnufúsum höndum!

Annars er stóra spurningin, hvort ríkisstjórnin stendur eitthvað frekar við þetta samkomulag en fyrra samkomulag við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, nú eða kosningaloforðin við þjóðina um skjaldborg fyrir fórnarlömb hrunsins mikla haustið 2008. Stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar – og að ég held einnig andstæðingar hennar – hafa frá fyrsta degi vonað að störf hennar verði þjóðinni til góðs, enda vegferð allra í húfi. Einu lausnir þessarar ríkisstjórnar við aðsteðjandi vandamálum hafa verið flatur niðurskurður og skattahækkanir á meðan það blasir við að betra hefði verið að fara í stórfelldar kerfisbreytingar á opinberum rekstri – t.a.m. í heilbrigðiskerfinu – sem hefðu ekki aðeins skilað betri skammtímaárangri, heldur einnig betri árangri er til lengri tíma er litið. Hagræðing og endurskipulagning er alltaf betri en niðurskurður og þetta er ekki einn og sami hluturinn!

Atvinnuleiðin, þ.e.a.s. að koma þeim eru þiggja atvinnuleysibætur og borga því ekki í kerfið í vinnu, hefur einnig blasað við allan tímann. Með henni lækka ekki aðeins útgjöld ríkissjóðs, heldur aukast tekjur ríkisins, fyrirtækja og heimila. Eigum við ekki að vona að Jóhanna og Steingrímur séu búin að átta sig á þessari einföldu „eldhúshagfræði“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Þetta er kjarni málsins.

    Í fyrsta lagi er nákvæmlega engin ástæða til að ætla að ríkisstjórnin standi við sinn hlut.

    Þar ráða óheilindin ein og hentistefna hinna valdasjúku ríkjum.

    Hins vegar liggur nú þegar fyrir að engin innistæða er fyrir þessum hækkunum.

    Þeim verður velt út í verðlagið og skila sér í aukinni verðbólgu.

    Sem leggst af fulum þunga ofan á húsnæðislán landsmanna.

    Almenningur fær lítið sem ekkert út úr þessum samningum.

    Þetta er hin íslenska leið.

    Að færa peningana úr einum vasa í annan.

    Að semja um þessa vitleysu eina ferðina enn og nú til þriggja ára er algjör vitleysa.

    Nýja Ísland?

    Átakanlegur brandari.

    Hér er allt með óbreyttu sniði.

  • Glöggskygn kjósandi

    Nei, Guðbjörn. Hér verður engin breyting hjá ríkisstjórninni í þessum
    efnum.

    Hef reyndar grun um að Samfó og VG hafi gert nokkurs konar „gentlemens agreement“ í stjórnsáttmálanum þess efnis að ekki verði farið í virkjanir og stóriðjuframkvæmdir á kjörtímabilinu gegn því að VG styddi aðildarumsókn Samfó að ESB.

    Hef líka grun um það atvinnustefna Samfó gangi út á að komast í ESB og þá fyrst fara að gera eitthvað í atvinnumálum til að „sanna“ það fyrir landsmönnum að ESB-aðild sé eina leiðin út úr kreppunni.

  • Þú virðist vera einnar lausnar maður: Taka lán og fara í umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir og selja erlendum auðhringjum. Okkar kynslóð skal klára allt virkjunardæmið.

    Ekkert frumlegt við það. Sama er á dagskránnni hjá flest öllum flokkum þínum megin við hægri línuna.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    asi:

    Ég er ekki einnar lausnar maður, heldur margra og veit sem er að þótt við nýtum stóriðjuna núna til að koma hagkerfinu af stað, þá er framtíðin hvorki í orkufrekum iðnaði, landbúnaði eða sjávarútvegi. Þar verða ekki til þau 20-30.000 störf sem við þurfum á að halda á næstu 20 árum.

    Vandamálið við að koma sprotafyrirtækjum af stað er að aðeins 1 af hverjum 100 „meika“ það og að það tekur 10-15 ár að sjá hvort þau verði það stór að þau veiti nokkur hundruð manns vinnu. Af þessum sökum vil ég klára álverið í Helguvík og hugsanlega einnig fyrir norðan og láta það verða okkar síðustu stóriðju. Að auki eigum við að reisa 2-3 kísilverksmiðjur og láta það duga í þeim bransa. Ég er einnig jákvæður gagnvart gagnaverum en þau skaffa mjög fá störf. Þá eru það einkasjúkrahúsin, sem útvega þeim sem misst hafa störfin hjá ríkissjúkrahúsunum vinnu auk þeirra sem eru við störf erlendis.

    Næstu 5-10 ár eigum við síðan að nota slagkraftinn sem myndast við virkjunarframkvæmdir og stóriðju til að koma fótunum undir sprotafyrirtækin. Það verður best gert með því að auka menntun þjóðarinnar, rannsóknir og nýsköpun. Þarna horfi ég ekki síst til hinna skapandi greina. Munurinn á mínum hugmyndum og margra „draumóramanna“ til vinstri er að ég er raunsær maður og vil boða hér skynsemdarstjórnmál „down-to-earth politics“ en ekki eitthvað bull líkt og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gerðu með draumum um að Ísland yrði fjármálaveldi og síðan „laissez-faire“ stefnu VG gagnvart atvinnulífinu!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur