Föstudagur 03.06.2011 - 11:34 - 11 ummæli

ESB: 216 % toll á íslenskan fisk

Ég hef svo gaman af þessari umræðu um tolla á landbúnaðarvörur frá ESB, að ég ræð mér varla fyrir hlátri. Að við skulum vera með forystufólk hjá íslensku bændasamtökunum, sem ekki hefur áhuga á að kynna sér hvað felst í tollabandalagi ESB er í raun eitt mál, en að við séum með heilt ráðuneyti og ráðherra, sem setur fram aðra eins vitleysu er gjörsamlega óásættanlegt. Að tollar eigi að leggjast á vörur frá öðru öðru ríki tollabandalags er svo út úr kú, að tilhugsunin ein gerir mig sem fagmann hálf ringlaðan og það fer um mig kjánahrollur. Hvernig ætli samninganefndinni gangi að útskýra þetta fyrir fulltrúum ESB? Er það mögulegt að einhver komist í ráðherrastól eða í stóla ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu og hafi ekki haft fyrir því að kynna sér hugtakið um tollabandalag (e. Customs Union). Er stjórnsýsla landsins virkilega á þessu lága plani eða skildi ráðherra bara ekki sína embættismenn? Ef embættismennirnir átta sig ekki á þessu eiga þeir að taka hatt sinn og fara að vinna einhverstaðar annarsstaðar en í ráðuneyti! Hvað Jón Bjarnason varðar, tekur hann hvort sem er enginn lengur alvarlega sem ráðherra!

Hvernig væri að ESB kæmi með gagntilboð og segði að það væri allt í lagi að við hefðum toll á landbúnaðarafurðir, en að á móti legðust háir tollar á fisk t.a.m. 30% auk þess sem lagt yrði 430 – 500 kr. gjald á hvert kíló af fiski. Og ef okkur hugnaðist þetta tilboð ekki væri hægt að breyta krónutölu í prósentur og yrðu tollarnir þá á bilinu 182%-216% allt eftir því hvaða fiskur ætti í hlut. Ég tók þessar tölur af því að þær gilda um ákveðnar landbúnaðarafurðir, sem fluttar hingað til lands erlendis frá og má finna í reglugerð, sem sett var af landbúnaðarráðuneytinu undir stjórn Jón Bjarnasonar árið 2009. Síðan myndu þeir bjóða okkur 4% toll á ál líkt og öðrum 3. ríkjum. Vert er að minnast þess að 65-70% af okkar innflutningi fer til ESB og það er að mestu fiskur og ál. Það hlýtur að vera öllum ljóst að koma þarf þessu fávísa fólki frá völdum og að koma verður fagfólki í ráðherrastöður og stóla embættismanna, því það ágæta fólk sem þarna situr er að gera okkur að athlægi út um allar jarðir og skilur ekki okkar hagsmuni. Slæmir voru nú Geir. H. Haarde og hans kónar – að ógleymdum Davíð Oddssyni og fleiri embættismönnum – og mörg vitleysan rann nú upp úr því fólki, t.d. voru bankarnir að sögn þeirra traustari en gull (Geir & Ingibjörg út um allar trissur), endurmenntunin (Þorgerður Katrín), við borgum ekki skuldir óreiðumanna, rússalánið (Davíð) o.s.frv. En ég held að Jón Bjarnason og ýmsir aðrir þingmenn og ráðherrar VG séu að toppa fyrrgreinda vitleysu með þessu uppátæki og nokkrum öðrum; þjóðnýting á fyrirtækjum, Icesave o.fl. – svei mér þá!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Þetta er því miður rétt hjá þér. Það hefur stundum verið sagt að það séu mannleg takmörk fyrir greind – en heimskan sé takmarkalaus. Jón Bjarna er orðinn holdgervingur heimskunnar á Íslandi. Hvernig svona maður kemst í æðstu valdastöðu á landinu ætti að vera tilefni til alþjóðlegrar rannsóknar í þjóðfélagsfræðum. En að þurfa að hlusta á svona rugl er því miður mannskemmandi. Sýnir svo ekki verður um villst að stjórnsýslan okkar er algerlega ónýt, skipuð fólki sem virðist ekki hafa skilning á grundvallarhugtökum.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það er aldrei hægt að gera ráð fyrir því að eitthvað gáfulegt komi frá „vernduðum“ vinnustað með fullri virðingu fyrir idjótunum sem þar starfa.

  • Hrunstjórnin var ranglega kölluð „Vanhæf ríkisstjórn“. Hið rétta er að sú stjórn var „Spillta ríkisstjórnin“ og núverandi stjórn er „Vanhæf Ríkisstjórn“.

    Ef það væri nú bara til Frjálslyndur (Evrópskur Liberal) flokkur sem hugsaði fyrst og fremst um venjulegt launafólk… Þá myndi margt batna hér á landi.

  • Hallur Heimisson

    Þörf ábending Guðbjörn.
    Það er með ólíkindum hvernig hagsmunir bændastéttarinnar eru settir ofar hagmunum almenning í þessu landi. Bændaforystan hefur góðan bandamann í Jóni Bjarnayni, sem boðar enn óskhyggju pólitík og dramsýnir þeirra sem vilja tryggja sérhagsmuni á kostnað almennings. Við inngöngu í ESB er hægt að tryggja afkomu bænda með öðrum hætti en tollvernd. Ég skil að vísu ekki þá þversögn að við framleiðum bestu landbúnaðarafurðir í heimi, bæði mjólk og kjöt, en samt treysta menn ekki vilja neytenda í vali á vörum.
    Ekki trúi ég því að almenningur mun gamsa í sig óæti í stórum stíl fyrir nokkurra króna sparnað.
    Með inngöngu í ESB er möguleiki á því að bændastéttin geti lifað mannsæmadi lífi í þróuðum nútíma landbúnaði. Er það kannske stefna bændasamtakana að bú grotni niður eins og raunin er í dag?

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Hallur:

    Hárrétt hjá þér, þótt ég sé afskaplega veikur fyrir því að vernda okkar bændur vegna matvælaöryggis og byggðarsjónarmiða.

    Ég vil hins vegar einnig skoða aðild að ESB með jákvæðum huga og tel að skoða verði heildarhagsmunina, en ekki bara hagsmuni bæna og sumra útgerðarmanna.

    Það er hins vegar óhugsandi og í raun hálf súrrelískt eða naívt að leggja fram tillögur um tollvernd innan tollabandalags. Fólk sem talar á þessum nótum hlýtur bara ekki að vita neitt um tollamál, bara alls ekki neitt! Og þegar slík ummæli koma frá ráðherra – sem er æðsti maður stjórnsýslunnar á sínu sérsviði – hlýtur manni að vera brugðið!

  • Það er ekkert nýtt að íslendkir ráðamenn hagi sér svona.

    Íslendingar vilja alltaf gera einhliða tollasaminga við önnur ríki — sér í hag.

    Hver man ekki eftir bókun 9.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    asi: Rétt hjá þér og það er eitt að gera hagstæða samninga varðandi fríverslun og er bókun 9 mjög gott dæmi um slíkt, en það var að mig minnir Jón Baldvin Hannibalsson, sem átti heiðurinn af þeim samningi. Annað er að gera sig og íslensku stjórnsýsluna að fífli með því krefjast verndartolla innan tollabandalags.

  • aagnarsson

    Guðbjörn, litu ekki Evrópumenn á Íslendinga sem skrælingja fram á nítjándu öld ?

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Sé litið til sumra annarra menningarsvæða, þá voru Evrópumenn hálfgerðir skrælingjar fram á 19. öld.

    Hins vegar er það rétt hjá þér, að auðvitað vorum við ekki þessi hámenningarþjóð, sem við héldum að við værum!

  • aagnarsson

    Guðbjörn, eftir að Skaftáreldar geysuðu, gáfu Danir Íslendingum heilu
    skipsfarmana af trjáviði, ætluðum til fiskiskipasmíða.
    Fyrirmenn sem tóku við gjöfini létu trjáviðinn grotna niður,
    þeir vildu alls ekki að almenningur gæti bjargað sér.
    Í dag má fátækt fólk á Íslandi ekki bjarga sér með handfæraveiðum,
    þó það leysi byggða, fátæktar og atvinnuvanda Íslendinga.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    aagnarsson: Já, ég er að mörgu leyti sammála þér varðandi handfæraveiðar, enda trúi ég því tæplega að um sömu stofna sé að ræða og á djúpslóð.

    Norðmenn hafa t.a.m. gert miklar rannsóknir á sínum þorski og komist að því að þar er um marga stofna að ræða. Ólíklegt er annað en að málum sé svipað háttað hér á landi.

    Enn verra er að við höfum til þessa aðeins virkjað um 50% þess sem sátt gæti náðst um að virkja en hreyfum okkur ekki, þótt biðröð sé af fyrirtækjum, sem sækjast eftir orkunni. Hér væri hægt að búa til nokkur þúsund störf með tiltölulega lítilli fyrirhöfn ef stjórnvöld hefðu einhvern áhuga á því.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur